Skip to main content

Bandaríkin og alþjóðalögin: félagsfundur SHA og MFÍK og fjáröflunarkvöldverður

By Uncategorized

SHA og MFÍK efna til sameiginlegs félagsfundar þriðjudaginn 14. janúar í Friðarhúsi kl. 20.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, LLM í alþjóðalögum mannréttinda og refsiréttar, flytur þar erindið „Að komast upp með stríðsglæpi: Refsileysi Bandaríkjanna í samfélagi þjóðanna“.

Fyrirlesturinn mun byrja á stuttri kynningu á mannúðarlögum og öðrum alþjóðalögum sem varða stríðsrekstur og verða stofnsamningur Sameinuðu Þjóðanna, fjórði Genfarsáttmálinn og Rómarsáttmálinn (lagarammi alþjóðaglæpadómstólsins í Haag) teknir sérstaklega fyrir. Einstök ákvæði þessara samninga verða sett í samhengi við hernaðarstefnu Bandaríkjamanna síðastliðin ár. Meginefni fyrirlestursins snýst síðan um þær alþjóðastofnanir sem bera ábyrgð á að framfylgja þessum sáttmálum og hugsanlegar ástæður þess að þær reynast þess ekki megnugar að draga Bandaríkin til ábyrgðar fyrir þau brot sem þau verða uppvís að.

Fyrir fundinn verður hægt að kaupa málsverð á vegum MFÍK.

Matseðill: Bollywood grænmetissúpa, brauð og salat, kaffi, te og súkkulaði.

Húsið opnar kl. 18.30, Matur klukkan sjö.

Blóðugt ár í Írak

By Uncategorized

Árið 2013 reyndist eitt það blóðugasta í Írak frá innrásinni í landið fyrir áratug síðan. Meira en tíu þúsund manns féllu í átöku stríðandi fylkinga, en landið logar í deilum milli þjóðarbrota og trúarhópa. Um 1.200 manns féllu í desembermánuði einum í því sem ýmsir óttast að sé einungis byrjunin á nýrri borgarastyrjöld sem muni leiða ómældar hörmungar yfir þessa stríðshrjáðu þjóð á árinu 2014.

Tómlæti vestrænna fjölmiðla og stjórnmálamanna um atburði þessa er sláandi. Flestum má þó vera ljós ábyrgð þeirra sem hófu þessa vegferð árið 2003. Innrásin í Írak er versta ákvörðun sem tekin hefur verið á síðustu áratugum og heimurinn mun súpa seyðið af henni um langt árabil. Verstar eru þó hörmungar Íraka sjálfra. Read More

Gengið til friðar í þrjátíu og fimm ár

By Uncategorized

Íslenskir friðarsinnar hafa efnt til friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu undanfarin þrjátíu og fimm ár. Óhætt er að segja að gangan sé orðin ómissandi þáttur í jólaundirbúningnum og tekur fjöldi fólks sér hlé frá tiltektum og innkaupum rétt fyrir jólin til að leggja sitt af mörkum og styðja kröfuna um frið og afvopnun í heiminum. Undanfarin ár hafa slíkar göngur einnig verið á Þorláksmessu á Akureyri og á Ísafirði og verður svo einnig nú. Read More

Fullveldisfögnuður í Friðarhúsi

By Uncategorized

Föstudagskvöldið 29. nóvember verður fjáröflunarmálsverður Friðarhúss haldinn, glæsilegur að vanda.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina með dyggri aðstoð Sigríðar Kristinsdóttur

Matseðill:

  • Heimalöguð sænsk jólaskinka með kartöflusalati, og sinnepssósu
  • Heimagerð lifrakæfa og heimagert rúgbrauð 
  • Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
  • Hnetusteik
  • Karrýsíld
  • Tómatsalsasíld
  • Rækjufrauð
  • Kaffi og smákökur

Að borðhaldi loknu ræðir Guðrún Margrét Guðmundsdóttir um dróna og duldar hliðir stríðsins gegn hryðjuverkum. Svavar Knútur tekur lagið.

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.000. Allir velkomnir.

Ályktun frá landsfundi

By Uncategorized

Landsfundur SHA var haldinn um liðna helgi. Lögum félagsins var breytt á fundinum og verða landsfundir eftirleiðis haldnir eigi síðar en 15. mars ár hvert og er því skammt í næsta fund. Fyrri miðnefnd var endurkjörin að mestu, en á næsta fundi verður stokkað upp í henni og fjölda miðnefndarmanna breytt.

Fundurinn samþykkti jafnframt eftirfarandi áskorun, sem þegar hefur verið send á alla Alþingismenn:

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga haldinn í Friðarhúsi 23. nóvember 2013 skorar á Alþingi að fella niður greiðslur á fjárlögum til NATO, sem munu vera u.þ.b. hálfur milljarður á ársgrundvelli (500 milljónir).

Rök til þess eru:

  1. Það er siðferðilega óverjandi að Alþingi ráðstafi skattfé íslensku þjóðarinnar til fjármögnunar á pyntingasveitum og morðum á saklausu fólki úti í heimi eins og nýlega hefur verið staðfest, sbr. fréttir undanfarnar vikur.
  2. Við Íslendingar þurfum fremur að nota þetta fé til nánast allra annarra hluta, t.d. mætti verja þessum fjármunum til þróunarhjálpar til landa sem liðið hafa fyrir hernað NATO-þjóða.

Nató-kostnaður í fjölmiðlum

By Uncategorized

Dagfari, tímarit Samtaka hernaðarandstæðinga er komið út og hefur verið sent félagsmönnum í SHA. Meðal efnis er úttekt á kostnaðinum við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Umfjöllunin hefur þegar vakið athygli fjölmiðla, líkt og sjá má af þessari umfjöllum RÚV.

Hægt er að nálgast blaðið í Friðarhúsi Samtaka hernaðarandstæðinga eða með því að senda tölvupóst á sha@fridur.is og verður blaðið þá sent um hæl.

Landsfundur SHA, laugardaginn 23. nóvember

By Uncategorized

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga verður haldinn laugardaginn 23. nóvember n.k. í Friðarhúsi. Fundurinn hefst kl. 11 á hefðbundnum aðalfundarstörfum.

Fyrir fundinum liggur tillaga til lagabreytingar þess efnis að landsfundur verði eftirleiðis haldinn á vormisseri, eigi síðar en í lok mars og að reikningsár SHA verði eftirleiðis almanaksárið. Verði tillagan samþykkt er ljóst að nýr aðalfundur verður haldinn strax í febrúar eða mars á næsta ári.

Léttur málsverður verður framreiddur í hádeginu, en kl. 13:30 flytur Helga Björnsdóttir mannfræðingur erindið: „Hernaðarlúkk“: um hernaðarhyggju og hervæðingu. Umræður á eftir.