Category

Í brennidepli

Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag

Stríðsglæpirnir og dómstóllinn

By Fréttir, Í brennidepli

Í tengslum við yfirstandandi stríð í Úkraínu hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi þess að þegar átökum ljúki verði þeim sem framið hafa stríðsglæpi refsað fyrir ódæði sín. Rökréttasti vettvangurinn fyrir slík réttarhöld ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera Stríðsglæpadómstóllinn í Haag. Þar eru þó ýmis ljón í veginum.

Hugmyndin um alþjóðlegan dómstól sem nýta mætti til að refsa þeim verða brotlegir við alþjóðalög í hernaði kom fram þegar við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og skömmu áður en sú síðari braust út var búið að leggja grundvöll að slíkum dómstól á vegum Þjóðabandalagsins sem kom þó aldrei til framkvæmda. Forystumenn hinna sigruðu ríkja, Þýskalands og Japans, voru dregnir fyrir dómstóla að stríði loknu og var gert ráð fyrir að þau réttarhöld myndu leggja grunninn að starfsemi fasts dómstóls. Kalda stríðið sló þó allar slíkar hugmyndir út af borðinu um áratuga skeið.

Á tíunda áratugnum stóð öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir því að settar væru á laggirnar tvær tímabundnar stofnanir með afmörkuð verkefni, annars vegar í tengslum við glæpi í borgarastyrjöldinni í ríkjum fyrrum Júgóslavíu en hins vegar vegna fjöldamorða í Rwanda árið 1994. Málareksturinn þar ýtti á eftir hugmyndum um að koma fastri stofnun á legg.

Árið 1998 var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðann í Rómarborg sáttmáli um stofnun stríðsglæpadómstóls. Kína og Bandaríkin voru í fámennum hópi landa sem greiddi atkvæði gegn sáttmálanum, auk Ísraels sem vildi ekki sætta sig við að það teldist stríðsglæpur að koma landnemum fyrir á hernumdum svæðum. Tveimur árum eftir samþykkt Rómarsáttmálans ákvað Bill Clinton að undirrita hann með semingi. Kallaði samninginn gallaðan og ákvað að lokum að leggja hann ekki fyrir þingið til staðfestingar. Þrátt fyrir tregðu stórvelda tók sáttmálinn gildi árið 2002 og telst það stofnár Stríðsglæpadómstólsins.

Fyrsta málið sem kom til kasta dómstólsins var á árinu 2006 og tengdist stríðsherra í Kongó. Upp frá því hafa nær öll mál sem ratað hafa til Haag tengst styrjöldum og borgarastríðum í Afríku. Nokkrir fyrrum þjóðarleiðtogar hafa verið kærðir, svo sem Omar al-Bashir frá Súdan, Uhuru Kenyatta frá Kenía, Laurent Gbagbo frá Fílabeinsströndinni og Gaddafi frá Líbíu, svo nokkrir séu nefndir. Þessi einsleitni í hópi sakborninga hefur vakið gagnrýni. Í Afríku finnst mörgum skjóta skökku við engir aðrir séu bendlaðir við stríðsglæpi og grimmdarverk. Líta sumir því á dómstólinn sem hálfgerða framlengingu á nýlendustefnunni. Í kjölfarið hafa nokkur Afríkulönd dregið sig út úr sáttmálanum.

Þessi gagnrýni er ekki úr lausu lofti gripin, enda fátt sem bendir til að vestrænir leiðtogar sjái fyrir sér að dómstóllinn gæti haft lögsögu yfir þeirra borgurum. Árið 2002 sló í brýnu milli dómstólsins og bandarískra stjórnvalda. Ríkisstjórn George W. Bush dró úr þeirri litlu formlegu viðurkenningu sem Bandaríkin höfðu þó veitt starfsemi dómstólsins. Þar á meðal voru lög um vernd opinberra bandarískra borgara, sem almennt voru kölluð „The Hague Invasion Act, þar sem þau beindust með beinum hætti gegn Stríðsglæpadómstólnum og gerðu það alveg skýrt að kærur gegn bandarískum borgurum yrðu ekki liðnar.

