Monthly Archives

March 2006

Ályktun frá SHA

By Uncategorized

imagesMiðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga fagnar fregnum af fyrirhugaðri brottför bandaríska hersins frá Íslandi. Sagan hefur þegar sannað í hvers þágu hann hefur dvalið hér í meira en hálfa öld og það hvernig þessa ákvörðun bar að sannar hve mikla virðingu herveldið í vestri ber fyrir undirlægjuhætti og lítilþægð íslenskra stjórnvalda.

Nú þarf að standa fast á eftirfarandi kröfum:

1. Uppsögn herverndarsamningsins frá 1951. Gildi hans fyrir Íslendinga er ekkert þegar herinn er farinn og hefur raunar aldrei verið eins og sagan sýnir.

2. Standa verður fast á því að herinn hreinsi upp eftir sig. Í öllum herstöðvum hans er efnamengun og/eða haugar af drasli og rústum sem þarf að fjarlægja með ærnum kostnaði. Má þar nefna, auk herstöðvarinnar á Miðnesheiði, Hvalfjörð, Straumnesfjall, Heiðarfjall og Stokksnes.

3. Eins og bent hefur verið á af Suðurnesjamönnum er grundvallaratriði þess að mannvirki í herstöðinni verði nýtileg fyrir íslenskan atvinnurekstur að herinn fari burt með allt sitt hafurtask og engin málamyndaherstöð verði grátin út af ríkisstjórninni. Þá yrði þar aðeins draugabær með mannvirkjum sem grotna niður engum til gagns.

4. Úrsögn Íslands úr NATO. Haldleysi og gagnleysi aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur margsannast á liðnum áratugum. Síðustu misserin hefur NATO afhjúpað endanlega sitt rétta eðli sem árásarbandalag er stendur fyrir árásum á önnur lönd og hernámi þeirra, t.d. Júgóslavíu, Afganistans og Íraks. Og krefur aðildarríki sín um fjármagn og herafla til þeirrar iðju.

5. Að tryggt verði að stjórnvöld reyni ekki að koma upp íslenskum her undir yfirskyni friðargæslu og þátttöku Íslendinga í hernaðarævintýrum Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í fjarlægum löndum.

Húsfyllir í Friðarhúsi 30. mars

By Uncategorized

Húsfyllir var í Friðarhúsi að kvöldi 30. mars og var haft að orði að ekki veitt af stærra húsnæði. Á samkomunni voru sýndar tvær kvikmyndir sem sjaldan hafa komið fyrir almenningsaugu.

Annars vegar var um að ræða fréttamynd sem tekin var á Austurvelli daginn örlagaríka og sýnir glögglega atburðarásina og átökin sem þar brutust út.
Hin myndin var sömuleiðis tekin á Austurvelli, en fjörutíu árum síðar. Nefnist hún Nafnakall á Austurvelli og sýnir sviðsetningu fjölmargra landskunnra leikara á atkvæðagreiðslunni um NATO-inngönguna á Alþingi og umræður um hana. Sviðsetning þessi var á vegum Samtaka herstöðvaandstæðinga á Menningardögum SHA vorið 1989.

57 ár eru liðin frá þessum atburðum. Talsmenn inngöngunnar höfðu þá hátt um að aldrei skyldu vera hér herstöðvar á friðartímum. Hafi einhvern tíma verið friðartímar hér í þessum heimshluta, þá er það nú. Samt eru eftirmenn þeirra sem sátu við stjórnvölinn fyrir 57 árum vælandi yfir því að Bandaríkjastjórn vill kalla herliðið burtu. En það er löngu tímabært að það fari, og ekki aðeins það, heldur að herstöðin verði lögð niður og herstöðvasamningnum sagt upp. Og síðast en ekki síst að ákvörðunin sem Alþingi tók fyrir 57 árum gegn vilja mikils meirihluta þjóðarinnar verði afturkölluð. ÍSLAND ÚR NATÓ!

