All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

Sameiginleg áskorun til íslenskra stjórnvalda að fullgilda samning SÞ um bann við kjarnorkuvopnum

By Ályktun, Fréttir

Eftirtalin félög skora á íslensk stjórnvöld að fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum en samningurinn var samþykktur af 122 ríkjum á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 7. júlí 2017. Hinn 24. október sl. höfðu 50 ríki fullgilt samninginn og mun hann því taka gildi í dag, þann 22. janúar 2021.

Samningurinn festir í sessi afdráttarlaust bann við notkun kjarnorkuvopna á grundvelli alþjóðlegra mannúðarlaga sem tryggja skal eyðingu og afnám slíkra vopna, sem og bann við framleiðslu, flutningi, þróun, prófun, geymslu eða hótunum um notkun þeirra. Samningurinn undirstrikar þá alvarlegu hættu sem stafar af áframhaldandi tilvist kjarnorkuvopna og þeim óafturkræfu og gereyðandi afleiðingum sem slík vopn valda. Samningurinn skuldbindur ríki einnig til að koma þolendum kjarnorkuvopnanotkunar og tilrauna til aðstoðar ásamt því að koma á endurbótum vegna mengaðs umhverfis af völdum þeirra.

Nýleg könnun á vegum International Campaign to Abolish Nuclear Weapons (ICAN) á Íslandi leiddi í ljós að 86% þeirra sem spurðir voru eru hlynntir gildistöku samningsins á Íslandi. Þá eru jafnframt 75% hlynntir því að Ísland verði fyrst NATO ríkja til að skrifa undir og fullgilda samninginn. Sambærilegar kannanir voru gerðar í Belgíu, Danmörku, Hollandi, Ítalíu og á Spáni og leiddu í ljós að nálægt eða yfir 80% eru fylgjandi samningnum og endurspegla þannig yfirgnæfandi stuðning almennings í þessum ríkjum gagnvart samningnum og gildistöku hans.

Kjarnorkuvopn hafa í för með sér óafturkræfan eyðileggingarmátt. Engin læknis- eða mannúðaraðstoð er möguleg strax í kjölfar kjarnorkuárásar. Til frambúðar hefur slík árás skelfilegar afleiðingar fyrir mannfólk, dýraríki, umhverfi og loftslag, svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif á landbúnaðarframleiðslu, ásamt skyndilegri hitalækkun og minnkun úrkomu á heimsvísu vegna reyks og rykmyndunar. Bann við kjarnorkuvopnum er því eina tryggingin gegn notkun slíkra vopna og þeim afleiðingum sem notkun þeirra hefur í för með sér.

Við undirrituð hvetjum íslensk stjórnvöld til þess að veita vilja almennings vægi og taka skref í átt að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Aðild Íslands að samningnum er nauðsynleg til að stuðla að vernd almennra borgara, lífríkis og náttúru til framtíðar og styrkja enn fremur stöðu þeirra alþjóðlegu samninga um kjarnorkuvopn sem Ísland á nú þegar aðild að. Með undirritun og fullgildingu samningsins er fyllt upp í mikilvægar eyður sem fyrri samningar hafa ekki kveðið á um.

Nánari upplýsingar um ICAN og skoðanakönnunina má nálgast hér:

https://www.icanw.org/nato_poll_2021

 

Alda félag um sjálfbærni og lýðræði
Alþýðusamband Íslands
Íslandsdeild Amnesty International
Barnaheill
Biskupsstofa
Hjálparstarf kirkjunnar
Húmanistahreyfingin
Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands
Kvenréttindafélag Íslands
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Landssamtökin Þroskahjálp
Læknafélag Íslands
Mannréttindaskrifstofa Íslands
Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna
Náttúruverndarsamtök Íslands
Rauði krossinn á Íslandi
Samtök hernaðarandstæðinga
Samtökin 78
Siðmennt
Soka Gakkai International á Íslandi
UNICEF á Íslandi
UN Women á Íslandi
Öryrkjabandalag Íslands

Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngu á Þorláksmessu aflýst

By Tilkynningar

Samstarfshópur friðarhreyfinga hefur ákveðið að ekki sé kostur á því að halda Friðargönguna að þessu sinni. Ef fólk vill taka þátt í friðargöngunni heiman frá sér hvetjum við það til að kveikja á kerti og jafnvel setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu friðarganga2020 til að halda á lofti kröfunni um frið.

