All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Sveinn Rúnar Hauksson í friðargöngunni á Þorláksmessu 2023.

Ávarp Sveins Rúnars í Friðargöngunni 2023

By Í brennidepli
Góðu blysberar fyrir friði, ágæta fundarfólk
Það eru 43 ár liðin síðan fyrst var gengið fyrir friði á Þorláksmessu. Þá var skuggi kjarnorkuógnar yfir Evrópu og heimi öllum. Sú ógn hefur síst minnkað með árunum.
Kjarnorkuvopnum hefur einungis verið beitt af Bandaríkjaher. Það var í stríðslok þegar kjarnorkusprengjum var varpað á íbúa borganna Hiroshima og Nagasaki í Japan með hræðilegum afleiðingum sem enn sér ekki fyrir endann á. Nýverið varpaði ísraelskur hershöfðingi fram þeirri hugmynd að varpa kjarnorkusprengju á Gaza.
Allt frá stríðslokum hefur heimurinn þurft að horfa upp á ekki færri en hundrað stríð, og í langflestum tilvikum hefur bandalagsríki Íslands, Bandaríkin, verið að verki, beint eða óbeint. Ljót verk og hryllileg hafa verið unnin, sem fyrst og fremst hafa bitnað á óbreyttum borgurum. Oft hefur því skugga borið á, en sjaldan sem nú.
Í ellefu vikur hefur nú staðið yfir það, sem Ísraelsstjórn kallar „stríð gegn Hamas“ en er fyrst og fremst stríð gegn börnum, gegn mæðrum, stríð gegn Palestínu. Ef stríð skyldi kalla, þegar aðeins er um einn her að ræða, 500 þúsund manna her – þetta er næstum einsog þegar mest var í Víetnamstríðinu – og gegn honum standa einhverjir tugir þúsunda liðsmanna, andspyrnuhreyfinganna Al Qassam, Al Quds og fleiri minni hópa. Þeir fyrrnefndu er hluti eins tæknivæddasta hers heims, þeir síðarnefndu ráða yfir handvopnum og heimasmíðuðum eldflaugum. Netanyahu segir langt eftir af þessari útrýmingarherferð, þetta taki tíma. Markmiðið er löngu orðið ljóst, það er að eyða palestínskri byggð á Gaza. Stefna Ísraels er að hrekja Palestínumenn úr landi, en drepa þá ella.
Við þessari grimmd, þessari illsku, sem við verðum að horfast í augu við, er fátt annað til ráða en biðja bænirnar sínar, að biðja Guð að hjálpa sér, einsog formaður Eflingar orðaði það fyrir rúmum tveimur mánuðum, á fyrsta útiifundinum vegna árásanna á Gaza. En samstaða skiptir líka máli og nú hafa verið haldnar meira en 20 samstöðuaðgerðir af ýmsu tagi með þátttöku þúsunda; samstöðugöngur, útifundir, stór innifundur og tónleikar svo eitthvað sé nefnt.
Börn og mæður eru langstærsti hluti þeirra sem deyja í sprengjuárásum á Gaza, eða 70% þeirra sem láta lífið. Fjöldi barna sem hafa verið myrt af Ísraelsher nálgast nú 10 þúsund. Mun fleiri lifa af, særð og örkumla fyrir lífstíð og sennilega verður þeim erfiðast að glíma við sálrænar afleiðingar, áfallaraskanir sem seint linnir. Að sjálfsögðu hafa þessi börn ekkert með Hamas, Islamic Jihad eða aðra flokka að gera. Þau hafa ekkert til sakar unnið, annað en að vera fædd í Palestínu.
Tæpar tvær milljónir manna hafa hrakist frá heimilum sínum og eru á vergangi. Ekki er um neitt húsaskjól að ræða heldur í besta falli tjöld, oftast heimatilbúin. Þau veita lítið skjól fyrir vaxandi kulda og rigningum sem nú ganga yfir og flestir hafa ekkert skjól. Hætt er við að fleiri eigi eftir að deyja úr kulda, vosbúð og sjúkdómum en af völdum sprengja og byssukúlna.
Öll heilsugæsla og flest sjúkrahús eru óstarfhæf. Meira en helmingur heimila í landinu hafa verið jöfnuð við jörðu. Engu er hlíft, ekki sjúkrahúsum, ekki skólum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, ekki moskum eða kirkjum og ekki bakaríum, aldingörðum, ávaxtatrjám né neinu sem fólk hefur til lífsviðurværis. Enginn er óhultur og enginn staður öruggur. Þetta er gjöreyðingarherferð sem er ætlað að leysa Palestínu vandamálið í eitt skipti fyrir öll. Það var byrjað á Gaza en herferðin er farin að taka til Vesturbakkans í æ ríkari mæli.