Síðustu tuttugu árin hafa samskipti Bandaríkjastjórnar og dómstólsins sveiflast upp og niður eftir ráðamönnum. Trump-stjórnin sýndi dómstólnum fulla andúð á meðan Obama- og Biden-stjórnirnar hafa verið jákvæðari í hans garð. Í desember síðastliðnum urðu þau tíðindi að Bandaríkjaþing nam úr gildi löggjöf sem bannaði stjórnvöldum að deila upplýsingum með stríðsglæpadómstólnum og var markmiðið með þeirri lagabreytingu að leggja drög að mögulegum dómsmálum vegna stríðsins í Úkraínu.

Nýverið hafa hins vegar borist fregnir af því að þrátt fyrir ákvörðun þingsins og fyrri yfirlýsingar Bidens forseta um mikilvægi stríðsglæparéttarhalda, standi stjórnendur Pentagon í vegi fyrir því Bandaríkin starfi með dómstólnum (sbr. frétt í New York Times 8.mars sl.) Ástæða þessa er einföld: bandaríska varnarmálaráðuneytið óttast að öll slík samvinna kunni að auka líkurnar á að Bandaríkjamenn kunni sjálfir að verða dregnir fyrir dómstólinn í framtíðinni.

Rússland stendur utan stríðsglæpadómstólsins líkt og Bandaríkin og telja bæði ríkin að fyrir vikið hafi dómstóllinn enga lögsögu yfir borgurum þeirra. Ákærendur dómstólsins telja hins vegar að það eigi ekki við þegar um er að ræða afbrot sem framin eru í öðrum löndum, sem eru aðildarríki. Sú túlkun hugnast Bandaríkjamönnum ekki vel og eru því sumir innan stjórnkerfisins alfarið á móti því að dómstólnum yrði beitt gegn Rússum, en aðrir vilja grípa til þeirrar túlkunar að heimilt sé að draga Rússa fyrir dóminn með þeim rökum að þeirra eigin dómskerfi sé óhæft um að taka á mögulegum glæpum þeirra en slíkt eigi augljóslega ekki við um Bandaríkin. Ekki er talið að slíkar túlkanir muni hjálpa til að styrkja Stríðsglæpadómstólinn til lengri tíma og efla trúverðugleika hans.

Stefán Pálsson

365 dagar frá innrás Rússa í Úkraínu

Stöðvum stríðið í Úkraínu!

By Í brennidepli, Viðburður

Mótmælum innrás Rússa í Úkraínu og krefjumst tafarlauss friðar. Mótmæli við rússneska sendiherrabústaðinn, Túngötu 24, kl. 17:30 í dag.

24. febrúar 2023 markar 365 daga frá því að stríðið í Úkraínu hófst. Rússar gegn stríði skipuleggja viðburð til þess að sýna samstöðu með Úkraínumönnum og minnast fórnarlamba stríðsins.

Á meðal ræðumanna verða Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guttormur Þorsteinsson formaður SHA og Lida Volkova, flóttamaður frá Úkraínu. Rússneska ljóðskáldið Natasha S. mun svo flytja ljóð. Fundarstjóri er Andrei Menshenin.
Ef veður leyfir verður svo dreift myndum af fórnarlömbum stríðsins og þátttakendum boðið að hengja þær upp á staðnum.
Að lokum verður brenna þar sem kveikt verður í táknmynd rússnesku innrásarinnar. Þetta vísar í forna slavneska hefð þar sem Rússar og Úkraínumenn brenna líkneski til þess að kveðja veturinn. Að þessu sinni er ekki bara verið að kveðja kuldann fyrir utan rússneska sendiráðið heldur einnig stríð og ofbeldi.

Viðburðurinn á Facebook.

Birtingar­mynd sturlunar

By Í brennidepli

Hlutverk Íslendinga er að bera klæði á vopnin

Fyrir um þremur áratugum komust menn að því, að það væri óskaplega mikilvægt að draga ný landamæri í Suðaustur-Evrópu, á svæði þar sem mörk ríkja höfðu áður verið dregin upp á nýtt, oftar en tölu verður á komið. Þetta var svo mikið sanngirnismál að mati þeirra sem að því stóðu að óteljandi mannslíf voru ásættanlegur fórnarkostnaður til að ná fram því réttlæti. Það voru reyndar líf annarra en þeirra sem stjórnuðu, sem fórnað var. Dæmigerð saga frá þessum árum var um þorp þar sem íbúar af ýmsu tagi höfðu lifað saman í sátt og samlyndi um langt skeið. Ósætti verður í fjarlægum borgum um hvoru megin þorpsins landamæri eigi að liggja og niðurstaðan verður sú, að helmingur íbúanna er drepinn, hinn helmingurinn leggur á flótta og þorpið er spengt í tætlur. Allir aðilar sem einhverju ráða telja þessar stórfelldu mannfórnir nauðsynlegar og að lokum nær réttlæti einhvers fram að ganga um hríð. Núna, aðeins örfáum áratugum síðar leggja menn drög að því að stroka út þessi sömu landamæri, því tíðarandinn segir að þau þvælist bara fyrir.

