All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Pakistanskt hlaðborð

Marsfjáröflunar-málsverður SHA

By Viðburður

Föstudaginn 31. mars verður fjáröflunarmálsverður SHA haldinn í Friðarhúsi og um leið verður landsfundur samtakanna settur formlega.

Matseðill:

  • Dóra Svavarsdóttir og Heiða Dögg Liljudóttir bjóða upp á hlaðborð fyrir grænkera og kjötætur undir pakistönskum áhrifum. Ærpottréttur, grænmetispottréttur, grjón og eðalbrauð.
  • Kaffi og hjónabandssæla að hætti Þorvaldssonar.

Að borðhaldi loknu mun þjóðlagatvíeykið Bára og Chris taka lagið & Kristín Svava Tómasdóttir gerir grein fyrir verðlaunabókinni Farsótt. Sest verður að snæðingi kl. 19 en húsið opnar hálftíma fyrr. Verð kr. 2.500.

Öll velkomin.

Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag

Stríðsglæpirnir og dómstóllinn

By Fréttir, Í brennidepli

Í tengslum við yfirstandandi stríð í Úkraínu hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi þess að þegar átökum ljúki verði þeim sem framið hafa stríðsglæpi refsað fyrir ódæði sín. Rökréttasti vettvangurinn fyrir slík réttarhöld ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera Stríðsglæpadómstóllinn í Haag. Þar eru þó ýmis ljón í veginum.

Hugmyndin um alþjóðlegan dómstól sem nýta mætti til að refsa þeim verða brotlegir við alþjóðalög í hernaði kom fram þegar við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og skömmu áður en sú síðari braust út var búið að leggja grundvöll að slíkum dómstól á vegum Þjóðabandalagsins sem kom þó aldrei til framkvæmda. Forystumenn hinna sigruðu ríkja, Þýskalands og Japans, voru dregnir fyrir dómstóla að stríði loknu og var gert ráð fyrir að þau réttarhöld myndu leggja grunninn að starfsemi fasts dómstóls. Kalda stríðið sló þó allar slíkar hugmyndir út af borðinu um áratuga skeið.

Á tíunda áratugnum stóð öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir því að settar væru á laggirnar tvær tímabundnar stofnanir með afmörkuð verkefni, annars vegar í tengslum við glæpi í borgarastyrjöldinni í ríkjum fyrrum Júgóslavíu en hins vegar vegna fjöldamorða í Rwanda árið 1994. Málareksturinn þar ýtti á eftir hugmyndum um að koma fastri stofnun á legg.

Árið 1998 var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðann í Rómarborg sáttmáli um stofnun stríðsglæpadómstóls. Kína og Bandaríkin voru í fámennum hópi landa sem greiddi atkvæði gegn sáttmálanum, auk Ísraels sem vildi ekki sætta sig við að það teldist stríðsglæpur að koma landnemum fyrir á hernumdum svæðum. Tveimur árum eftir samþykkt Rómarsáttmálans ákvað Bill Clinton að undirrita hann með semingi. Kallaði samninginn gallaðan og ákvað að lokum að leggja hann ekki fyrir þingið til staðfestingar. Þrátt fyrir tregðu stórvelda tók sáttmálinn gildi árið 2002 og telst það stofnár Stríðsglæpadómstólsins.

Fyrsta málið sem kom til kasta dómstólsins var á árinu 2006 og tengdist stríðsherra í Kongó. Upp frá því hafa nær öll mál sem ratað hafa til Haag tengst styrjöldum og borgarastríðum í Afríku. Nokkrir fyrrum þjóðarleiðtogar hafa verið kærðir, svo sem Omar al-Bashir frá Súdan, Uhuru Kenyatta frá Kenía, Laurent Gbagbo frá Fílabeinsströndinni og Gaddafi frá Líbíu, svo nokkrir séu nefndir. Þessi einsleitni í hópi sakborninga hefur vakið gagnrýni. Í Afríku finnst mörgum skjóta skökku við engir aðrir séu bendlaðir við stríðsglæpi og grimmdarverk. Líta sumir því á dómstólinn sem hálfgerða framlengingu á nýlendustefnunni. Í kjölfarið hafa nokkur Afríkulönd dregið sig út úr sáttmálanum.