Heimurinn hrópar nú á vopnahlé, en ekki nógu hátt. Ekkert vopnahlé, segir Netanyahu, við höldum stríðinu áfram í nokkra mánuði enn. Haldið skal áfram að murka lífið úr Palestínumönnum, varnarlausu fólki.
Er hægt að halda uppi eðlilegu stjórnmálasambandi við ríkisstjórn sem hagar sér þannig og sem telur sig hafna yfir öll lög, hvort sem er alþjóðalög eða ályktanir Sameinuðu þjóðanna? Getum við að minnsta kosti ekki tilkynnt sendiherra Ísraels, sem staðsettur er í Osló, að hann sé óvelkominn til Íslands?
Bandaríkjastjórn hefur beitt neitunarvaldi í Öryggisráði SÞ í þágu Ísraels til að fella tillögu um vopnahlé, sem er eina leiðin til að stöðva blóðbaðið.
Geta okkar stjórnvöld látið einsog ekkert sé, þegar horft er upp á tortímingu þjóðar, stríðsglæpi fyrir allra augum, þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð?
Við höfum gengið þessa blysför fyrir friði í 43 ár. Margt stríð og marga ógnina hefur borið á góma. En við höfum aldrei staðið í þeim sporum sem við stöndum nú.
Þessi hrylllingur sem horft er upp á á Gazaströndinni er meiri en í öðrum stríðum og eru þau ófá og nógu hræðileg og ævinlega óbreyttir borgarar sem verða mest fyrir barðinu á þeim.
En á Gaza eru aðstæður fólks svo margfallt verri en nokkurs staðar annars staðar. Aðalframkvæmdastjóri SÞ og talsmenn Barnahjálparinnar UNICEF tala skýru máli um að annað eins hafi aldrei sést.
2.3 milljónir manna höfðu verið lokaðar inni í herkví í 17 ár á smá landsvæði, Gaza-ströndinni, einu sem telst 360 ferkílómetrar. Nú hafa íbúarnir verið reknir eins og fé til slátrunar suðar á bóginn, stað úr stað, en ekkert dregið úr loftárásum. Sprengjuárásir hafa verið látlausar og stöðugt hert á, nema í stuttu hléi sem varði í nokkra daga.
Nú er flóttafólkinu gert að koma sér fyrir á Al Mawasi, sandbletti við ströndina hjá Rafah, svæði sem er 6 ferkílómetrar að stærð. Ekkert vatn nema sjórinn, engin hreinlætis- eða salernisaðstaða, ekkert eldsneyti né rafmagn, engin matvæli né lyf, engin heilsugæsla, engin aðstaða til eins né neins. Hér er meira en milljón manna, matarlaus og klæðafá, í vaxandi kulda og rigningu, ætlað að koma sér fyrir og bíða dauða síns.
Þennan hrylling verður að binda endi á. Vopnahlé er lífsnauðsyn og það strax. Bjarga verður þeim mannslífum sem hægt er með öllum ráðum.
Ef Netanyahu og Ísraelsher halda sinni gjöreyðingarherferð áfram, þá er Ísrael að grafa sér æ dýpri gröf. Báðir aðilar þurfa frið, réttlátan frið.
Það liggur fyrir að öll stjórnmálaöfl í Palestínu, þar á meðal Hamas-samtökin, vilja semja um frið við Ísrael, undir formerkjum alþjóðalaga og ályktana Sameinu þjóðanna, þar með landamæranna frá 1967, en þau ein hafa alþjóðlegt gildi.
Þessi lausn er í samræmi við stefnu Alþingis. Og við hljótum að krefjast þess af ríkisstjórn okkar og stjórnvöldum að þau leggi sig betur fram í að knýja Ísraelsstjórn að samningaborði.
Það verður líka krefjast þess af Bandaríkjastjórn að hún láti af skiilyrðislausum stuðningi sínum við gjöreyðingarherferð Ísraelshers.
Við viljum frið í Palestínu og frjálsa Palestínu.
Samstaðan er mikils virði. Hvert og eitt ykkar sem takið þátt hér í dag skiptir máli.
Milljónir króna hafa safnast í neyðaraðstoð, 17 ára stúlka sem misst hafði fjölskyldu sína í loftárásum á Gaza, sjálf misst ganglim og vildi sameinast bræðrum sínum á Íslandi, fékk nánast umsvifalaust ríkisborgararétt; allt þetta endurspeglar eindreginn hug íslensku þjóðarinnar og samstöðu hennar með palestínsku þjóðinni.
Jólin eru að ganga í garð með boðskap friðar, kærleika og vonar. Lítum til palestínsku þjóðarinnar sem mátt hefur búa við hernám og kúgun í 75 ár. Hún hefur mætt örlögum sínum með endalausri seiglu, hugrekki, friðarvilja og varðveitt mennskuna. Höfum hana að fyrirmynd. Syngjum Heims um ból, fullum rómi í trú á frelsi og frið.
Gleðileg jól.
-Sveinn Rúnar Hauksson
Friðargangan 2022

