Skip to main content

8. mars: Þróunaraðstoð – í þágu hverra?

By Uncategorized

mfik 3 01 Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
fyrir friði og jafnrétti.

Opinn fundur miðvikudaginn 8.mars 2006 kl.17
í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.

Þróunaraðstoð – í þágu hverra?

Fundarstjóri: Guðlaug Þóra Marinósdóttir, SFR

Sigríður Víðis Jónsdóttir, blaðamaður
Ég borða ekki jarðsprengjur.

Þórdís Sigurðardóttir, skrifstofustjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands
Þróunarsamvinna á nýrri öld.

Hulda Biering, kennari
Grasrót í Mósambík – Konur og menntun.

Elín Jónasdóttir, sálfræðingur
Þar sem fræin þroskast best – reynsla frá Sri Lanka.

Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld les ljóð.

Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður
Til hvers að gefa?

Irma Matchavariani, í stjórn Samtaka kvenna af erl. uppruna
Lítum okkur nær.

María S. Gunnarsdóttir, form. Menningar- og friðarsamtaka MFÍK
Heimurinn hugsaður upp á nýtt.

Margrét M. Norðdahl, myndlistarkona
Sýnir ljósmyndir af verkefni sem unnið var á flóðasvæðum Sri Lanka.

Hljómsveitin AMÍNA spilar.

Menningar og friðarsamtökin MFÍK, Bandalag háskólamanna, BSRB, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands, Kvenréttindasamband Íslands, Samtök herstöðvaandstæðinga, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, Sjúkraliðafélag Íslands, Stígamót, SFR – Stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, Öryrkjabandalag Íslands

Friðarmiðstöðin Ísland

By Uncategorized

19. mars 2005 Þessi grein var send Fréttablaðinu til birtingar í byrjun febrúar þegar viðræður um framtíð herstöðvarinnar stóðu yfir og fréttir voru í fjölmiðlum um væntanlega komu Yoko Ono til Íslands. Þegar greinin hafði ekki birst um það leyti sem Yoko var hér seint í febrúar var ítrekuð ósk um birtingu hennar í Fréttablaðinu en þó hefur hún ekki enn birst á þeim vettvangi.

Ekki veit ég af hverju Yoko Ono velur friðarsúlu sinni stað í Reykjavík. En vissulega hefur Ísland einhverskonar friðarímynd í augum margra. Þrátt fyrir allt. Þrátt fyrir að Ísland hafi verið í hernaðarbandalagi og hýst herstöðvar í meira en hálfa öld. Þrátt fyrir gagnrýnislitla fylgisspekt Íslands við helsta hernaðarveldi heims, nú síðast sem svokallað „viljugt“ ríki gagnvart Íraksstríðinu. Kannski er það vegna smæðar þjóðarinnar og þess að hún hefur sjálf verið herlaus og vopnlaus um aldaraðir.

Hversu miklu sterkari væri þá ekki þessi friðarímynd Íslands ef það væri ekki aðili að hernaðarbandalagi og ef það hýsti ekki herstöð? En nú er lag. Bandarísk stjórnvöld vilja nú draga herlið sitt frá Íslandi. Það er hins vegar mjög hæpið að þau vilji algerlega sleppa hernaðarlegum ítökum sínum hér. Þau vilja eflaust hafa aðgang að Keflavíkurflugvelli fyrir einhvern lágmarksviðbúnað – og til að koma sér þar fyrir aftur ef það hentaði þeim. Og þau vilja auðvitað ekki sleppa Íslandi úr NATO.

Í stað þess að suða í Bandaríkjamönnum, eins og utanríkisráðherra og forverar hans hafa verið að gera, væri nær að segja: Fínt, nú skuluð þið pakka saman, en þá viljum við líka að þið farið alveg og hreinsið til eftir ykkur. Og síðan ættum við að ganga úr NATO og lýsa yfir hlutleysi. Þá yrði sett í stjórnarskrána að Ísland yrði herlaust land og segði aldrei öðrum þjóðum stríð á hendur né styddi slíkar aðgerðir annarra ríkja, eins og bæði Samtök herstöðvaandstæðinga og Þjóðarhreyfingin – með lýðræði hafa lagt til við stjórnarskrárnefnd. Loks mundi Alþingi lýsa Ísland kjarnorkuvopnalaust svæði – eða það yrði líka sett í stjórnarskrána – og Íslendingar hefðu frumkvæði að því að Norður-Atlantshafið og í kjölfarið öll Evrópa yrðu lýst kjarnorkuvopnalaus svæði.

