All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Lærdómurinn af Hiroshima

By Í brennidepli

Stjörnufræðingurinn Þorsteinn Sæmundsson ritar grein í Morgunblaðið þann 8. nóvember þar sem hann veltir því fyrir sér hvort íslenskir friðarsinnar, sem minnast ár hvert kjarnorkuárásanna á Japan árið 1945, séu nægilega upplýstir um söguna. Óhætt er að róa fræðimanninn með því að fólkið sem gagnrýnir þennan stærsta einstaka stríðsglæp allra tíma er upp til hópa prýðisvel að sér í sagnfræði.

Áætlað er að yfir 200 þúsund manns hafi farist í kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki, en að auki lést fjöldi fólks síðar af sárum sínum eða úr sjúkdómum af völdum geislavirkni. Þrátt fyrir ólýsanlegan hrylling og blóðbað síðari heimsstyrjaldarinnar komust engar stakar árásir stríðsins í hálfkvisti við þessa atburði.

Fyrstu viðbrögð bandarískra ráðamanna og fjölmiðla við árásunum einkenndust af hefndarþorsta. Eyðing borganna tveggja var að margra mati réttmæt refsing fyrir framgöngu Japana í stríðinu og óteljandi ódæðisverk þeirra. Ekki leið þó á löngu uns stjórnvöld í Washington áttuðu sig á afleiðingum gjörða sinna og hófu í kjölfarið að réttlæta árásirnar, ekki sem hefnd heldur sem óhjákvæmilega aðgerð sem ákveðin var með þungum huga.

Henry Stimson, fyrrum varnarmálaráðherra BNA, ritaði snemma árs 1947 grein um hvernig ákvörðunin um að varpa kjarnorkusprengjunum hefði verið tekin. Í skrifum Stimson, sem oft er vitnað til, kom fram sú skoðun að árásirnar hefðu í raun bjargað mun fleiri mannslífum, þar sem reynt var að áætla mannfall ef til innrásar Bandaríkjahers á Japan hefði komið. Þessi túlkun er fyrirferðarmikil í grein Þorsteins.

Sagnfræðingar hafa fundið ýmsar veilur á þessari röksemdafærslu. Bent hefur verið á að það jaðri við rasísk viðhorf að fjalla um Japani sem óseðjandi stríðsvélar sem berðust út í rauðan dauðann óháð allri skynsemi. Heimildir í skjalasöfnum hafa leitt í ljós að Japanir voru á barmi uppgjafar fyrstu daga ágústmánaðar 1945. Þar skipti mestu máli yfirvofandi þátttaka Sovétmanna í stríðinu, en stjórninni í Tókýó leist enn verr á tilhugsunina um sovéskt hernámslið en bandarískt. Einnig má leiða líkum að því að Bandaríkjamönnum hafi verið mikið í mun að ljúka stríðinu áður en Sovétmenn blönduðu sér í leikinn fyrir alvöru, til að losna við þá frá friðarsamningaborðinu.

Eftir á að hyggja er ljóst að það sem öðru fremur seinkaði uppgjöf japanska hersins voru kröfur Bandaríkjamanna um afsögn keisarans. Slík skilyrði höfðu verið sett gagnvart evrópskum andstæðingum Bandamanna, en í Japan hafði keisarinn hálfguðlega stöðu. Þegar á hólminn var komið féllust Bandaríkjamenn á að keisarinn héldi völdum, en líklega hefði mátt ljúka styrjöldinni mun fyrr ef sú afstaða hefði legið fyrir.

En úr því að uppgjöf Japana var á næsta leyti, hvers vegna kaus þá Truman-stjórnin að beita þessu skelfilega vopni? Svarið við þeirri spurningu er margþætt. Í fyrsta lagi þyrsti marga Bandaríkjamenn í hefndir. Stríðsglæpir japanska hersins voru ærnir og litu ýmsir svo á að með þeim hefðu þeir fyrirgert öllum rétti sínum þannig að sjálfsagt væri að víkja til hliðar alþjóðalögum á borð við Genfarsáttmálann. Nokkuð eimir af því viðhorfi í fyrrnefndri grein Þorsteins.

