All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Kertafleyting

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

By Fréttir, Tilkynningar

75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba þessara árása og um leið minnt á kröfuna um heim á kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.

Kertafleytingin hefur verið fjölsóttur atburður enda málefnið brýnt. Ljóst er að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki unnt að halda aðgerðina með hefðbundnu sniði, vegna reglna um fjöldatakmarkanir. Þess í stað hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga ákveðið að haldin verði táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem verði tekin upp og streymt á netinu að kvöldi 6. ágúst. Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu að kvöldi hins 5. ágúst, um sama leyti og Hírósímasprengjan sprakk fyrir 75 árum.

Kjarnorkuvopn eru síst minni ógn í dag en á tímum Kalda stríðsins og eru nýlegar fréttir af áformum stórvelda, jafnt Nató-ríkja og Rússlands, um þróun nýrra og öflugri vopna til marks um það. Samstarfshópur friðarhreyfinga hvetur íslensk stjórnvöld til að snúast á sveif með þeim ríkjum sem undirritað hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Friðarsinnar munu á ný koma saman við Reykjavíkurtjörn að ári.

Aldrei aftur Hírósíma – aldrei aftur Nagasaki!

Her­væðing lög­reglunnar

By Í brennidepli

Þeir sem eitthvað hafa fylgst með í fréttum og samfélagsmiðlum ættu að vera meðvitaðir um mótmælaölduna í Bandaríkjunum eftir að George Floyd var myrtur á hrottalegan hátt af lögreglumanni. Það er þó einföldun að telja að þetta eina atvik hafi hrundið af stað mótmælunum heldur eru þau afsprengi aldagamals kerfisbundins rasisma. Þeldökkt fólk í Bandaríkjunum er þrisvar sinnum líklegra til að verða drepið af lögreglunni heldur en aðrir kynþættir, og þó líklegra til þess að vera drepið óvopnað. Fannie Lou Hamer svaraði því hví hún héldi ótrauð áfram að ýta eftir réttindum svartra ,,I‘m sick and tired of being sick and tired.“ Tel ég að það sé betri útskýring á mótmælunum og umfangi þeirra. Fólk er sick and tired of being sick and tired.

Í Bandaríkjunum bera lögreglumenn ekki bara kylfur, handjárn og piparúða líkt og hér á Íslandi. Í mótmælunum í Bandaríkjunum sést lögreglan nota brynvörð farartæki, skriðdreka, og á götunum marsera lögreglumenn með hríðskotabyssur á meðan drónar og þyrlur svífa yfir. Þetta eru hergögn notuð gegn þeirra eigin borgurum. Hergögn sem eiga að vernda hvít forréttindi eru í höndum þeirra sem framfylgja og viðhalda kerfisbundnum rasisma.

Afhverju er ég að skrifa um þetta? Jú af því að allt of oft hefur verið reynt að hervæða lögreglunnar hér á landi. Síðasta tilvikið var núna í maí síðastliðnum þegar tekinn var í notkun sérhannaður bíll til að sinna landamæraeftirliti sem „mun nýtast vel…þar sem þörf er á að skoða og sannreyna skilríki svo sem í vinnustaðaeftirliti“ segir á vefsíðu lögreglunnar. Árið 2014 keypti íslenska lögreglan hríðskotabyssur frá norska hernum. Enn er óvíst hvernig það mál endaði, hvort að byssurnar séu enn hér í landi eða að þeim hafi verið skilað aftur til Noregs eftir mótmæli almennings. Árið 2017 voru sýnilega vopnaðir lögreglumenn á fjölskylduskemmtuninni Color Run. Þáverandi ríkislögreglustjóri sagði þetta vera gert vegna mannskæðra árása í erlendum borgum og auknum fjölda erlendra borgara á Íslandi.

Á Íslandi er inngróinn kerfisbundinn rasismi í lögreglunni og Útlendingastofnun. Ítrekað hefur lögreglan tekið þátt í að flytja flóttamenn úr landi og handtekið farandverkamenn án starfsleyfis. Í mars 2019 beitti lögreglan táragasi í friðsælum mótmælum hælisleitenda á Austurvelli. Við viljum ekki að þannig stofnanir hafi völd og rétt til að drepa okkar eigin George Floyd. Lausnin liggur frekar í því að fjölga lögreglumönnum og semja við þá um mannsæmandi kjör (lögreglumenn hafa nú verið samningslausir í 15 mánuði og eru án verkfallsrétts). Látum ekki undan þeirri kröfu sem heyrist núna að lögreglan hér á landi verði vopnuð enn frekar til að bregðast við ofbeldi.

