Skip to main content

Febrúarmálsverður Friðarhúss

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudaginn 24. febrúar nk.

Matseldinn verður í höndum Daníels Hauks Arnarssonar og Snærósar Sindradóttur. Þau bjóða upp á:

* Fiskisúpu

* Grænmetissúpu

* Brauð

Tónlistarmennirnir Gímaldin og Skúli mennski taka lagið að borðhaldi loknu.

Sest verður að snæðingi kl. 19:00. Verð kr. 1.500. Allir velkomni.

Kjúklingaforingi í Friðarhúsi

By Uncategorized

Heimildarmyndin Íslenska sveitin eftir Kristinn Hrafnsson og Friðrik Guðmundsson vakti mikla athygli fyrir fáeinum misserum. Hún dró upp ógleymanlega mynd af hinu svokallaða friðargæsluliði Íslendinga á flugvellium í Kabúl, sem margir töldu bera skýr merki þess að vera hersveit.

Erlenda útgáfa myndarinnar, The Chicken Commander, var enn beittari og áhrifameiri. Myndin hefur öðru hvoru verið sýnd í Friðarhúsi á vegum Samtaka hernaðarandstæðinga.

N.k. mánudag, 13. febrúar kl. 20, verður myndin sýnd á ný í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Friðarsinnar eru hvattir til að mæta.

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Uncategorized

Friðarganga á Þorláksmessu 2010. changemaker.is

Þrjár friðargöngur verða á Þorláksmessu. Í Reykjavík, á Ísafirði og á Akureyri. Tvær þær fyrstnefndu hefjast klukkan 18, en Norðlendingar bíða til kl. 20.

Í Reykjavík verður safnast saman á Hlemmi frá klukkan 17.45 og lagt af stað klukkan 18. Í lok göngu verður fundur á Lækjartorgi þar sem Magnús Þorkelsson, aðstoðarskólastjóri í Flensborgarskóla, flytur ávarp en fundarstjóri er Bryndís Björgvinsdóttir, þjóðfræðingur og rithöfundur. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

Á Ísafirði verður lagt af stað frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18 og gengið niður á Silurtorg. Lúðrasveit tónlistarskólans spilar og Brynja Huld Óskarsdóttir flytur ávarp.

Á Akureyri stendur hópurinn Friðarframtak fyrir blysför í þágu friðar klukkan 20. Gengið verður frá Samkomuhúsinu Hafnarstræti og út á Ráðhústorg. Kerti á staðnum. Ávarp flytur séra Sólveig Lára Guðmundsdóttir og Eyrún Unnarsdóttir syngur.

Fréttir frá landsfundi SHA

By Uncategorized

Landsfundur SHA var haldinn í Friðarhúsi 25.-26. nóvember. Ný miðnefnd var kjörin á fundinum. Hana skipa:

Auður Lilja Erlingsdóttir, Bergljót Njóla Jakobsdóttir, Elías Jón Guðjónsson, Harpa Stefánsdóttir, Hildur Lilliendahl, Sigurður Flosason, Stefán Pálsson (formaður), Þorvaldur Þorvaldsson og Þórir Hrafn Gunnarsson. Varamenn: Jóhann Páll Jóhannsson, Kolbeinn Hólmar Stefánsson, Snæbjörn Guðmundsson.

Þrjár ályktanir voru samþykktar á fundinum:

1. Ályktun um herskipakomur

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga fagnar þeirri stefnubreytingu sem orðið hefur hjá borgaryfirvöldum í Reykjavík í garð herskipa sem hingað leita til hafnar. Um langt árabil hafa slíkir aðilar þótt aufúsugestir í ráðhúsinu og verið fagnað með veislum og móttökum. Greinileg breyting hefur orðið á viðhorfi stjórnenda borgarinnar í þessu efni á liðnum misserum. SHA lýsa yfir ánægju með að þetta hefur orðið til að fækka verulega herskipakomum.

SHA hvetja borgina til að úthýsa þessum gestum með öllu. Þá árétta þau þá kröfu til Alþingis að Ísland og íslensk landhelgi verð nú þegar friðlýst fyrir umferð kjarnorkuvopna. Minnt er á að þorri sveitarfélaga á Íslandi hefur þegar samþykkt slíka kjarnorkufriðlýsingu, höfuðborgin þar á meðal.

2. Ályktun um alþjóðamál

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga minnir á þá eindregnu kröfu friðelskandi fólks að Ísland gangi nú þegar úr árásarbandalaginu Nató. Bandalagið hefur orðið árásargjarnara með hverju árinu sem líður, eins og gleggst kom fram í stríðinu í Líbýu, þar sem Nató og helstu forysturíki þess brutu á gegn alþjóðalögum, grófu undan stöðu Sameinuðu þjóðanna og ollu gríðarlegum hörmungum í landinu, sem ekki sér fyrir endann á.

Jafnframt lýsa samtökin áhyggjum af þeim stríðsæsingum sem einkenna utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar um þessar mundir og virðist nánast óhjákvæmilegur fylgifiskur forsetakosninga þar í landi. Hugmyndir sem ræddar eru opinskátt um mögulega árás á Íran eru hreint feigðarflan og sama má segja um síaukinn hernað í Pakistan. Í nágrannaríkinu Afganistan hefur nú staðið stríð í samfellt áratug með virkri þátttöku Nató. Það verður tafarlaust að stöðva.

3. Ályktun um aðgerðir gegn vopnavaldi

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn í Friðarhúsi 25.-26. nóvember 2011, æskir þess að íslensk stjórnvöld leggi þá steina, sem það getur í götu hernaðar og heimsvaldastefnu. Í því skyni skora samtökin á ríkisstjórn og Alþingi að sjá til þess, að svo lengi sem landið er í Atlantshafsbandalaginu greiði fastafulltrúi þess þar ávallt atkvæði gegn beitingu hervalds af nokkru tagi. Með því að koma í veg fyrir einróma samþykki, getur okkar litla land lagt sitt af mörkum til að spilla fyrir kúgurum þjóðanna, og þannig leiðir þó eitthvað gott af annars illri og vonandi tímabundinni veru okkar í þessu ólukkans bandalagi, auk þess sem þessi afstaða gæti vonandi stuðlað að brottrekstri Íslands úr því. Jafnframt beina samtökin því, sér í lagi, til þeirra félaga sinna, sem sæti eiga á Alþingi og/eða í ríkisstjórn, að halda þessari stefnu fram.

Fullveldisfögnuður SHA

By Uncategorized

Fullveldisfögnuður SHA – fjáröflunarmálsverður Friðarhúss, fös. 2. desember

Glæsilegt jólahlaðborð í Friðarhúsi. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina.
Matseðill:
  • Heimalöguð sænsk jólaskinka með kartöflusalati, gulrótarappelsínusalati og sinnepssósu
  • Heimagerð lifrakæfa (borin fram heit) og heimabakað rúgbrauð
  • Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
  • Karrýsíld
  • Tómatsalsasíld
  • Hnetusteik í boði f. grænmetisætur
  • Kaffi og smákökur
Verð kr. 2.000. Borðhald hefst kl. 19.