Category

Í brennidepli

No war on Iran

Höfnum stríði við Íran

By Í brennidepli
Guttormur Þorsteinsson

Laugardagurinn 25. janúar var helgaður alþjóðlegum mótmælum gegn stríði við Íran. Spennuna á milli Írans og Bandaríkjanna má rekja að minnsta kosti aftur til byltingarinnar 1979 en nú er sérstaklega ófriðvænlegt eftir að forseti Bandaríkjanna lét ráða af dögum einn æðsta ráðamann Íran, hershöfðingjann Qasem Soleimani, í heimsókn hans til Írak í byrjun árs. Mesta stríðshættan er mögulega liðin hjá eftir tiltölulega hófstiltar hefndaraðgerðir Írana en það kraumar enn í ófriðarlogunum.

Þetta er mikil afturför frá því að kjarnorkusáttmálinn á milli Íran, Bandaríkjanna, Rússlands, Kína og evrópsku stórveldanna var undiritaður árið 2015 en það var eitt stærsta skrefið í friðarátt í Miðausturlöndum síðustu áratugi. Hann hefði heft útbreiðslu kjarnorkuvopna í heimshlutanum um fyrirsjáanlega framtíð og lagt grunninn að friðsamlegum samskiptum Írans við Vesturlönd. Þörfin var brýn eftir þá óöld sem innrás Bandaríkjanna í Írak 2003 olli á svæðinu.

Því miður var þeim samningi kastað út í hafsauga af núverandi stjórnvöldum Bandaríkjanna þvert á vilja annarra samningsaðilla. Eftir að hafa þannig stimplað sig út úr samningaviðræðum settu þau á enn harðari refsiaðgerðir án þess að bjóða upp á nokkra raunhæfa leið fyrir Íran út úr þeim. Þessi stefna Bandaríkjanna er ávísun á stigmagnandi átök.

Þrátt fyrir ögranir eins og drónaárásina á Soleimani virðist Donald Trump ekki hafa skýr markmið um stríð við Íran en í svona spennuástandi geta slys eða frekari ögranir á báða bóga auðveldlega breyst í alsherjarstríð. Dauði 176 farþega og áhafnar í flugi PS752 sem var skotið niður af Írönum fyrir mistök er svo sorglegt dæmi um hvað getur gerst við þessar aðstæður. Afleiðingarnar af stríði yrðu svo enn alvarlegri, milljónir saklausra borgara gætu fallið og Persaflói sem þriðjungur af olíuútflutningi heimsins fer um yrði að vígvelli þar sem ótal olíuskip og olíumannvirki yrðu skotmörk íranskra flugskeyta og Bandarískra sprengjuflugvéla.

Líkurnar aukast líka á því að Íran þrói kjarnorkuvopn ef það lítur út eins og eina leiðin til að tryggja sig gegn árásum Bandaríkjanna. Þá er hætt við að fleiri ríki eins og Sádi-Arabía fylgi á eftir, sem eykur enn hættuna á kjarnorkustyrjöld.

Fjölmörg friðarsamtök í Bandaríkjunum og víðar standa að mótmælum gegn stríði við Íran núna á laugardaginn og vonandi verða þau fyrirbyggjandi. Endurtökum ekki glæpsamleg mistök Íraksstríðsins en hlustum á mótmælendur sem krefjast friðar. Íslensk stjórnvöld gætu lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að samþykkja sáttmála um kjarnorkuafvopnun og með því að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum á deilumálum og gegn drónáárásum án dóms og laga.

Guttormur Þorsteinsson

Meðaldræg kjarnorkuvopn

Bandaríkin færa heiminn nær kjarnorkuvetri, og Ísland hjálpar til?

By Í brennidepli
Meðaldræg kjarnorkuvopn

Þann 20. október 2018 tilkynnti forseti Bandaríkjanna að Bandaríkin myndu hverfa frá samningi um banni við skamm- og meðaldrægum kjarnorkuvopnum, eða INF samningnum svokallaða, sem Bandaríkin og Sovétríkin höfðu skrifað undir árið 1987.

Bandaríkin riftu samningnum þann 1. febrúar s.l. og strax daginn eftir fylgdi Rússland á eftir. Bandaríkin véku formlega frá samningnum 2. ágúst s.l.

Vopnauppbyggingin er þegar hafin. Bandaríkin byggja nú upp vopnakerfið US-Aegis í austurhluta Evrópu. Í gegnum NATO eru Bandaríkin nú að uppfæra herstöðvar sínar í Deveselu í Rúmeníu og stefnt er að opnun nýrrar stöðvar Redzikowo í Póllandi árið 2020. Í Deveselu eru neðanjarðarskotpallar fyrir 24 eldflaugar sem hægt er að nota fyrir kjarnorkuvopn, þó svo að yfirlýst markmið stöðvanna sé að verjast árásum. Fjögur bandarísk herskip sigla nú stöðugt um Miðjarðarhafið, Svartahafið og Eystrasaltið. Svipuð eldflaugakerfi eru í þessum herskipum (O‘Rourke, 2019). Þessi eldflaugakerfi eru smíðuð í verskmiðjum Lockheed Martin, en talsmenn fyrirtækisins stæra sig af því að þessi kerfi sé bæði hægt að nota í varnarskyni og einnig í árásarhernaði. Þau geti bæði borið meðaldrægar- og langdrægar eldflaugar (Lockheed Martin, 2019).

