Category

Ályktun

Ályktun landsfundar: Ísland úr Nató – sem aldrei fyrr!

By Ályktun

Stríðið í Úkraínu hefur reynst vatn á myllu hernaðarsinna og þeirra afla sem telja að frið og öryggi megi tryggja með vígvæðingu og vopnavaldi. Skoðanakannanir benda til þess að talsverður hópur fólks láti hörmungarfréttirnar hræða sig til stuðnings við hernaðarbandalagið Nató og ríki sem til áratuga kusu að standa utan hernaðarbandalaga láta nú hrella sig inn í bandalagið.

Ömurlegt stríðið ætti þó þvert á móti að vera hernaðarandstæðingum brýning til að verða enn harðari í baráttu sinni gegn vopnakapphlaupi, hvers kyns vígbúnaðaráformum og aðild Íslands að Nató. Hernaðarbandalög ala á ófriði, skikka aðildarríki sín til að sóa svimandi fjárhæðum til vopnakaupa sem enn ala á vandann og koma í veg fyrir skynsamlegri nýtingu verðmæta.

Hernaðarbandalagið Nató skilur eftir sig blóðuga slóð íhlutana víða um lönd og skemmst að minnast framferði þess í Líbíu sem hafði hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa landsins og hratt af stað flóttamannabylgju. Hornsteinn í stefnu Nató eru kjarnorkuvopnin sem fela í sér hótun um gjöreyðingu mannkyns. Nató er siðferðilega gjaldþrota stofnun og því fyrr sem Íslendingar segja skilið við það, því betra. Öryggi Íslendinga er best tryggt með því að standa með friðarstefnu, sniðganga öll hernaðarbandalög og stugga hernaðartólum burt úr landhelginni og af íslensku landi.

Ályktanir landsfundar SHA 2022

By Ályktun

Ísland úr Nató!

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022, minnir á kröfuna um úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu. Atburðir síðustu vikna, með stríðinu í Úkraínu, sýna rækilega fram á fánýti hernaðarbandalaga.

Rússar skáka í skjóli kjarnorkuvopnaeignar sinnar, á nákvæmlega sama hátt og Nató byggir hernaðarstefnu sína á kjarnorkuvopnum, sem bandalagið áskilur sér rétt til að beita að fyrra bragði. Hver sá sem fordæmir yfirgang Rússlands hlýtur jafnframt að mótmæla þessum hornsteini í hernaðarstefnu Nató.

Stríðið í Úkraínu er nýjasta birtingarmyndin af íhlutunarstefnu stórveldanna, þeirri sömu íhlutunarstefnu og fram hefur komið í innrásum Nató-herja, svo sem í Líbýu. Og skemmst er að minnast þess hvernig ástand tveggja áratuga herseta Nató í Afganistan hefur skilið eftir sig.

Öryggi Íslands verður best tryggt með því að standa utan hernaðarbandalaga, hafna hvers kyns vígvæðingu og stugga hernaðartólum á brott úr landhelginni í stað þess að bjóða þeim hingað til heræfinga eins og nú standa yfir. Það er varasamt að þvæla þannig saman borgaralegum vörnum landsins og hernaðarbrölti Bandaríkjanna. Samþykkt Íslands á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann  við kjarnorkuvopnum, sem er skýlaus krafa SHA, væri mun farsælla skref til friðsælli framtíðar.

 

Tafarlausan frið í Úkraínu

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn laugardaginn 2. apríl 2022 fordæmir innrás Rússa í Úkraínu og krefst tafarlausra friðarsamninga til að draga úr þjáningum almennra borgara. Stríðið í Úkraínu er það alvarlegasta í Evrópu frá tímum átakanna á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar. Kjarnorkuveldi hefur ráðist inn í nágrannaland sitt með það að markmiði að breyta landamærum þess með hervaldi.

Stríðinu í Úkraínu mun ekki ljúka nema við samningaborðið. Allar vonir um að lausn stríðsins náist með stigmögnun hernaðarátaka og fleiri vopnum eru tálsýn ein. Allra leiða verður að leita til að ná tafarlausu vopnahléi og í kjölfarið friðarsamningum til að afstýra áframahaldandi þjáningum almennings í Úkraínu. Öryggi heimsins alls er að veði.