Ályktun þingflokks VG um viðskilnað Bandaríkjahers

By Uncategorized

Friðarvefnum hefur borist eftirfarandi ályktun frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

30. mars 2006

Það er athyglisverð staðreynd að þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar –græns framboðs hefur á næstliðnum árum einn þingflokka lagt fram tillögur og hugmyndir um viðbrögð vegna brottfarar herliðs Bandaríkjanna frá Keflavíkurflugvelli. Má þar nefna ítrekaðan tillöguflutning, nú síðast á yfirstandandi þingi, um yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi samhliða brottför hersins, svo og tillögu um rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu. Aðrir flokkar hafa ekki séð ástæðu til viðbragða né fyrirhyggju þrátt fyrir augljós merki þess að herinn væri á förum. Einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna um brottför þrátt fyrir tvíhliða samning um veru herliðsins sýnir vitaskuld betur en nokkuð annað að þeir héldu hér her sjálfs sín vegna og telja það koma sér einum við hvenær og hvernig þeim hentar að halda á brott. Framkoma Bandaríkjamanna kemur þeim vafalaust á óvart sem hafa talið það einhverja tryggingu að í ríkisstjórn Íslands sitja tveir af þremur stjórnmálaflokkum sem stutt hafa hersetuna. Þessi framkoma er vitaskuld niðurlægjandi fyrir ríkisstjórnina sem hefur sýnt Bandaríkjamönnum fylgispekt í flestum málum og m.a.s. skipað sér að baki þeim í ólögmætu árásarstríði þeirra á hendur Írökum.

Í þeim viðræðum sem nú eiga sér stað um framhald málsins er áríðandi að fulltrúar Íslendinga geri réttmætar kröfur til Bandaríkjamanna um viðunandi viðskilnað á Keflavíkurflugvelli og á öðrum svæðum sem hersetan hefur sett mark sitt á. Undir engum kringumstæðum á að þrýsta á um áframhaldandi sýndarviðbúnað hersins, eins og m.a. hefur heyrst í máli forsætisráðherra landsins. Fráleitt væri að ganga að viðræðunum með slíku hugarfari. Einhvers konar draugastöð á Keflavíkurflugvelli væri versta niðurstaðan sem komið gæti út úr viðræðunum og ber að hafna því algjörlega. Krafan hlýtur að vera að bandarískur her hverfi að fullu og öllu af vellinum og afhendi Íslendingum svæðið og öll mannvirki og aðstöðu þar. Gera ber skýlausa kröfu um ábyrgð Bandaríkjamanna á hreinsun og umbótum vegna mengunar og umhverfisspjalla. Tryggja þarf að skilið verði við starfsfólk með sómasamlegum hætti, starfsmönnum til margra ára verði greidd biðlaun og veitt aðstoð við endurmenntun og leit að nýjum störfum. Þess má geta að fyrir liggur beiðni frá þingflokki VG um umræðu utan dagskrár um viðskilnað Bandaríkjahers við landið og íslenska starfsmenn.

Þingflokkur VG leggur áherslu á að brottför hers ásamt tilheyrandi vopnabúnaði af Keflavíkurflugvelli og öll sú aðstaða sem þar með losnar býður upp á sóknarfæri sem mikilvægt er að nýta til nýsköpunar og uppbyggingar á svæðinu. Ekki er síður mikilvægt að nú skapast til þess skilyrði að móta nýjar áherslur í utanríkis- og friðarmálum, móta sjálfstæða friðarstefnu þar sem leið hernaðarbrölts og hernaðarbandalaga er hafnað, en þess í stað byggt á virkri friðarviðleitni, afvopnun og friðlýsingum. Þau verkefni sem nú þarf að takast á við og tengjast brottför hersins eru öll þess eðlis að Íslendingar geta auðveldlega axlað þau sjálfir. Meginverkefnin eru rekstur Keflavíkurflugvallar, efld landhelgisgæsla og aukið landamæraeftirlit. Loks þarf að stórefla tækjakost og mannafla til björgunarstarfa. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur hvatt til þverpólitísks samstarfs um öll þessi mál. Nú ríður á að menn snúi bökum saman og breyti stöðunni þjóðinni í hag.