Í annan stað hafði Manhattan-áætlunin við þróun kjarnorkusprengjunnar kostað svimandi fjárhæðir. Hætt var við því að einhverjir kynnu að setja spurningamerki við þá stjórnvísi að hafa eytt öllum þessum fjármunum, tíma og orku í miðri heimsstyrjöld til að þróa vopn sem ekki hefði verið nýtt í stríðinu sjálfu. Hefðu ekki vaknað spurningar eftir á um hvort sigur hefði unnist miklu fyrr en peningunum hefði ekki verið sóað í vítisvél sem ekki stóð til að nota í raun og veru?

Í þriðja lagi er um margt rökréttara að líta ekki aðeins á sprengjurnar í Hiroshima og Nagasaki sem þær síðustu sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni, heldur ekki síður sem þær fyrstu í nýrri styrjöld: Kalda stríðinu. Vitað er að Hiroshima varð ekki fyrir valinu sem skotmark vegna hernaðarlegs mikilvægis borgarinnar, raunar þvert á móti. Lítið hernaðarlegt gildi hennar gerði það að verkum að borgin hafði ekki orðið fyrir viðlíka árásum og aðrar japanskar borgir og var því með heillegasta móti. Skotmarkið var valið til að sýna fram á hámarkseyðileggingu, ekki sigruðum Japönum heldur verðandi fjendum – Sovétmönnum.

Árásirnar á Hiroshima og Nagasaki voru kaldrifjaðir stríðsglæpir sem framdir voru til að senda skýr skilaboð um hernaðarlega yfirburði Bandaríkjanna. Niðurstaðan varð vopnakapphlaup sem enn sér ekki fyrir endann á. Af þessu kapphlaupi hefur leitt að gerð kjarnorkuvopna hefur orðið sífellt einfaldari og ódýrari. Það sem einu sinni var bara á færi öflugustu risavelda með herskörum vísindamanna hefur nú verið leikið eftir af snauðum útlagaríkjum á borð við Norður-Kóreu. Það er hin ömurlega arfleifð glæpaverksins í Hiroshima fyrir rúmum þremur aldarfjórðungum.

Stefán Pálsson

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu

Fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins vegna B-2 véla Bandaríkjahers

By Fréttir, Í brennidepli

Miðnefnd SHA samþykkti í byrjun mánaðar að senda eftirfarandi fyrirspurn á utanríkisráðuneytið vegna B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem höfðu viðveru hér í ágúst og september:

 

Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.

Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.

Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga

  1. Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
  2. Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
  3. Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
  4. Hvert væri efni slíks samkomulags?
  5. Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?

Friðarmálsverður snýr aftur

By Viðburður
Eftir langa bið snúa fjáröfnunarmálsverðir Friðarhús aftur. Föstudagskvöldið 24. september geta hernaðarandstæðingar komið saman á ný, notið góðra veitinga og styrkt baráttuna. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina og matseðillinn tekur mið af árstímanum:
  • Uppskerukássa í hnetusósu
    (nýtt grænmeti, blandað nauta og kindakjöt)
  • Fyrir grænkera er kjúklingabaunakássa
  • Borðið fram með rófustöppu nýuppteknu salati.
  • Kaffi og konfekt í eftirrétt
Trúbadorinn Linus Orri mun svo taka lagið.
Sest verður að snæðingi kl. 19 en húsið verður opnað klukkustund fyrr. Verð kr. 2.000. Öll velkomin
Kabúl flúin