Á sama tíma vil ég hvetja fólk til að kynna sér hvít forréttindi, rasisma á Íslandi, hlusta á sögur fólks af rasisma og valdefla það.

Ólína Lind, ritari

Bandarískt leyniskjal afhjúpað

Bandarískt leyniskjal afhjúpað

By Fréttir

Bandarísk stjórnvöld hafa aflétt leynd af ýmsum skjölum sem varpa ljósi á Kalda stríðið. Þar á meðal er minnisblað sem tekið var saman fyrir þjóðaröryggisráðgjafa forsetans í kjölfar hinnar misheppnuðu Svínaflóainnrásar, þar sem listað var upp til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa áður en kjarnorkuvopnum sem staðsett kynnu að vera á herstöðvum í einstökum bandalagsríkjum BNA væri beitt.

Í ljós kemur að ráðstafanirnar voru afar mismunandi og ætti raunar ekki að koma á óvart. Þannig kemur fram að engar sérstakar ráðstafanir þurfi að gera vegna herstöðva í Þýskalandi, Kóreu, Filippseyjum, Marokkó eða Vestur-Indíum. Sama gilti um beitingu kjarnorkuvopna frá herstöðinni í Okinawa í Japan, en vegna annarra stöðva þar í landi yrði að hafa samráð við japönsk stjórnvöld.

Stöðvar á Spáni teldust Bandaríkjamönnum til frjálra afnota ef þeir ákvæðu einhliða að slíkar aðgerðir væru til þess fallnar að vinna gegn kommúnískri ásælni. Í Tyrklandi væru aðgerðir heimilaðar ef Nató teldist ógnað. Í Danmörku, Grikklandi, Portúgal, Hollandi og Ítalíu teldist nóg að um Nató-aðgerð væri að ræða.

Gert var ráð fyrir að forsætisráðherra Bretlands fengi beint símtal frá Bandaríkjaforseta áður en til beitingar vopna kæmi og eins voru ákveðnar leiðir til að upplýsa Kanadabúa ef til kæmi. Varðandi Frakkland væri þörf á samráði sem færi þó eftir eðli aðgerðanna.

Viðbúið er Íslendinga fýsi helst að vita hvað segir í 8. lið skjalsins þar sem talað er um Lýðveldið Kína (Tævan), Ísland og Noreg. Þar stendur: „No special requirements appear with respect to the use of nuclear weapons from bases in these countries, but host government consent is required before the bases may be used.“

Minnisblaðið má finna hér.

Kjúklinga satay

Maímálsverður

By Viðburður

Eftir nokkurt hlé hefjast fjáröflunarmálsverðir SHA í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 á nýjan leik. Fyllsta öryggis verður þó gætt á viðburðinum.

Geir Guðjónsson og Þórhildur Heimisdóttir elda. Geir sinnir kjötætum en Þórhildur grænkerum.

Matseðill:
* Satay kjúklingur með ofnsteiktum sætum kartöflum og gulrótum
* Dahlalæða- linsubaunaréttur, með nýju grilluðu grænmeti og kjúklingabaunum. Sætkartöfluflatkökur og hrísgrjón
* Kaffi og konfekt

Karl Ágúst Úflsson rithöfundur mun lesa að borðhaldi loknu.

Sest verður að snæðingi kl. 19:00. Verð kr. 2.000. Öll velkomin.

Hvað gerðist á meðan við litum undan?

Hvað gerðist á meðan við litum undan?

By Viðburður
Hvað gerðist á meðan við litum undan?

Staða mála í Miðausturlöndum í skugga Covid.

Samtök hernaðarandstæðinga efna til fundar um spennu- og átakasvæði í Miðausturlöndum miðvikudaginn 20. maí kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Þótt fréttastofur heimsins hugsi vart um annað en Covid-19 faraldurinn heldur Jörðin áfram að snúast. Dregið hefur til tíðinda allt frá Líbýu í vestri til Írans í austri, á Arabíuskaga, Sýrlandi, Írak og Ísrael.