Í augum flestra á Íslandi hlýtur þessi leikur að vera birtingarmynd sturlunar og nú brýst brjálsemin aftur út, dálítið austar að þessu sinni. Kjötkvarnirnar eru ræstar og þeir sem ráða telja ekki eftir sér að fórna nokkur hundruð þúsund manns til að ná fram markmiðum sínum. Fjöldi ríkja dælir olíu á eldinn eins og enginn sé morgundagurinn. Allt bendir til þess að þjóðirnar sem eigast við standi að baki stríðsherrunum, þó svo þeir afnemi fjöldamörg mannréttindi, lýðræði og annað sem þeim þykir standa í vegi skriðdrekanna. Þannig hefur þetta reyndar verið oft áður. Fjöldi manna mætir víða að til þess að fá svalað frumstæðum hvötum sínum á vígvelli, en að því marki sem það dugar ekki til, þvinga stjórnvöld saklausa borgara í veg fyrir byssukjaftana með furðu almennri velþóknun og aðdáun áhorfenda í nágrannalöndum og víðar. Eftir nokkur ár eða áratugi mun enginn skilja hvert tilefnið var.

Að þessu sinni taka flest ríki Evrópu þátt og Evrópusambandið að auki, enda er annar stríðsaðilinn á hraðri leið þar inn. Það er sérlega eftirtektarvert, vegna þess að aðeins örfá ár eru síðan ákafamenn um að Íslendingar yrðu þegnar í Evrópusambandinu sóru við æru sína og ömmu, að það samband væri allt annað en hernaðarbandalag.

Hlutur Íslendinga í þessu æði ætti umfram allt að vera að bera klæði á vopnin, eftir því sem tök eru á og alls ekki að kynda undir bálinu. Það verður stöðugt skýrara að engin leið er út úr þessu öngstræti nema með vopnahléi og samningum, en nú virðist allt stefna í mögnun átakanna með áframhaldandi eyðileggingu og mannfalli. Allt þetta minnir okkur svo á mikilvægi þess að láta ekki samfélög, þar sem villimennska ræður ríkjum, ná völdum á Íslandi.

Haraldur Ólafsson

Samstöðumótmæli með Írönum

Raddir frá Íran

By Í brennidepli, Viðburður
Miklar fregnir berast frá Íran þessa daganna, þar sem söguleg mótmæli eiga sér stað en stjórnvöld reyna að berja þau niður með ofbeldi. Hópur ungra Írana sem búsettur er á Íslandi hefur fylgst náið með ástandinu í heimalandi sínu og reynt að leggja mótmælahreyfingunni lið sitt með ýmsum hætti.
Hluti þessa hóps mun mæta í Friðarhús, Njálsgötu 87, miðvikudagskvöldið 26. október kl. 20 og segja frá stöðu mála í Íran og mótmælahreyfingunni.
Fyrirspurnir og umræður á eftir. Öll velkomin.
Kertafleyting 2022

Kertafleytingarræða Silju Aðalsteinsdóttur 9. ágúst 2022

By Í brennidepli

Þegar ég fæddist fyrir nærri því 79 árum geisaði stríð í heiminum, grimmileg landvinningastyrjöld sem hafin var og knúin áfram af einstaklingi andsetnum af sjúkum ofurmennishugmyndum og fyrirlitningu á mannkyninu. „Feigðin reið okkar föðurhúsum,“ segir Ari Jósefsson skáld, sem sjálfur fæddist bara fimm dögum áður en þetta stríð hófst:

Feigðin reið okkar föðurhúsum

Málmdrekar flugu um þúngbúinn bernskuhimin
þórdrunur glumdu handan svartra ála
og regnbogar hrundu með gný

Nú stígur gufa uppaf fúlu vatni
þar sem eggjárnin eru hert að nýju

Mökkurinn fyllir auðnina af andlitum
sem stara blóðhlaupnum augum úrúr draungum
á okkur sem eigrum niðurlút um rústir
og leitum að morgundegi í brotajárninu

Svona er hún nöturleg, myndin hans Ara af hlutskipti minnar kynslóðar og hans.