Harmleikurinn í Afganistan og ábyrgð okkar

By Í brennidepli

Eftir tuttugu ára hersetu Bandaríkjanna og Nató er Afganistan aftur komið undir stjórn Talibana. Stjórnarherinn sem naut þjálfunar og hergagna frá Bandaríkjunum var þrjá daga að tapa stríðinu og forsetinn hefur flúið land. Vestrænir erindrekar eiga fótum fjör að launa og þyrlur á þaki Bandaríska sendiráðsins í Kabúl endurtaka leikinn frá Saígon þegar Suður-Víetnam féll árið 1975. Þeir Afganir sem störfuðu fyrir setuliðið sitja eftir í súpunni sem og þær konur og stúlkur sem hafa hlotið menntun sem Talibanar leggja ekki blessun sína yfir. Afgana bíður að öllum líkindum afturhaldssöm klerkastjórn og harðræði. Tveir áratugir af blóðugum átökum, hryðjuverkum og spillingu voru til einskis.

Það hversu hratt þessi spilaborg hrundi þegar henni var ekki lengur haldið uppi með valdi sýnir þó að þessi sorglega niðurstaða var óumflýjanleg. Vígamenn Talibana eru á heimavelli en Bandaríski herinn hefur vitað það í áratug að stríðið er óvinnandi eins og kom fram í bókinni The Afghanistan Papers eftir Craig Whitlock, blaðamann á The Washington Post. Setuliðið var eins og fiskar á þurru landi, fast í stríði þar sem þau skildu ekki aðstæður og enginn sá leið til þess að vinna. Bandarísk stjórnvöld lugu til um árangur sinn, 40% af þróunaraðstoð var sóað í spillingu og hersetan truflaði ekki ræktun og sölu á eiturlyfjum að ráði. Þeim tókst greinilega líka að ljúga að sjálfum sér að ríkið sem þau byggðu upp myndi endast lengur en í viku.

Skugginn sem árásarstríð Bush-stjórnarinnar eftir 11. september 2001 varpa ætlar að verða langur. Íhlutunarstefna Bandaríkjanna og bandamanna hefur enn og aftur beðið skipbrot og skilur ekkert eftir sig nema dauða og eyðileggingu sem einungis vopnasalar og spilltir embættismenn græða á. Við megum þó ekki gleyma þætti okkar Íslendinga. Hinu aflóga hernaðarbandalagi Nató var fundinn tilgangur í því að styðja við hersetu Afganistan og sem meðlimir þess tóku íslensk stjórnvöld þátt. Íslendingar sáu lengi um flugumferðarstjórn á Kabúl flugvelli sem nú er kominn í hendur Talibana og íslenskt „friðargæslulið“ undir vopnum afrekaði það helst að gera sig að skotmarki sjálfsmorðsárásar sem varð tveimur að bana.

Íslendingar hafa líka stutt við menntun og bætt réttindi kvenna í Afganistan í gegnum borgaralegt hjálparstarf en nú þegar lítur út fyrir að mikið af því starfi sé unnið fyrir gýg er nauðsynlegt að við öxlum ábyrgð og tökum á móti flóttamönnum frá Afganistan sem fyrst og styðjum þá til að komast í skjól. Vonandi verður þetta líka til þess að íslensk stjórnvöld styðji ekki framar við íhlutanir Bandaríkjanna og Nató. Það hefur aldrei verið réttlætanlegt en nú ætti það að vera augljóst hversu óhjákvæmilegt er að þær mistakist með tilheyrandi eyðileggingu og óstöðugleika.

Guttormur Þorsteinsson

Kertafleyting

Kertafleytingar í Reykjavík og á Akureyri

By Viðburður

Kjarnorkusprengju var varpað á japönsku borgina Nagasakí þann 9. ágúst árið 1945. Þremur dögum fyrr fengu íbúar Hírósíma sömu örlög.

Í 36 ár hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga staðið fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn til að minnast fórnarlambanna og til að leggja áherslu á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.

Safnast er saman við suðvesturbakka Tjarnarinar, við Skothúsveg mánudaginn 9. ágúst kl. 22:30. Flotkerti verða seld við Tjörnina á 500 krónur.

Fundarstjóri verður Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur og ávarp flytur Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur.