Friðarganga á Þorláksmessu

By Fréttir

Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á nýopnaða göngusvæðinu á Laugavegi, fyrir neðan Hlemm. Gangan leggur svo af stað niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.

Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Sveinn Rúnar Hauksson læknir flytur ávarp. Hann hefur um árabil verið iðinn við að halda á lofti málefnum Palestínu, en var einnig meðal skipuleggjenda fyrstu friðargöngunnar fyrir 42 árum síðan.

Fundarstjóri er Harpa Kristbergsdóttir og Anton Helgi Jónsson flytur friðarljóð. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.

Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gengið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.

Á Akureyri verður friðarganga á sama tíma og á Ísafirði vinna friðarsinnar einnig að skipulagningu göngu.

Fullveldismálsverður

Fullveldisfögnuður Friðarhúss

By Viðburður

Jólahlaðborð SHA ber að þessu sinni upp á föstudaginn 1. desember.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér að venju um krásirnar. Matseðill:

• Heimaverkuð sænsk jólaskinka með kartöflusalti, og sinnepssósu
• Heimagerð lifrakæfa og heimagert rúgbrauð
• Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
• Karrýsíld og Tómatsalsasíld
• Rækjufrauð
• Hnetusteik fyrir grænkera
• Kaffi, konfekt og döðulukaka með heitri karamellusósu

Sest verður að snæðingi kl. 19.

Að borðhaldi loknu hefst menningardagskrá. Þórdís Gísladóttir skáldkona les úr nýjustu bók sinni. Bára Baldursdóttir sagnfræðingur segir frá stóráhugaverðri nýju verki sínu um Ástandið og framgöngu yfirvalda gagnvart stúlkum sem tengdar voru við það. Að lokum tekur trúbadorinn Arnór Ingi nokkur lög.

Gestum í Friðarhúsi gefst líka færi á að skoða veggspjaldasýningu nema í Listaháskóla Íslands úr námskeiði um pólitíska list.

Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

októberfest

Októberfest-málsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverðir Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi eru að jafnaði síðasta föstudag í mánuði, nú þann 27. október.