Samtök hernaðarandstæðinga hvetja stjórnvöld til að axla sína ábyrgð í að taka á móti flóttafólki vegna stríðsins í Úkraínu. Ekki er síður mikilvægt að taka á móti þeim mönnum, frá báðum fylkingum, sem samvisku sinnar vegna neita að taka þátt í stríðsátökum.

Ályktun miðnefndar SHA um stríðið í Úkraínu

By Ályktun, Í brennidepli
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í morgun og gæti leitt til langvinns stríðs. Ekkert getur réttlæt slík viðbrögð og ljóst er að hernaðarátök í Úkraínu geti valdið mikilli eyðileggingu og þjáningum fólks. Hernaðurinn nú er enn eitt skipbrot þeirrar hugmyndafræði að tryggja megi frið og öryggi með vígvæðingu.
Frá lokum Kalda stríðsins hafa stórveldin látið renna sér úr greipum ótal tækifæri til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar. Þess í stað hefur verið grafið jafnt og þétt undan fullveldishugtakinu og viðteknum venjum í samskiptum ríkja. Við þessar aðstæður er brýnna en nokkru sinni fyrr að leita friðsamlegra lausna og standa við og styrkja enn frekar alþjóðlega afvopnunarsáttmála. Samtök hernaðarandstæðinga vara sérstaklega við öllum hugmyndum um að nýta átökin í Úkraínu sem réttlætingu fyrir auknum hernaðarumsvifum annars staðar, svo sem á vegum Nató á norðurslóðum. Samtökin vara jafnframt við inngripum sem gætu aukið á spennuna og leitt til kjarnorkustríðs.

Ávarp samstarfshóps friðarhreyfinga á Þorláksmessu

By Ályktun, Tilkynningar

Frá árinu 1980 hafa andstæðingar stríðs og vígbúnaðar efnt til friðargöngu á Þorláksmessu. Þar hefur verið gengið niður Laugaveginn í Reykjavík, sem og á öðrum stöðum á landinu, með kórsöng og loga lifandi ljósa til að minna á kröfuna um heim án ofbeldis, kúgunar og átaka. Friðargangan hefur orðið nær ómissandi þáttur í jólahaldi fjölda fólks og áminning um mikilvægi æðri gilda og hugsjóna á tímum sem oft eru undirlagðir af streitu og neysluhyggju.
Það er því afar sárt að annað árið í röð neyðist samstarfshópur friðarhreyfinga til að fella niður friðargöngu á Þorláksmessu. Ástæðan er þó öllum kunn, samkomutakmarkanir vegna Covid-heimsfaraldursins.

Faraldur þessi, sem fangað hefur svo stóran hluta af athygli heimsbyggðarinnar undanfarin misseri, er prýðileg áminning um að þrátt fyrir allt erum við Jarðarbúar öll á sama báti. Örlög okkar eru samofin óháð efnahag eða hernaðarmætti. Þær svimandi fjárhæðir sem dælt er í vígbúnað og rekstur herja koma að engu gagni andspænis hinum raunverulegu ógnum sem að mannkyni steðja eins og loftslagsvánni eða farsóttum. Lausn slíkra vandamála verður ekki fundin með valdbeitingu heldur einvörðungu með sameiginlegu átaki okkar allra og með því að tryggja raunverulegt samfélagslegt réttlæti. Vígbúnaður elur hinsvegar á gagnkvæmri tortryggni og er í sjálfu sér ógn við mannkyn.

Umhverfisváin og heilbrigðisógnin ættu einnig að vekja okkur til vitundar um þá skelfilegu sóun sem hernaðarvélum heimsins fylgja. Á hverri mínútu er svimandi fjárhæðum varið úr sameiginlegum sjóðum til að hlaða undir þau öfl sem hagnast á hermennsku og vígvæðingu. Þær upphæðir sem varið er til að takast á við mörg brýnustu samfélagslegu verkefni samtímans blikna við hliðina á þeim tölum sem stríðsmangarar veraldar hafa úr að spila. Erfitt er að gera sér í hugarlund þær framfarir sem tryggja mætti með því að beina hernaðarútgjöldum heimsins til annarra og nytsamlegri verkefna.

