Category

Ályktun

Fáni Palestín

Ályktun vegna innrásar Ísraelshers í Rafah

By Ályktun

Í ljósi þess að Ísraelsher hefur hafið innrás í Rafah þar sem ein og hálf milljón Palestínumanna hefst við áréttar miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga kröfu landsfundar um tafarlaust vopnahlé á Gasa og ákall til íslenskra stjórnvalda um aðgerðir til að knýja það fram. Árásirnar ógna lífi óbreyttra borgara, þar á meðal hundruða þúsunda barna og hafa nú þegar komið í veg fyrir streymi lífsnauðsynlegra hjálpargagna sem voru af skornum skammti fyrir.

Í ljósi þess að Ísrael hefur hafnað friðarsamkomulagi við Hamas og ráðist á Rafah þrátt fyrir viðvaranir allra helstu alþjóðastofnanna og bandamanna sinna verður alþjóðasamfélagið og Ísland að senda kröftug skilaboð.

Ísland verðu að krefjast tafarlauss vopnahlés og mannúðaraðstoðar til að forða frá enn frekara mannfalli. Til að fylgja því eftir verða íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna að hernaður Ísraelsríkis á Gasa verði úrskurðaður brot á alþjóðalögum og hvetja til þess að Alþjóðaglæpadómstóllinn kæri ráðamenn í Ísrael fyrir stríðsglæpi. Ísland á jafnframt að setja viðskiptabann á Ísrael og fyrirtæki sem styðja hernaðinn á Gasa og beita sér fyrir því að önnur ríki geri hið sama. Í framhaldi ætti að lýsa því yfir að hernaðarlegur stuðningur, vopnasala og vopnaflutningar til Ísraels verði taldir samsekt með stríðsglæpum.

Í kjölfarið ættu íslensk stjórnvöld að hvetja báða aðila til áframhaldandi friðarsamninga sem miða að lausn gísla beggja aðila og varanlegu friðarsamkomulagi sem tryggir öryggi og frelsi beggja þjóða.

Ályktun SHA um þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028.

By Ályktun, Í brennidepli

Utanríkisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028, sem allt stefnir í að senn verði samþykkt á Alþingi.

Í þessarri stefnu felst sú kúvending á stefnu Íslands að hverfa frá því að taka ekki beinan þátt í styrjöldum með fjármögnun eða öðrum hernaðarstuðningi. Þótt þessi stefna sé nú fyrst borin upp á Alþingi, eru fulltrúar Íslands búnir að fylgja henni í raun og kom það m.a. fram í samþykkt yfirlýsinga á leiðtogafundi NATO í Vilníus í júlí 2023, þar sem samþykkt var margvísleg hernaðarþátttaka í stríðinu í Úkraínu. Þá er þegar í fjárlögum fyrir árið 2024 gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. efnahags- og mannúðarstuðningi við Úkraínu með vinstri hendi, en jafnframt að leggja svo með hægri hendi fram 750 milljónir til viðbótar til hernaðarstuðnings sem brýtur niður efnahag og mannslíf.

Í stefnu þessari er líka bein hvatning til íslenskra fyrirtækja um að flytja hergögn og að framleiða vörur fyrir heri. Þar á eftir eru beinar tillögur sem leiða til að hlutleysi íslensks björgunarliðs verði ógnað ef stríð geysar, með því tengja þær stríðsrekstri á þann hátt að fela Landhelgisgæslunni að þjálfa erlenda sjóliða og einnig að falast eftir búnaði frá íslenskum neyðarviðbragðsaðilum.

Í greinargerð með nýju stefnunni er vitnað til gildandi Þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, þar sem sé kveðið á um að „tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“ Hin nýja stefna slekkur á þessu leiðarljósi, því í henni er hvergi að finna neinar aðgerðir sem stefna að friðsamlegri lausn deilumála eða afvopnun, ekki einu sinni vopnahlé. Þvert á móti er þar lagt til að styðja ófriðsamlega lausn.

Á Íslandi er skiljanlega ríkur stuðningur við íbúa Úkraínu eftir hernaðarinnrás Rússlands og hernám hluta Úkraínu. SHA lýsa stuðningi við að veita íbúum Úkraínu mannúðaraðstoð og að veita þeim sem hingað leita vegna stríðsins hæli meðan þess er óskað. Þá styðja SHA líka að Úkraínu verði veittur pólitískur stuðningur og einnig stuðningur til enduruppbyggingar innviða landsins með því að koma atvinnulífi, mannlífi og stjórnarháttum sem fyrst í gott horf að stríðinu loknu. SHA hafna hins vegar alfarið öllum aðgerðum og fjármögnun Íslands á stríðsrekstri í Úkraínu.