Þessi gagnrýni er ekki úr lausu lofti gripin, enda fátt sem bendir til að vestrænir leiðtogar sjái fyrir sér að dómstóllinn gæti haft lögsögu yfir þeirra borgurum. Árið 2002 sló í brýnu milli dómstólsins og bandarískra stjórnvalda. Ríkisstjórn George W. Bush dró úr þeirri litlu formlegu viðurkenningu sem Bandaríkin höfðu þó veitt starfsemi dómstólsins. Þar á meðal voru lög um vernd opinberra bandarískra borgara, sem almennt voru kölluð „The Hague Invasion Act, þar sem þau beindust með beinum hætti gegn Stríðsglæpadómstólnum og gerðu það alveg skýrt að kærur gegn bandarískum borgurum yrðu ekki liðnar.

Síðustu tuttugu árin hafa samskipti Bandaríkjastjórnar og dómstólsins sveiflast upp og niður eftir ráðamönnum. Trump-stjórnin sýndi dómstólnum fulla andúð á meðan Obama- og Biden-stjórnirnar hafa verið jákvæðari í hans garð. Í desember síðastliðnum urðu þau tíðindi að Bandaríkjaþing nam úr gildi löggjöf sem bannaði stjórnvöldum að deila upplýsingum með stríðsglæpadómstólnum og var markmiðið með þeirri lagabreytingu að leggja drög að mögulegum dómsmálum vegna stríðsins í Úkraínu.

Nýverið hafa hins vegar borist fregnir af því að þrátt fyrir ákvörðun þingsins og fyrri yfirlýsingar Bidens forseta um mikilvægi stríðsglæparéttarhalda, standi stjórnendur Pentagon í vegi fyrir því Bandaríkin starfi með dómstólnum (sbr. frétt í New York Times 8.mars sl.) Ástæða þessa er einföld: bandaríska varnarmálaráðuneytið óttast að öll slík samvinna kunni að auka líkurnar á að Bandaríkjamenn kunni sjálfir að verða dregnir fyrir dómstólinn í framtíðinni.

Rússland stendur utan stríðsglæpadómstólsins líkt og Bandaríkin og telja bæði ríkin að fyrir vikið hafi dómstóllinn enga lögsögu yfir borgurum þeirra. Ákærendur dómstólsins telja hins vegar að það eigi ekki við þegar um er að ræða afbrot sem framin eru í öðrum löndum, sem eru aðildarríki. Sú túlkun hugnast Bandaríkjamönnum ekki vel og eru því sumir innan stjórnkerfisins alfarið á móti því að dómstólnum yrði beitt gegn Rússum, en aðrir vilja grípa til þeirrar túlkunar að heimilt sé að draga Rússa fyrir dóminn með þeim rökum að þeirra eigin dómskerfi sé óhæft um að taka á mögulegum glæpum þeirra en slíkt eigi augljóslega ekki við um Bandaríkin. Ekki er talið að slíkar túlkanir muni hjálpa til að styrkja Stríðsglæpadómstólinn til lengri tíma og efla trúverðugleika hans.

Stefán Pálsson

365 dagar frá innrás Rússa í Úkraínu

Stöðvum stríðið í Úkraínu!

By Í brennidepli, Viðburður

Mótmælum innrás Rússa í Úkraínu og krefjumst tafarlauss friðar. Mótmæli við rússneska sendiherrabústaðinn, Túngötu 24, kl. 17:30 í dag.

24. febrúar 2023 markar 365 daga frá því að stríðið í Úkraínu hófst. Rússar gegn stríði skipuleggja viðburð til þess að sýna samstöðu með Úkraínumönnum og minnast fórnarlamba stríðsins.