Síðan seinni heimsstyrjöldinni lauk hefur aldrei ríkt alger friður í heiminum, ekki einu sinni í Evrópu, þrátt fyrir hátíðlega svardaga og þrátt fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Það hafa verið framin valdarán, uppreisnir gerðar, háðar borgarastyrjaldir, trúarstríð, stundaður skæruhernaður innan ríkja, valdsmenn ríkja hafa skipt sér af innanlandsmálum annarra ríkja með ógnandi tilburðum, en það hefur ekki að því er ég best fæ séð verið gerð bein innrás eins Evrópuríkis í annað, með fullum herstyrk, í grímulausu landvinningaskyni fyrr en núna á þessu ári.

Eins og okkur er öllum í fersku minni réðst rússneski herinn inn í Úkraínu 24. febrúar í ár, úr öllum áttum, úr lofti og á landi, með hryllilegum afleiðingum sem ekki sér fyrir endann á. Purkunarlaust hefur verið varpað sprengjum á þéttar íbúabyggðir og skotmörk sem hafa engan hernaðarlegan tilgang,  þúsundir almennra borgara hafa fallið, milljónir hafa flúið land, búseta þriðjungs þjóðarinnar hefur raskast. Flóttamannavandinn hefur aldrei verið stærri síðan á tímum seinni heimsstyrjaldar. Eyðilegging á húsum, öðrum mannvirkjum og ræktuðu landi er gífurleg fyrir utan geigvænleg áhrif á andrúmsloftið. Og til hvers? Ég get ekki komið hugsunum mínum á framfæri betur en með orðum Guðrúnar Helgadóttur, rithöfundarins ástsæla sem lést á árinu, orðum sem hún leggur í munn móður barnanna á númer tvö í fyrsta bindi Hafnarfjarðarþríleiksins, Sitji Guðs englar. „Hvorir heldurðu að vinni stríðið?“ spyr Halldór sonur hennar. „Englendingar eða þýskararnir? Ha, mamma?“

Æ, ég veit það ekki Halldór. Sennilega tapa Þjóðverjar þessu skelfilega stríði. En það tapa bara allir, sagði mamma.

Hvernig geta allir tapað? spurði Páll …

Milljónir manna eru dánar i þessu stríði, Páll minn, sagði mamma. Og það fólk átti bara eitt líf. Það er búið að leggja í rúst heilu borgirnar, sem mannkynið hefur byggt af hugviti og þekkingu. Milljónir dagsverka hafa verið lögð í rúst. Heldurðu að þeir sem það gerðu hafi unnið einhvern sigur? … Haldiði að þeir séu einhverjar hetjur? spurði mamma.

Guðrún lætur spurningunni ósvarað, leyfir lesandanum að velta henni fyrir sér. Og þegar við horfum núna á ummerki stríðsins á okkar dögum, „þar sem að áður akrar huldu völl“ má nú sjá endalausa gígaröð eftir öflugar sprengjur og flugskeyti, sjúkrahús þar sem mannslífum var bjargað, nú eins og beinagrindur af húsum, skólar, leikskólar jafnaðir við jörðu, snotrar íbúðablokkir þar sem fjöldi fjölskyldna bjó, karla, kvenna og barna, nú rústir einar, og íbúarnir – þeir sem enn eru þar – eigra niðurlútir um rústirnar og leita að morgundegi í brotajárninu, eins og Ari Jósefsson orðaði það.

