Category

Tilkynningar

Ný miðnefnd tekur til starfa

By Fréttir, Tilkynningar
Það var vel mætt á landsfund og málsverð og við þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg. Magnús Þorkell Bernharðsson var með mjög fróðlegt erindi um arfleið Íraksstríðsins, bæði fyrir Írak og stöðu Bandaríkjanna í heiminum.
Guttormur Þorsteinsson var endurkjörinn formaður og í miðnefnd voru kosin: Friðrik Atlason, Karl Héðinn Kristjánsson, Lowana Veal, Sigurður Flosason, Soffía Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Tjörvi Schiöth og Þorvaldur Þorvaldsson sem aðalmenn og Hallberg Brynjar Guðmundsson, Harpa Kristbergsdóttir og Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir til vara.

Friðaryfirlýsing

By Tilkynningar, Viðburður

Maurizio Tani býður öllum Íslendingum á borgarafund í þágu friðar í Hallargarðinum við Fríkirkjuna kl. 15:00 á sunnudaginn þar sem hann mun leggja fram eftirfarandi friðaryfirlýsingu sem hann bað SHA um að koma á framfæri.

Opið bréf til allra ríkisborgara íslenska lýðveldisins

Kæri borgari,

Ég skrifa til að bjóða þér á “borgarafund í þágu friðar“ sem haldinn verður í Hallargarðinum (við Fríkirkjuveg og Skothúsveg) í Reykjavík sunnudaginn 8. maí kl. 15.00.

Þér stendur til boða að koma með „gjöf“ sem þér finnst að eigi erindi við mannkynið allt: hugsun, tilvitnun í bók, sögu, blóm, verkefni fyrir jörðina, náttúruna og allt sem lifir.

Hugmyndin varð til vegna þess að stjórnmálaflokkar og ríkisstjórnir sem fara með völd og ráða efnahagslegu, pólitísku og diplómatísku ástandi á plánetunni okkar hafa brugðist (sérstaklega á tímabilinu 1914-1945, á tímabilinu 1945-89 og á tímabilinu eftir 1989 þar sem við erum nú).

Það er tímabært að borgarar alls heimsins verði meðvitaðir um að aðeins með þátttöku, beinni skuldbindingu og valdeflingu allra íbúa jarðarinnar getum við bjargað mannkyninu, plánetunni og lífinu á jörðinni.

Ég mun persónulega leggja fyrir viðstadda að undirrita eftirfarandi yfirlýsingu

„Við íbúar jarðarinnar, vonsviknir yfir því hvernig stjórnmálamenn og ríkisstjórnir stjórna heiminum (sérstaklega vonsvikin yfir því sem við sáum eftir 1989, sem hefði getað markað upphaf aukins friðar, lýðræðis og félagslegs réttlætis).

    1. Verum gagnrýnin á okkur sjálf fyrir að hafa allt of lengi framselt til annara     ábyrgðinni á góðri stjórn samfélagsins og jarðarinnar;
    2. Lýsum því yfir að aðeins með því að setja borgarana („cives” á latínu) í fyrsta sæti verði heimurinn loksins mannleskjulegri, laus við ofbeldi, stríð, óréttlæti, fáfræði, vannæringu, einræði, arðrán, þrælahald, andlegt og líkamlegt ofbeldi.
    3. Skuldbindum okkur til að koma á fót innan okkar samfélags fastaþingi ábyrgra borgara sem koma saman til að vera betur upplýstir, ræða saman og sannreyna ágæti verka þeirra sem fara með stjórn. Með aðstoð sérfróðra borgara á ýmsum sviðum mun þingið koma fram með athugasemdir og raunverulegar tillögur til að standa vörð um tilveru mannsins, jarðarinnar, lífsins á jörðinni;
    4. Skuldbindum okkur til að hvetja til myndunar bandalaga / neta borgara, þorpa, borga og landsvæða sem, með samræðum, samanburði, gagnkvæmri þekkingu, vinni (með “sambandshyggju”, “foederalismus” á latínu) að því að endurreisa manninn, borgarann, hinn frjálsa mann (ekki undirsátann, þrælinn, sem framselur til annara alla stjórn, sem kýs að láta stjórna sér frekar en sjálfstjórn), í hjarta félags-, efnahags-, menningar- og menntasamtaka okkar;
    5. Bjóðum öllum borgurum, samfélögum, borgum og svæðum jarðarinnar að gera slíkt hið sama og sameinast um að skapa þennan nýja “heim borgaralegs húmanisma”.
Hvað finnst þér um það? Gætir þú bent á annað fólk eða hópa til að bjóða
Hvað hyggst þú geta tekið með þér á fundinn?
Takk!
Hittumst fljótt!
Maurizio Tani

