All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Upphafið að endalokum sprengjunnar

Upphafið að endalokum Sprengjunnar! – Friðarsinnar bjóða í bíó!

By Viðburður
Upphafið að endalokum sprengjunnar

Nærri 75 ár eru liðin frá því að fyrstu kjarnorkusprengjurnar voru
notaðar í hernaði. Upp frá því hefur mannkynið lifað í skugga þessara hræðilegu vopna sem eytt gætu siðmenningunni á svipstundu. Kjarnorkuveldunum fjölgar og ný vopn eru þróuð sem aldrei fyrr.

Heimildarmyndin Upphafið að endalokum Sprengunnar!, The Beginning of the End of Nuclear Weapons, eftir spænska leikstjórann Álvaro Orús var frumsýnd fyrr á þessu ári og hefur vakið mikla athygli. Hún rekur sögu baráttunnar gegn kjarnorkuvopnum og fjallar sérstaklega um baráttu samtakanna ICAN, sem komu því til leiðar að 122 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu sáttmála um bann við kjarnavopnum á árinu 2017. Fyrir það afrek hlutu samtökin friðarverðlaun Nóbels. Næsta baráttumál friðarsinna er að fá sem flest ríki til að undirrita og fullgilda sáttmálann. Þar á meðal Ísland og önnur Nató-ríki sem hingað til hafa neitað að gera það.

Samstarfshópur friðarhreyfinga um kjarnorkuvopnabann býður til sýningar á myndinni í Bíó Paradís laugardaginn 30. nóvember kl. 16:00.

Öll velkomin.

Gunnar Karlsson – kveðja frá SHA

By Tilkynningar

Gunnar Karlsson sagnfræðingur lést í Reykjavík á dögunum, rétt rúmlega áttræður að aldri. Hann var dyggur félagið í Samtökum hernaðarandstæðinga og átti í tvígang sæti í miðnefnd samtakanna sem varamaður og aðalmaður á áttunda og níunda áratugnum. Árið 1984 var hann einn af aðstandendum Samtaka um friðaruppeldi sem störfuðu af krafti um nokkurra missera skeið, en um þær mundir spratt upp fjöldi lítilla friðar- og afvopnunarsamtaka hér á landi sem annars staðar.

Sem fræðimaður lagði Gunnar Karlsson sitt að mörkum til rannsókna á sögu herstöðvamálsins. Árið 1976 tók hann saman ritaskrá um sögu hernámsbaráttunnar og árið 1980 sá hann um útgáfu „Sex ritgerða um herstöðvamál“, sem gefin var út af Sagnfræðistofnunar og hefur að geyma mikilsverðar rannsóknir ungra sagnfræðinga á málaflokknum. Þá liggur eftir Gunnar mikill fjöldi blaðagreina um friðarmál.

Samtök hernaðarandstæðinga kveðja góðan samherja og votta aðstandendum innilega samúð.

kjúklingaréttur

Októbermálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
kjúklingaréttur

Fjáröflunarmálsverður Samtaka hernaðarandstæðinga verður í Friðarhúsi fös. 25. okt. Kokkurinn er að þessu sinni fyrrum miðnefndarfulltrúi, Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir. Hún er lystakokkur og hefur t.a.m. rekið veitingahús.

Matseðill:
* „Afrískur“ kjúklingaréttur með ristuðum kókos og bönunum
* Grænmetis kókospottur
* Hrísgrjón
* Salat
* Brauð
* Kaffi og konfekt

Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2.000. Að borðhaldi loknu mun Sigríður K. Þorgrímsdóttir segja frá og lesa upp úr nýrri bók sinni um Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu, eitt helsta skáld íslensku friðarhreyfingarinnar.

Öll velkomin.

Septembermálsverður

By Viðburður

Fyrsti fjáröflunarmálsverður SHA haustið 2019 verður haldinn föstudaginn 27. september í Friðarhúsi. Daníel E. Arnarsson sér um matinn en fyrri málsverðir hans hafa slegið í gegn.

Matseðill:

Kúrbíts- og spínatlasagna

Grískt salat

Hvítlauksbrauð

Tómatsúpa

Bananakaramellufrauð

Kaffi

Að málsverði loknum mun Hreindís Ylva Garðarsdóttir taka lagið. Verð 2000 kr. öll velkomin.

Baráttufundur vegna komu varaforseta Bandaríkjanna

By Viðburður

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna er á leið til Íslands eins og rækilega hefur komið fram í fjölmiðlum. Alkunna er að stefna og framkoma varaforsetans og ríkisstjórnar hans er í andstöðu við skoðanir og gildi fjölmargra Íslendinga. Af því tilefni hafa fjöldi félagasamtaka tekið sig saman um að boða til útifundar á Austurvelli miðvikudaginn 4. september kl. 17:30 undir yfirskriftinni: „Partý gegn Pence: stöndum með friði, frelsi og grænni framtíð“.

Fundurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir fólk úr öllum áttum til að tjá afstöðu sína til stefnu Trump-stjórnarinnar í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinseginfólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk. Félagasamtökin sem að fundinum standa vinna einmitt að þessum málaflokkum.

Flutt verða fimm stutt ávörp, en ræðumenn verða Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, María Helga Guðmundsdóttir fv. formaður Samtakanna 78, Hildur Knútsdóttir rithöfundur og umhverfisverndarsinni, Randi Stebbins mannréttindalögfræðingur og Isabella Rivera sem hefur búið sem innflytjandi í Bandaríkjunum. Einnig verður boðið upp á tónlistaratriði. Almenningur er hvattur til að mæta á Austurvöll og láta skoðun sína í ljós, hver með sínu nefi.

Meðaldræg kjarnorkuvopn

Bandaríkin færa heiminn nær kjarnorkuvetri, og Ísland hjálpar til?

By Í brennidepli
Meðaldræg kjarnorkuvopn

Þann 20. október 2018 tilkynnti forseti Bandaríkjanna að Bandaríkin myndu hverfa frá samningi um banni við skamm- og meðaldrægum kjarnorkuvopnum, eða INF samningnum svokallaða, sem Bandaríkin og Sovétríkin höfðu skrifað undir árið 1987.

Bandaríkin riftu samningnum þann 1. febrúar s.l. og strax daginn eftir fylgdi Rússland á eftir. Bandaríkin véku formlega frá samningnum 2. ágúst s.l.

Vopnauppbyggingin er þegar hafin. Bandaríkin byggja nú upp vopnakerfið US-Aegis í austurhluta Evrópu. Í gegnum NATO eru Bandaríkin nú að uppfæra herstöðvar sínar í Deveselu í Rúmeníu og stefnt er að opnun nýrrar stöðvar Redzikowo í Póllandi árið 2020. Í Deveselu eru neðanjarðarskotpallar fyrir 24 eldflaugar sem hægt er að nota fyrir kjarnorkuvopn, þó svo að yfirlýst markmið stöðvanna sé að verjast árásum. Fjögur bandarísk herskip sigla nú stöðugt um Miðjarðarhafið, Svartahafið og Eystrasaltið. Svipuð eldflaugakerfi eru í þessum herskipum (O‘Rourke, 2019). Þessi eldflaugakerfi eru smíðuð í verskmiðjum Lockheed Martin, en talsmenn fyrirtækisins stæra sig af því að þessi kerfi sé bæði hægt að nota í varnarskyni og einnig í árásarhernaði. Þau geti bæði borið meðaldrægar- og langdrægar eldflaugar (Lockheed Martin, 2019).

Bandaríkin stefna að því að fjölga þessum herskipaflota sínum á heimsvísu frá 38 til 59 árið 2024. Vitað er að Bandaríkin geyma kjarnorkuvopn í fimm NATO-ríkjum Evrópu: Ítalíu, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi og Tyrklandi. Þótt NATO hafi aldrei formlega viðurkennt tilvist þessara kjarnavopna hefur þetta verið illa varðveitt leyndarmál um langa hríð. Kanadíski þingmaðurinn Joseph Day kjaftaði svo að því er virðist óvart frá leyndarmálinu í skýrslu sem hann lét vinna fyrir NATO og bar nafnið „A new era for nuclear deterrence? Modernization, arms control and alien nuclear forces“. Í skýrslunni kom meðal annars fram að Bandaríkin geymi um 150 kjarnavopn á lykilstöðum í Evrópu, flestar svokallaðar B61 „þyngdarafls-sprengjur“. Í skýrslunni segir m.a. „Þessi vopn eru geymd á sex bandarískum og evrópskum herstöðvum – Kleine Bragel í Belgíu, Buchel í Þýskalandi, Aviano og Ghedi Torre í Ítalíu, Voikel í Hollandi og Incirlik í Tyrklandi. Í því hugmyndafræðilega tilfelli að notkun þeirra verði nauðsynleg er hægt að flytja B61 sprengjurnar með bandarískum eða evrópskum flugvélum sem notaðar eru í ýmsum tilgangi“ (Brogel, 2019. Sjá einnig Dinucci 2019).

Ástæðan sem gefin er fyrir þessari uppbyggingu kjarnorku-árásargetu Bandaríkin er sú að aukna hættu steðji af Rússlandi og Kína. Fullyrðingar um slíkt eiga sér ekki stoð í yfirvegaðri yfirsýn yfir hernaðaruppbyggingu þessara ríkja. Rússland hefur í þrjú ár í röð minnkað útgjöld sín til hermála; í fyrra um 3,5 prósentustig. Rússland, landið sem okkur hefur verið kennt að óttast allt frá árinu 1917, eyddi að andvirði rúmum 61 milljarði Bandaríkjadala til hermála. Til samanburðar eyddu Bandaríkin árið 2018,  649 milljörðum Bandaríkjadala í hermál (Tian o.fl. 2019).