Við erum hér saman komin í kvöld til að minnast endaloka síðari heimsstyrjaldar, þegar kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgina Hírósíma 6. ágúst 1945 og systurborgina Nagasaki þrem dögum seinna, þann 9. ágúst fyrir 77 árum. Þar var framinn glæpur gegn öllu mannkyni og skelfilegustu hótanir ofstopamannsins sem stendur að styrjöldinni í Úkraínu núna ganga út á að minna okkur á að hann, einnig hann, ráði yfir slíkum gereyðingarvopnum. Nú er vitað að beiting kjarnorkuvopna er aldrei staðbundin, hún hefur víðtækari áhrif en séð verður fyrir og þau vara lengur – eins og við vorum minnt á í nýjustu skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snertingu. Önnur aðalpersóna hennar er „hibahusha“, brennimerkt af sprengjunni þótt hún hafi ekki verið fædd þegar sprengjan féll. Bandaríkjastjórn þótti líklega Japan nógu langt í burtu til að afleiðingar sprenginganna kæmu ekki illa niður á þeim en slíkar hugmyndir getur Vladimir Pútín ekki leyft sér. Hann er að leggja nágrannaríki í rúst og það þrátt fyrir nánast almenna alþjóðlega andstöðu, meðal annars af hálfu Sameinuðu þjóðanna. Ef til vill tapa Úkraínumenn þessu stríði en hver verður ávinningur Rússa? Fordæming heimsbyggðarinnar – kannski með örfáum undantekningum – vansælir þegnar sem ekki vilja þýðast nýja valdhafa. Hnípin þjóð og brotin, dreifð um allar jarðir. Áframhaldandi andóf innanlands. Meira að segja Bandaríkjamenn fóru að lokum með skottið milli afturlappanna frá Víetnam og Afganistan – þrátt fyrir áratugalangan hernað vannst enginn sigur.  Því að það er með friði sem við sigrum og nú tökum við undir með Jóhannesi úr Kötlum í „Þulu frá Týli“.

Horfumst í augu
fögnum morgunhvítri sólinni
laugum iljar okkar í dögginni
biðjum um frið
leggjum grasið undir vanga okkar
vermum frækornið í lófa okkar
stígum varlega á moldina
biðjum um frið
borum fingrinum í sandinn
sendum vísuna út í vindinn
speglum okkur í hylnum
biðjum um frið
reikum um fjárgöturnar
teljum stjörnurnar
hlustum á silfurbjöllurnar
biðjum um frið
göngum að leiði móður okkar
göngum að leiði föður okkar
minnumst hins liðna
biðjum um frið
tökum í hönd systur okkar
tökum í hönd bróður okkar
lyftum því sem er
biðjum um frið
lítum í vöggu dóttur okkar
lítum í vöggu sonar okkar
elskum hið ókomna
biðjum um frið
horfumst í augu
horfumst í augu gegnum fjarlægðirnar
horfumst í augu gegnum aldirnar
biðjum um frið

Þakka ykkur fyrir

B-2 sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli

Rýr svör við spurningum um sprengjuþotur

By Fréttir, Í brennidepli

Í Dagfara síðasta haust var fjallað um viðveru B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og hvað fælist í því að landið væri skilgreint sem útstöð fyrir þær. Til að fylgja málinu eftir sendu Samtök hernaðarandstæðinga eftirfarandi fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins:

Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.

Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.
Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga:

      1. Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
      2. Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
      3. Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
      4. Hvert væri efni slíks samkomulags?
      5. Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?

Að endingu barst stuttaralegt svar frá utanríkisráðuneytinu:

Almennt gildir að vera liðsafla og búnaðar Bandaríkjanna hér á landi er á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og síðari viðaukum við hann og afleiddra samninga. Staða Keflavíkurflugvallar er óbreytt frá 2006 þegar varanlegri viðveru Bandaríkjahers lauk hér á landi. Ekki eru gerðir sérstakir samningar um viðdvöl einstakra flugvéla eða haffara, en ávallt er haft samráð við utanríkisráðuneytið um komur þeirra.

Hvað varðar vangaveltur um komur loftfara eða skipa sem mögulega geta borið kjarnorkuvopn skal undirstrikað að þjóðaröryggsstefnan er afdráttarlaus hvað varðar þá stefnu að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við öll þau bandalagsríki Íslands sem búa yfir kjarnavopnum.

Hér er ýmsu ósvarað. Ef þetta er öll sagan þá virðist sem að ekkert samráð hafa verið haft við íslensk stjórnvöld um veru sprengjuþotana hér. Utanríkisráðuneytið virðist heldur ekki vilja eða geta lagt neitt mat á hvaða hernaðarlegu þýðingu það hefur fyrir landið að vera nú skilgreint sem útstöð þessara sprengjuþota. Það hallar augljóslega nokkuð á þann aðila að varnarsamning sem hefur ekki áhuga á að skilgreina hernaðarlega stöðu landsins. Hér dúkar svo aftur upp sú túlkun að viljayfirlýsingin um að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum í þjóðaröryggisstefnunni jafngildi slíkri friðlýsingu og að Bandaríkin hljóti að taka mið af því. Það teljum við ekki fullnægjandi tryggingu fyrir því að kjarnorkuvopn séu ekki flutt til landsins.

