All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Svör flokkanna, 3. spurning: Aðild að hernaðar­bandalögum

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 3 hljómaði svo: Styður flokkurinn aðild Íslands að hernaðarbandalögum og þá með hvaða áherslum eða af hverju ekki?– Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Sjálfstæðisflokkur:
Sjálfstæðisflokkurinn styður aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, aukna þátttöku í varnarsamstarfi við önnur Norðurlönd og á grundvelli JEF samstarfsins með Bretlandi, Hollandi, hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.

Píratar:
Flokkurinn styður ekki aðild að hernaðarbandalögum. NATO á að vera varnarbandalag. Flokkurinn hefur ekki samþykkta stefnu með eða á móti Natóaðild, en telur mikilvægt að rödd þjóðarinnar fái að heyrast hvað varðar áframhaldandi þátttöku Íslands í NATO og í öðru varnarsamstarfi. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það að tala fyrir friði innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.

Samfylkingin:
Samfylkingin styður aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og telur að Íslendingar eigi að taka virkan þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða á þeim vettvangi. Efla þarf Landhelgisgæsluna og alla öryggistengda innviði landsins, styrkja bæði björgunarsveitir og lögreglu, og tryggja betur net- og fjarskiptaöryggi landsins. Að auki hefur aðild Svíþjóðar og Finnlands að NATO aukið tækifærin til norræns samstarfs í varnarmálum og vill Samfylkingin beita sér fyrir metnaðarfullri þátttöku Íslands í því samstarfi.

Lýðræðisflokkurinn:
Lýðræðisflokkurinn styður aðild Íslands að NATO sem varnarbandalagi, en ekki sem árásarbandalagi.

Vinstri græn:
Nei – Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur frá stofnun verið á móti aðild Íslands að NATO. NATO er hernaðarbandalag sem áskilur sér beitingu kjarnorkuvopna að fyrrabragði og eykur ekki öryggi í heiminum. Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum og banna umferð þeirra. Ísland á að undirrita og lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Framsóknarflokkur:
„Í ljósi vaxandi óstöðugleika á alþjóðasviðinu, þarf að gera öryggis- og varnarmálum hærra undir höfði innan utanríkisstefnunnar almennt. Framsókn styður þjóðaröryggisstefnu Íslands og framkvæmd hennar. Öryggis- og varnarmál ná nú í vaxandi mæli til málaflokka á borð við netöryggis og fjarskipta, fjölþátta ógnana og samgangna.
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tryggja í grundvallaratriðum öryggi landsins. Nú þegar öll Norðurlöndin eru aðilar að bandalaginu, kunna möguleikar í svæðisbundnu norrænu varnarsamstarfi að aukast. Framsókn telur mikilvægt að styrkja enn frekar stoðir þess í ljósi landfræðilegrar legu Íslands og leggur áherslu á áframhaldandi góð samskipti og samstarf við aðrar þjóðir. Raunsæi, fyrirhyggja og öflugar varnaráætlanir skipta sköpum.” – Samþykkt á 37. Flokksþingi Framsóknar 20.-21. apríl 2024

Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur stutt samvinnu vestrænna þjóða til að tryggja frið og standa vörð um öryggi landsins. Þar með hefur flokkurinn stutt aðild Íslands að NATO og varnarsamvinnu vestrænna ríkja. Miðflokkurinn telur að það tryggi best öryggishagsmuni landsins og um leið það samstarf og samvinnu sem Íslendingum hefur reynst best.

Viðreisn:
Já Viðreisn telur að öryggi Ísland sé best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast innra öryggi, landamæra eftirlit og varnir gegn hryðjuverkum, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Ísland á að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, lýðræði og mannréttindi í heiminum, í samstarfi við samstarfsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.

Sósíalistaflokkurinn:
Sósíalistaflokkurinn er gegn því að Ísland sé í hernaðarbandalögum. Í stað þeirra ætti Ísland að leitast við að stofnað verði til raunverulegra friðar- og varnarsamtaka. Þjóðin var aldrei spurð um það hvort hún vildi ganga inn í Nató. Það er í stefnu Sósíalista að málið verið tekið upp sem fyrst.

B-2 sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli

Svör flokkanna, 2. spurning: Íslenskur her eða vopnastuðningur?