Bjarki Hjörleifsson, Jónína Riedel og Friðrik Atlason sjá um eldamennskuna sem verður alvöru þýsk októberfest-veisla með pylsum og bulsum fyrir kjötætur jafnt sem grænkera. Systa mætir með sérbakað pretzel. Engar kröfur eru þó gerðar um lederhosen-klæðaburð gesta…

Húsið er opnað 18:30 en sest að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu verður kaffi og konfekt en því næst tekur við menningardagskrá þar sem Nanna Rögnvaldardóttir les úr nýrri bók sinni og Hemúllinn tekur lagið.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin

Áskorun um frið á Gaza

By Ályktun, Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess af ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að tafarlaust verði gert vopnahlé í stríði því sem nú geysar á Gaza. Íslenska ríkið stóð að samþykkt um stofnun Ísraelsríkis og hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og ber því skylda til að beita áhrifum sínum til að tryggja frið og velferð íbúa beggja ríkjanna.

Stríð er glæpur. Stríðsglæpur er glæpur á glæp ofan. Engin stríð hafa verið háð án stríðsglæpa.

Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur hlutfall óbreyttra borgara hækkað í samanburði við hlutfall hermanna sem deyja í stríðum og nú eru óbreyttir borgarar og varnarlaust fólk í meirihluta þeirra sem deyja og særast í lang flestum stríðum. Varnarlaust fólk er líka í miklum meirihluta þeirra sem stríðsglæpir bitna á. Stríðið á Gaza bitnar nú alfarið á varnarlausu fólki sem hefur engan stað til að flýja á, ekkert öruggt skjól og algjöran skort á lífsnauðsynjum. Helmingur íbúa Gaza eru börn og því leiða loftárásir til fjöldamorða á börnum. Árásir hafa verið gerðar á bæði sjúkrahús og sjúkrabíla og á fólk sem er að reyna að flýja.

Samtök hernaðarandstæðinga eru friðarhreyfing. Friðarsinnar leggja ekki höfuð áherslu á hverjir hafa góðan eða vondan málstað að berjast fyrir, heldur á að mál séu leyst án hernaðar og annars ofbeldis.

Það þarf að stöðva stríðið á Gaza strax með vopnahléi. Vopnahléi þarf að fylgja eftir með friðarsamningum þar sem öllu fólki verður tryggt öryggi, mannréttindi og almennt réttlæti. Friður og réttlæti fara saman, á meðan óréttlæti og yfirgangur er stærsta uppspretta stríðs. Of lengi hafa vestræn ríki horft framhjá yfirgangi öfgafullra landránsmanna studda hersetu og hernaðarofbeldi Ísraelsríkis og kæfandi herkvínni sem Gazasvæðinu hefur verið haldið í, með endurteknum brotum á alþjóðalögum. Það hefur verið vatn á myllu þeirra afla í röðum Palestínumanna sem telja einu færu leiðina að svara í sömu mynt og framlengir þannig vítahring hefnda með ofbeldi. Veruleg hætta er á að þetta stríð leiði til enn frekari stríðsátaka og hryðjuverka, sem geri lausn stríðsins ennþá erfiðari. Nú þarf að breyta um stefnu og ná víðtækri samstöðu ríkja um að stöðva þetta stríð strax, tryggja öryggi fólks á stríðssvæðinu og vinna að friðarsamningum.

Rauðrófusúpa og íslensk kjötsúpa

Septembermálsverður Friðarhúss

By Viðburður
Málsverðir SHA hefjast á ný í Friðrhúsi með haustlegum súpum og ný-uppteknu íslensku grænmeti í aðalhlutverki. Gamaldags íslensk kjötsúpa og vegan rauðrófusúpa með kjúklingabaunum í boði, heimaræktað litríkt salat og rauðrófur ásamt gamaldags kryddbrauði með smjöri. Á eftir verður svo konfekt og kaffi. Allt í boði matgæðinganna Systu og Lowönu.
Trúbadorinn Víf tekur lagið og Soffía Sigurðardóttir, ritari Samtaka hernaðarandstæðinga segir frá starfsemi Heimavarnarliðsins sem hleypti upp Nató-heræfingum á árunum í kringum 1990 og ræðir borgaralega óhlýðni og friðarstefnu.
Húsið opnar 18:30 en sest verður að snæðingi kl. 19, 2500 króna aðgangseyrir, öll velkomin.
Kertafleyting

