Category

Tilkynningar

Kertafleyting

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

By Fréttir, Tilkynningar

75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba þessara árása og um leið minnt á kröfuna um heim á kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.

Kertafleytingin hefur verið fjölsóttur atburður enda málefnið brýnt. Ljóst er að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki unnt að halda aðgerðina með hefðbundnu sniði, vegna reglna um fjöldatakmarkanir. Þess í stað hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga ákveðið að haldin verði táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem verði tekin upp og streymt á netinu að kvöldi 6. ágúst. Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu að kvöldi hins 5. ágúst, um sama leyti og Hírósímasprengjan sprakk fyrir 75 árum.

Kjarnorkuvopn eru síst minni ógn í dag en á tímum Kalda stríðsins og eru nýlegar fréttir af áformum stórvelda, jafnt Nató-ríkja og Rússlands, um þróun nýrra og öflugri vopna til marks um það. Samstarfshópur friðarhreyfinga hvetur íslensk stjórnvöld til að snúast á sveif með þeim ríkjum sem undirritað hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Friðarsinnar munu á ný koma saman við Reykjavíkurtjörn að ári.

Aldrei aftur Hírósíma – aldrei aftur Nagasaki!

Landsfundi frestað, hætt við marsmálsverð

By Fréttir, Tilkynningar

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fundaði í gær. Í ljósi yfirstandandi faraldurs var ákveðið að fjáröflunarmálsverður Friðarhúss í mars falli niður. Jafnframt var ákveðið að fresta landsfundi SHA, sem til stóð að halda í lok þessa mánaðar um óákveðinn tíma. Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. sem fyrirhugaður er 21. mars n.k. mun þó fara fram eins og staðan er núna.

Gunnar Karlsson – kveðja frá SHA

By Tilkynningar

Gunnar Karlsson sagnfræðingur lést í Reykjavík á dögunum, rétt rúmlega áttræður að aldri. Hann var dyggur félagið í Samtökum hernaðarandstæðinga og átti í tvígang sæti í miðnefnd samtakanna sem varamaður og aðalmaður á áttunda og níunda áratugnum. Árið 1984 var hann einn af aðstandendum Samtaka um friðaruppeldi sem störfuðu af krafti um nokkurra missera skeið, en um þær mundir spratt upp fjöldi lítilla friðar- og afvopnunarsamtaka hér á landi sem annars staðar.

Sem fræðimaður lagði Gunnar Karlsson sitt að mörkum til rannsókna á sögu herstöðvamálsins. Árið 1976 tók hann saman ritaskrá um sögu hernámsbaráttunnar og árið 1980 sá hann um útgáfu „Sex ritgerða um herstöðvamál“, sem gefin var út af Sagnfræðistofnunar og hefur að geyma mikilsverðar rannsóknir ungra sagnfræðinga á málaflokknum. Þá liggur eftir Gunnar mikill fjöldi blaðagreina um friðarmál.

Samtök hernaðarandstæðinga kveðja góðan samherja og votta aðstandendum innilega samúð.

Landsfundur SHA

By Tilkynningar

Laugardaginn 23. mars verður landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga
haldinn í Friðarhúsi og hefst kl. 11. Á fundinn mætir fulltrúi írskra
friðarsinna og segir frá baráttu þeirra gegn bandarískum
hernaðarfultningum um Írland. Takið daginn frá.

Febrúarmálsverður í Friðarhúsi

By Tilkynningar

Febrúar er stuttur mánuður og málsverðurinn lendir að þessu sinni á
föstudagkvöldinu 22. feb. Kokkarnir eru þaulreyndir og dásamaðir: Geir
Guðjónsson sem sér um kjötmetið og Þórhildur Heimisdóttir afgreiðir
grænkerana. Eldamennskan verður á afrískum nótum.

Matseðill:

  • Afrískur kjúklingaréttur
  • Glóbalísk Linsubauna og graskerskássa með grænkáli og flatbrauði
  • Brauð
  • Kaffi og konfekt

Borðhald hefst kl. 19. Að því loknu mun Guðjón Ragnar Jónasson lesa úr
nýlegri bók sinni, Hinni hliðinni. Öll velkomin. Verð kr. 2.000

Miðnefnd SHA 2018-19

By Tilkynningar

Á landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga þann 26. mars síðastliðinn var ný miðnefnd kjörin, líkt og lög gera ráð fyrir. Guttormur Þorsteinsson var sjálfkjörinn nýr formaður samtakanna og tók þar með við keflinu af Auði Lilju Erlingsdóttur. Hann er starfsmaður Borgarbókasafns og átti fyrir sæti í miðnefnd.

Í fyrsta sinn um langt árabil þurfti að kjósa milli frambjóðenda til miðnefndar, en fjölgað var um henni úr 9 í 12 með lagabreytingu á fundinum. Kjöri náðu: Sigurður Flosason, Harpa Stefánsdóttir, Ólína Lind Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Auður Lilja Erlingsdóttir, Bjarni Þóroddsson og Steinunn Ása Sigurðardóttir.

Varamenn voru sjálfkjörin þau Daníel Arnarsson, Bergljót Njóla Jakobsdóttir og Unnur Tryggvadóttir Flóvenz. Rétt er að taka fram að ekki er hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varafulltrúum í störfum miðnefndar.

Á fyrsta fundi nýrrar miðnefndar var Sigurður Flosason skipaður gjaldkeri en Stefán Pálsson ritari.