Category

Viðburður

Marsmálsverður

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverðir SHA eru komnir á fulla ferð eftir Covid-truflanir síðustu missera. Að þessu sinni mun harðsnúið kokkateymi stýra pottum og pönnum. Freyr Rögnvaldsson sér um kjötmáltíðina en kjallarafjölskyldan úr Eskihlíðinni sér um grænkerafæðuna.
Matseðill:
* Nautakjöt að skagfirskum hætti
* Bakaðar kartöflur
* Sósuveisla
* Matarmikill grænmetisspaghettíréttur
* Brauð
* Kaffi og konfekt
Að borðhaldi loknu mun tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon taka lagið.
Verð kr. 2000. Öll velkomin.

Febrúarmálsverður hernaðarandstæðinga

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverður SHA er snúinn aftur nú þegar aðstæður leyfa. Miðnefndarmeðlimirnir Þorvaldur og Lóa sjá um matinn. Þorvaldur Þorvaldson mætir með sitt landsfræga og eldrauða lasagne og hjónabandsælu á eftir en Lowana Veal sér um grænkerana með ljúffengu grænmetis panang karrý með jarðhnetum.
Anna Ragna Fossberg les úr bókinni Hugfanginn og Júlía Margrét Einarsdóttir les úr bók sinni Guð leitar að Salóme en báðar komu út fyrir jólin.
2000 krónur fyrir matinn og öll velkomin.

Hætt við fullveldisfögnuð SHA

By Tilkynningar, Viðburður
Líklega kemur það fáum á óvart, en vegna samkomutakmarkanna er útilokað að halda fjölmenna mannfögnuði í Friðarhúsi þessar vikurnar. Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss, hinn árvissi fullveldisfögnuður sem hefði átt að halda föstudaginn 26. nóvember , getur því ekki farið fram að þessu sinni. Þó verður leitað leiða til að blása til samkomu um leið og ytri aðstæður leyfa.

Friðarmálsverður snýr aftur

By Viðburður
Eftir langa bið snúa fjáröfnunarmálsverðir Friðarhús aftur. Föstudagskvöldið 24. september geta hernaðarandstæðingar komið saman á ný, notið góðra veitinga og styrkt baráttuna. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina og matseðillinn tekur mið af árstímanum:
  • Uppskerukássa í hnetusósu
    (nýtt grænmeti, blandað nauta og kindakjöt)
  • Fyrir grænkera er kjúklingabaunakássa
  • Borðið fram með rófustöppu nýuppteknu salati.
  • Kaffi og konfekt í eftirrétt
Trúbadorinn Linus Orri mun svo taka lagið.
Sest verður að snæðingi kl. 19 en húsið verður opnað klukkustund fyrr. Verð kr. 2.000. Öll velkomin
Kertafleyting

Kertafleytingar í Reykjavík og á Akureyri

By Viðburður

Kjarnorkusprengju var varpað á japönsku borgina Nagasakí þann 9. ágúst árið 1945. Þremur dögum fyrr fengu íbúar Hírósíma sömu örlög.

Í 36 ár hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga staðið fyrir kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn til að minnast fórnarlambanna og til að leggja áherslu á kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.

Safnast er saman við suðvesturbakka Tjarnarinar, við Skothúsveg mánudaginn 9. ágúst kl. 22:30. Flotkerti verða seld við Tjörnina á 500 krónur.

Fundarstjóri verður Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur og ávarp flytur Ingibjörg Hjartardóttir rithöfundur.

Vegna smitvarnarráðstafana verður einungis hleypt inn í tvö hólf á aðgerðinni, sem hvort tekur að hámarki 200 manns. Rík áhersla verður lögð á að þátttakendur gæti að fjarlægðartakmörkunum.

Kertafleyting verður einnig haldin á Akureyri að venju undir merkjum Samstarfshóps um frið. Hún hefst kl. 22 við Leirutjörn. Ávarp flytur Tryggvi Hallgrímsson félagsfræðingur.

Radarstöðin á Sornfelli

Samstöðumótmæli með Færeyingum

By Fréttir, Viðburður
Færeyskir hernaðarandstæðingar efna til mótmæla í Þórshöfn vegna áforma um að reisa á ný ratsjárstöð sem hluta af vígbúnaðarkerfi Nató og Bandaríkjahers. Saga hersetunnar í Færeyjum er ljót og einkennist af lygum Nató og danskra yfirvalda.
Hernaðarandstæðingar koma saman við sendiskrifstofu Færeyja, Túngötu 14 Reykjavík á miðvikudaginn 21. júlí kl. 20:00 til að styðja baráttu frændsystkina okkar og mótmæla hervæðingu í Norður-Atlantshafi. Hún birtist t.d. í herskipakomu í Reykjavíkurhöfn þessa dagana.
Sýnum samstöðu!
Bjarmalönd crop

Hvað er á seyði í Hvíta-Rúss?

By Viðburður
Miðvikudaginn 9. júní kl. 20:00 verður Valur Gunnarsson sagnfræðingur með fræðslufund í Friðarhúsi. Stöðugar fregnir berast frá Hvíta-Rússlandi, einu lokaðasta ríki Evrópu. Valur er varpar ljósi á stöðu mála í landinu og kynnir jafnframt nýútkomna bók sína, Bjarmalönd, sem rekur á frumlegan og fræðandi hátt stjórnmálasögu ýmissa fyrrum Sovétlýðvelda á síðustu árum. Heitt á könnunni og kalt í skápnum.
Öll velkomin.
Ráðherrafundur Rússlands og Bandaríkjanna

Kjarnorkuveldunum mótmælt

By Fréttir, Viðburður

Stöðvum vígvæðingu norðurslóða

Í kvöld, 19. maí, munu utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands setjast niður til fundar í Hörpu. Þar mætast fulltrúar þeirra ríkja sem hafa yfir flestum kjarnorkuvopnum að búa og sem setja náttúru og líf íbúa norðurslóða í stöðuga hættu með kjarnorkuvopnabúrum sínum. Samtök hernaðarandstæðinga efna til stuttrar mótmælastöðu gegnt Hörpu klukkan 20:00, við gafl Seðlabankans, þar sem minnt verður á kröfuna um veröld án kjarnorkuvopna og að allri hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum verði hætt.

Stutt ávörp flytja Drífa Snædal forseti ASÍ og Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.

Landsfundur SHA 29. maí

By Fréttir, Viðburður

Vegna samkomutakmarkanna neyddumst við til þess að fresta landsfundi SHA sem átti að fara fram þann 27. mars síðastliðinn. Nú hefur verið slakað nægjanlega á þeim til þess að við treystum okkur til að boða til fundar laugardaginn 29. maí.

Byrjað verður á almennum fundarstörfum opnum meðlimum SHA en eftir hádegishlé er dagskrá opin öllum sem hafa áhuga svo lengi sem sóttvarnarráðstafanir leyfa.

Dagskrá fundar:

11:00 Fundur verður settur í Friðarhúsi, almenn fundarstörf.

12:30 Hádegishlé.

13:00 Jakob Beat Altman, þýskur háskólanemi, fjallar um stöðu mála í Vestur-Sahara.

13:45 Högni Höydal, formaður Þjóðveldisins segir frá því sem er að gerast í hernaðarmálum í Færeyjum.

Sjáumst sem flest.