Kertafleytingar um allt land 9. ágúst

By Viðburður

Íslenskir friðarsinnar hafa allt frá árinu 1985 fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Samkomur þessar hafa ýmis farið fram þann 6. ágúst eða 9. ágúst. Að þessu sinni verður Nagasakí-dagurinn, miðvikudagurinn 9. ágúst, fyrir valinu. Fleytt verður á fjórum stöðum á landinu, en rétt er að gæta að því að tímasetningar eru örlítið frábrugðnar frá einum stað til annars, sem skýrist m.a. af því hvenær fer að rökkna á einstökum stöðum.

Í Reykjavík verður safnast saman við suðvesturenda Tjarnarinnar og hefst fleytingin kl. 22:30. Einar Ólafsson skáld og bókavörður flytur ávarp. Eyrún Ósk Jónsdóttir les friðarljóð. Fundarstjóri verður Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.

Á Ísafirði koma friðarsinnar saman við Neðstakaupstað á Suðurtanga kl. 22:00. Harpa Henrýsdóttir flytur ávarp.

Á Akureyri verður kertafleytingin við Leirutjörn kl. 22:00. Guðrún Þórsdóttir flytur ávarp.

Austfirðingar láta ekki sitt eftir liggja. Þar verður kertafleyting við Lónið á Seyðisfirði og hefst kl. 22:00.

Stöðvið stríðið í Úkraínu strax – semjið um frið og sam­vinnu í Evrópu

By Ályktun
Við undirritaðir friðarsinnar á Íslandi skorum á leiðtoga evrópskra ríkja að stöðva stríðið í Úkraínu nú þegar og vinna í kjölfarið að friði og samvinnu í Evrópu.

Stríð eru óásættanleg leið til að útkljá ágreining ríkja eða hópa á milli. Evrópa getur státað af langri sögu siðmenningar og lýðræðis þar sem samvinna og þekkingarleit hafa leitt til stórkostlegra framfara. Við höfum einnig upplifað hrikalegar styrjaldir, átök, sundrungu og ofbeldi. Styrjaldir hafa aldrei leitt annað en hörmungar yfir álfuna og gera það einnig nú.

Stríðið í Úkraínu verður að stöðva tafarlaust með skilyrðislausu vopnahléi. Í kjölfarið þarf strax að ræða og semja um langvarandi frið sem er grunnur að mannréttindum og lýðræði. Friður og framfarir í Evrópu eru sameiginlegt verkefni álfunnar allrar. Þar mega þjóðarleiðtogar ekki láta sitt eftir liggja. Byrjum friðarferlið strax í dag.

