Saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006
Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 6. apríl.
Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum. Léttur hádegisverður í boði.
Kl. 13 mun Stefán Jón Hafsteinn halda fyrirlestur byggðan á bók sinni “Heimurinn eins og hann er” sem kom út fyrir nokkrum misserum. Stefán hefur mikla reynslu af þróunarstörfum, einkum í Afríku og hefur verk han mikið gildi fyrir friðarsinna og áhugafólk um alþjóðamál.
Að erindi loknu halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.
Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á nýopnaða göngusvæðinu á Laugavegi, fyrir neðan Hlemm. Gangan leggur svo af stað niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.
Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Sveinn Rúnar Hauksson læknir flytur ávarp. Hann hefur um árabil verið iðinn við að halda á lofti málefnum Palestínu, en var einnig meðal skipuleggjenda fyrstu friðargöngunnar fyrir 42 árum síðan.
Fundarstjóri er Harpa Kristbergsdóttir og Anton Helgi Jónsson flytur friðarljóð. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.
Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gengið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.
Á Akureyri verður friðarganga á sama tíma og á Ísafirði vinna friðarsinnar einnig að skipulagningu göngu.
Í tengslum við yfirstandandi stríð í Úkraínu hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi þess að þegar átökum ljúki verði þeim sem framið hafa stríðsglæpi refsað fyrir ódæði sín. Rökréttasti vettvangurinn fyrir slík réttarhöld ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera Stríðsglæpadómstóllinn í Haag. Þar eru þó ýmis ljón í veginum.
Hugmyndin um alþjóðlegan dómstól sem nýta mætti til að refsa þeim verða brotlegir við alþjóðalög í hernaði kom fram þegar við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og skömmu áður en sú síðari braust út var búið að leggja grundvöll að slíkum dómstól á vegum Þjóðabandalagsins sem kom þó aldrei til framkvæmda. Forystumenn hinna sigruðu ríkja, Þýskalands og Japans, voru dregnir fyrir dómstóla að stríði loknu og var gert ráð fyrir að þau réttarhöld myndu leggja grunninn að starfsemi fasts dómstóls. Kalda stríðið sló þó allar slíkar hugmyndir út af borðinu um áratuga skeið.
Á tíunda áratugnum stóð öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir því að settar væru á laggirnar tvær tímabundnar stofnanir með afmörkuð verkefni, annars vegar í tengslum við glæpi í borgarastyrjöldinni í ríkjum fyrrum Júgóslavíu en hins vegar vegna fjöldamorða í Rwanda árið 1994. Málareksturinn þar ýtti á eftir hugmyndum um að koma fastri stofnun á legg.
Árið 1998 var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðann í Rómarborg sáttmáli um stofnun stríðsglæpadómstóls. Kína og Bandaríkin voru í fámennum hópi landa sem greiddi atkvæði gegn sáttmálanum, auk Ísraels sem vildi ekki sætta sig við að það teldist stríðsglæpur að koma landnemum fyrir á hernumdum svæðum. Tveimur árum eftir samþykkt Rómarsáttmálans ákvað Bill Clinton að undirrita hann með semingi. Kallaði samninginn gallaðan og ákvað að lokum að leggja hann ekki fyrir þingið til staðfestingar. Þrátt fyrir tregðu stórvelda tók sáttmálinn gildi árið 2002 og telst það stofnár Stríðsglæpadómstólsins.
Fyrsta málið sem kom til kasta dómstólsins var á árinu 2006 og tengdist stríðsherra í Kongó. Upp frá því hafa nær öll mál sem ratað hafa til Haag tengst styrjöldum og borgarastríðum í Afríku. Nokkrir fyrrum þjóðarleiðtogar hafa verið kærðir, svo sem Omar al-Bashir frá Súdan, Uhuru Kenyatta frá Kenía, Laurent Gbagbo frá Fílabeinsströndinni og Gaddafi frá Líbíu, svo nokkrir séu nefndir. Þessi einsleitni í hópi sakborninga hefur vakið gagnrýni. Í Afríku finnst mörgum skjóta skökku við engir aðrir séu bendlaðir við stríðsglæpi og grimmdarverk. Líta sumir því á dómstólinn sem hálfgerða framlengingu á nýlendustefnunni. Í kjölfarið hafa nokkur Afríkulönd dregið sig út úr sáttmálanum.