Á meðal ræðumanna verða Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guttormur Þorsteinsson formaður SHA og Lida Volkova, flóttamaður frá Úkraínu. Rússneska ljóðskáldið Natasha S. mun svo flytja ljóð. Fundarstjóri er Andrei Menshenin.
Ef veður leyfir verður svo dreift myndum af fórnarlömbum stríðsins og þátttakendum boðið að hengja þær upp á staðnum.
Að lokum verður brenna þar sem kveikt verður í táknmynd rússnesku innrásarinnar. Þetta vísar í forna slavneska hefð þar sem Rússar og Úkraínumenn brenna líkneski til þess að kveðja veturinn. Að þessu sinni er ekki bara verið að kveðja kuldann fyrir utan rússneska sendiráðið heldur einnig stríð og ofbeldi.

Viðburðurinn á Facebook.

Kjötsúpa

Febrúarmálsverður Friðarhúss

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverður SHA í Friðarhúsi verður að venju síðasta föstudagskvöld í mánuðinum, 24. febrúar að þessu sinni. Húsið opnar á sama tíma og venjulega en vegna fyrirhugaðra aðgerða á ársafmæli stríðsins í Úkraínu mun borðhald hefjast hálftíma síðar en vanalegt er, kl. 19:30.
Matseðill:
* Kjötsúpa Systu ásamt soðkökum
* Grænmetissúpa Frikka
* Vegansnúðar
* Kaffi og kökur
Að borðhaldi loknu mun Ragnar Stefánsson segja frá nýlegri verðlaunabók sinni um jarðskjálfta.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

Birtingar­mynd sturlunar

By Í brennidepli

Hlutverk Íslendinga er að bera klæði á vopnin

Fyrir um þremur áratugum komust menn að því, að það væri óskaplega mikilvægt að draga ný landamæri í Suðaustur-Evrópu, á svæði þar sem mörk ríkja höfðu áður verið dregin upp á nýtt, oftar en tölu verður á komið. Þetta var svo mikið sanngirnismál að mati þeirra sem að því stóðu að óteljandi mannslíf voru ásættanlegur fórnarkostnaður til að ná fram því réttlæti. Það voru reyndar líf annarra en þeirra sem stjórnuðu, sem fórnað var. Dæmigerð saga frá þessum árum var um þorp þar sem íbúar af ýmsu tagi höfðu lifað saman í sátt og samlyndi um langt skeið. Ósætti verður í fjarlægum borgum um hvoru megin þorpsins landamæri eigi að liggja og niðurstaðan verður sú, að helmingur íbúanna er drepinn, hinn helmingurinn leggur á flótta og þorpið er spengt í tætlur. Allir aðilar sem einhverju ráða telja þessar stórfelldu mannfórnir nauðsynlegar og að lokum nær réttlæti einhvers fram að ganga um hríð. Núna, aðeins örfáum áratugum síðar leggja menn drög að því að stroka út þessi sömu landamæri, því tíðarandinn segir að þau þvælist bara fyrir.

Í augum flestra á Íslandi hlýtur þessi leikur að vera birtingarmynd sturlunar og nú brýst brjálsemin aftur út, dálítið austar að þessu sinni. Kjötkvarnirnar eru ræstar og þeir sem ráða telja ekki eftir sér að fórna nokkur hundruð þúsund manns til að ná fram markmiðum sínum. Fjöldi ríkja dælir olíu á eldinn eins og enginn sé morgundagurinn. Allt bendir til þess að þjóðirnar sem eigast við standi að baki stríðsherrunum, þó svo þeir afnemi fjöldamörg mannréttindi, lýðræði og annað sem þeim þykir standa í vegi skriðdrekanna. Þannig hefur þetta reyndar verið oft áður. Fjöldi manna mætir víða að til þess að fá svalað frumstæðum hvötum sínum á vígvelli, en að því marki sem það dugar ekki til, þvinga stjórnvöld saklausa borgara í veg fyrir byssukjaftana með furðu almennri velþóknun og aðdáun áhorfenda í nágrannalöndum og víðar. Eftir nokkur ár eða áratugi mun enginn skilja hvert tilefnið var.

Að þessu sinni taka flest ríki Evrópu þátt og Evrópusambandið að auki, enda er annar stríðsaðilinn á hraðri leið þar inn. Það er sérlega eftirtektarvert, vegna þess að aðeins örfá ár eru síðan ákafamenn um að Íslendingar yrðu þegnar í Evrópusambandinu sóru við æru sína og ömmu, að það samband væri allt annað en hernaðarbandalag.