Bandaríkin starfrækja nærri því 800 herstöðvar í meira en 70 ríkjum (Vine, 2015). Til samanburðar starfrækir Rússland alls 8 herstöðvar utan eigin landamæra. Eina raunverulega hættan sem okkur stafar af Rússlandi eru viðbrögð ríkisins við augljósri kjarnorkuvopna-uppbyggingu NATO-ríkja nálægt landamærum Rússlands, s.s. í Tyrklandi og Rúmeníu, en Varnarmálaráðherra Rússlands hefur þegar tilkynnt um að ríkið muni svara uppbyggingu kjarnorkuvopna Bandaríkjanna með eigin uppbyggingu næstu ár. Hvað varðar viðbrögð Kína er erfiðara að segja til um, en samkvæmt Tian o.fl. (2019) eyða Kínverjar einungis um þriðjungi þess sem Bandaríkjamenn gera, í hermál.

Nú hefur Ísland gerst hluti af hernaðaruppbyggingaráformum Bandaríkjanna. Meðal fyrstu verka Bandaríkjahers eftir tilkynningu um aukna uppbyggingu á Íslandi var að æfa eldsneytisgjöf til hættulegustu herflugvélar heims á íslenskri grundu. Þessar flugvélar eru sérstaklega hannaðar til að geta sleppt allt að 16 kjarnorkuvopnum og flogið nánast ósýnilega inn í landamæri „óvinaríkis“.

Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Íslands er undir yfirskyni hernaðaruppbyggingar og MEINTRI ógn af Rússum og Kínverjum. Á fundinum gefst íslenskum ráðamönnum tækifæri á því að koma þeim skilaboðum skýlaust á framfæri að Ísland haldi sig utan uppbyggingu á gjöreyðingavopnum og neiti að taka þátt í ferli sem færir heiminn nær gjöreyðingu.

Ísland myndi þar fylgja fordæmi margra ríkja sem hafa lagt algjört bann við notkun og uppbyggingu á kjarnorkuvopnum. Ísland getur og á að stunda sjálfstæða utanríkisstefnu sem byggir á gagnkvæmri virðingu og góð samskiptum við öll ríki og vinnur í þágu friðar á heimsvísu. Ísland má ekki verða skotmark eða aðili að mögulegu gjöreyðingarstríði. Hinn möguleikinn er að halda áfram að lúffa möglunarlaust fyrir áformum þjóðar sem þykist vera heimsveldi og sýnir æ brjálæðislegri tilburði.

Við, almenningur, verðum að láta í okkur heyra. Við neitum að sitja þögul meðan heimurinn færist nær tortímingu vegna uppbyggingar kjarnorkuvopnabúrs heimsins. Mike Pence kemur til Íslands sem talsmaður slíkrar uppbyggingar, því verðum við að mótmæla.

-Jón Karl Stefánsson

 

Heimildir

O‘Rourke, R. (24. júlí 2019). Navy Aegis ballistic missile defense (BMD) program: Background and issues for Congress. Congressional Research Service. Sótt 3. september 2019 af: https://fas.org/sgp/crs/weapons/RL33745.pdf

Lockheed Martin (3. september 2019). Aegis: The shield of the fleet. Sótt af: https://www.lockheedmartin.com/en-us/products/aegis-combat-system.html

Brogel, K. (19. júlí 2019). Eindelijk zwart op wit: er liggen Amerikaanske kernwapens in Belgie. De Morgen. Sótt af: https://www.demorgen.be/nieuws/eindelijk-zwart-op-wit-er-liggen-amerikaanse-kernwapens-in-belgie~b051dc18/?referer=https%3A%2F%2Fwww.voltairenet.org%2Farticle207437.html

Dinucci, M. (26. ágúst 2019). Nato Nuclear Gaff. Voltaire Network. Sótt af: https://www.voltairenet.org/article207437.html

Tian, N., Fleurant, A., Kuimova, A., Wezman, P. D. og Wezman, S. T. 2019. Trends in world military expenditure, 2018. Stockholm International Peace Research Institute. Sótt 29. Júlí 2019 af: https://sipri.org/sites/default/files/2019-04/fs_1904_milex_2018_0.pdf

Vine, D. 2015. Where in the world is the U.S. military? Politico. Sótt 29.07.2019 af: https://www.politico.com/magazine/story/2015/06/us-military-bases-around-the-world-119321