Allur sá hluti þessarar þingsályktunatillögu Alþingis og greinargerðarinnar með henni sem lýtur að þátttöku Íslands í hernaði í Úkraínu, vanvirðir bæði samþykkta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þau gildi sem Ísland hefur haft í heiðri um að vinna að friði og taka ekki þátt í stríði. Þar er á ósvífinn hátt verið að vefja hernaðarþátttöku inn í sáraumbúðir.
Fáni Palestín

Ályktun landsfundar um stöðvun stríðs á Gasa

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga krefst þess að íslensk stjórnvöld fordæmi stríðsglæpi Ísraelsríkis og beiti sér fyrir því að komið verði á vopnahléi sem undanfara friðarsamkomulags á svæðinu. Ísland ruddi brautina í Vestur-Evrópu þegar kom að viðurkenningu á Palestínu sem sjálfstæðu ríki en hefur ekki tekið árásum Ísraelshers á Palestínumenn af nægilegri alvöru. Heilbrigðis- og menntakerfi Gasa-svæðisins hefur verið lagt í rúst, innviðir, íbúðarhús, almennir borgarar, blaðamenn og hjálparstarfsmenn eru skotmörk og lífsnauðsynlegum hjálpargögnum og matvælum er haldið frá íbúum í herkví.

Íslensk stjórnvöld hafa kallað eftir vopnahléi og hjálpað til við að bjarga dvalarleyfishöfum af svæðinu, en frekari aðgerða er þörf í ljósi þess að Ísrael hefur hundsað bindandi ályktun öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna um vopnahlé og mannúðaraðstoð. Ísland á að styðja við mál Suður-Afríku fyrir alþjóðaglæpadómstólnum um þjóðarmorð á Gasa og beita refsiaðgerðum gegn Ísraelskum ráðamönnum sem hafa hvatt til þjóðarmorðs og stríðsglæpa. Beita þarf viðskiptahindrunum í samræmi við vilja Palestínsku þjóðarinnar. Mikilvægt er að Ísland láti aldrei flækja sig inn í neitt form vopnasölu eða vopnaflutnings til Ísraels og beiti sér fyrir vopnasölubanni á Ísrael og þrýsti jafnframt á þau ríki sem halda áfram sölu vopna þrátt fyrir að þau séu notuð til stríðsglæpa og þjóðarmorðs.

Ályktun landsfundar um úrsögn úr Nató

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga leggur til að 75 ára veru Íslands í Nató verði lokið með úrsögn úr bandalaginu. Það yrði viðeigandi svar við vígvæðingaræði því sem hefur heltekið Evrópu með vaxandi þunga. Evrópuríki keppast nú um að ná því takmarki að sólunda 2% þjóðarframleiðslu í vígbúnað. Þessu fé ætti að verja til annarra og þarfari málefna. Fjáraustur þessi skýrist bæði af því að Úkraínuher eru útveguð vopn í þann skelfilega skotgrafarhernað sem verið er að fórna tugþúsundum mannslífa í og einnig því að stríðið er hentug afsökun til að endurnýja vopnabúr og hlaða undir hergagnaframleiðendur.

Utanríkisráðherra Íslands gefur í skyn að auka þurfi stórlega fjáraustur Íslands í vígbúnað, og nýlegt loforð um 300 milljóna stuðning við vopnakaup Úkraínu er þáttur í því. Hingað til hefur herleysi landsins endurspeglast í því að taka ekki beinan þátt í hernaðaraðgerðum. Ljóst er að mikill þrýstingur er á að Ísland eyði meira fé innan Nató og raddir vestanhafs hafa gefið í skyn að ekki verði komið til varnar ríkjum sem borgi ekki. Ísland á hvorki að fjármagna hernað né þarf það á vígbúnaði hérlendis að halda.

Hervæðing Íslands og þátttaka í hernaði gerir Ísland að skotmarki í stórveldaátökum. Frekari vopnakaup munu ekki koma á friði eða fyrirbyggja stríðsátök. Ísland á að nýta styrk sinn sem vopnlaus og friðsöm þjóð til að beita sér fyrir friðarsamningum og sáttum. Til þess þarf Ísland að standa utan hernaðarbandalaga.