Hlutur Íslendinga í þessu æði ætti umfram allt að vera að bera klæði á vopnin, eftir því sem tök eru á og alls ekki að kynda undir bálinu. Það verður stöðugt skýrara að engin leið er út úr þessu öngstræti nema með vopnahléi og samningum, en nú virðist allt stefna í mögnun átakanna með áframhaldandi eyðileggingu og mannfalli. Allt þetta minnir okkur svo á mikilvægi þess að láta ekki samfélög, þar sem villimennska ræður ríkjum, ná völdum á Íslandi.

Haraldur Ólafsson

Keflavíkurganga

Sjöundi áratugurinn gengur aftur á Safnanótt

By Viðburður
Sjöundi áratugurinn gengur aftur: Mótmælagöngur og aðgerðir 1960-69 í Friðarhúsi föstudaginn 3. febrúar kl. 18:00-23:00.
Við kynnum starf Samtaka Hernámsandstæðinga með ljósmyndum og kvikmynd frá Keflavíkurgöngum og bregðum upp veggspjöldum í tilefni þess að verið er að skrá sögu þessa tímabils með fulltyngi skjalsafns Hernaðarandstæðinga. Sérfróðir sitja fyrir svörum og sýna myndir og muni tengda göngunum.
Við sýnum stutt myndskeið úr göngunum og fjöllum sérstaklega um þær kl. 19:00, 20:30 og 22:00 eða eftir pöntun.
Gúllas

Janúarmálsverður

By Viðburður
Fyrsti fjáröflunarmálsverður ársins 2023 í Friðarhúsi verður föstudaginn 27. Janúar n.k. kl. 19:00.
Ævar Örn Jósepsson sér um kjötrétt og Þórhildur Heimisdóttir eldar fyrir grænkera. Matseðillinn er á þessa leið:
  •  Fjölþjóðlegt vetrargúllas
  • Brauð og smjör
  • Vegan Obe Ata, nígerísk paprikukássa
  • Kaffi og konfekt
Að borðhaldi loknu mun Magnea J. Matthíasdóttir lesa úr nýrri ljóðabók sinni. Sest verður að snæðingi kl. 19:00. Verð 2.500.
Öll velkomin
Kúrdistan með Seckin Guneser

Frásögn frá Kúrdistan

By Viðburður
Kúrdar eiga í vök að verjast í landamærahéruðum Tyrklands vegna árásarstríðs tyrkneska hersins. Hver er framvindan og hvað er að gerast innan landamæra Tyrklands?
Fræðumst um ástandið fundi með Seckin Guneser, gamalreyndum talsmanni Kúrda, mánudaginn 9. janúar klukkan 20 í Friðarhúsi.
í haust fengum við Ögmund Jónasson til að ræða um stöðu mála í löndum Kúrda. Í framhaldi af þeim fundi fáum við nú frásögn beint úr baráttunni.
Fundurinn fer fram á ensku, öll velkomin.
Friðarganga

Friðarganga á Þorláksmessu

By Viðburður
Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á Laugavegi, rétt neðan Snorrabrautar líkt og tvö síðustu skipti (svæðið umhverfis Hlemm er uppgrafið að þessu sinni). Gangan hefst niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.
Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Hjalti Hugason prófessor emeritus flytur ávarp. Fundarstjóri er Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir háskólanemi. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.
Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gegnið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.
Fullveldismálsverður

Fullveldismálsverður

By Viðburður

Fullveldismálsverður SHA verður að venju glæsilegur. Guðrún Bóasdóttir matreiðir svignandi hátíðahlaðborð alskyns góðgætis núna á föstudaginn 2. desember í Friðarhúsi.

Eftir matinn les Valur Gunnarsson upp úr bókinni Hvað ef þar sem er m.a. velt upp möguleikanum á herlausu Íslandi og Ingibjörg Hjartardóttir kynnir bók sína um félaga okkar Birnu Þórðardóttur. Una Torfadóttir sér svo um tónlistina.

Húsið opnar kl 18:30. Verð 2500. krónur.

Öll velkomin