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 2 hljómaði svo: Hver er afstaða flokksins til þess að Ísland hafi eða hafi ekki eigin her, eða leggi öðrum herjum til hermenn eða vopn? – Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Framsóknarflokkur:
Framsókn styður þá stefnu að Ísland sé herlaust land og leggur áherslu á að viðhalda þeirri stöðu. Flokkurinn vill að Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi um frið og öryggi án þess að leggja til hermenn eða vopn.

Sjálfstæðisflokkur:
Sjálfstæðisflokkurinn telur ekki að Ísland eigi að stofna eigin her. Þar af leiðandi er Ísland ekki í aðstöðu til þess að leggja öðrum herjum til hermenn eða vopn.

Píratar:
Sú afstaða hefur undanfarið helst birst í því að þingflokkur Pírata hefur lagt áherslu á að Ísland sé herlaust ríki sem beitir sér fyrir friðsömum lausnum, þannig að þegar hefur t.d. komið að stuðningi við Úkraínu eigi íslensk stjórnvöld að einbeita sér að borgaralegum stuðningi og mannúðaraðstoð. Í því ljósi sat meirihluti þingflokks Pírata hjá þegar kom að atkvæðagreiðslu um þann hluta tillögu um stuðning Íslands við Úkraínu sem snéri að því að borga í sjóði sem kaupa vopn fyrir Úkraínumenn, þó að þingflokkurinn hafi stutt stefnuna að öðru leyti.

Sósíalistaflokkurinn:
Ísland á að vera með öllu herlaus og á aldrei að kaupa vopn. Einnig er stefna Sósíalistaflokksins að engin vopna- og kjarnorkuflutningar megi eiga sér stað í íslenskri landhelgi og lofthelgi.

Lýðræðisflokkurinn:
Að áliti Lýðræðisflokksins hefur það verið hornsteinn utanríkisstefnu lýðveldisins Íslands frá upphafi að Íslandi fari ekki með vopnavaldi gegn öðrum ríkjum. Slíkt ríki, sem ekki hefur eigin her, hefur enga siðferðilega stöðu til að etja öðrum þjóðum út í stríð. Ísland á ekki að fjármagna vopnakaup eða leggja til hermenn. Ákvarðanir um slíkt má ekki nema þjóðin hafi áður veitt samþykki sitt fyrir slíkri stefnubreytingu.

Vinstri græn:
Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan, né leggja öðrum til hermenn eða vopn.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að efla landamæraeftirlit landsins og styrkja stofnanaumgjörð öryggismála, bæði innan Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar. Enginn ætlast til þess að Íslendingar vopnist en augljóslega þarf að auka getu og þekkingu til þess að við getum sinnt alþjóðasamstarfi á þessu sviði betur.

Svör flokkanna, 1 . spurning: Friður, afvopnun og hernaðarþátttaka?

By Í brennidepli

Líkt og fyrir fyrri kosningar sendu Samtök hernaðarandstæðinga spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu.

Hér fylgja svör þeirra flokka sem svöruðu spurningunni: Hver er stefna flokksins í friðarmálum, afvopnunarmálum og hernaðarþátttöku

Miðflokkurinn:
Miðflokkurinn leggur áherslu á og styður allar aðgerðir sem tryggja frið. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þær afleiðingar sem stríð og ófriður hefur á saklaust fólk. Því styður flokkurinn allar aðgerðir til afvopnunar og til að efla frið.

Sjálfstæðisflokkurinn:
Stærsta hagsmunamál Íslands í utanríkismálum er að virðing sé borin fyrir alþjóðalögum og þeim stofnunum sem ætlað er að gæta þeirra. Alþjóðakerfið, með stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna að grundvelli, hefur þann megintilgang að koma í veg fyrir stríðsátök. Sjálfstæðisflokkurinn telur að Ísland eigi að stuðla að friði í heiminum með því að standa með og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á þeim grundvelli.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að stefnt sé að afvopnun sem víðast á grundvelli trygginga og eftirlits. Einhliða afvopnun er ekki skynsamleg.
Ísland er aðili að öryggis- og varnarbandalagi, Atlantshafsbandalaginu og ætti ætíð að leita leiða til þess að leggja bandalagsríkjum lið. Eðli málsins samkvæmt er það jafnan á grundvelli borgaralegs framlags, enda hefur Ísland ekki her.