Ísland úr Nató og herinn burt!

Endum stríð með friði

By Ályktun

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla harðlega áformum íslenskra stjórnvalda um að kaupa vopn til að senda á vígvöll í öðrum löndum. Á Íslandi býr herlaus þjóð og mikilvægt er að Íslendingar stofni aldrei her. Sem þjóð án hers eru Íslendingar í kjöraðstöðu til að standa við stefnu um frið án hernaðar og vera málsvarar friðsamlegra leiða til að leysa margvíslegan ágreining víða um heim. Lengst af á þeim 75 árum sem eru frá því að Alþingi samþykkti aðild Íslands að hernaðarbandalaginu NATO, tók Ísland ekki þátt í herráði NATO og lagði því hvorki til hermenn né drápstól.

Á seinni árum hafa vígfúsir stjórnmálamenn hins vegar bætt æ meir í þátttöku Íslands í vígbúnaði og hernaðarátökum. Gróft dæmi þess var þegar íslenskir ráðherrar settu Ísland á lista yfir þjóðir sem væru viljugar til að heyja stríð í Írak. Síðan hefur Landhelgisgæslu Íslands smám saman verið blandað inn í allskyns heræfingar, sem er mjög varasöm aðgerð, þegar sjófarendur við Ísland eiga að geta treyst á hernaðarlegt hlutleysi þess mikilvæga björgunaraðila sem Landhelgisgæslan er, bæði á friðartímum og þegar stríðsógnir eru uppi. Þá eru stjórnmálamenn líka farnir að leggja til að Íslendingar leggi til hermenn í mögulegan norrænan her. Nú síðast lýsa íslensk stjórnvöld því yfir að þau ætli að fjármagna kaup á vopnum og flutning þeirra til að auka enn á stríðshörmungar í Úkraínu. Þessa þróun og stefnubreytingu er brýnt að stöðva og það strax.

Innrás Rússlands í Úkraínu er í alla staði óréttlætanleg og Samtök hernaðarandstæðinga ítreka fordæmingu sína á þeim yfirgangi. Hver dagur sem stríðið hefur staðið, hefur kostað fjölda fólks líf sitt, brotið og bramlað samfélög og spillt náttúru. Hver dagur sem stríðið mun standa áfram, mun verða framhald á sömu hörmungum. Þúsundir ungra karlmanna hafa dáið og örkumlast í þessu stríði og nú er verið að sækja ungar konur til að falla í þessum vonlausu skotgröfum líka. Þessu galna stríði lýkur ekki með „sigri“ á vígvöllum, áframhaldandi stríð í Úkraínu mun bara versna. Eina lausnin á þessu stríði er tafarlaust vopnahlé og friðarviðræður í kjöfarið. Það er skylda okkar Íslendinga að standa föstum fótum sem herlaus þjóð og beita okkur fyrir friðsamlegri lausn á stríðinu í Úkraínu.

 

UNRWA logo

Ályktun um frystingu á aðstoð við Palestínu

By Ályktun, Í brennidepli

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir þá ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að frysta greiðslur til Palestínuhjálpar Sameinuðu þjóðanna. Það er óásættanlegt með öllu að beita neyðaraðstoð við sveltandi og deyjandi fólk sem pólitísku refsitæki líkt og gert er í þessu máli. Neyðaraðstoð verður að halda áfram að berast til Gaza án nokkurrar tafar.

Tilraunir ísraelskra stjórnvalda til að spyrða Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra við hryðjuverk verður að skilja í ljósi nýfallins úrskurðar Alþjóðadómstólsins í Haag sem felur í sér áfellisdóm yfir framferði Ísraelsmanna á Gaza undanfarnar vikur og mánuði.

Úrskurðurinn kveður sérstaklega á um að hleypa verði mannúðaraðstoð inn á Gaza. Ákvörðun utanríkisráðherra gengur þannig í berhögg við niðurstöðu Alþjóðadómstólsins og hana verður að draga til baka.

Áskorun um frið á Gaza

By Ályktun, Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess af ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að tafarlaust verði gert vopnahlé í stríði því sem nú geysar á Gaza. Íslenska ríkið stóð að samþykkt um stofnun Ísraelsríkis og hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og ber því skylda til að beita áhrifum sínum til að tryggja frið og velferð íbúa beggja ríkjanna.