Sími. 6967027

Ávarp samstarfshóps friðarhreyfinga á Þorláksmessu

By Ályktun, Tilkynningar

Frá árinu 1980 hafa andstæðingar stríðs og vígbúnaðar efnt til friðargöngu á Þorláksmessu. Þar hefur verið gengið niður Laugaveginn í Reykjavík, sem og á öðrum stöðum á landinu, með kórsöng og loga lifandi ljósa til að minna á kröfuna um heim án ofbeldis, kúgunar og átaka. Friðargangan hefur orðið nær ómissandi þáttur í jólahaldi fjölda fólks og áminning um mikilvægi æðri gilda og hugsjóna á tímum sem oft eru undirlagðir af streitu og neysluhyggju.
Það er því afar sárt að annað árið í röð neyðist samstarfshópur friðarhreyfinga til að fella niður friðargöngu á Þorláksmessu. Ástæðan er þó öllum kunn, samkomutakmarkanir vegna Covid-heimsfaraldursins.

Faraldur þessi, sem fangað hefur svo stóran hluta af athygli heimsbyggðarinnar undanfarin misseri, er prýðileg áminning um að þrátt fyrir allt erum við Jarðarbúar öll á sama báti. Örlög okkar eru samofin óháð efnahag eða hernaðarmætti. Þær svimandi fjárhæðir sem dælt er í vígbúnað og rekstur herja koma að engu gagni andspænis hinum raunverulegu ógnum sem að mannkyni steðja eins og loftslagsvánni eða farsóttum. Lausn slíkra vandamála verður ekki fundin með valdbeitingu heldur einvörðungu með sameiginlegu átaki okkar allra og með því að tryggja raunverulegt samfélagslegt réttlæti. Vígbúnaður elur hinsvegar á gagnkvæmri tortryggni og er í sjálfu sér ógn við mannkyn.

Umhverfisváin og heilbrigðisógnin ættu einnig að vekja okkur til vitundar um þá skelfilegu sóun sem hernaðarvélum heimsins fylgja. Á hverri mínútu er svimandi fjárhæðum varið úr sameiginlegum sjóðum til að hlaða undir þau öfl sem hagnast á hermennsku og vígvæðingu. Þær upphæðir sem varið er til að takast á við mörg brýnustu samfélagslegu verkefni samtímans blikna við hliðina á þeim tölum sem stríðsmangarar veraldar hafa úr að spila. Erfitt er að gera sér í hugarlund þær framfarir sem tryggja mætti með því að beina hernaðarútgjöldum heimsins til annarra og nytsamlegri verkefna.

Sturlaðasta dæmið um hergagnahítina er rekstur kjarnorkuvopnabúra stórveldanna. Nú þegar búa þau yfir mætti til að tortíma öllu lífi á hnettinum nokkrum sinnum, en áfram er haldið í þróun og framleiðslu. Þótt kjarnorkuógnin kunni að virðast fjarlægari nú en á tímum kalda stríðsins er hættan síst minni og ekki þyrfti annað en fljótfærnisákvörðun eða bilun í tæki til að ógna tilvist mannkyns eins og við þekkjum hana í dag.

Íslenskir friðarsinnar hafa um langt skeið kallað eftir því að stjórnvöld skipi Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Sá samningur er raunhæfasta leiðin til uppræta þessi skelfilegu vopn á sama hátt og fyrri afvopnunarsáttmálar hafa gert framleiðslu og notkun á jarðsprengjum, sýkla- og efnavopnum siðferðislega óverjandi.