Bandaríkin stefna að því að fjölga þessum herskipaflota sínum á heimsvísu frá 38 til 59 árið 2024. Vitað er að Bandaríkin geyma kjarnorkuvopn í fimm NATO-ríkjum Evrópu: Ítalíu, Þýskalandi, Belgíu, Hollandi og Tyrklandi. Þótt NATO hafi aldrei formlega viðurkennt tilvist þessara kjarnavopna hefur þetta verið illa varðveitt leyndarmál um langa hríð. Kanadíski þingmaðurinn Joseph Day kjaftaði svo að því er virðist óvart frá leyndarmálinu í skýrslu sem hann lét vinna fyrir NATO og bar nafnið „A new era for nuclear deterrence? Modernization, arms control and alien nuclear forces“. Í skýrslunni kom meðal annars fram að Bandaríkin geymi um 150 kjarnavopn á lykilstöðum í Evrópu, flestar svokallaðar B61 „þyngdarafls-sprengjur“. Í skýrslunni segir m.a. „Þessi vopn eru geymd á sex bandarískum og evrópskum herstöðvum – Kleine Bragel í Belgíu, Buchel í Þýskalandi, Aviano og Ghedi Torre í Ítalíu, Voikel í Hollandi og Incirlik í Tyrklandi. Í því hugmyndafræðilega tilfelli að notkun þeirra verði nauðsynleg er hægt að flytja B61 sprengjurnar með bandarískum eða evrópskum flugvélum sem notaðar eru í ýmsum tilgangi“ (Brogel, 2019. Sjá einnig Dinucci 2019).

Ástæðan sem gefin er fyrir þessari uppbyggingu kjarnorku-árásargetu Bandaríkin er sú að aukna hættu steðji af Rússlandi og Kína. Fullyrðingar um slíkt eiga sér ekki stoð í yfirvegaðri yfirsýn yfir hernaðaruppbyggingu þessara ríkja. Rússland hefur í þrjú ár í röð minnkað útgjöld sín til hermála; í fyrra um 3,5 prósentustig. Rússland, landið sem okkur hefur verið kennt að óttast allt frá árinu 1917, eyddi að andvirði rúmum 61 milljarði Bandaríkjadala til hermála. Til samanburðar eyddu Bandaríkin árið 2018,  649 milljörðum Bandaríkjadala í hermál (Tian o.fl. 2019).

Bandaríkin starfrækja nærri því 800 herstöðvar í meira en 70 ríkjum (Vine, 2015). Til samanburðar starfrækir Rússland alls 8 herstöðvar utan eigin landamæra. Eina raunverulega hættan sem okkur stafar af Rússlandi eru viðbrögð ríkisins við augljósri kjarnorkuvopna-uppbyggingu NATO-ríkja nálægt landamærum Rússlands, s.s. í Tyrklandi og Rúmeníu, en Varnarmálaráðherra Rússlands hefur þegar tilkynnt um að ríkið muni svara uppbyggingu kjarnorkuvopna Bandaríkjanna með eigin uppbyggingu næstu ár. Hvað varðar viðbrögð Kína er erfiðara að segja til um, en samkvæmt Tian o.fl. (2019) eyða Kínverjar einungis um þriðjungi þess sem Bandaríkjamenn gera, í hermál.

Nú hefur Ísland gerst hluti af hernaðaruppbyggingaráformum Bandaríkjanna. Meðal fyrstu verka Bandaríkjahers eftir tilkynningu um aukna uppbyggingu á Íslandi var að æfa eldsneytisgjöf til hættulegustu herflugvélar heims á íslenskri grundu. Þessar flugvélar eru sérstaklega hannaðar til að geta sleppt allt að 16 kjarnorkuvopnum og flogið nánast ósýnilega inn í landamæri „óvinaríkis“.

Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Íslands er undir yfirskyni hernaðaruppbyggingar og MEINTRI ógn af Rússum og Kínverjum. Á fundinum gefst íslenskum ráðamönnum tækifæri á því að koma þeim skilaboðum skýlaust á framfæri að Ísland haldi sig utan uppbyggingu á gjöreyðingavopnum og neiti að taka þátt í ferli sem færir heiminn nær gjöreyðingu.

Ísland myndi þar fylgja fordæmi margra ríkja sem hafa lagt algjört bann við notkun og uppbyggingu á kjarnorkuvopnum. Ísland getur og á að stunda sjálfstæða utanríkisstefnu sem byggir á gagnkvæmri virðingu og góð samskiptum við öll ríki og vinnur í þágu friðar á heimsvísu. Ísland má ekki verða skotmark eða aðili að mögulegu gjöreyðingarstríði. Hinn möguleikinn er að halda áfram að lúffa möglunarlaust fyrir áformum þjóðar sem þykist vera heimsveldi og sýnir æ brjálæðislegri tilburði.

