Ályktun vegna innrásar Ísraelshers í Rafah

Í ljósi þess að Ísraelsher hefur hafið innrás í Rafah þar sem ein og hálf milljón Palestínumanna hefst við áréttar miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga kröfu landsfundar um tafarlaust vopnahlé á Gasa og ákall til íslenskra stjórnvalda um aðgerðir til að knýja það fram. Árásirnar ógna lífi óbreyttra borgara, þar á meðal hundruða þúsunda barna og hafa nú þegar komið í veg fyrir streymi lífsnauðsynlegra hjálpargagna sem voru af skornum skammti fyrir.

Í ljósi þess að Ísrael hefur hafnað friðarsamkomulagi við Hamas og ráðist á Rafah þrátt fyrir viðvaranir allra helstu alþjóðastofnanna og bandamanna sinna verður alþjóðasamfélagið og Ísland að senda kröftug skilaboð.

Ísland verðu að krefjast tafarlauss vopnahlés og mannúðaraðstoðar til að forða frá enn frekara mannfalli. Til að fylgja því eftir verða íslensk stjórnvöld að beita sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna að hernaður Ísraelsríkis á Gasa verði úrskurðaður brot á alþjóðalögum og hvetja til þess að Alþjóðaglæpadómstóllinn kæri ráðamenn í Ísrael fyrir stríðsglæpi. Ísland á jafnframt að setja viðskiptabann á Ísrael og fyrirtæki sem styðja hernaðinn á Gasa og beita sér fyrir því að önnur ríki geri hið sama. Í framhaldi ætti að lýsa því yfir að hernaðarlegur stuðningur, vopnasala og vopnaflutningar til Ísraels verði taldir samsekt með stríðsglæpum.

Í kjölfarið ættu íslensk stjórnvöld að hvetja báða aðila til áframhaldandi friðarsamninga sem miða að lausn gísla beggja aðila og varanlegu friðarsamkomulagi sem tryggir öryggi og frelsi beggja þjóða.