Við óskum friðarsinnum og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar ljóss og friðar og vonumst til að sjá ykkur að ári.

Dagfari 2020

By Fréttir

Dagfari er kominn út og má lesa hér fyrir neðan. Hann er að þessu sinni helgaður umhverfismálum.

Please wait while flipbook is loading. For more related info, FAQs and issues please refer to DearFlip WordPress Flipbook Plugin Help documentation.

Ályktun um uppsögn varnarsamningsins

By Ályktun

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga haldinn 12. september 2020 áréttar nauðsyn þess að varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna verði tafarlaust sagt upp og Ísland segi sig úr hernaðarbandalaginu Nató. Þau alvarlegu mistök voru gerð við lokun herstöðvar Bandaríkjamanna á Íslandi árið 2006 að fella ekki úr gildi varnarsamninginn. Vegna hans og viðbótarbókana sem síðar hafa verið gerðar, er Bandaríkjaher í raun tryggt sjálfdæmi um þau umsvif sem hann kýs að hafa hér á landi. Birtingarmynd þess er t.a.m. umfangsmikið kafbátaleitarflug og hvers kyns hernaðarumsvif á Keflavíkurflugvelli sem minna á herstöð að öllu nema að nafninu til.

Síðustu misseri hafa einkennst af stórfelldri hernaðaruppbyggingu á Norðurslóðum, svo sem í norðanverðu Rússlandi, í Skandinavíu, á Grænlandi og einnig hér á landi. Glórulausar hugmyndir sem kynntar hafa verið um uppbyggingu herskipaaðstöðu í Helguvík eru í takt við þessa þróun.

Vígbúnaðarkapphlaup í norðurhöfum ætti að vera öllu hugsandi fólki áhyggjuefni. Hagsmunir Íslendinga felast ótvírætt í því að norðurslóðir séu lausar við hernaðaruppbyggingu og umferð vígvéla.

Ályktun um afvopnun og forgangsröðun

By Ályktun

Í ágústmánuði síðastliðnum tilkynnti Bandaríkjastjórn að hún hefði varið níu milljörðum Bandaríkjadala til þróunar á bóluefni við COVID-19 sjúkdómnum sem kostað hefur líf um 900 þúsund Jarðarbúa og lagt heilu ríkin og samfélögin á hliðina. Fjárútlát þessi voru kynnt sem gríðarlega metnaðarfull aðgerð í baráttu við einhverja mestu ógn seinni tíma.

Í þessu samhengi er þó mikilvægt að hafa í huga að upphæð þessi er rétt um fjórðungur af því sem áætlað hefur verið að Bandaríkjastjórn eyði á ári í rekstur, viðhald og þróun kjarnorkuvopna sinna.

Samkvæmt útreikningum alþjóðasamtakanna ICAN eyða kjarnorkuveldin níu sem nemur tuttugu milljónum íslenskra króna í vopnabúr sín á hverri einustu mínútu allan ársins hring. Þessi gegndarlausa sóun hefur aukist hratt á síðustu misserum og virðist bara fara vaxandi.

Kjarnorkuvopn skapa ekki bara ógn við allt líf með tilvist sinni, heldur gleypa þau fjármuni sem nýta hefði mátt til að kljást við raunveruleg aðsteðjandi vandamál á borð við farsóttir og loftslagsbreytingar.

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 12. september 2020, minnir á kröfuna um útrýmingu kjarnorkuvopna og hvetur stjórnvöld og Alþingi til að gera Ísland að aðildarríki sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Landsfundur SHA 12. september

By Tilkynningar, Viðburður

Að öllu jöfnu hefði landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga verið haldinn í marsmánuði en vegna heimsfaraldurs varð að fresta honum. Nýr fundartími hefur verið ákveðinn, laugardagurinn 12. september kl. 11.