Sturlaðasta dæmið um hergagnahítina er rekstur kjarnorkuvopnabúra stórveldanna. Nú þegar búa þau yfir mætti til að tortíma öllu lífi á hnettinum nokkrum sinnum, en áfram er haldið í þróun og framleiðslu. Þótt kjarnorkuógnin kunni að virðast fjarlægari nú en á tímum kalda stríðsins er hættan síst minni og ekki þyrfti annað en fljótfærnisákvörðun eða bilun í tæki til að ógna tilvist mannkyns eins og við þekkjum hana í dag.

Íslenskir friðarsinnar hafa um langt skeið kallað eftir því að stjórnvöld skipi Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Sá samningur er raunhæfasta leiðin til uppræta þessi skelfilegu vopn á sama hátt og fyrri afvopnunarsáttmálar hafa gert framleiðslu og notkun á jarðsprengjum, sýkla- og efnavopnum siðferðislega óverjandi.

Í ár gafst friðarsinnum ekki færi á að ganga á Þorláksmessu til að minna á kröfur sínar um friðsæla framtíð, án styrjalda og vopnakapphlaups. Vonandi verður dagurinn í dag þó tilefni til að sem allra flestir íhugi málstað friðarhreyfingarinnar og sýni stuðning sinn með hverjum þeim hætti sem verða vill.

Gleðileg jól og friðsælt komandi ár.

-Félag leikskólakennara
-Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
-Samhljómur menningarheima
-Samtök hernaðarandstæðinga
-SGI, mannúðar og friðarsamtök búddista

Bréf til þingheims

By Ályktun, Tilkynningar

Eftirfarandi bréf var sent á nýkjörna þingmenn í desember til að kynna okkar málstað:

Kæri þingmaður

Til hamingju með það verkefni sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í þessu hlutverki. Við viljum jafnframt nýta tækifærið til að vekja athygli þína á ýmsu því er snýr að friðar- og afvopnunarmálum.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Kjarnorkuveldin hafa brugðist þeirri skyldu sinni að stuðla að afvopnun en halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Bandaríkin hafa t.d. stefnt að þróun „hagnýtra“ kjarnavopna til nota í hernaði. Þess vegna hafa 56 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Ekkert kjarnorkuveldanna eða aðildaríkja Nató hefur tekið það skref en við skorum á þig að beita þér fyrir aðild Íslands að þessum samningi. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.

* Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu Nató, sem er fyrst og fremst tæki til að styðja við hagsmuni lykilríkja þess og þá einkum Bandaríkjanna. Allt tal um lýðræðislegt eðli bandalagsins er innantómt með tilliti til þess valds sem þau ríki hafa yfir bandalaginu. Stríðsaðgerðir bandalagsins hafa  þvert á móti grafið undan friði og lýðræði í heiminum. Þá má nefna Tyrkland og fleiri aðildarríki Nató sem varla geta talist lýðræðisríki. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr Nató.

* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Það er okkar mat að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar og leggja grunn að sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við skorum á þig að leggja þeirri uppsögn lið og standa gegn öllum áformum um aukna viðveru erlendra herja hér á landi.

* Nokkrum sinnum á ári er hér á landi skipulagt æfingaflug orrustuflugmanna Nató-ríkja í æfingum sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla. Hér er einungis um að ræða niðurgreiddar heræfingar sem eru engum til gagns en mörgum til ama. Nýjasta dæmið er æfingarflug B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem gegna augljóslega engu varnarhlutverki fyrir Ísland. Umhverfisáhrif þessa æfingaflugs eru líka umtalsverð og ganga gegn markmiðum Ísland í loftslagsmálum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að flugæfingum þessum verði hætt hið snarasta.

* Á síðustu árum hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað í Miðausturlöndum með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Í þeim eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar eða bakhjarlar og vopnasalar. Brottför Bandaríkjanna og Nató frá Afganistan síðasta sumar og valdataka Talibana eftir 20 ára stríð sýnir hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að stórveldin láti af íhlutunarstefnu sinni og að böndum verði komið á alþjóðlega vopnasölu.

* Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Nató-ríki bera þar þunga ábyrgð, svo sem í Afganistan og Sýrlandi en hafa með örfáum undantekningum ekki tekið við flóttamönnum í samræmi við það. Við skorum á þig að berjast fyrir því að Ísland styðji flóttamannahjálp, þar á meðal með því að taka við mun fleira fólki.

* Styrjaldir og átök í heiminum eiga sér undantekningarlítið efnahagslegar rætur. Friður á traustum grunni verður aldrei tryggður nema með félagslegu réttlæti í heiminum. Við skorum á þig að vinna í störfum þínum gegn kúgun, arðráni og ofbeldi í hvaða mynd sem er.

Guttormur Þorsteinsson,

fomaður Samtaka hernaðarandstæðinga
8. desember 2021

Ályktanir Landsfundar SHA 2021

By Ályktun

Ályktun um vígbúnað á norðurslóðum

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. maí 2021, varar við síauknum hernaðarumsvifum á Norðurslóðum. Þeirra sér m.a. stað á Grænlandi, í Færeyjum, í Noregi og á Íslandi. Nálega stöðug viðvera hermanna á Keflavíkurflugvelli, reglubundnar heræfingar og sífelldar fréttir af draumum ýmissa aðila um stórfellda hernaðaruppbyggingu hér á landi eru áminning um mikilvægi baráttunnar gegn her í landi.

Umhverfis Ísland sigla kjarnorkukafbátar með ógurlegum eyðileggingarmætti og mengunarhættu og eiga í stöðugum eltingaleikjum við eftirlitsvélar Bandaríkjamanna sem hér eru tíðir gestir og illir. Vígvæðing norðurslóða er grafalvarleg ógn við náttúru jafnt sem öryggi íbúa svæðisins. Ísland á að tala máli afvopnunar í þessum heimshluta og ganga á undan með góðu fordæmi með því að banna heræfingar, friðlýsa landið og lögsöguna fyrir skaðræðisvopnum og segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin tafarlaust.

Ályktun um kjarnorkuafvopnun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. maí 2021 krefst þess að íslensk stjórnvöld undirriti Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sem öðlaðist gildi 22. janúar síðastliðinn. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga í öllum flokkum styður undirritun sáttmálans og fjölmörg félagasamtök úr öllum geirum hafa hvatt til þess. Við hvetjum stjórnmálaflokka og frambjóðendur til Alþingis til að taka undirritun sáttmálans upp fyrir næstu kosningar svo Ísland geti gengið í lið með þeim 54 löndum sem hafa bannað kjarnorkuvopn og hverskyns fluttning á þeim, eða stuðning við framleiðslu þeirra og dreifingu. Í því samhengi er minnt á að Nató er kjarnorkubandalag og helsta hindrunin í vegi þess að Ísland skrifi undir sáttmálann.

Jafnframt lýsir landsfundur yfir áhyggjum af þróun og framleiðslu kjarnorkuveldanna á nýjum kjarnorkuvopnum. Landsfundur leggur einnig áherslu á nauðsyn þess að taka aftur upp samninga um kjarnorkuafvopnun, t.d. Samninginn við Íran og um bann við meðaldrægum kjarnorkuvopnum sem Bandaríkin sögðu upp árið 2018 og 2019, með alvarlegum afleiðingum fyrir öryggi heimsins. Við mælumst til þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir þessu á alþjóðavettvangi enda hafa allar þjóðir hagsmuni af því að draga úr líkum á beitingu kjarnorkuvopna.

Sameiginleg áskorun til íslenskra stjórnvalda að fullgilda samning SÞ um bann við kjarnorkuvopnum

By Ályktun, Fréttir

Eftirtalin félög skora á íslensk stjórnvöld að fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum en samningurinn var samþykktur af 122 ríkjum á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 7. júlí 2017. Hinn 24. október sl. höfðu 50 ríki fullgilt samninginn og mun hann því taka gildi í dag, þann 22. janúar 2021.