Stríð er glæpur. Stríðsglæpur er glæpur á glæp ofan. Engin stríð hafa verið háð án stríðsglæpa.

Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur hlutfall óbreyttra borgara hækkað í samanburði við hlutfall hermanna sem deyja í stríðum og nú eru óbreyttir borgarar og varnarlaust fólk í meirihluta þeirra sem deyja og særast í lang flestum stríðum. Varnarlaust fólk er líka í miklum meirihluta þeirra sem stríðsglæpir bitna á. Stríðið á Gaza bitnar nú alfarið á varnarlausu fólki sem hefur engan stað til að flýja á, ekkert öruggt skjól og algjöran skort á lífsnauðsynjum. Helmingur íbúa Gaza eru börn og því leiða loftárásir til fjöldamorða á börnum. Árásir hafa verið gerðar á bæði sjúkrahús og sjúkrabíla og á fólk sem er að reyna að flýja.

Samtök hernaðarandstæðinga eru friðarhreyfing. Friðarsinnar leggja ekki höfuð áherslu á hverjir hafa góðan eða vondan málstað að berjast fyrir, heldur á að mál séu leyst án hernaðar og annars ofbeldis.

Það þarf að stöðva stríðið á Gaza strax með vopnahléi. Vopnahléi þarf að fylgja eftir með friðarsamningum þar sem öllu fólki verður tryggt öryggi, mannréttindi og almennt réttlæti. Friður og réttlæti fara saman, á meðan óréttlæti og yfirgangur er stærsta uppspretta stríðs. Of lengi hafa vestræn ríki horft framhjá yfirgangi öfgafullra landránsmanna studda hersetu og hernaðarofbeldi Ísraelsríkis og kæfandi herkvínni sem Gazasvæðinu hefur verið haldið í, með endurteknum brotum á alþjóðalögum. Það hefur verið vatn á myllu þeirra afla í röðum Palestínumanna sem telja einu færu leiðina að svara í sömu mynt og framlengir þannig vítahring hefnda með ofbeldi. Veruleg hætta er á að þetta stríð leiði til enn frekari stríðsátaka og hryðjuverka, sem geri lausn stríðsins ennþá erfiðari. Nú þarf að breyta um stefnu og ná víðtækri samstöðu ríkja um að stöðva þetta stríð strax, tryggja öryggi fólks á stríðssvæðinu og vinna að friðarsamningum.

Stöðvið stríðið í Úkraínu strax – semjið um frið og sam­vinnu í Evrópu

By Ályktun
Við undirritaðir friðarsinnar á Íslandi skorum á leiðtoga evrópskra ríkja að stöðva stríðið í Úkraínu nú þegar og vinna í kjölfarið að friði og samvinnu í Evrópu.

Stríð eru óásættanleg leið til að útkljá ágreining ríkja eða hópa á milli. Evrópa getur státað af langri sögu siðmenningar og lýðræðis þar sem samvinna og þekkingarleit hafa leitt til stórkostlegra framfara. Við höfum einnig upplifað hrikalegar styrjaldir, átök, sundrungu og ofbeldi. Styrjaldir hafa aldrei leitt annað en hörmungar yfir álfuna og gera það einnig nú.

Stríðið í Úkraínu verður að stöðva tafarlaust með skilyrðislausu vopnahléi. Í kjölfarið þarf strax að ræða og semja um langvarandi frið sem er grunnur að mannréttindum og lýðræði. Friður og framfarir í Evrópu eru sameiginlegt verkefni álfunnar allrar. Þar mega þjóðarleiðtogar ekki láta sitt eftir liggja. Byrjum friðarferlið strax í dag.