Það er sérstaklega mikilvægt nú þegar stríð hefur brotist út í Evrópu og Nató-ríkin auka viðbúnaðarstig sitt og vígvæðingu að íslensk stjórnvöld hafi allavega einhverja aðkoma að því að skilgreina hvað teljist til varna landsins, að þau hafi einhverjar forsendur til þess að setja mörk við því hve frjálslega bandaríski herinn megi túlka varnarsamninginn til að breyta Keflavíkurflugvelli í herstöð í árásarskyni. Þetta svar gefur ekki mikla von til þess.

Samtökin hafa vakið athygli á þessum rýru svörum við þingmenn og vonir standa til þess að eftir þeim leiðum fáist haldbetri svör frá utanríkisráðuneytinu. Við fylgjum því máli eftir og munum gera grein fyrir því.

Ályktun miðnefndar SHA um stríðið í Úkraínu

By Ályktun, Í brennidepli
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í morgun og gæti leitt til langvinns stríðs. Ekkert getur réttlæt slík viðbrögð og ljóst er að hernaðarátök í Úkraínu geti valdið mikilli eyðileggingu og þjáningum fólks. Hernaðurinn nú er enn eitt skipbrot þeirrar hugmyndafræði að tryggja megi frið og öryggi með vígvæðingu.
Frá lokum Kalda stríðsins hafa stórveldin látið renna sér úr greipum ótal tækifæri til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar. Þess í stað hefur verið grafið jafnt og þétt undan fullveldishugtakinu og viðteknum venjum í samskiptum ríkja. Við þessar aðstæður er brýnna en nokkru sinni fyrr að leita friðsamlegra lausna og standa við og styrkja enn frekar alþjóðlega afvopnunarsáttmála. Samtök hernaðarandstæðinga vara sérstaklega við öllum hugmyndum um að nýta átökin í Úkraínu sem réttlætingu fyrir auknum hernaðarumsvifum annars staðar, svo sem á vegum Nató á norðurslóðum. Samtökin vara jafnframt við inngripum sem gætu aukið á spennuna og leitt til kjarnorkustríðs.

Lærdómurinn af Hiroshima

By Í brennidepli

Stjörnufræðingurinn Þorsteinn Sæmundsson ritar grein í Morgunblaðið þann 8. nóvember þar sem hann veltir því fyrir sér hvort íslenskir friðarsinnar, sem minnast ár hvert kjarnorkuárásanna á Japan árið 1945, séu nægilega upplýstir um söguna. Óhætt er að róa fræðimanninn með því að fólkið sem gagnrýnir þennan stærsta einstaka stríðsglæp allra tíma er upp til hópa prýðisvel að sér í sagnfræði.

Áætlað er að yfir 200 þúsund manns hafi farist í kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki, en að auki lést fjöldi fólks síðar af sárum sínum eða úr sjúkdómum af völdum geislavirkni. Þrátt fyrir ólýsanlegan hrylling og blóðbað síðari heimsstyrjaldarinnar komust engar stakar árásir stríðsins í hálfkvisti við þessa atburði.

Fyrstu viðbrögð bandarískra ráðamanna og fjölmiðla við árásunum einkenndust af hefndarþorsta. Eyðing borganna tveggja var að margra mati réttmæt refsing fyrir framgöngu Japana í stríðinu og óteljandi ódæðisverk þeirra. Ekki leið þó á löngu uns stjórnvöld í Washington áttuðu sig á afleiðingum gjörða sinna og hófu í kjölfarið að réttlæta árásirnar, ekki sem hefnd heldur sem óhjákvæmilega aðgerð sem ákveðin var með þungum huga.

Henry Stimson, fyrrum varnarmálaráðherra BNA, ritaði snemma árs 1947 grein um hvernig ákvörðunin um að varpa kjarnorkusprengjunum hefði verið tekin. Í skrifum Stimson, sem oft er vitnað til, kom fram sú skoðun að árásirnar hefðu í raun bjargað mun fleiri mannslífum, þar sem reynt var að áætla mannfall ef til innrásar Bandaríkjahers á Japan hefði komið. Þessi túlkun er fyrirferðarmikil í grein Þorsteins.