Vegna smitvarnarráðstafana verður einungis hleypt inn í tvö hólf á aðgerðinni, sem hvort tekur að hámarki 200 manns. Rík áhersla verður lögð á að þátttakendur gæti að fjarlægðartakmörkunum.

Kertafleyting verður einnig haldin á Akureyri að venju undir merkjum Samstarfshóps um frið. Hún hefst kl. 22 við Leirutjörn. Ávarp flytur Tryggvi Hallgrímsson félagsfræðingur.

Stefán Pálsson við færeysku sendiskrifstofuna

Ávarp flutt við færeyska sendiráðið, 21. júlí 2021

By Í brennidepli

Kæru félagar

Ég er að safna sendiráðum. Hef enga tölu á þeim fjölda skipta sem ég hef staðið og mótmælt við bandaríska sendiráðið á Laufásvegi í ýmsum veðrum og af margvíslegum tilefnum oftar en ekki með gjallarhorn á vörunum að segja stórveldinu til syndanna. Ég hef staðið við rússneska sendiráðið – oftar en einu sinni og oftar en tvisvar – vegna stríðsreksturs og mannréttindabrota. Ég hef gengið að kínverska sendiráðinu – og staðið á tröppum þýska og breska sendiráðsins… gott ef ekki til að krefjast þess að þrjóturinn Pinochett yrði framseldur til dómstóls þar sem hann ætti von á maklegum málagjöldum.

Ég hef flutt ræðu við norska sendiráðið þegar hingað komu í fyrsta sinn norskar herþotur að taka þátt í þeim fáránlegu orrustuflugæfingum sem kallast á fínu máli „loftrýmisgæsla“. Mig rámar meira að segja í mótmælastöðu við danska sendiráðið… þó sannast sagna muni ég ekki alveg hvað Danir gerðu af sér í það skiptið. Það er ekki hægt að muna allt. En ég hef aldrei – aldrei áður staðið og talað við færeyska sendiráðið.

Að þessu sinni erum við þó ekki – aldrei þessu vant – að mótmæla ofríki og yfirgangi ríkisstjórnar þess lands við hvers sendiráð við stöndum. Ónei! Við erum hér í samstöðuaðgerð með félögum okkar í Færeyjum sem efndu til mótmælafundar í Þórshöfn í dag kl. 17 á færeyskum tíma – skipuleggjendur hafa fengið tilkynningu um þessar aðgerðir okkar. Aðstandendur Þórshafnarfundarins eru einkum unghlðahreyfingar nokkurra stjórnmálaflokka í Færeyjum og tilefnið eru áform um hernaðaruppbyggingu.

Fyrir utan það að Færeyjar eru litla systir okkar Íslendinga í veröldinni – og okkur ber menningarleg og siðferðislega skylda til að fylgjast með því sem þar fer fram. En þess utan – þegar kemur að hernaðarmálum – hafa örlög Íslands og Færeyja lengi verið samofin. Í síðari heimsstyrjöldinni voru Færeyjar hernumdar fáeinum vikum áður en breski herinn steig á land á Íslandi. Íslendingar stofnuðu lýðveldi í stríðslok en Færeyingar samþykktu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu sem danska stjórnin ákvað þó að hafa að engu.

Að heimsstyrjöldinni lokinni sáu Bandaríkin og síðar Nató bæði löndin sem mikilvægar bækistöðvar í hernaðaruppbyggingarneti Kalda stríðsins. Í Keflavík reis herstöð og í raun líka net minni hernaðarmannvirkja, þar á meðal ratsjárstöðva. Í Færeyjum var komið upp ratsjárstöð á Sornfelli, rétt fyrir utan Þórshöfn, snemma á sjöunda áratugnum. Saga þess mannvirkis var saga svika og undirferlis, þar sem dönsk stjórnvöld gættu þess að veita Færeyingum sem allra minnstar upplýsingar um eðli starfseminnar.