Í ár gafst friðarsinnum ekki færi á að ganga á Þorláksmessu til að minna á kröfur sínar um friðsæla framtíð, án styrjalda og vopnakapphlaups. Vonandi verður dagurinn í dag þó tilefni til að sem allra flestir íhugi málstað friðarhreyfingarinnar og sýni stuðning sinn með hverjum þeim hætti sem verða vill.

Gleðileg jól og friðsælt komandi ár.

-Félag leikskólakennara
-Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
-Samhljómur menningarheima
-Samtök hernaðarandstæðinga
-SGI, mannúðar og friðarsamtök búddista

Friðargangan fellur niður í annað sinn

By Fréttir, Tilkynningar

Kæri hernaðarandstæðingur

Friðarganga á Þorláksmessu var fyrst haldin í Reykjavík árið 1980 og hélst sú hefð óslitin þar til í fyrra þegar ekki var hægt að halda göngu vegna samkomutakmarkanna. Því miður gefur staðan í faraldrinum ekki kost á að taka upp þráðinn að þessu sinni. Annað árið í röð mun friðargangan í Reykavík falla niður. Þó mun samstarfshópur friðarhreyfinga senda frá sér ávarp á Þorláksmessu.

Á Akureyri verður sömuleiðis ekki haldin nein ganga í ár.

Athugið að hætt var við gönguna á Ísafirði vegna nýrra samkomutakmarkanna.

Gleðilega friðarhátíð.

Bréf til þingheims

By Ályktun, Tilkynningar

Eftirfarandi bréf var sent á nýkjörna þingmenn í desember til að kynna okkar málstað:

Kæri þingmaður

Til hamingju með það verkefni sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í þessu hlutverki. Við viljum jafnframt nýta tækifærið til að vekja athygli þína á ýmsu því er snýr að friðar- og afvopnunarmálum.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Kjarnorkuveldin hafa brugðist þeirri skyldu sinni að stuðla að afvopnun en halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Bandaríkin hafa t.d. stefnt að þróun „hagnýtra“ kjarnavopna til nota í hernaði. Þess vegna hafa 56 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Ekkert kjarnorkuveldanna eða aðildaríkja Nató hefur tekið það skref en við skorum á þig að beita þér fyrir aðild Íslands að þessum samningi. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.

* Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu Nató, sem er fyrst og fremst tæki til að styðja við hagsmuni lykilríkja þess og þá einkum Bandaríkjanna. Allt tal um lýðræðislegt eðli bandalagsins er innantómt með tilliti til þess valds sem þau ríki hafa yfir bandalaginu. Stríðsaðgerðir bandalagsins hafa  þvert á móti grafið undan friði og lýðræði í heiminum. Þá má nefna Tyrkland og fleiri aðildarríki Nató sem varla geta talist lýðræðisríki. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr Nató.

* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Það er okkar mat að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar og leggja grunn að sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við skorum á þig að leggja þeirri uppsögn lið og standa gegn öllum áformum um aukna viðveru erlendra herja hér á landi.

* Nokkrum sinnum á ári er hér á landi skipulagt æfingaflug orrustuflugmanna Nató-ríkja í æfingum sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla. Hér er einungis um að ræða niðurgreiddar heræfingar sem eru engum til gagns en mörgum til ama. Nýjasta dæmið er æfingarflug B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem gegna augljóslega engu varnarhlutverki fyrir Ísland. Umhverfisáhrif þessa æfingaflugs eru líka umtalsverð og ganga gegn markmiðum Ísland í loftslagsmálum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að flugæfingum þessum verði hætt hið snarasta.

* Á síðustu árum hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað í Miðausturlöndum með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Í þeim eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar eða bakhjarlar og vopnasalar. Brottför Bandaríkjanna og Nató frá Afganistan síðasta sumar og valdataka Talibana eftir 20 ára stríð sýnir hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að stórveldin láti af íhlutunarstefnu sinni og að böndum verði komið á alþjóðlega vopnasölu.

* Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Nató-ríki bera þar þunga ábyrgð, svo sem í Afganistan og Sýrlandi en hafa með örfáum undantekningum ekki tekið við flóttamönnum í samræmi við það. Við skorum á þig að berjast fyrir því að Ísland styðji flóttamannahjálp, þar á meðal með því að taka við mun fleira fólki.