Sagnfræðingar hafa fundið ýmsar veilur á þessari röksemdafærslu. Bent hefur verið á að það jaðri við rasísk viðhorf að fjalla um Japani sem óseðjandi stríðsvélar sem berðust út í rauðan dauðann óháð allri skynsemi. Heimildir í skjalasöfnum hafa leitt í ljós að Japanir voru á barmi uppgjafar fyrstu daga ágústmánaðar 1945. Þar skipti mestu máli yfirvofandi þátttaka Sovétmanna í stríðinu, en stjórninni í Tókýó leist enn verr á tilhugsunina um sovéskt hernámslið en bandarískt. Einnig má leiða líkum að því að Bandaríkjamönnum hafi verið mikið í mun að ljúka stríðinu áður en Sovétmenn blönduðu sér í leikinn fyrir alvöru, til að losna við þá frá friðarsamningaborðinu.

Eftir á að hyggja er ljóst að það sem öðru fremur seinkaði uppgjöf japanska hersins voru kröfur Bandaríkjamanna um afsögn keisarans. Slík skilyrði höfðu verið sett gagnvart evrópskum andstæðingum Bandamanna, en í Japan hafði keisarinn hálfguðlega stöðu. Þegar á hólminn var komið féllust Bandaríkjamenn á að keisarinn héldi völdum, en líklega hefði mátt ljúka styrjöldinni mun fyrr ef sú afstaða hefði legið fyrir.

En úr því að uppgjöf Japana var á næsta leyti, hvers vegna kaus þá Truman-stjórnin að beita þessu skelfilega vopni? Svarið við þeirri spurningu er margþætt. Í fyrsta lagi þyrsti marga Bandaríkjamenn í hefndir. Stríðsglæpir japanska hersins voru ærnir og litu ýmsir svo á að með þeim hefðu þeir fyrirgert öllum rétti sínum þannig að sjálfsagt væri að víkja til hliðar alþjóðalögum á borð við Genfarsáttmálann. Nokkuð eimir af því viðhorfi í fyrrnefndri grein Þorsteins.

Í annan stað hafði Manhattan-áætlunin við þróun kjarnorkusprengjunnar kostað svimandi fjárhæðir. Hætt var við því að einhverjir kynnu að setja spurningamerki við þá stjórnvísi að hafa eytt öllum þessum fjármunum, tíma og orku í miðri heimsstyrjöld til að þróa vopn sem ekki hefði verið nýtt í stríðinu sjálfu. Hefðu ekki vaknað spurningar eftir á um hvort sigur hefði unnist miklu fyrr en peningunum hefði ekki verið sóað í vítisvél sem ekki stóð til að nota í raun og veru?

Í þriðja lagi er um margt rökréttara að líta ekki aðeins á sprengjurnar í Hiroshima og Nagasaki sem þær síðustu sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni, heldur ekki síður sem þær fyrstu í nýrri styrjöld: Kalda stríðinu. Vitað er að Hiroshima varð ekki fyrir valinu sem skotmark vegna hernaðarlegs mikilvægis borgarinnar, raunar þvert á móti. Lítið hernaðarlegt gildi hennar gerði það að verkum að borgin hafði ekki orðið fyrir viðlíka árásum og aðrar japanskar borgir og var því með heillegasta móti. Skotmarkið var valið til að sýna fram á hámarkseyðileggingu, ekki sigruðum Japönum heldur verðandi fjendum – Sovétmönnum.

Árásirnar á Hiroshima og Nagasaki voru kaldrifjaðir stríðsglæpir sem framdir voru til að senda skýr skilaboð um hernaðarlega yfirburði Bandaríkjanna. Niðurstaðan varð vopnakapphlaup sem enn sér ekki fyrir endann á. Af þessu kapphlaupi hefur leitt að gerð kjarnorkuvopna hefur orðið sífellt einfaldari og ódýrari. Það sem einu sinni var bara á færi öflugustu risavelda með herskörum vísindamanna hefur nú verið leikið eftir af snauðum útlagaríkjum á borð við Norður-Kóreu. Það er hin ömurlega arfleifð glæpaverksins í Hiroshima fyrir rúmum þremur aldarfjórðungum.

Stefán Pálsson

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu

Fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins vegna B-2 véla Bandaríkjahers

By Fréttir, Í brennidepli

Miðnefnd SHA samþykkti í byrjun mánaðar að senda eftirfarandi fyrirspurn á utanríkisráðuneytið vegna B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem höfðu viðveru hér í ágúst og september:

 

Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.

Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.

Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga

  1. Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
  2. Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
  3. Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
  4. Hvert væri efni slíks samkomulags?
  5. Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?