Lýðræðisflokkurinn:
Stefna Lýðræðisflokksins er sú að vera málsvari friðar og sátta. Við teljum að Ísland, sem herlaus þjóð, eigi hvergi að hella olíu á ófriðarbál.

Vinstri græn:
Ísland á að beita sér fyrir friði og hafna hernaðaríhlutun, beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun sem og að vinna gegn vopnaframleiðslu og vígbúnaði. Stríð og hernaður leysa engin vandamál, þótt hernaðarsinnar haldi því fram að barist sé fyrir friði og mannréttindum. Auk þess er vígvæðing og hernaður gegndarlaus sóun auðlinda og lífs. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Þá minnum við á að stríðum lýkur ekki með orrustum heldur friðarsamningum.

Sósíalistaflokkurinn:
Ísland er herlaus þjóð og að á að beita sér fyrir afvopnun og friði á hinu alþjóðlega sviði. Við eigum að standa með þeim undirokuðu, standa með mannréttindum og alþjóðalögum. Ekki bara er það hið siðferðislega rétta að gera heldur varðar það hagsmuni Íslands að alþjóðalög og mannréttindi séu virt og að hægt sé að koma í veg fyrir stigmögnun átaka.

Samfylkingin:
Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland beiti sér fyrir jöfnuði og mannréttindum um allan heim og sé ávallt málsvari friðar, mannúðar, jafnréttis og lýðræðis. Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt og nú að frjálslynt og lýðræðislega sinnað fólk fylki sér um grunngildi opins lýðræðisþjóðfélags og standi vörð um það sem áunnist hefur í alþjóðasamvinnu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ísland á að reka mannúðlega utanríkisstefnu sem miðar í senn að því að styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og leggja okkar af mörkum við úrlausn þeirra risavöxnu áskorana sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.

Framsóknarflokkurinn:
Framsókn leggur áherslu á að Ísland haldi áfram að vera herlaust land og styður við alþjóðlegt samstarf um frið og afvopnun. Flokkurinn vill að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum sem stuðla að friði og öryggi, og leggur áherslu á að efla mannúðarsjónarmið í alþjóðamálum.

Píratar:
Píratakóðinn, sameiginleg gildayfirlýsing Pírataflokka um allan heim, byrjar á orðunum: Píratar eru friðelskandi. Þetta birtist m.a. í því að lengi hefur stefna Pírata kveðið á um að hafna skuli hvers kyns hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum.
Píratar hafa ítrekað þrýst á ríkisstjórnina að vera rödd skynseminnar í afvopnunarmálum, eins og með því að mæta á fundi aðildarríkja TPNW, samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gegnum fyrirspurnir á Alþingi hefur fráfarandi ríkisstjórn ekki einu sinni fallist á að sækja fundina sem áheyrnarfulltrúi líkt og nokkur Natóríki gera.
Þegar þjóðaröryggisstefna Íslands var uppfærð vorið 2023 lögðu Píratar til að ákvæði um friðlýsingu landsins fyrir kjarnavopnum væri gert skýrara og afdráttarlausara. Breytingartillagan, varatillaga og tillaga til þrautavara voru allar felldar í atkvæðagreiðslu og nutu aðeins stuðnings þingflokks Pírata og eins fulltrúa Flokks fólksins.
Innan Alþingis hafa Píratar dregið fram í dagsljósið upplýsingar um þá gríðarlegu uppbyggingu sem undanfarin ár hefur átt sér stað á varnarsvæðinu á Keflavík og gagnrýnt þá stefnubreytingu sem virðist þar hafa orðið án nokkurrar opinberrar umræðu. 

Bókarkápa Gengið til friðar, sögu herstöðvarbaráttunnar

Útgáfuhóf – Opið hús í Friðarhúsi

By Viðburður

Til að fagna útkomu bókarinnar Gengið til friðar efna Samtök hernaðarandstæðinga til útgáfuhófs í Friðarhúsi laugardaginn 23. nóvember milli kl. 15 og 17.
Vinir og velunnarar eru boðin velkomin. Þorvaldur Örn Árnason rifjar upp lög úr baráttunni og Guðni Th. Jóhannesson fjallar um herstöðvabaráttuna út frá sjónarhorni sagnfræðingsins.

