Ályktun landsfundar um úrsögn úr Nató

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga leggur til að 75 ára veru Íslands í Nató verði lokið með úrsögn úr bandalaginu. Það yrði viðeigandi svar við vígvæðingaræði því sem hefur heltekið Evrópu með vaxandi þunga. Evrópuríki keppast nú um að ná því takmarki að sólunda 2% þjóðarframleiðslu í vígbúnað. Þessu fé ætti að verja til annarra og þarfari málefna. Fjáraustur þessi skýrist bæði af því að Úkraínuher eru útveguð vopn í þann skelfilega skotgrafarhernað sem verið er að fórna tugþúsundum mannslífa í og einnig því að stríðið er hentug afsökun til að endurnýja vopnabúr og hlaða undir hergagnaframleiðendur.

Utanríkisráðherra Íslands gefur í skyn að auka þurfi stórlega fjáraustur Íslands í vígbúnað, og nýlegt loforð um 300 milljóna stuðning við vopnakaup Úkraínu er þáttur í því. Hingað til hefur herleysi landsins endurspeglast í því að taka ekki beinan þátt í hernaðaraðgerðum. Ljóst er að mikill þrýstingur er á að Ísland eyði meira fé innan Nató og raddir vestanhafs hafa gefið í skyn að ekki verði komið til varnar ríkjum sem borgi ekki. Ísland á hvorki að fjármagna hernað né þarf það á vígbúnaði hérlendis að halda.

Hervæðing Íslands og þátttaka í hernaði gerir Ísland að skotmarki í stórveldaátökum. Frekari vopnakaup munu ekki koma á friði eða fyrirbyggja stríðsátök. Ísland á að nýta styrk sinn sem vopnlaus og friðsöm þjóð til að beita sér fyrir friðarsamningum og sáttum. Til þess þarf Ísland að standa utan hernaðarbandalaga.

Ísland úr Nató og herinn burt!