Alcoa í þjónustu bandaríska hersins í Írak

By Uncategorized

humvee Þingmaður heimsækir Alcoa
John P. Murtha heitir þingmaður í fulltrúadeild bandaríska þingsins. Hann er demókrati frá Pennsylvaníu. 22. ágúst 2005 birtist á vefsíðu hans frétt sem hefst á þessum orðum: „Formaður þingnefndar um fjárveitingar til varnarmála fékk í dag upplýsingar um nýja tækni sem gæti staðið bandaríska hernum til boða til notkunar á landi og í lofti.“

Þetta var þingmaðurinn John P. Murtha og hann fékk þessar upplýsingar í heimsókn sinni til tæknimiðstöðvar Alcoa í Upper Burrell, Westmoreland County í Pennsylvaníu. Þar sýndu yfirmenn og tækni- og vísindamenn Alcoa honum ýmsar tæknilegar lausnir sem gætu nýst farartækjum hersins á landi og í lofti. „Við höfum nokkra af skörpustu hugsuðum heims hérna í vesturhluta Pennsylvaníu og það er ánægjulegt að sjá að her okkar fær notið slíkrar vísindalegrar framsýni og sérfræðiþekkingar“, er haft eftir þingmanninum.

Alcoa vinnur að tækniþróun fyrir hergagnaiðnaðinn
Síðan er sagt að tæknimiðstöð Alcoa taki þátt í fjölda verkefna á ýmsum stigum sem geti haft geysilega mikilvæg áhrif fyrir hernaðarlegar þarfir 21. aldarinnar. Verkefni Alcoa beinast einkum að því að draga úr þyngd og kostnaði við herflugvélar og hernaðarleg farartæki á landi með notkun þróaðarar tækni varðandi ál. Þróunarvinna Alcoa varðandi herflugvélar gæti sparað hernum meira en 200 milljónir dollara. Dr. Mohammad Zaidi, yfirmaður tæknimála hjá Alcoa, er sagður afar þakklátur Murtha þingmanni, sem hefir gegnt mikilvægu hlutverki í samstarfi þessar fjárveitingarnefndar við Alcoa varðandi tvö mikilvæg verkefni: the Army Lightweight Structures Initiative (ALSI) og the Advanced Aluminum Aerostructures Initiative (A3I). Hið fyrrnefnda er unnið í samvinnu við General Dynamics, United Defense, Stewart and Stevenson og Oshkosh Truck Corporation en hið síðarnefnda í samvinnu við Boeing, Lockheed Martin og Northrup Grumman. Í frásögn Pittsburg Tribune-Review 23. ágúst 2005 af heimsókn Murtha þingmanns til Alcoa er sagt að samningurinn um þessi verkefni sé aðeins einn af mörgum sem Alcoa hafi við ríkisstjórnina.

Á vef Alcoa birtist 14. desember 2005 frétt um að þann dag hefði fyrirtækið gert samning við bandaríska herinn upp á 12,5 milljónir dollara um rannsóknir, þróun og smíði léttra farartækja til hernaðaraðgerða á landi og er það hluti ALSI-verkefnisins. Þessi samningur kemur í framhaldi af greiðslu upp á 1,2 milljónir dollara sem fyrirtækið fékk frá hernum árið 2004. Haft er eftir fyrrnefndum Mohammad Zaidi að þeir hjá Alcoa séu afskaplega þakklátir fyrir það að bandaríski herinn kunni að meta sérfræðiþekkingu og framleiðslu fyrirtækisins og skilji þýðingu álsins varðandi þróun hernaðarlegra tækja.

Á vefnum Allbusiness.com er frétt frá ágúst 2004 um viðskipti Alcoa og Howmet Castings, sem er dótturfyrirtæki Alcoa, við varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna upp á 24 milljónir dollara vegna samvinnuverkefnis um að þróa ný efni og málmblöndur til notkunar í háloftunum til að draga úr kostnaði við næstu kynslóð orrustuflugvéla, ómannaðra loftfara (unmanned aircraft) og annarra hergagna.

Framlag Alcoa til Íraksstríðsins
Í frétt á vef Alcoa frá 18. nóvember 2004 er greint frá dæmi þess hvernig uppfinningar og framleiðsla Alcoa geta nýst hernum. Þar segir frá því að Alcoa útvegi bandaríska herliðinu í Írak brynvörn á Humvees-jeppa. Humwees- jepparnir voru hannaðir til notkunar að baki víglínunnar og lögð áhersla á að hafa þá létta. Þeir hafi því ekki haft góða brynvörn og ekki dugað nógu vel við þær aðstæður sem nú eru í Írak þar sem uppreisnarmenn beita sprengjum gegn þeim. En Alcoa hefur tekið að sér að leysa þetta vandamál með háþróaðri álframleiðslu sinni. Í fréttinni segir að margvísleg framleiðsla Alcoa Davenport Works sé notuð í hergagnaiðnaði. „Allir Alcoar (All Alcoans) leggja sig fram við að tryggja að þessar pantanir séu afgreiddar sem fyrst frá verksmiðjunni og styðja þannig við bakið á hersveitum okkar,“ er haft eftir Mark Vrablec, framleiðslustjóra Alcoa Davenport Works.