Bókin verður til sölu á sérstöku tilboðsverði og boðið verður upp á léttar veitingar og milliþungar.

Bókarkápa Gengið til friðar, sögu herstöðvarbaráttunnar

Útgáfuhóf

By Fréttir, Viðburður

Hóf Skruddu vegna útgáfu sögu herstöðvarbaráttunnar: “Gengið til friðar” verður haldið í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð 39 fimmtudaginn 14. nóv kl. 16:00. Þar verða léttar veitingar í boði og stuttur upplestur.
Við munum svo auglýsa útgáfuhóf í Friðarhúsi sem verður haldið síðar í mánuðinum.

Ofnbakað grænmeti

Októbermálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður
Það er gott í vændum í Friðarhúsi á föstudagskvöld, 25. október . Á fjáröflunarmálsverðinum verður því fagnað að bókin Gengið til friðar: saga andófs gegn herstöðvum og vígbúnaðarhyggju er komin út. Kokkurinn verður hin frábæra Dóra Svavars, sem hefur alltaf slegið í gegn.
Matseðill:
* Lambasíða brasseruð með rabarbarasultu
* Bygg- og baunahleifur
* Bakað rótargrænmeti m/þurrkuðum ávöxtum og kryddum
* Salat
* Nýbakað brauð
* Hrísgrjón
* Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu tekur við menningardagskrá. Kristín Svava Tómasdóttir segir frá bókinni „Dunu: sögu kvikmyndargerðarkonu“ sem kemur út á næstu dögum. Þá mun „karlinn á lýrukassanum“ – Guðmundur Guðmundsson lýrukassaleikari koma, segja frá hljóðfærinu og taka nokkur vel valin lög.
Öll velkomin. Verð kr. 2.500
Kjúklingabauna tagine

Fyrsti fjáröflunar­málsverður haustsins

By Fréttir, Viðburður
Septembermálsverður SHA verður í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, föstudaginn 27. Þóra Kristín Þórsdóttir og Kolbeinn H. Stefánsson stýra pottum og pönnum.
Matseðill – marokkóskt þema:
  • Lambagúllas
  • Kjúklingabaunatagine
  • Brauð og kúskús
  • Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu mun Bony Man taka lagið og Hildur Hákonardóttir myndlistarkona mun segja frá pólitískri list sinni, en hún vann á sínum tíma fjölda áhugaverðra verka tengd friðar- og jafnréttisbaráttunni.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

Gengið til friðar

By Fréttir, Tilkynningar

Saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006

 

Nú er hægt að forpanta bókina “Gengið til friðar, saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006” á sérstöku tilboðsverði, 9.990 kr. Þar er rakin saga herstöðvabaráttunnar um sex áratuga skeið.
Í þessari efnismiklu og ríkulega myndskreyttu bók fjallar hópur höfunda um málið frá mörgum hliðum, þar sem einnig er fjallað um birtingarmyndir herstöðvabaráttunnar í bókmenntum, tónlist, myndlist og kvikmyndum svo dæmi séu tekin. Árni Hjartarson er ritstjóri verksins.

Kertafleytingar 9. ágúst

By Viðburður
Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir kertafleytingu til minningar um fórnarlömb kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Komið verður saman við suðvesturenda Reykjavíkurtjarnar kl. 22:30. Tómas Jóhannesson eðlisfræðingur flytur ávarp og Eyrún Ósk Jónsdóttir les friðarljóð. Elín Oddný Sigurðardóttir verður fundarstjóri. Flotkerti verða seld á staðnum og kosta 1.000 krónur.
Árið 1945 vörpuðu Bandaríkjamenn kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí. Borgirnar urðu rústir einar og gríðarlegur fjöldi fólks fórst eða örkumlaðist. Upp frá því hefur ógnin um beitingu kjarnorkuvopna vomað yfir mannkyni. Sjaldan hefur hættan á kjarnorkustríði verið meiri en einmitt um þessar mundir.
Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba
kjarnorkuárásanna og minnt á kröfu sína um veröld án kjarnorkuvopna með því að fleyta kertum, ýmist á Hírósíma- eða Nagasakí-daginn. Í ár verður seinni dagsetningin fyrir valinu, föstudaginn 9. ágúst verður kertum fleytt á fjórum stöðum á landinu.
Á Ísafirði verður kertum fleytt við Neðstakaupstað á Suðurtanga kl. 22:30 þar sem Eiríkur Örn Norðdahl flytur ávarp. Akureyringar og Seyðfirðningar hefja leik hálftíma fyrr. Á Seyðisfirði verður safnast saman við tjörnina fyrir framan grunnskólann en Akureyringar fleyta við Leirutjörn, þar sem Ragnar Sverrisson flytur ávarp.
Kort af Tjörninni með staðsetningu kertafleytingarinnar merkta inn á
Kertafleyting