Hvað hefur gerst á meðan Evrópubúar hættu að horfa? Eru stríðin í þessum heimshluta í rénum eða eru ný að gjósa upp?

Gunnar Hrafn Jónsson fréttamaður og sérfræðingur í alþjóðamálum fer yfir stöðu mála og svarar spurningum. Öll velkomin á meðan húsrúm og fyrirmæli sóttvarnarlæknis leyfa.

Herskip

Hernaðarbrölt í heimsfaraldri

By Ályktun, Í brennidepli
Herskip

Á miðvikudaginn sendi Trump Bandaríkjaforseti herafla til Karabíska hafsins í framhaldi af ákæru á hendur forseta Venesúela fyrir eiturlyfjasmygl. 15 milljónir bandaríkjadala voru settar til höfuðs forsetanum og liðsflutningarnir á svæðinu eru þeir mestu síðan 1989 þegar Bandaríkin réðust inn í Panama. Efnahagsþvinganir og valdaránstilraunir hafa ekki náð fram markmiðum Bandaríkjastjórnar í Venesúela svo að nú er stríðið gegn eiturlyfjum notað sem skálkaskjól. Það hefur lengi verið afsökun fyrir íhlutunum og hernaðarafskiptum Bandaríkjanna á svæðinu en samt er það bandalagsríkið Kólumbía sem er ábyrgt fyrir mestum útflutningi eiturlyfja.

Það er sérstaklega óábyrgt að standa í svona hernaðarbrölti í miðjum heimsfaraldri þegar ætti þvert á móti að draga úr spennu og slaka á viðskiptaþvingunum til að hægt sé að senda nauðsynleg hjálpargögn og grípa til viðeigandi ráðstafanna. Þetta á ekki bara við um fórnarlömb Bandarískra íhlutana heldur Bandaríkin og bandalagsríki þeirra sjálf sem eru hvað verst leikin af Covid-faraldrinum. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvatti um daginn til vopnahlés á öllum stríðssvæðum þar sem farsóttir geta bætt gráu ofan á svart. Það er því óðs manns æði að kynda enn frekar undir ófriði í heiminum með vopnaskaki í Karabíska hafinu.

Miðnefnd samtaka hernaðarandstæðinga samþykkti því að skrifa undir opið bréf belgísku friðarsamtakanna Agir Pour La Paix til evrópskra stjórnvalda um að beita sér gegn þessum aðgerðum og einbeita sér frekar að því að styrkja þá innviði sem þarf til að ná tökum á faraldrinum.

Martyn Lowe

Martyn Lowe um lögreglunjósnara

By Viðburður
Martyn Lowe

Um árabil hafa lögreglumenn villt á sér heimildir sem aðgerðasinnar og njósnað um baráttusamtök í Bretlandi og víðar. Sumir áttu meira að segja náin kynni við konur innan samtakanna á meðan. Hér á Íslandi njósnaði Mark Kennedy/Stone um mótmælendur gegn Kárahnjúkavirkjun.

Aðfarir þeirra voru afhjúpaðar af meðlimum Greenpeace í Lundúnum og eru nú til rannsóknar. Kona sem átti í sambandi við Kennedy í Bretlandi falast nú eftir upplýsingum um starf hans á Íslandi.

Martyn Lowe sem tók þátt í starfi Greenpeace á meðan að minnsta kosti tveir lögreglunjósnarar störfuðu innan samtakanna er staddur á Íslandi. Hann er einn af 200 lykilmönnum í þessari rannsókn og hann mun tala um hana og lögreglunjósnara á fundinum.

Landsfundi frestað, hætt við marsmálsverð

By Fréttir, Tilkynningar

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fundaði í gær. Í ljósi yfirstandandi faraldurs var ákveðið að fjáröflunarmálsverður Friðarhúss í mars falli niður. Jafnframt var ákveðið að fresta landsfundi SHA, sem til stóð að halda í lok þessa mánaðar um óákveðinn tíma. Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. sem fyrirhugaður er 21. mars n.k. mun þó fara fram eins og staðan er núna.

kjúklingaréttur

Janúarmálsverður í Friðarhúsi

By Viðburður

Bræðurnir Friðrik Atlason og Gísli Hrafn Atlason sjá um janúarmálsverð friðarhúss. Í boði verður kjúklingagúmmelaði friðarhöfðingjans og grænmetisréttu sýrlenska stríðsandstæðingsins með hrísgjónum friðarhreyfingarinnar og hinu dýrlega brauði mótmælanda brauðmolakenningarinnar. Á eftir verður boðið uppa kaffi og með því.