 • 1. Anna Friðriksdóttir, lyfjafræðingur, Reykjavík
 • 2. Anna Guðmundsdóttir, friðarsinni, Reykjavík
 • 3. Anna S Hróðmarsdóttir, Reykjavík
 • 4. Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður, Mývatnssveit
 • 5. Árni Hjartarson, jarðfræðingur, Reykjavík
 • 6. Ásta Steingerður Geirsdóttir, garðyrkjufræðingur og leiðsögumaður, Borgarfirði eystri
 • 7. Auður Alfífa Ketilsdóttir, Reykjavík
 • 8. Auður Lilja Erlingsdóttir, deildarstjóri, Reykjavík
 • 9. Árni Daníel Júlíusson, doktor í sagnfræði, Reykjavík
 • 10. Björgvin G. Sigurðsson, Selfossi
 • 11. Brynhildur Björnsdóttir, fjölmiðlakona og söngkona, Reykjavík
 • 12. Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri, Reykjavík
 • 13. Davíð Kristjánsson, Selfossi
 • 14. Dóra Svavarsdóttir, matreiðslumeistari og kennari, Reykjavík
 • 15. Drífa Eysteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Selfossi
 • 16. Drífa Lýðsdóttir, Reykjavík
 • 17. Einar Ólafsson, rithöfundur, Kópavogi
 • 18. Elín Oddný Sigurðardóttir, félagsfræðingur, Reykjavík
 • 19. Elísabet Berta Bjarnadóttir, Kópavogi
 • 20. Eygló Jónsdóttir, kennari og rithöfundur, Hafnarfirði
 • 21. Eyrún Ósk Jónsdóttir, rithöfundur, Hafnarfirði
 • 22. Finnbogi Óskarsson, efnafræðingur, Reykjavík
 • 23. Finnur Torfi Hjörleifsson, Borgarbyggð.
 • 24. Friðrik Atlason, teymisstjóri, Reykjavík
 • 25. Gísli Fannberg, Reykjavík.
 • 26. Guðbjörg Sveinsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, Kópavogi
 • 27. Guðmundur Guðmundsson, matvælafræðingur, Reykjavík
 • 28. Guðríður Adda Ragnarsdóttir, kennari. Reykjavík.
 • 29. Guðríður Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri, Reykjavík
 • 30. Guðrún Hallgrímsdóttir, Matvælaverkfræðingur, Reykjavík
 • 31. Guðrún Hannesdóttir, rithöfundur, Reykjavik
 • 32. Gunnar Þór Jónsson, Skeiða- og Gnúpverjahreppi
 • 33. Gunnlaugur Haraldsson, rithöfundur, Reykjavík
 • 34. Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, Reykjavík
 • 35. Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir, sálfræðingur, Reykjavík
 • 36. Gylfi Þorkelsson, kennari, Selfossi
 • 37. Hallberg Brynjar Guðmundsson, nemi, Reykjavík
 • 38. Hanna Kristín Hallgrímsdóttir, öryrki, Reykjavík
 • 39. Haraldur Ólafsson, prófessor, Reykjavik
 • 40. Harpa Kristbergsdóttir, aðgerðarsinni, Reykjavík
 • 41. Haukur Jóhannsson, verkfræðingur, Kópavogur
 • 42. Helga Kress, prófessor, Reykjavík
 • 43. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, Reykjavík
 • 44. Hjörtur Hjartarson, Reykjavík.
 • 45. Hlynur Hallsson, myndlistarmaður, Akureyri
 • 46. Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneyti, Reykjavík
 • 47. Hringur Hafsteinsson, sköpunarstjóri, Garðabæ
 • 48. Hrund Ólafsdóttir, bókmenntafræðingur og kennari, Reykjavík
 • 49. Ingibjörg Haraldsdóttir, kennari, Reykjavík
 • 50. Ingibjörg V Friðbjörnsdóttir, Kópavogi
 • 51. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Reykjavík
 • 52. Ingvi Þór Kormáksson, hljómlistarmaður, Reykjavík
 • 53. Ísleifur Arnórsson, stúdentsefni, Reykjavík
 • 54. Jón Elíasson, sjómaður, Bolungarvík.
 • 55. Jón Karl Stefánsson, doktorsnemi, Reykjavik
 • 56. Júlíus K Valdimarsson, aðgerðasinni, Reykjavík
 • 57. Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur, Reykjavík
 • 58. Kári Þorgrímsson bóndi Garði Mývatnssveit
 • 59. Karl Héðinn Kristjánsson, fjölmiðlamaður, Reykjavík
 • 60. Kristín Böðvarsdóttir, kennari á eftirlaunum, Reykjavík
 • 61. Lowana Veal, aðgerðasinni og líffræðingur, Reykjavík
 • 62. María Hauksdóttir Kópavogur
 • 63. Nóam Óli Stefánsson, nemi, Reykjavík
 • 64. Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, íslenskukennari, Ísafirði
 • 65. René Biasone, varaþingmaður, Reykjavík.
 • 66. Rúna Baldvinsdóttir, öryrki, Reykjavík
 • 67. Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi, Reykjavík
 • 68. Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastjóri, Reykjavík
 • 69. Sigríður Gísladóttir, Dýralæknir, Ísafirði
 • 70. Sigrún Skúladóttir, sjúkraliði, Reykjavík
 • 71. Sigtryggur Jónsson Reykjavík Lífeyrisþegi.
 • 72. Sigurður Flosason, bifreiðastjóri, Kópavogi
 • 73. Sigurður G. Tómasson, f.v. útvarpsmaður, Mosfellsbæ
 • 74. Sigurður Ingi Andrésson, véltæknifræðingur, Selfossi
 • 75. Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur, Reykjavík
 • 76. Sjöfn Ingólfsdóttir, bókavörður, Reykjavík
 • 77. Soffía Sigurðardóttir, friðarsinni, Selfossi
 • 78. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Reykjavík
 • 79. Stefán Pálsson, sagnfræðingur, Reykjavík
 • 80. Steinarr Bjarni Guðmundsson, bílstjóri, Höfn
 • 81. Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir, sagnfræðingur, Reykjavík
 • 82. Svanur Gísli Þorkelsson, leiðsögumaður, Reykjanesbæ
 • 83. Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor, Reykjavík
 • 84. Sæþór Benjamín Randalsson, matráður, Kópavogi
 • 85. Tjörvi Schiöth, nemi, Reykjavík
 • 86. Trausti Breiðfjörð Magnússon, borgarfulltrúi, Reykjavík
 • 87. Trausti Steinsson, heimsreisumaður, Hveragerði
 • 88. Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, sagnfræðingur og sirkúslistakona, Ólafsfirði
 • 89. Valgeir Jónasson, rafeindavirki, Reykjavík
 • 90. Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir, þjóðfræðingur, Hafnarfirði
 • 91. Vigdís Hlíf Sigurðardóttir, kennari, Reykjavík
 • 92. Vilborg Ölversdóttir, Reykjavík
 • 93. Þór Vigfússon, myndlistarmaður, Djúpavogi
 • 94. Þóra Pálsdóttir, kennari, Kópavogi
 • 95. Þórarinn Hjartarson, sagnfræðingur og stálsmiður, Akureyri
 • 96. Þórarinn Magnússon, bóndi, Frostastöðum, Skagafirði
 • 97. Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir, Selfossi
 • 98. Þorvaldur Örn Árnason, líffræðingur, Vogum
 • 99. Þorvaldur Þorvaldsson, smiður, Reykjavík
 • 100. Þuríður Backman, fv. alþingismaður, Kópavogi