Fundurinn verður haldinn í Friðarhúsi að viðhöfðum bestu sóttvarnarráðstöfunum. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Þau sem kynnu að vilja taka þátt í starfi miðnefndnar á komandi starfsári eru hvött til að gefa sig fram, t.d. með því að senda póst á netfang samtakanna: sha@fridur.is

Kertafleyting 2020

Kertafleyting 2020

By Tilkynningar, Viðburður

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí. Allt frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst þessa voðaverks og minnt á kröfuna um kjarnorkuvopnalausa veröld með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. Við eðlilegar kringumstæður hefði margmenni mætt á bakka Reykjavíkurtjarnar til að sýna samstöðu.

Af sóttvarnarástæðum var ekki unnt að halda fleytinguna með hefðbundnum hætti. Þess í stað var efnt til fámennrar og táknrænnar fleytingar kl 23:15 að kvöldi 5. ágúst, á nákvæmlega sama tíma og sprengjan féll á Hírósíma fyrir 75 árum. Sigurður Skúlason leikari las við það tilefni ávarp Samstarfshóps friðarhreyfinga.

Kertafleyting

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

By Fréttir, Tilkynningar

75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba þessara árása og um leið minnt á kröfuna um heim á kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.

Kertafleytingin hefur verið fjölsóttur atburður enda málefnið brýnt. Ljóst er að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki unnt að halda aðgerðina með hefðbundnu sniði, vegna reglna um fjöldatakmarkanir. Þess í stað hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga ákveðið að haldin verði táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem verði tekin upp og streymt á netinu að kvöldi 6. ágúst. Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu að kvöldi hins 5. ágúst, um sama leyti og Hírósímasprengjan sprakk fyrir 75 árum.

Kjarnorkuvopn eru síst minni ógn í dag en á tímum Kalda stríðsins og eru nýlegar fréttir af áformum stórvelda, jafnt Nató-ríkja og Rússlands, um þróun nýrra og öflugri vopna til marks um það. Samstarfshópur friðarhreyfinga hvetur íslensk stjórnvöld til að snúast á sveif með þeim ríkjum sem undirritað hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Friðarsinnar munu á ný koma saman við Reykjavíkurtjörn að ári.

Aldrei aftur Hírósíma – aldrei aftur Nagasaki!

Her­væðing lög­reglunnar

By Í brennidepli

Þeir sem eitthvað hafa fylgst með í fréttum og samfélagsmiðlum ættu að vera meðvitaðir um mótmælaölduna í Bandaríkjunum eftir að George Floyd var myrtur á hrottalegan hátt af lögreglumanni. Það er þó einföldun að telja að þetta eina atvik hafi hrundið af stað mótmælunum heldur eru þau afsprengi aldagamals kerfisbundins rasisma. Þeldökkt fólk í Bandaríkjunum er þrisvar sinnum líklegra til að verða drepið af lögreglunni heldur en aðrir kynþættir, og þó líklegra til þess að vera drepið óvopnað. Fannie Lou Hamer svaraði því hví hún héldi ótrauð áfram að ýta eftir réttindum svartra ,,I‘m sick and tired of being sick and tired.“ Tel ég að það sé betri útskýring á mótmælunum og umfangi þeirra. Fólk er sick and tired of being sick and tired.

Í Bandaríkjunum bera lögreglumenn ekki bara kylfur, handjárn og piparúða líkt og hér á Íslandi. Í mótmælunum í Bandaríkjunum sést lögreglan nota brynvörð farartæki, skriðdreka, og á götunum marsera lögreglumenn með hríðskotabyssur á meðan drónar og þyrlur svífa yfir. Þetta eru hergögn notuð gegn þeirra eigin borgurum. Hergögn sem eiga að vernda hvít forréttindi eru í höndum þeirra sem framfylgja og viðhalda kerfisbundnum rasisma.

