35 þúsund manns mótmæla Futenma-herstöðinni á Okinawa

By 05/03/2006 Uncategorized

ginowan herinn burt Nú munu vera um 50 þúsund hermenn í bandarískum herstöðvum í Japan. Flestir þeirra eru á eynni Okinawa, syðst í Japan. Meðal herstöðva þar er Futenma-herstöðin, sem er í miðri borginni Ginowan með um það bil 90 þúsund íbúa.

Í Japan eru ýmis samtök herstöðvaandstæðinga mjög virk og nú í dag, 5. mars, voru mótmælaaðgerðir í Ginowan gegn Futenma-herstöðinni. Talið er að um það bil 35 þúsund manns hafi tekið þátt í þessum aðgerðum þar sem þess var krafist að herstöðinni yrði tafarlaust lokað.

Áform eru um að færa herstöðina til Henoko í grennd við borgina Fugo, og var gerður samningur um það milli Japans og Bandaríkjanna í október síðastliðnum. Hins vegar eru ekki allir sáttir við þau áform og hafa bæði umhverfisverndarsinnar og friðarsinnar mótmælt þeim. Í fréttatilkynningu sem hópur sem kallar sig Okinawa friðarbaráttuhópinn sendi frá sér í október síðastliðnum segir að baráttan beinist ekki bara gegn uppbyggingu herstöðvar í Henoko heldur einnig gegn hverskyns hernaðaruppbyggingu á Okinawa.