  • 1. Anna Friðriksdóttir, lyfjafræðingur, Reykjavík
  • 2. Anna Guðmundsdóttir, friðarsinni, Reykjavík
  • 3. Anna S Hróðmarsdóttir, Reykjavík
  • 4. Anna Þorsteinsdóttir, þjóðgarðsvörður, Mývatnssveit
  • 5. Árni Hjartarson, jarðfræðingur, Reykjavík
  • 6. Ásta Steingerður Geirsdóttir, garðyrkjufræðingur og leiðsögumaður, Borgarfirði eystri
  • 7. Auður Alfífa Ketilsdóttir, Reykjavík
  • 8. Auður Lilja Erlingsdóttir, deildarstjóri, Reykjavík
  • 9. Árni Daníel Júlíusson, doktor í sagnfræði, Reykjavík
  • 10. Björgvin G. Sigurðsson, Selfossi
  • 11. Brynhildur Björnsdóttir, fjölmiðlakona og söngkona, Reykjavík
  • 12. Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri, Reykjavík
  • 13. Davíð Kristjánsson, Selfossi
  • 14. Dóra Svavarsdóttir, matreiðslumeistari og kennari, Reykjavík
  • 15. Drífa Eysteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Selfossi
  • 16. Drífa Lýðsdóttir, Reykjavík
  • 17. Einar Ólafsson, rithöfundur, Kópavogi
  • 18. Elín Oddný Sigurðardóttir, félagsfræðingur, Reykjavík
  • 19. Elísabet Berta Bjarnadóttir, Kópavogi
  • 20. Eygló Jónsdóttir, kennari og rithöfundur, Hafnarfirði
  • 21. Eyrún Ósk Jónsdóttir, rithöfundur, Hafnarfirði
  • 22. Finnbogi Óskarsson, efnafræðingur, Reykjavík
  • 23. Finnur Torfi Hjörleifsson, Borgarbyggð.
  • 24. Friðrik Atlason, teymisstjóri, Reykjavík
  • 25. Gísli Fannberg, Reykjavík.
  • 26. Guðbjörg Sveinsdóttir, geðhjúkrunarfræðingur, Kópavogi
  • 27. Guðmundur Guðmundsson, matvælafræðingur, Reykjavík
  • 28. Guðríður Adda Ragnarsdóttir, kennari. Reykjavík.
  • 29. Guðríður Sigurbjörnsdóttir, deildarstjóri, Reykjavík
  • 30. Guðrún Hallgrímsdóttir, Matvælaverkfræðingur, Reykjavík
  • 31. Guðrún Hannesdóttir, rithöfundur, Reykjavik
  • 32. Gunnar Þór Jónsson, Skeiða- og Gnúpverjahreppi
  • 33. Gunnlaugur Haraldsson, rithöfundur, Reykjavík
  • 34. Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, Reykjavík
  • 35. Gyða Dröfn Jónudóttir Hjaltadóttir, sálfræðingur, Reykjavík
  • 36. Gylfi Þorkelsson, kennari, Selfossi
  • 37. Hallberg Brynjar Guðmundsson, nemi, Reykjavík
  • 38. Hanna Kristín Hallgrímsdóttir, öryrki, Reykjavík
  • 39. Haraldur Ólafsson, prófessor, Reykjavik
  • 40. Harpa Kristbergsdóttir, aðgerðarsinni, Reykjavík
  • 41. Haukur Jóhannsson, verkfræðingur, Kópavogur
  • 42. Helga Kress, prófessor, Reykjavík
  • 43. Hjalti Hugason, prófessor emeritus, Reykjavík
  • 44. Hjörtur Hjartarson, Reykjavík.
  • 45. Hlynur Hallsson, myndlistarmaður, Akureyri
  • 46. Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, sérfræðingur hjá mennta- og barnamálaráðuneyti, Reykjavík
  • 47. Hringur Hafsteinsson, sköpunarstjóri, Garðabæ
  • 48. Hrund Ólafsdóttir, bókmenntafræðingur og kennari, Reykjavík
  • 49. Ingibjörg Haraldsdóttir, kennari, Reykjavík
  • 50. Ingibjörg V Friðbjörnsdóttir, Kópavogi
  • 51. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Reykjavík
  • 52. Ingvi Þór Kormáksson, hljómlistarmaður, Reykjavík
  • 53. Ísleifur Arnórsson, stúdentsefni, Reykjavík
  • 54. Jón Elíasson, sjómaður, Bolungarvík.
  • 55. Jón Karl Stefánsson, doktorsnemi, Reykjavik
  • 56. Júlíus K Valdimarsson, aðgerðasinni, Reykjavík
  • 57. Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur, Reykjavík
  • 58. Kári Þorgrímsson bóndi Garði Mývatnssveit
  • 59. Karl Héðinn Kristjánsson, fjölmiðlamaður, Reykjavík
  • 60. Kristín Böðvarsdóttir, kennari á eftirlaunum, Reykjavík