Kattarþvottur Alcoa á Íslandi
Eftir að Andri Snær Magnason vék að framleiðslu Alcoa til hernaðarnota í viðtali við NFS 19. mars birtist athugasemd við málflutning hans á vef Alcoa á Íslandi. Þar er sagt að framleiðsluvörur Alcoa séu m.a. nýttar til hergagnaframleiðslu en því hafnað að fyrirtækið sjálft komi að slíkri framleiðslu: „Alcoa hafnar alfarið aðdróttunum um að fyrirtækið framleiði hergögn eins og Andri Snær Magnason rithöfundur hélt fram í fréttum sjónvarpsstöðvarinnar NFS sl. sunnudag. Alcoa segir þetta fjarstæðukennda staðhæfingu.“

Ef marka má þær heimildir, sem hér hafa verið tilfærðar, leikur hins vegar enginn vafi á því að Alcoa hefur tekið beinan þátt í þróun hergagnaframleiðslu og talsmenn fyrirtækisins eru stoltir af því.

Einar Ólafsson

30. mars

By Uncategorized

427175377EUHtYW phÞann 30. mars 1949 var innganga Íslands í NATO samþykkt á Alþingi. Friðarsinnar hafa upp frá því minnst þessa óheillaskrefs og helgað daginn baráttunni fyrir herlausu landi utan hernaðarbandalaga.

Í ár efna SHA til kvikmyndasýningar í Friðarhúsi fimmtudaginn 30. mars kl. 20. Þar verða sýndar tvær fágætar myndir sem sjaldan hafa komið fyrir almenningssjónir.

Annars vegar er um að ræða fréttamynd sem tekin var á Austurvelli daginn örlagaríka og sýnir glögglega atburðarásina og átökin sem þar brutust út.

Hin myndin var sömuleiðis tekin á Austurvelli, en fjörutíu árum síðar. Nefnist hún Nafnakall á Austurvelli og sýnir sviðsetningu fjölmargra landskunnra leikara á atkvæðagreiðslunni um NATO-inngönguna á Alþingi og umræður um hana. Sviðsetning þessi var á vegum Samtaka herstöðvaandstæðinga á Menningardögum SHA vorið 1989.

Árni Björnsson þjóðháttafræðingur gerir grein fyrir myndunum tveimur og ýtir umræðum úr vör.

Að myndasýningum loknum munu friðarsinnar sitja áfram, ræða málin og gera sér glaðan dag.

Allir velkomnir.

Fjórða Kaíró-ráðstefnan 23.-26. mars

By Uncategorized

The International Campaign Against U.S. & Zionist Occupation Nú um helgina, 23.-26. mars, var haldin fjórða Kaíró-ráðstefnan. Þessar ráðstefnur hafa verið haldnar árlega undanfarin ár. Fyrsta ráðstefnan var haldin í aðdraganda innrásarinnar í Írak, 17.-18. desember 2002, og hittust það einstaklingar og fulltrúa baráttusamtaka og hreyfinga gegn stríðsundirbúningnum frá allmörgum löndum. Undirbúningur hinna fjölmennu mótmælaaðgerða 18. janúar og 15. febrúar 2003 var þá í uppsiglingu. Á þessari ráðstefnu voru lögð drög að enn frekara alþjóðlegu samstarfi og samþykkt yfirlýsing, Fyrsta Kaíró-yfirlýsingin. Í þeirri yfirlýsingu voru stríðsáform Bandaríkjastjórnar sett í víðara samhengi. Bent var á pólitíska, efnahagslega og hernaðarlega yfirburði Bandaríkjanna í hinu kapítalíska hanttvæðingarferli og hvernig Bandaríkin voru fyrir 11. september farin að beita ofbeldi og yfirgangi til að viðhalda stöðu sinni og styrkja hana.

Önnur ráðstefna var haldin 12.-13. desember 2003 og sendi hún frá sér Aðra Kaíró-yfirlýsinguna. Þríðja ráðstefnan var haldin 24.-27. mars 2005.

Nánari upplýsingar:
Wikipedia
Nej til krig
Stop the War Coalition