Það var ekki fyrr en löngu síðar að það rann upp fyrir íbúum Færeyja hversu umfangsmikil bandarísk herstöð hefði í raun verið rekin rétt fyrir utan höfuðstaðinn. Þessi saga lyga og leynimakks er dæmigerð fyrir framferði danskra ráðamanna gagnvart hjálendum sínum, Færeyjum og Grænlandi á tuttugustu öld, þar sem Bandaríkjamönnum var gefið frítt spil til stórfelldra umsvifa og Danir gættu þess að spyrja einskis og segja íbúum landanna ekki neitt.

Herstöðvaandstaðan í Færeyjum var alla tíð öflug og því fagnað innilega þegar slökkt var á hernaðarhluta ratsjárstöðvarinnar á Sornfelli á nýársdag 2007. Helsta táknmynd kalda stríðsins var úr sögunni… eða það héldu menn.

Síðustu árin höfum við fylgst með sívaxandi áherslu Bandaríkjastjórnar á vígvæðingu við Norður-Atlantshaf. Hér heima sjáum við það með síauknu eftirlitsflugi með kjarnorkukafbátum og aukinna umsvifa í Keflavíkurflugvelli því tengdu. Við sjáum það með tíðum heræfingum, loftrýmisgæslu og herskipakomum – líkt og blasir við okkur í Sundahöfn þessa daganna. Nágrannar okkar hafa ekki farið varhluta af þessari þróun heldur.

Á síðasta ári var samþykkt í Kaupmannahöfn að verja um 1,5 milljörðum danskra króna – það er um 30 milljarðar íslenskra króna – til hernaðaruppbyggingu í Færeyjum og Grænlandi í samræmi við uppbyggingarstefnu Nató. Um 7 milljarðar af þeirri fjárhæð voru eyrnamerktar til endurbyggingar og opnunar hernaðarratsjárstöðvarinnar á Sornfelli.

Þessar fréttir komu eins og þruma úr heiðskíru lofti í Færeyjum og ollu gríðarlega hörðum viðbrögðum. Ekkert hafði verið hirt um að ræða málið við heimamenn. Segja má að í Færeyjum skiptist almenningsálitið í þrennt þegar kemur að ratstjárstöðvarmálinu: í fyrsta lagi eru það þeir sem vilja fylgja forskrift Danmerkur og Nató í einu og öllu. Í öðru lagi eru það þeir sem gætu vel hugsað sér bandarísk hernaðarumsvif á eyjunum á nýjan leik, en vilja að slíkt sé gert í samráði við heimamenn. Þessi afstaða hefur til að mynda verið sterk innan Fólkaflokksins, sem svipar í stefnumálum um margt til Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Í þriðja lagi er það hópurinn sem hafnar hernaðarumsvifum alfarið og vill ekki sjá neina slíka uppbyggingu í Færeyjum.

Skoðanakannanir í Færeyjum benda til þess að mikillar andstöðu við uppbyggingaráformin en staðan á lögþinginu er flóknari og alveg óljóst hvernig málinu myndi reiða af ef það kæmi til kasta þingsins.

Kröfugerðir mótmælanna í Þórshöfn endurspegla þennan pólitíska veruleika. Yfirskrift aðgerðanna þar er: „Vit krevja fólkaræði og føroyskar loysnir“ – með öðrum orðum: ekki komi til greina að samþykkja hernaðaruppbyggingu í Færeyjum eftir danskri forskrift og einungis með undirskrift ráðherra utanríkis- og varnarmála… algjört lágmark sé að málið fáist rætt og þá samþykkt eða synjað á færeyska þinginu.