* Styrjaldir og átök í heiminum eiga sér undantekningarlítið efnahagslegar rætur. Friður á traustum grunni verður aldrei tryggður nema með félagslegu réttlæti í heiminum. Við skorum á þig að vinna í störfum þínum gegn kúgun, arðráni og ofbeldi í hvaða mynd sem er.

Guttormur Þorsteinsson,

fomaður Samtaka hernaðarandstæðinga
8. desember 2021

Hætt við fullveldisfögnuð SHA

By Tilkynningar, Viðburður
Líklega kemur það fáum á óvart, en vegna samkomutakmarkanna er útilokað að halda fjölmenna mannfögnuði í Friðarhúsi þessar vikurnar. Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss, hinn árvissi fullveldisfögnuður sem hefði átt að halda föstudaginn 26. nóvember , getur því ekki farið fram að þessu sinni. Þó verður leitað leiða til að blása til samkomu um leið og ytri aðstæður leyfa.
Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngu á Þorláksmessu aflýst

By Tilkynningar

Samstarfshópur friðarhreyfinga hefur ákveðið að ekki sé kostur á því að halda Friðargönguna að þessu sinni. Ef fólk vill taka þátt í friðargöngunni heiman frá sér hvetjum við það til að kveikja á kerti og jafnvel setja á samfélagsmiðla undir myllumerkinu friðarganga2020 til að halda á lofti kröfunni um frið.

Við óskum friðarsinnum og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar ljóss og friðar og vonumst til að sjá ykkur að ári.

Landsfundur SHA 12. september

By Tilkynningar, Viðburður

Að öllu jöfnu hefði landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga verið haldinn í marsmánuði en vegna heimsfaraldurs varð að fresta honum. Nýr fundartími hefur verið ákveðinn, laugardagurinn 12. september kl. 11.

Fundurinn verður haldinn í Friðarhúsi að viðhöfðum bestu sóttvarnarráðstöfunum. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Þau sem kynnu að vilja taka þátt í starfi miðnefndnar á komandi starfsári eru hvött til að gefa sig fram, t.d. með því að senda póst á netfang samtakanna: sha@fridur.is

Kertafleyting 2020

Kertafleyting 2020

By Tilkynningar, Viðburður

Í dag, 6. ágúst, eru 75 ár liðin frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí. Allt frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst þessa voðaverks og minnt á kröfuna um kjarnorkuvopnalausa veröld með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn. Við eðlilegar kringumstæður hefði margmenni mætt á bakka Reykjavíkurtjarnar til að sýna samstöðu.

Af sóttvarnarástæðum var ekki unnt að halda fleytinguna með hefðbundnum hætti. Þess í stað var efnt til fámennrar og táknrænnar fleytingar kl 23:15 að kvöldi 5. ágúst, á nákvæmlega sama tíma og sprengjan féll á Hírósíma fyrir 75 árum. Sigurður Skúlason leikari las við það tilefni ávarp Samstarfshóps friðarhreyfinga.

Kertafleyting

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

By Fréttir, Tilkynningar

75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba þessara árása og um leið minnt á kröfuna um heim á kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.

Kertafleytingin hefur verið fjölsóttur atburður enda málefnið brýnt. Ljóst er að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki unnt að halda aðgerðina með hefðbundnu sniði, vegna reglna um fjöldatakmarkanir. Þess í stað hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga ákveðið að haldin verði táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem verði tekin upp og streymt á netinu að kvöldi 6. ágúst. Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu að kvöldi hins 5. ágúst, um sama leyti og Hírósímasprengjan sprakk fyrir 75 árum.

Kjarnorkuvopn eru síst minni ógn í dag en á tímum Kalda stríðsins og eru nýlegar fréttir af áformum stórvelda, jafnt Nató-ríkja og Rússlands, um þróun nýrra og öflugri vopna til marks um það. Samstarfshópur friðarhreyfinga hvetur íslensk stjórnvöld til að snúast á sveif með þeim ríkjum sem undirritað hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Friðarsinnar munu á ný koma saman við Reykjavíkurtjörn að ári.

Aldrei aftur Hírósíma – aldrei aftur Nagasaki!