Ályktun vegna þotudrauma

By 12/09/2012 Uncategorized

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga vekur athygli á nýlegum fréttum af hollenska fyrirtækinu ECA Programs, sem virðast staðfesta að fyrirtækið hafi verið hálfgerð svikamylla, líkt og SHA benti á þegar í upphafi. Siðlaus og glórulaus áform fyrirtækisins um leiguþjónustu á orrustuþotum á Miðnesheiði leiddu þó í ljós hversu djúpstæð og rótgróin þrá ýmissa íslenskra hernaðarsinna er í að endurheimta herstöð hér á landi. Furðumargir stjórnmálamenn stukku til og fögnuðu hugmyndunum og afhjúpuðu þannig sjálfa sig.

Þráin eftir herþotunum á sér þó fleiri birtingarmyndir. Hún kemur glögglega í ljós á nokkurra mánaða fresti, þegar flugsveitum Nató-ríkja er boðið hingað til lands í reglubundnar heræfingar undir merkjum loftrýmisgæslu. SHA minna á kröfu sína um að slíkt þotuflug verði aflagt með öllu, enda tilgangurinn enginn annar en að þjálfa hermenn og angra heiðvirt fólk.