Þetta gæti komist í gang á fáeinum árum. Og þá væri kannski kominn tími til þess fyrir Íslendinga að sækjast eftir sæti í Öryggisráðinu, enda hefðum við þá öðlast virðingu fyrir frumkvæði í friðarmálum. Og við mundum setja upp friðarannsóknardeild við Háskóla Íslands, alþjóðlega friðarrannsóknarmiðstöð, sem gæti verið staðsett á Suðurnesjum, og það yrði sóst eftir að halda á Íslandi friðarráðstefnur og aðrar ráðstefnur sem varða alþjóðamál. Höfðafundur þeirra Reagans og Gorbatsjovs yrði ekki lengur einsdæmi hér. Og ef við værum beðin um að styðja innrás í eitthvert land mundum við segja: Nei takk, við hvorki kunnum né viljum slíkt, en við getum boðið upp á aðstoð við friðsamlega lausn.

Þetta yrði auðvitað miklu glæsilegra ef það yrði sett í samhengi við umhverfismál, en það krefðist þess vitaskuld að við færum að hægja á okkur í virkjana- og álversframkvæmdum. En það er efni í aðra grein.

Einar Ólafsson

Undirbúningur fyrir 18. mars, alþjóðlegan mótmæladag gegn stríðinu í Írak

By Uncategorized

third anniversary web banner Opinn fundur í Friðarhúsinu miðvikudag 1. mars kl. 20

Á miðvikudagskvöldið kl. 20 verður opinn fundur í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, þar sem rætt verður um skipulagningu aðgerða á alþjóðlegum mótmæladegi gegn stríðinu í Írak. Allir velkomnir. Margar hendur vinna létt verk.

Við minnum líka á undirskriftasöfnuna Stop War on Iran. Margt bendir til að Bandaríkjastjórn hyggist ráðast á Íran innan fárra ára og stundi nú pólitískan hráskinnaleik til að undirbúa þá herför. Sjálfsagt er að hvetja íslenska friðarsinna til að taka þátt í alþjóðlegri undirskriftasöfnun á netinu, þar sem stríðsundirbúningurinn er fordæmdur. Nánari upplýsingar um undirskriftasöfnunina er að finna hér. Hægt er að skrifa undir hér:
http://stopwaroniran.org/petition.shtml.

Kjarnorkuvopnavandinn snýst ekki um Íran

By Uncategorized

kjarnorku Þessi grein birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 25. febrúar 2006

Viðleitni Íransstjórnar til að auðga úran hefur vakið hörð viðbrögð á alþjóðavettvangi. Leiðtogar Vesturveldanna hafa ekki farið í grafgötur með þá stefnu sína að taka málið upp í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og fá þar samþykktar refsiaðgerðir gegn Írönum ef stjórnvöld í Teheran leggi kjarnorkuáætlanir sínar ekki á hilluna í eitt skipti fyrir öll. Hins vegar má spyrja hversu trúverðugur málflutningur Bandaríkjamanna, Breta og Frakka er þegar kemur að kjarnorkuvopnum.

Samkvæmt tölum frá bandaríska tímaritinu Bulletin of Atomic Scientists eiga kjarnorkuveldi heimsins a.m.k. 14.000 kjarnaodda í skotstöðu (operational) sem eru tilbúnir til árásar með litlum sem engum fyrirvara. Samkomulag um bann við tilraunasprengingum (Comprehensive Test Ban Treaty) frá 1996 hefur ekki verið fullgilt af Bandaríkjastjórn, enda þótt öll kjarnorkuveldin nema Indland og Pakistan hafi undirritað samninginn á sínum tíma. Þá hefur Bandaríkjastjórn einhliða sagt upp ABM-sáttmálanum um afvopnun, án þess að líkur séu á að nýr afvopnunarsamningur komi í stað hans. Stefna Bandaríkjastjórnar virðist vera sú að önnur ríki skuli afvopnast en á meðan auki hún sjálf vígbúnað sinn og hafi óheft svigrúm til tilrauna með ný kjarnorkuvopn.