  • 61. Lowana Veal, aðgerðasinni og líffræðingur, Reykjavík
  • 62. María Hauksdóttir Kópavogur
  • 63. Nóam Óli Stefánsson, nemi, Reykjavík
  • 64. Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, íslenskukennari, Ísafirði
  • 65. René Biasone, varaþingmaður, Reykjavík.
  • 66. Rúna Baldvinsdóttir, öryrki, Reykjavík
  • 67. Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi, Reykjavík
  • 68. Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastjóri, Reykjavík
  • 69. Sigríður Gísladóttir, Dýralæknir, Ísafirði
  • 70. Sigrún Skúladóttir, sjúkraliði, Reykjavík
  • 71. Sigtryggur Jónsson Reykjavík Lífeyrisþegi.
  • 72. Sigurður Flosason, bifreiðastjóri, Kópavogi
  • 73. Sigurður G. Tómasson, f.v. útvarpsmaður, Mosfellsbæ
  • 74. Sigurður Ingi Andrésson, véltæknifræðingur, Selfossi
  • 75. Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur, Reykjavík
  • 76. Sjöfn Ingólfsdóttir, bókavörður, Reykjavík
  • 77. Soffía Sigurðardóttir, friðarsinni, Selfossi
  • 78. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Reykjavík
  • 79. Stefán Pálsson, sagnfræðingur, Reykjavík
  • 80. Steinarr Bjarni Guðmundsson, bílstjóri, Höfn
  • 81. Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir, sagnfræðingur, Reykjavík
  • 82. Svanur Gísli Þorkelsson, leiðsögumaður, Reykjanesbæ
  • 83. Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor, Reykjavík
  • 84. Sæþór Benjamín Randalsson, matráður, Kópavogi
  • 85. Tjörvi Schiöth, nemi, Reykjavík
  • 86. Trausti Breiðfjörð Magnússon, borgarfulltrúi, Reykjavík
  • 87. Trausti Steinsson, heimsreisumaður, Hveragerði
  • 88. Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, sagnfræðingur og sirkúslistakona, Ólafsfirði
  • 89. Valgeir Jónasson, rafeindavirki, Reykjavík
  • 90. Valgerður Bláklukka Fjölnisdóttir, þjóðfræðingur, Hafnarfirði
  • 91. Vigdís Hlíf Sigurðardóttir, kennari, Reykjavík
  • 92. Vilborg Ölversdóttir, Reykjavík
  • 93. Þór Vigfússon, myndlistarmaður, Djúpavogi
  • 94. Þóra Pálsdóttir, kennari, Kópavogi
  • 95. Þórarinn Hjartarson, sagnfræðingur og stálsmiður, Akureyri
  • 96. Þórarinn Magnússon, bóndi, Frostastöðum, Skagafirði
  • 97. Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir, Selfossi
  • 98. Þorvaldur Örn Árnason, líffræðingur, Vogum
  • 99. Þorvaldur Þorvaldsson, smiður, Reykjavík
  • 100. Þuríður Backman, fv. alþingismaður, Kópavogi
Þúfa

Dorgað fyrir friði! – Lítil þúfa veltir þungu hlassi

By Viðburður
Leiðtogar Evrópuráðsins koma saman í Reykjavík á sama tíma og blóðugt stríð fer fram í Úkraínu. Friðarsinnar hyggjast nota tækifærið til að hvetja leiðtogana til þess að vinna með öllum ráðum að því að átökum ljúki og samið verði um varanlegan frið. Í því skyni verður safnast saman við Þúfuna, útilistaverkið á norðvesturgarði Reykajvíkurhafnar – gegnt Hörpu kl. 17, þriðjudaginn 16. maí.
Friðarsinnar eru hvattir til að mæta með sjóstöng eða handfæri til að reyna að næla sér í nokkra marhnúta á meðan þjóðhöfðingjarnir eru minntir á friðarmálstaðinn.
1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Viðburður
Hitið upp fyrir kröfugönguna með hinu hefðbundna og einkar veglega 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga frá kl. 11 til 13. Gangan leggur svo af stað af Skólavörðuholti.
Í boði verða vöfflur eins og þið getið í ykkur látið og annað heimagert góðgæti. Aðgangseyrir einungis 500 krónur.