Sum þeirra sem standa að mótmælunum í Færeyjum krefjast einfaldlega þess að áætlununum verði algjörlega ýtt út af borðinu. Önnur leggja áherslu á að ef til verkefnisins komi þá sé fráleitt að mannvirkin heyri undir danska varnarmálaráðuneytið og verði skipuð starfsmönnum þess – slík ratsjárstöð yrði í það minnsta að heyra undir færeyska stjórn. Fáist málið ekki tekið fyrir í færeyska lögþinginu – er viðbótarkrafa sú að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Herstöðvabaráttan er og hefur alltaf verið í eðli sínu alþjóðleg. Við Íslendingar höfum ekki í okkar baráttu verið drifin áfram af þeirri hugmynd að hernaðarmannvirki séu góðra gjalda verð – þau eigi bara að vera einhvers staðar annars staðar. Heimsstyrjaldir verði í öðrum löndum! Nei, við erum hluti af alþjóðlegri hreyfingu og stöndum gegn hernaðaruppbyggingu alltaf, alls staðar. Það er okkar hlutverk að standa gegn Nató-ásælni á Íslandi á sama hátt og félagar okkar í Grænlandi standa gegn áformum um nýja herflugvelli og vinir okkar í Færeyjum hafna því að gamall draugur verði vakinn upp að nýju á Sornfelli.

Vit krevja fólkaræði og føroyskar loysnir – segja féalgar okkar í Þórshöfn. Og við tökum svo hjartanlega undir þau orð.

Stefán Pálsson

Radarstöðin á Sornfelli

Samstöðumótmæli með Færeyingum

By Fréttir, Viðburður
Færeyskir hernaðarandstæðingar efna til mótmæla í Þórshöfn vegna áforma um að reisa á ný ratsjárstöð sem hluta af vígbúnaðarkerfi Nató og Bandaríkjahers. Saga hersetunnar í Færeyjum er ljót og einkennist af lygum Nató og danskra yfirvalda.
Hernaðarandstæðingar koma saman við sendiskrifstofu Færeyja, Túngötu 14 Reykjavík á miðvikudaginn 21. júlí kl. 20:00 til að styðja baráttu frændsystkina okkar og mótmæla hervæðingu í Norður-Atlantshafi. Hún birtist t.d. í herskipakomu í Reykjavíkurhöfn þessa dagana.
Sýnum samstöðu!
Bjarmalönd crop

Hvað er á seyði í Hvíta-Rúss?

By Viðburður
Miðvikudaginn 9. júní kl. 20:00 verður Valur Gunnarsson sagnfræðingur með fræðslufund í Friðarhúsi. Stöðugar fregnir berast frá Hvíta-Rússlandi, einu lokaðasta ríki Evrópu. Valur er varpar ljósi á stöðu mála í landinu og kynnir jafnframt nýútkomna bók sína, Bjarmalönd, sem rekur á frumlegan og fræðandi hátt stjórnmálasögu ýmissa fyrrum Sovétlýðvelda á síðustu árum. Heitt á könnunni og kalt í skápnum.
Öll velkomin.

Ályktanir Landsfundar SHA 2021

By Ályktun

Ályktun um vígbúnað á norðurslóðum

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. maí 2021, varar við síauknum hernaðarumsvifum á Norðurslóðum. Þeirra sér m.a. stað á Grænlandi, í Færeyjum, í Noregi og á Íslandi. Nálega stöðug viðvera hermanna á Keflavíkurflugvelli, reglubundnar heræfingar og sífelldar fréttir af draumum ýmissa aðila um stórfellda hernaðaruppbyggingu hér á landi eru áminning um mikilvægi baráttunnar gegn her í landi.

Umhverfis Ísland sigla kjarnorkukafbátar með ógurlegum eyðileggingarmætti og mengunarhættu og eiga í stöðugum eltingaleikjum við eftirlitsvélar Bandaríkjamanna sem hér eru tíðir gestir og illir. Vígvæðing norðurslóða er grafalvarleg ógn við náttúru jafnt sem öryggi íbúa svæðisins. Ísland á að tala máli afvopnunar í þessum heimshluta og ganga á undan með góðu fordæmi með því að banna heræfingar, friðlýsa landið og lögsöguna fyrir skaðræðisvopnum og segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin tafarlaust.