Afhverju er ég að skrifa um þetta? Jú af því að allt of oft hefur verið reynt að hervæða lögreglunnar hér á landi. Síðasta tilvikið var núna í maí síðastliðnum þegar tekinn var í notkun sérhannaður bíll til að sinna landamæraeftirliti sem „mun nýtast vel…þar sem þörf er á að skoða og sannreyna skilríki svo sem í vinnustaðaeftirliti“ segir á vefsíðu lögreglunnar. Árið 2014 keypti íslenska lögreglan hríðskotabyssur frá norska hernum. Enn er óvíst hvernig það mál endaði, hvort að byssurnar séu enn hér í landi eða að þeim hafi verið skilað aftur til Noregs eftir mótmæli almennings. Árið 2017 voru sýnilega vopnaðir lögreglumenn á fjölskylduskemmtuninni Color Run. Þáverandi ríkislögreglustjóri sagði þetta vera gert vegna mannskæðra árása í erlendum borgum og auknum fjölda erlendra borgara á Íslandi.

Á Íslandi er inngróinn kerfisbundinn rasismi í lögreglunni og Útlendingastofnun. Ítrekað hefur lögreglan tekið þátt í að flytja flóttamenn úr landi og handtekið farandverkamenn án starfsleyfis. Í mars 2019 beitti lögreglan táragasi í friðsælum mótmælum hælisleitenda á Austurvelli. Við viljum ekki að þannig stofnanir hafi völd og rétt til að drepa okkar eigin George Floyd. Lausnin liggur frekar í því að fjölga lögreglumönnum og semja við þá um mannsæmandi kjör (lögreglumenn hafa nú verið samningslausir í 15 mánuði og eru án verkfallsrétts). Látum ekki undan þeirri kröfu sem heyrist núna að lögreglan hér á landi verði vopnuð enn frekar til að bregðast við ofbeldi.

Á sama tíma vil ég hvetja fólk til að kynna sér hvít forréttindi, rasisma á Íslandi, hlusta á sögur fólks af rasisma og valdefla það.

Ólína Lind, ritari

Bandarískt leyniskjal afhjúpað

Bandarískt leyniskjal afhjúpað

By Fréttir

Bandarísk stjórnvöld hafa aflétt leynd af ýmsum skjölum sem varpa ljósi á Kalda stríðið. Þar á meðal er minnisblað sem tekið var saman fyrir þjóðaröryggisráðgjafa forsetans í kjölfar hinnar misheppnuðu Svínaflóainnrásar, þar sem listað var upp til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa áður en kjarnorkuvopnum sem staðsett kynnu að vera á herstöðvum í einstökum bandalagsríkjum BNA væri beitt.

Í ljós kemur að ráðstafanirnar voru afar mismunandi og ætti raunar ekki að koma á óvart. Þannig kemur fram að engar sérstakar ráðstafanir þurfi að gera vegna herstöðva í Þýskalandi, Kóreu, Filippseyjum, Marokkó eða Vestur-Indíum. Sama gilti um beitingu kjarnorkuvopna frá herstöðinni í Okinawa í Japan, en vegna annarra stöðva þar í landi yrði að hafa samráð við japönsk stjórnvöld.

Stöðvar á Spáni teldust Bandaríkjamönnum til frjálra afnota ef þeir ákvæðu einhliða að slíkar aðgerðir væru til þess fallnar að vinna gegn kommúnískri ásælni. Í Tyrklandi væru aðgerðir heimilaðar ef Nató teldist ógnað. Í Danmörku, Grikklandi, Portúgal, Hollandi og Ítalíu teldist nóg að um Nató-aðgerð væri að ræða.

Gert var ráð fyrir að forsætisráðherra Bretlands fengi beint símtal frá Bandaríkjaforseta áður en til beitingar vopna kæmi og eins voru ákveðnar leiðir til að upplýsa Kanadabúa ef til kæmi. Varðandi Frakkland væri þörf á samráði sem færi þó eftir eðli aðgerðanna.

Viðbúið er Íslendinga fýsi helst að vita hvað segir í 8. lið skjalsins þar sem talað er um Lýðveldið Kína (Tævan), Ísland og Noreg. Þar stendur: „No special requirements appear with respect to the use of nuclear weapons from bases in these countries, but host government consent is required before the bases may be used.“

Minnisblaðið má finna hér.