Ályktun miðnefndar SHA gegn þjónustu við kjarnorkukafbáta

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga mótmælir harðlega þeirri ákvörðun utanríkisráðherra að auka þátttöku Íslands í hernaðarstarfsemi með því að taka upp reglubundna þjónustu við kjarnorkuknúna kafbáta í landhelgi Íslands. Sá fyrirvari sem settur er um að við komu herskipa og kafbáta „skuli virða ákvæði þjóðaröryggisstefnu Íslands um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum“, er haldslaus“. Hvaða alþjóðlegu skuldbindingar eru það sem gætu vikið frá þeirri friðlýsingu? Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að ganga úr skugga um að þeir kafbátar sem hér fara um séu ekki búnir kjarnorkuvopnum?

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast undanbragðalausrar friðlýsingar fyrir kjarnorkuvopnum á öllu íslensku yfirráðasvæði. Þá skal einnig bent á það að ef kafbátur sekkur í norðurhöfum, þá eru í kjarnorkuofnum hans hættuleg geislavirk efni, sem geta valdið mun alvarlegra umhverfisslysi í nágrenni Íslands en ósprungin kjarnorkuvopn. Þess vegna árétta Samtök hernaðarandstæðinga kröfur sínar um að umferð kjarnorkuknúinna farartækja um íslenska lögsögu verði bönnuð undantekningarlaust.

Ályktun landsfundar um tafarlausan frið í Úkraínu

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga krefst þess að samið verði um vopnahlé í stríðinu í Úkraínu án tafar. Áframhald þessa stríðs stefnir í stigmögnun sem getur leitt til kjarnorkustríðs.

Við beinum því til íslenskra stjórnvalda að beita sér fyrir friðarsamningum og í framhaldi af því stuðningi við endurbyggingu Úkraínu í samstarfi við alla íbúa landsins.