Ályktun SHA um þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028.

Utanríkisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028, sem allt stefnir í að senn verði samþykkt á Alþingi.

Í þessarri stefnu felst sú kúvending á stefnu Íslands að hverfa frá því að taka ekki beinan þátt í styrjöldum með fjármögnun eða öðrum hernaðarstuðningi. Þótt þessi stefna sé nú fyrst borin upp á Alþingi, eru fulltrúar Íslands búnir að fylgja henni í raun og kom það m.a. fram í samþykkt yfirlýsinga á leiðtogafundi NATO í Vilníus í júlí 2023, þar sem samþykkt var margvísleg hernaðarþátttaka í stríðinu í Úkraínu. Þá er þegar í fjárlögum fyrir árið 2024 gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. efnahags- og mannúðarstuðningi við Úkraínu með vinstri hendi, en jafnframt að leggja svo með hægri hendi fram 750 milljónir til viðbótar til hernaðarstuðnings sem brýtur niður efnahag og mannslíf.

Í stefnu þessari er líka bein hvatning til íslenskra fyrirtækja um að flytja hergögn og að framleiða vörur fyrir heri. Þar á eftir eru beinar tillögur sem leiða til að hlutleysi íslensks björgunarliðs verði ógnað ef stríð geysar, með því tengja þær stríðsrekstri á þann hátt að fela Landhelgisgæslunni að þjálfa erlenda sjóliða og einnig að falast eftir búnaði frá íslenskum neyðarviðbragðsaðilum.

Í greinargerð með nýju stefnunni er vitnað til gildandi Þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, þar sem sé kveðið á um að „tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“ Hin nýja stefna slekkur á þessu leiðarljósi, því í henni er hvergi að finna neinar aðgerðir sem stefna að friðsamlegri lausn deilumála eða afvopnun, ekki einu sinni vopnahlé. Þvert á móti er þar lagt til að styðja ófriðsamlega lausn.

Á Íslandi er skiljanlega ríkur stuðningur við íbúa Úkraínu eftir hernaðarinnrás Rússlands og hernám hluta Úkraínu. SHA lýsa stuðningi við að veita íbúum Úkraínu mannúðaraðstoð og að veita þeim sem hingað leita vegna stríðsins hæli meðan þess er óskað. Þá styðja SHA líka að Úkraínu verði veittur pólitískur stuðningur og einnig stuðningur til enduruppbyggingar innviða landsins með því að koma atvinnulífi, mannlífi og stjórnarháttum sem fyrst í gott horf að stríðinu loknu. SHA hafna hins vegar alfarið öllum aðgerðum og fjármögnun Íslands á stríðsrekstri í Úkraínu.

Allur sá hluti þessarar þingsályktunatillögu Alþingis og greinargerðarinnar með henni sem lýtur að þátttöku Íslands í hernaði í Úkraínu, vanvirðir bæði samþykkta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þau gildi sem Ísland hefur haft í heiðri um að vinna að friði og taka ekki þátt í stríði. Þar er á ósvífinn hátt verið að vefja hernaðarþátttöku inn í sáraumbúðir.