Ályktun um kjarnorkuafvopnun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. maí 2021 krefst þess að íslensk stjórnvöld undirriti Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sem öðlaðist gildi 22. janúar síðastliðinn. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga í öllum flokkum styður undirritun sáttmálans og fjölmörg félagasamtök úr öllum geirum hafa hvatt til þess. Við hvetjum stjórnmálaflokka og frambjóðendur til Alþingis til að taka undirritun sáttmálans upp fyrir næstu kosningar svo Ísland geti gengið í lið með þeim 54 löndum sem hafa bannað kjarnorkuvopn og hverskyns fluttning á þeim, eða stuðning við framleiðslu þeirra og dreifingu. Í því samhengi er minnt á að Nató er kjarnorkubandalag og helsta hindrunin í vegi þess að Ísland skrifi undir sáttmálann.

Jafnframt lýsir landsfundur yfir áhyggjum af þróun og framleiðslu kjarnorkuveldanna á nýjum kjarnorkuvopnum. Landsfundur leggur einnig áherslu á nauðsyn þess að taka aftur upp samninga um kjarnorkuafvopnun, t.d. Samninginn við Íran og um bann við meðaldrægum kjarnorkuvopnum sem Bandaríkin sögðu upp árið 2018 og 2019, með alvarlegum afleiðingum fyrir öryggi heimsins. Við mælumst til þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir þessu á alþjóðavettvangi enda hafa allar þjóðir hagsmuni af því að draga úr líkum á beitingu kjarnorkuvopna.

Gamall draugur lætur á sér kræla í Færeyjum

By Í brennidepli
Radarstöðin á Sornfelli

Á landsfundi SHA mætti góður gestur, í gegnum fjarfundarbúnað þó. Það var Högni Höydal leiðtogi Þjóðveldisflokksins og forystumaður í færeyskum stjórnmálum um langt árabil. Þjóðveldisflokkurinn hefur verið lengst til vinstri á pólitíska litrófinu í Færeyjum og jafnframt sú hreyfing sem róttækust hefur verið í sjálfstæðismálum eyjanna.

Tilefni þess að Högni, sem talar afbragðsgóða íslensku, var fenginn til fundarins voru fregnir sem bárust nýverið um að dönsk yfirvöld vildu heimila Nató og Bandaríkjamönnum að koma upp ratstjárstöðvum í Færeyjum. Slíkar stöðvar voru reknar þar í landi stóran hluta kalda stríðsins með tilheyrandi viðveru bandarískra hermanna, en starfsemi þeirri var hætt skömmu eftir aldamót.

Högni rakti vel sögu hermálsins í Færeyjum og hvernig dönsk yfirvöld hafa alla tíð ráðskast með Færeyjar og Grænland þegar kemur að hernaðarmálefnum án nokkurs samráðs við heimamenn. Benti hann á að Danir hefðu í raun leikið þann leik að leggja til land undir hernaðarmannvirki á báðum stöðum og komist þannig hjá því að borga jafnmikið til hernaðarmála og reksturs Nató.

Pólitíska staðan í Færeyjum er flókin. Stjórnarandstöðuflokkarnir Jafnaðarmenn og Þjóðveldisflokkurinn eru alfarið á móti öllum áformum í þessa átt, en sumir ríkisstjórnarflokkarnir eru til í að samþykkja hvað það sem Danir leggja til í þessum málum. Stóra spurningin er um afstöðu Fólkaflokksins, sem svarar um margt til Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum. Líklegt er talið að sá flokkur kunni að standa gegn nýjum ratsjárstöðvum, sem þar með nytu ekki meirihlutastuðnings á þinginu.

Afstaða almennings er einarðari. Mikill meirihluti er á móti hugmyndum þessum, en andstaðan er þó meiri við framkvæmdir sem ákveðnar væru einhliða af Nató og Dönum heldur en ef Færeyingar yrðu hafðir með í ráðum. Pólítísku átökin um málið á þingi munu eiga sér stað nú í sumarbyrjun en síðar í sumar eru fyrirhuguð stór mótmæli í grennd við gömlu ratstjárstöðina frá kaldastríðstímanum. Samtök hernaðarandstæðinga munu fylgjast grannt með þessu máli.