Þessi gagnrýni er ekki úr lausu lofti gripin, enda fátt sem bendir til að vestrænir leiðtogar sjái fyrir sér að dómstóllinn gæti haft lögsögu yfir þeirra borgurum. Árið 2002 sló í brýnu milli dómstólsins og bandarískra stjórnvalda. Ríkisstjórn George W. Bush dró úr þeirri litlu formlegu viðurkenningu sem Bandaríkin höfðu þó veitt starfsemi dómstólsins. Þar á meðal voru lög um vernd opinberra bandarískra borgara, sem almennt voru kölluð „The Hague Invasion Act“, þar sem þau beindust með beinum hætti gegn Stríðsglæpadómstólnum og gerðu það alveg skýrt að kærur gegn bandarískum borgurum yrðu ekki liðnar.
Síðustu tuttugu árin hafa samskipti Bandaríkjastjórnar og dómstólsins sveiflast upp og niður eftir ráðamönnum. Trump-stjórnin sýndi dómstólnum fulla andúð á meðan Obama- og Biden-stjórnirnar hafa verið jákvæðari í hans garð. Í desember síðastliðnum urðu þau tíðindi að Bandaríkjaþing nam úr gildi löggjöf sem bannaði stjórnvöldum að deila upplýsingum með stríðsglæpadómstólnum og var markmiðið með þeirri lagabreytingu að leggja drög að mögulegum dómsmálum vegna stríðsins í Úkraínu.
Nýverið hafa hins vegar borist fregnir af því að þrátt fyrir ákvörðun þingsins og fyrri yfirlýsingar Bidens forseta um mikilvægi stríðsglæparéttarhalda, standi stjórnendur Pentagon í vegi fyrir því Bandaríkin starfi með dómstólnum (sbr. frétt í New York Times 8.mars sl.) Ástæða þessa er einföld: bandaríska varnarmálaráðuneytið óttast að öll slík samvinna kunni að auka líkurnar á að Bandaríkjamenn kunni sjálfir að verða dregnir fyrir dómstólinn í framtíðinni.
Rússland stendur utan stríðsglæpadómstólsins líkt og Bandaríkin og telja bæði ríkin að fyrir vikið hafi dómstóllinn enga lögsögu yfir borgurum þeirra. Ákærendur dómstólsins telja hins vegar að það eigi ekki við þegar um er að ræða afbrot sem framin eru í öðrum löndum, sem eru aðildarríki. Sú túlkun hugnast Bandaríkjamönnum ekki vel og eru því sumir innan stjórnkerfisins alfarið á móti því að dómstólnum yrði beitt gegn Rússum, en aðrir vilja grípa til þeirrar túlkunar að heimilt sé að draga Rússa fyrir dóminn með þeim rökum að þeirra eigin dómskerfi sé óhæft um að taka á mögulegum glæpum þeirra en slíkt eigi augljóslega ekki við um Bandaríkin. Ekki er talið að slíkar túlkanir muni hjálpa til að styrkja Stríðsglæpadómstólinn til lengri tíma og efla trúverðugleika hans.
Stefán Pálsson
Efnt verður til kertafleytinga á fjórum stöðum þriðjudagskvöldið 9. ágúst, á Nagasakí-daginn, til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Japan og til stuðnings kröfunni um frið í veröldinni og heim án kjarnorkuvopna.
Í Reykjavík hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn frá árinu 1985. Engin breyting verður á því nú. Safnast verður saman við suðvesturenda Tjarnarinnar við Skothúsveg kl. 22:30. Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur og bókmenntafræðingur flytur stutt ávarp. Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir verður fundarstjóri.
Flotkerti verða seld á staðnum á kr. 500, athugið að enginn posi verður á svæðinu.
* * *
Á Ísafirði og Patreksfirði verða fleytingar á sama tíma og í Reykjavík, kl. 22:30. Ísfirðingar hittast við Neðstakaupstað á Suðurtanga þar sem Nina Ivanova flytur ávarp. Á Patreksfirði er komið saman við franska minnisvarðann í Króknum og mun María Ósk Óskarsdóttir flytja ávarp. Á báðum stöðum sameinast fólk í yfirlýsingunni: Aldrei aftur Hírósíma og Nagasakí!
Kertfleytingin á Vestfjörðum á Facebook.
* * *
Akureyringar koma saman hálftíma fyrr, kl. 22 við Leirutjörn. Ávarp flytur Árni Hjartarson, en samkoman er haldin í nafni Samstarfshóps um frið.
Sjaldan eða aldrei hafa kertafleytingar farið fram á fleiri stöðum en nú. Friðarsinnar í Reykjavík, Akureyri, Ísafirði og Patreksfirði standa fyrir samkomum á Nagasakí-daginn, þriðjudaginn 9. ágúst og verður nánari tilhögun og dagskrá kynnt þegar nær dregur.