Menningardagskrá kvöldsins er upplestur tveggja höfunda. Guðrún Inga Ragnarsdóttir, les úr nýrri bók sinni Plan B, sem er fyrsta bók ársins og
Aðalsteinn Eyþórsson segir okkur frá sjálfstæðu sauðfé. Hér mætast andstæður, tvífætlingar í borg og fjórfætlingar í náttúrunni.

No war on Iran

Höfnum stríði við Íran

By Í brennidepli
Guttormur Þorsteinsson

Laugardagurinn 25. janúar var helgaður alþjóðlegum mótmælum gegn stríði við Íran. Spennuna á milli Írans og Bandaríkjanna má rekja að minnsta kosti aftur til byltingarinnar 1979 en nú er sérstaklega ófriðvænlegt eftir að forseti Bandaríkjanna lét ráða af dögum einn æðsta ráðamann Íran, hershöfðingjann Qasem Soleimani, í heimsókn hans til Írak í byrjun árs. Mesta stríðshættan er mögulega liðin hjá eftir tiltölulega hófstiltar hefndaraðgerðir Írana en það kraumar enn í ófriðarlogunum.

Þetta er mikil afturför frá því að kjarnorkusáttmálinn á milli Íran, Bandaríkjanna, Rússlands, Kína og evrópsku stórveldanna var undiritaður árið 2015 en það var eitt stærsta skrefið í friðarátt í Miðausturlöndum síðustu áratugi. Hann hefði heft útbreiðslu kjarnorkuvopna í heimshlutanum um fyrirsjáanlega framtíð og lagt grunninn að friðsamlegum samskiptum Írans við Vesturlönd. Þörfin var brýn eftir þá óöld sem innrás Bandaríkjanna í Írak 2003 olli á svæðinu.

Því miður var þeim samningi kastað út í hafsauga af núverandi stjórnvöldum Bandaríkjanna þvert á vilja annarra samningsaðilla. Eftir að hafa þannig stimplað sig út úr samningaviðræðum settu þau á enn harðari refsiaðgerðir án þess að bjóða upp á nokkra raunhæfa leið fyrir Íran út úr þeim. Þessi stefna Bandaríkjanna er ávísun á stigmagnandi átök.

Þrátt fyrir ögranir eins og drónaárásina á Soleimani virðist Donald Trump ekki hafa skýr markmið um stríð við Íran en í svona spennuástandi geta slys eða frekari ögranir á báða bóga auðveldlega breyst í alsherjarstríð. Dauði 176 farþega og áhafnar í flugi PS752 sem var skotið niður af Írönum fyrir mistök er svo sorglegt dæmi um hvað getur gerst við þessar aðstæður. Afleiðingarnar af stríði yrðu svo enn alvarlegri, milljónir saklausra borgara gætu fallið og Persaflói sem þriðjungur af olíuútflutningi heimsins fer um yrði að vígvelli þar sem ótal olíuskip og olíumannvirki yrðu skotmörk íranskra flugskeyta og Bandarískra sprengjuflugvéla.

Líkurnar aukast líka á því að Íran þrói kjarnorkuvopn ef það lítur út eins og eina leiðin til að tryggja sig gegn árásum Bandaríkjanna. Þá er hætt við að fleiri ríki eins og Sádi-Arabía fylgi á eftir, sem eykur enn hættuna á kjarnorkustyrjöld.

Fjölmörg friðarsamtök í Bandaríkjunum og víðar standa að mótmælum gegn stríði við Íran núna á laugardaginn og vonandi verða þau fyrirbyggjandi. Endurtökum ekki glæpsamleg mistök Íraksstríðsins en hlustum á mótmælendur sem krefjast friðar. Íslensk stjórnvöld gætu lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að samþykkja sáttmála um kjarnorkuafvopnun og með því að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum á deilumálum og gegn drónáárásum án dóms og laga.

Guttormur Þorsteinsson