Hversvegna fleytum við kertum?

By Í brennidepli, Viðburður

English below.

Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn annað hvort 6. eða 9. ágúst í minningu fórnarlamba kjarnorkuárása Bandaríkjanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí árið 1945, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Kjarnorkuárásirnar 1945
Aðeins einu sinni í sögunni hefur kjarnorkuvopnum verið beitt í hernaði. Það var þegar Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á Hírósíma og Nagasakí til að knýja Japani til uppgjafar á lokaspretti heimsstyrjaldarinnar. Árásunum var að öllum líkindum einnig ætlað að sýna Sovétmönnum styrk þessara nýju vopna fyrir Kalda stríðið sem hófst skömmu síðar. Allt að 200 þúsund manns eru talin hafa farist í árásunum og enn fleiri máttu berjast við afleiðingar sprenginganna löngu síðar.

Baráttan gegn kjarnorkuvopnum
Þótt kjarnorkuvopnum hafi ekki verið beitt frá árinu 1945 eiga helstu herveldi heims fjölda slíkra sprengja í vopnabúrum sínum, einkum Bandaríkin og Rússland. Þessi vopn geta útrýmt mannkyninu margoft ef til kjarnorkustríðs kæmi og sú hætta er alltaf fyrir hendi að kjarnorkuvopn muni springa fyrir mistök. Fjölmargar þjóðir heims hafa undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ísland er ekki í þeim hópi, enda hafa öll aðildarríki Nató neitað að gera það þar sem kjarnorkuvopn eru mikilvægur þáttur í hernaðarstefnu þeirra.

Kertafleytingin
Friðarsinnar koma saman við suðvesturenda Tjarnarinnar kl 22:30 á Nagasakí-daginn, 9. ágúst. Kerti eru seld á staðnum fyrir 1.000 krónur. Eftir stutt ávarp eru kertin látin fljóta á Tjörninni til að minnast fórnarlamba árásanna árið 1945 og til að árétta kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.


Why do we float candles?

Since 1985, Icelandic pacifists have floated candles on the Pond in Reykjavík, either on the 6th or 9th of August 6th, in memory of the victims of the US nuclear strikes on the Japanese cities of Hiroshima and Nagasaki in 1945, at the end of World War II.

The 1945 nuclear attacks
Only once in history have nuclear weapons been used in warfare. It was when the US military dropped atomic bombs on Hiroshima and Nagasaki to force Japan to surrender in the final stages of World War II. The attacks were also likely intended to show the Soviets the strength of these new weapons before the Cold War that began soon after. Up to 200,000 people are believed to have perished in the attacks, and even more had to struggle with the consequences of the explosions long after.

The fight against nuclear weapons
Although nuclear weapons have not been used since 1945, the major military powers of the world have a number of such bombs in their arsenals, especially the United States and Russia. These weapons can wipe out humanity many times over in the event of a nuclear war, and there is always the risk that a nuclear weapon will explode by mistake. Many nations of the world have signed the United Nations Treaty on the Prohibition of Nuclear Weapons. Iceland is not in that group, as all NATO member states have refused to do so as nuclear weapons are an important part of their military strategy.

The candlelight vigil
This yeah peace activists will gather at the south-west end of the Pond at 22:30 on Nagasaki Day, August 9. Candles are sold locally for 1,000 ISK. After a short speech, the candles are floated on The Pond to remember the victims of the attacks in 1945 and to reaffirm the demand for a world without nuclear weapons.

Kort af Tjörninni með staðsetningu kertafleytingarinnar merkta inn á