Samningurinn festir í sessi afdráttarlaust bann við notkun kjarnorkuvopna á grundvelli alþjóðlegra mannúðarlaga sem tryggja skal eyðingu og afnám slíkra vopna, sem og bann við framleiðslu, flutningi, þróun, prófun, geymslu eða hótunum um notkun þeirra. Samningurinn undirstrikar þá alvarlegu hættu sem stafar af áframhaldandi tilvist kjarnorkuvopna og þeim óafturkræfu og gereyðandi afleiðingum sem slík vopn valda. Samningurinn skuldbindur ríki einnig til að koma þolendum kjarnorkuvopnanotkunar og tilrauna til aðstoðar ásamt því að koma á endurbótum vegna mengaðs umhverfis af völdum þeirra.

Nýleg könnun á vegum International Campaign to Abolish Nuclear Weapons (ICAN) á Íslandi leiddi í ljós að 86% þeirra sem spurðir voru eru hlynntir gildistöku samningsins á Íslandi. Þá eru jafnframt 75% hlynntir því að Ísland verði fyrst NATO ríkja til að skrifa undir og fullgilda samninginn. Sambærilegar kannanir voru gerðar í Belgíu, Danmörku, Hollandi, Ítalíu og á Spáni og leiddu í ljós að nálægt eða yfir 80% eru fylgjandi samningnum og endurspegla þannig yfirgnæfandi stuðning almennings í þessum ríkjum gagnvart samningnum og gildistöku hans.

Kjarnorkuvopn hafa í för með sér óafturkræfan eyðileggingarmátt. Engin læknis- eða mannúðaraðstoð er möguleg strax í kjölfar kjarnorkuárásar. Til frambúðar hefur slík árás skelfilegar afleiðingar fyrir mannfólk, dýraríki, umhverfi og loftslag, svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif á landbúnaðarframleiðslu, ásamt skyndilegri hitalækkun og minnkun úrkomu á heimsvísu vegna reyks og rykmyndunar. Bann við kjarnorkuvopnum er því eina tryggingin gegn notkun slíkra vopna og þeim afleiðingum sem notkun þeirra hefur í för með sér.

Við undirrituð hvetjum íslensk stjórnvöld til þess að veita vilja almennings vægi og taka skref í átt að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Aðild Íslands að samningnum er nauðsynleg til að stuðla að vernd almennra borgara, lífríkis og náttúru til framtíðar og styrkja enn fremur stöðu þeirra alþjóðlegu samninga um kjarnorkuvopn sem Ísland á nú þegar aðild að. Með undirritun og fullgildingu samningsins er fyllt upp í mikilvægar eyður sem fyrri samningar hafa ekki kveðið á um.

Nánari upplýsingar um ICAN og skoðanakönnunina má nálgast hér:

https://www.icanw.org/nato_poll_2021

 

Alda félag um sjálfbærni og lýðræði
Alþýðusamband Íslands
Íslandsdeild Amnesty International
Barnaheill
Biskupsstofa
Hjálparstarf kirkjunnar
Húmanistahreyfingin
Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands
Kvenréttindafélag Íslands
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Landssamtökin Þroskahjálp
Læknafélag Íslands
Mannréttindaskrifstofa Íslands
Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna
Náttúruverndarsamtök Íslands
Rauði krossinn á Íslandi
Samtök hernaðarandstæðinga
Samtökin 78
Siðmennt
Soka Gakkai International á Íslandi
UNICEF á Íslandi
UN Women á Íslandi
Öryrkjabandalag Íslands

Ályktun um uppsögn varnarsamningsins

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga haldinn 12. september 2020 áréttar nauðsyn þess að varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna verði tafarlaust sagt upp og Ísland segi sig úr hernaðarbandalaginu Nató. Þau alvarlegu mistök voru gerð við lokun herstöðvar Bandaríkjamanna á Íslandi árið 2006 að fella ekki úr gildi varnarsamninginn. Vegna hans og viðbótarbókana sem síðar hafa verið gerðar, er Bandaríkjaher í raun tryggt sjálfdæmi um þau umsvif sem hann kýs að hafa hér á landi. Birtingarmynd þess er t.a.m. umfangsmikið kafbátaleitarflug og hvers kyns hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli sem minna á herstöð að öllu nema að nafninu til.