Opinber stefna Bandaríkjastjórnar eru sú að Bandaríkin muni ekki nota kjarnorkuvopn gegn ríki sem ekki búi yfir slíkum vopnum. Í raun hefur Bandaríkjastjórn margsinnis hótað slíkum árásum. Til eru ríkisstjórnir sem virðast tilbúnar að fylgja Bandaríkjastjórn fram á brúnina. Varnarmálaráðherra Bretlands, Geoff Hoon, hefur lýst því yfir að Bretar væru tilbúnir að nota kjarnorkusprengjur „við réttar aðstæður“ og gegn ríkjum sem ekki eigi kjarnorkuvopn.

Í orði kveðnu óttast ríki heimsins smygl og verslun með kjarnorkuvopn, ekki síst til ríkja sem Bandaríkjastjórn er uppsigað við og kallar útlagaríki. Einfaldasta leiðin til að fylgjast með slíku væri að gera lista yfir sprengjur sem kjarnorkuveldin eiga eða efni sem til er í þær. En ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Rússlands hafa neitað að gera slíkan lista. Eftirlitsmenn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hafa engan aðgang að kjarnaoddum þeirra ríkja sem eiga 96% af kjarnorkuvopnum heimsins!

Bandaríkjastjórn hefur um 480 kjarnorkuflaugar á meginlandi Evrópu, hálfum öðrum áratug eftir endalok kalda stríðsins. Önnur kjarnorkuveldi eiga mun færri sprengjur; en ríkisstjórn Bretlands hefur uppi áform um að endurnýja kjarnorkuflaugar sínar, þrátt fyrir að ekki sé hægt að benda á neinn óvin sem Bretlandi standi ógn af. Kjarnaoddum Kínverja hefur hins vegar ekki fjölgað í rúm 20 ár, þrátt fyrir endurteknar spár bandarískra hernaðaryfirvalda um það. Ekki má svo gleyma því kjarnorkuveldi sem einna mest leynd hvílir yfir, en það er Ísrael. Að mati sérfræðinga ræður Ísraelsher yfir um 75-200 kjarnaoddum. Ljóst er að tilvist þessara vopna veldur miklu óöryggi í Austurlöndum nær og er trúlega ástæða þess að önnur ríki kunna að hafa áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Þar að auki stangast þessi vopn á við sáttmálann um útbreiðslu kjarnorkuvopna. Samt sem áður verður ekki vart við neinn alþjóðlegan þrýsting á Ísraelsmenn um að láta þau af hendi.

Í áliti Alþjóðadómstólsins í Haag frá 8. júlí 1996 er úrskurðað að notkun kjarnorkuvopna að fyrra bragði sé ólögleg undir öllum kringumstæðum og ríkjum heims beri að stefna að útrýmingu slíkra vopna. Þessi úrskurður merkir í raun að alþjóðadómstóllinn telur kjarnorkuvopn ólögleg. Í samræmi við þetta hefur Malasía nokkrum sinnum lagt tillögu fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna undanfarin ár. Í henni felst að ríkjum heimsins beri að ná samkomulagi um að banna hvers konar framleiðslu og meðferð kjarnorkuvopna, ekki síst beitingu kjarnorkuvopna eða hótun um að beita þeim. Jafnframt beri að útrýma slíkum vopnum hið bráðasta.Tillaga þessi hefur jafnan hlotið góðar undirtektir og má taka sem dæmi atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1. desember 1999. Þá greiddu 114 ríki tillögunni atkvæði og hún var samþykkt. Hins vegar greiddu 28 ríki atkvæði á móti þessari tillögu um kjarnorkuafvopnun og 22 ríki sátu hjá. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem greiddu atkvæði gegn útrýmingu kjarnorkuvopna. Ekkert NATO-ríki þorði að styðja tillöguna, en sum söfnuðu þó kjarki til að sitja hjá, t.d. Kanada og Noregur.

Þau aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem standa þver gegn afvopnun eru ekki mörg en þau hafa heilmikið vægi í Öryggisráðinu og eiga fjóra af fimm fastafulltrúum þar. Það er fyrst og fremst tvískinnungur kjarnorkuveldanna sem veldur því að afvopnunarmál eru í sjálfheldu og framtíð án kjarnorkuvopna er ennþá utan seilingar.

Sverrir Jakobsson