Við, almenningur, verðum að láta í okkur heyra. Við neitum að sitja þögul meðan heimurinn færist nær tortímingu vegna uppbyggingar kjarnorkuvopnabúrs heimsins. Mike Pence kemur til Íslands sem talsmaður slíkrar uppbyggingar, því verðum við að mótmæla.

-Jón Karl Stefánsson

 

Heimildir

O‘Rourke, R. (24. júlí 2019). Navy Aegis ballistic missile defense (BMD) program: Background and issues for Congress. Congressional Research Service. Sótt 3. september 2019 af: https://fas.org/sgp/crs/weapons/RL33745.pdf

Lockheed Martin (3. september 2019). Aegis: The shield of the fleet. Sótt af: https://www.lockheedmartin.com/en-us/products/aegis-combat-system.html

Brogel, K. (19. júlí 2019). Eindelijk zwart op wit: er liggen Amerikaanske kernwapens in Belgie. De Morgen. Sótt af: https://www.demorgen.be/nieuws/eindelijk-zwart-op-wit-er-liggen-amerikaanse-kernwapens-in-belgie~b051dc18/?referer=https%3A%2F%2Fwww.voltairenet.org%2Farticle207437.html

Dinucci, M. (26. ágúst 2019). Nato Nuclear Gaff. Voltaire Network. Sótt af: https://www.voltairenet.org/article207437.html

Tian, N., Fleurant, A., Kuimova, A., Wezman, P. D. og Wezman, S. T. 2019. Trends in world military expenditure, 2018. Stockholm International Peace Research Institute. Sótt 29. Júlí 2019 af: https://sipri.org/sites/default/files/2019-04/fs_1904_milex_2018_0.pdf

Vine, D. 2015. Where in the world is the U.S. military? Politico. Sótt 29.07.2019 af: https://www.politico.com/magazine/story/2015/06/us-military-bases-around-the-world-119321

Hvatningarbréf til þingmanna

By Í brennidepli

Kæri þingmaður

Til hamingju með það verkefni sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í þessu hlutverki. Við viljum jafnframt nýta tækifærið til að vekja athygli þína á ýmsu því er snýr að friðar- og afvopnunarmálum.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

  • Á síðustu árum hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað í Miðausturlöndum með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Í þeim eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar eða bakhjarlar og vopnasalar. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að stórveldin láti af íhlutunarstefnu sinni og að böndum verði komið á alþjóðlega vopnasölu.
  • Síðustu misseri hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Nató-ríki bera þar þunga ábyrgð og er ólíðandi ef sömu lönd ætla að skjóta sér undan því að axla afleiðingar gerða sinna. Við skourm á þið að berjast fyrir því að Ísland styðji flóttamannahjálp, þar á meðal með því að taka við mun fleira fólki.
  • Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu Nató, sem er hernaðarlegt tæki til að styðja við hagsmuni lykilríkja þess og þá einum Bandaríkjanna. Allt tal um lýðræðislegt eðli bandalagsins er hlálegt ef horft er til aðildar Tyrklands að Nató og framgöngu stjórnvalda þar á liðnum árum. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr Nató.
  • Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Nýlegar bókanir við samninginn eru til marks um aukin vilja til slíkra umsvifa. Það er mat okkar að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar og leggja grunn að sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við skorum á þig að leggja þeirri uppsögn lið og standa gegn öllum áformum um aukna viðveru erlendra herja hér á landi.
  • Nokkrum sinnum á ári er hér á landi skipulagt æfingaflug orrustuflugmanna Nató-ríkja í æfingum sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla. Hér er einungis um að ræða niðurgreiddar heræfingar sem eru engum til gagns en mörgum til ama. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að flugæfingum þessum verði hætt hið snarasta.
  • Kjarnorkuvopn eru í dag mesta ógn sem að mannkyni stafar og er þó af ýmsum óværum að taka. Kjarnorkuveldum fjölgar og sífellt auðveldara er að framleiða þessi vopn. Sérstakt áhyggjuefni í þessu sambandi er sú stefna Bandaríkjastjórnar að þróa „hagnýt“ kjarnorkuvopn, sem auðveldara yrði að beita í hefðbundnum hernaði. Fræðimenn telja að nú séu síðustu forvöð að grípa í taumana ef útrýming þessara skaðræðisvopna á að vera möguleg. Þess vegna hafa 122 ríki Sameinuðu þjóðanna stutt sáttmála um útrýmingu kjarnorkuvopna. Nató-ríki hafa skipað sér í sveit með kjarnorkuveldunum í andstöðu við sáttmálann. Við skorum á þig að tala máli kjarnorkuafvopnunar, að Ísland gerist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og að Ísland og íslensk lögsaga verði friðlýst fyrir allri geymslu og meðferð þessara vopna.
  • Styrjaldir og átök í heiminum eiga sér undantekningarlítið efnahagslegar rætur. Friður á traustum grunni verður aldrei tryggður nema með félagslegu réttlæti í heiminum. Við skorum á að vinna í störfum þínum gegn kúgun, arðráni og ofbeldi í hvaða mynd sem er.