Síðustu misseri hafa einkennst af stórfelldri hernaðaruppbyggingu á Norðurslóðum, svo sem í norðanverðu Rússlandi, í Skandinavíu, á Grænlandi og einnig hér á landi. Glórulausar hugmyndir sem kynntar hafa verið um uppbyggingu herskipaaðstöðu í Helguvík eru í takt við þessa þróun.

Vígbúnaðarkapphlaup í norðurhöfum ætti að vera öllu hugsandi fólki áhyggjuefni. Hagsmunir Íslendinga felast ótvírætt í því að norðurslóðir séu lausar við hernaðaruppbyggingu og umferð vígvéla.

Ályktun um afvopnun og forgangsröðun

By Ályktun

Í ágústmánuði síðastliðnum tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún hefði varið níu milljörðum Bandaríkjadala til þróunar á bóluefni við COVID-19 sjúkdómnum sem kostað hefur líf um 900 þúsund Jarðarbúa og lagt heilu ríkin og samfélögin á hliðina. Fjárútlát þessi voru kynnt sem gríðarlega metnaðarfull aðgerð í baráttu við einhverja mestu ógn seinni tíma.

Í þessu samhengi er þó mikilvægt að hafa í huga að upphæð þessi er rétt um fjórðungur af því sem áætlað hefur verið að Bandaríkjastjórn eyði á ári í rekstur, viðhald og þróun kjarnorkuvopna sinna.

Samkvæmt útreikningum alþjóðasamtakanna ICAN eyða kjarnorkuveldin níu sem nemur tuttugu milljónum íslenskra króna í vopnabúr sín á hverri einustu mínútu allan ársins hring. Þessi gegndarlausa sóun hefur aukist hratt á síðustu misserum og virðist bara fara vaxandi.

Kjarnorkuvopn skapa ekki bara ógn við allt líf með tilvist sinni, heldur gleypa þau fjármuni sem nýta hefði mátt til að kljást við raunveruleg aðsteðjandi vandamál á borð við farsóttir og loftslagsbreytingar.

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 12. september 2020, minnir á kröfuna um útrýmingu kjarnorkuvopna og hvetur stjórnvöld og Alþingi til að gera Ísland að aðildarríki sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Herskip

Hernaðarbrölt í heimsfaraldri

By Ályktun, Í brennidepli
Herskip

Á miðvikudaginn sendi Trump Bandaríkjaforseti herafla til Karabíska hafsins í framhaldi af ákæru á hendur forseta Venesúela fyrir eiturlyfjasmygl. 15 milljónir bandaríkjadala voru settar til höfuðs forsetanum og liðsflutningarnir á svæðinu eru þeir mestu síðan 1989 þegar Bandaríkin réðust inn í Panama. Efnahagsþvinganir og valdaránstilraunir hafa ekki náð fram markmiðum Bandaríkjastjórnar í Venesúela svo að nú er stríðið gegn eiturlyfjum notað sem skálkaskjól. Það hefur lengi verið afsökun fyrir íhlutunum og hernaðarafskiptum Bandaríkjanna á svæðinu en samt er það bandalagsríkið Kólumbía sem er ábyrgt fyrir mestum útflutningi eiturlyfja.

Það er sérstaklega óábyrgt að standa í svona hernaðarbrölti í miðjum heimsfaraldri þegar ætti þvert á móti að draga úr spennu og slaka á viðskiptaþvingunum til að hægt sé að senda nauðsynleg hjálpargögn og grípa til viðeigandi ráðstafanna. Þetta á ekki bara við um fórnarlömb Bandarískra íhlutana heldur Bandaríkin og bandalagsríki þeirra sjálf sem eru hvað verst leikin af Covid-faraldrinum. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvatti um daginn til vopnahlés á öllum stríðssvæðum þar sem farsóttir geta bætt gráu ofan á svart. Það er því óðs manns æði að kynda enn frekar undir ófriði í heiminum með vopnaskaki í Karabíska hafinu.

Miðnefnd samtaka hernaðarandstæðinga samþykkti því að skrifa undir opið bréf belgísku friðarsamtakanna Agir Pour La Paix til evrópskra stjórnvalda um að beita sér gegn þessum aðgerðum og einbeita sér frekar að því að styrkja þá innviði sem þarf til að ná tökum á faraldrinum.