Á Egilsstöðum og Seyðisfirði verður hins vegar fleytt á Hírósíma-daginn, nú um helgina. Við lómatjörn á Egilsstöðum laugardaginn 6. ágúst og við norðurbakka Lónsins á Seyðisfirði sunnudaginn 7. ágúst stendur austfirskur áhugahópur um frið og gegn kjarnorkuvá fyrir friðardagskrá sem hefst kl. 21:30 á báðum stöðum. Flotkerti verða seld fyrir 500 kr. (ath. enginn posi).
Landsfundur SHA 2022 fór fram núna um helgina og var vel sóttur. Skýrsla miðnefndar var lögð fram og línurnar lagðar fyrir næsta starfsár þar sem verður stefnt að meiri virkni eftir ládeyðu kófsins.
Nína Helgadóttir frá Rauða krossinum kom til okkar eftir hádegishlé og sagði okkur frá málefnum flóttafólks og þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir vegna stríðsins í Úkraínu. Það var mjög fræðandi og það sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið. Greinilegt er að það er margt sem mætti betur fara í móttöku flóttafólks en vonandi verður aukinn vilji til þess að hjálpa fórnarlömbum stríðs til þess að eitthvað breytist.
Guttormur Þorsteinsson var endurkjörinn sem formaður og ný miðnefnd tók til starfa. Hana skipa Anna Lísa Björnsdóttir sem kemur ný inn, Friðrik Atlason, Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir, Karl Héðinn Kristjánsson sem kemur einnig nýr inn, Lowana Veal, Sigurður Flosason, Stefán Pálsson og Þorvaldur Þorvaldsson. Til vara voru kosin Alexandra Ýr van Erven, Ólína Lind og Þórarinn Snorri Sigurgeirsson sem kemur nýr inn. Hinsvegar er ekki hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varamönnum.
Við hlökkum til að starfa saman að verkefnum næsta árs enda af nógu að taka.
Í Dagfara síðasta haust var fjallað um viðveru B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og hvað fælist í því að landið væri skilgreint sem útstöð fyrir þær. Til að fylgja málinu eftir sendu Samtök hernaðarandstæðinga eftirfarandi fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins:
Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.
Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.
Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga:
- Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
- Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
- Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
- Hvert væri efni slíks samkomulags?
- Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?
Að endingu barst stuttaralegt svar frá utanríkisráðuneytinu:
Almennt gildir að vera liðsafla og búnaðar Bandaríkjanna hér á landi er á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og síðari viðaukum við hann og afleiddra samninga. Staða Keflavíkurflugvallar er óbreytt frá 2006 þegar varanlegri viðveru Bandaríkjahers lauk hér á landi. Ekki eru gerðir sérstakir samningar um viðdvöl einstakra flugvéla eða haffara, en ávallt er haft samráð við utanríkisráðuneytið um komur þeirra.
Hvað varðar vangaveltur um komur loftfara eða skipa sem mögulega geta borið kjarnorkuvopn skal undirstrikað að þjóðaröryggsstefnan er afdráttarlaus hvað varðar þá stefnu að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við öll þau bandalagsríki Íslands sem búa yfir kjarnavopnum.
Hér er ýmsu ósvarað. Ef þetta er öll sagan þá virðist sem að ekkert samráð hafa verið haft við íslensk stjórnvöld um veru sprengjuþotana hér. Utanríkisráðuneytið virðist heldur ekki vilja eða geta lagt neitt mat á hvaða hernaðarlegu þýðingu það hefur fyrir landið að vera nú skilgreint sem útstöð þessara sprengjuþota. Það hallar augljóslega nokkuð á þann aðila að varnarsamning sem hefur ekki áhuga á að skilgreina hernaðarlega stöðu landsins. Hér dúkar svo aftur upp sú túlkun að viljayfirlýsingin um að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum í þjóðaröryggisstefnunni jafngildi slíkri friðlýsingu og að Bandaríkin hljóti að taka mið af því. Það teljum við ekki fullnægjandi tryggingu fyrir því að kjarnorkuvopn séu ekki flutt til landsins.
Það er sérstaklega mikilvægt nú þegar stríð hefur brotist út í Evrópu og Nató-ríkin auka viðbúnaðarstig sitt og vígvæðingu að íslensk stjórnvöld hafi allavega einhverja aðkoma að því að skilgreina hvað teljist til varna landsins, að þau hafi einhverjar forsendur til þess að setja mörk við því hve frjálslega bandaríski herinn megi túlka varnarsamninginn til að breyta Keflavíkurflugvelli í herstöð í árásarskyni. Þetta svar gefur ekki mikla von til þess.
Samtökin hafa vakið athygli á þessum rýru svörum við þingmenn og vonir standa til þess að eftir þeim leiðum fáist haldbetri svör frá utanríkisráðuneytinu. Við fylgjum því máli eftir og munum gera grein fyrir því.