Category

Í brennidepli

B-2 sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli

Svör flokkanna, 2. spurning: Íslenskur her eða vopnastuðningur?

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 2 hljómaði svo: Hver er afstaða flokksins til þess að Ísland hafi eða hafi ekki eigin her, eða leggi öðrum herjum til hermenn eða vopn? – Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Framsóknarflokkur:
Framsókn styður þá stefnu að Ísland sé herlaust land og leggur áherslu á að viðhalda þeirri stöðu. Flokkurinn vill að Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi um frið og öryggi án þess að leggja til hermenn eða vopn.

Sjálfstæðisflokkur:
Sjálfstæðisflokkurinn telur ekki að Ísland eigi að stofna eigin her. Þar af leiðandi er Ísland ekki í aðstöðu til þess að leggja öðrum herjum til hermenn eða vopn.

Píratar:
Sú afstaða hefur undanfarið helst birst í því að þingflokkur Pírata hefur lagt áherslu á að Ísland sé herlaust ríki sem beitir sér fyrir friðsömum lausnum, þannig að þegar hefur t.d. komið að stuðningi við Úkraínu eigi íslensk stjórnvöld að einbeita sér að borgaralegum stuðningi og mannúðaraðstoð. Í því ljósi sat meirihluti þingflokks Pírata hjá þegar kom að atkvæðagreiðslu um þann hluta tillögu um stuðning Íslands við Úkraínu sem snéri að því að borga í sjóði sem kaupa vopn fyrir Úkraínumenn, þó að þingflokkurinn hafi stutt stefnuna að öðru leyti.

Sósíalistaflokkurinn:
Ísland á að vera með öllu herlaus og á aldrei að kaupa vopn. Einnig er stefna Sósíalistaflokksins að engin vopna- og kjarnorkuflutningar megi eiga sér stað í íslenskri landhelgi og lofthelgi.

Lýðræðisflokkurinn:
Að áliti Lýðræðisflokksins hefur það verið hornsteinn utanríkisstefnu lýðveldisins Íslands frá upphafi að Íslandi fari ekki með vopnavaldi gegn öðrum ríkjum. Slíkt ríki, sem ekki hefur eigin her, hefur enga siðferðilega stöðu til að etja öðrum þjóðum út í stríð. Ísland á ekki að fjármagna vopnakaup eða leggja til hermenn. Ákvarðanir um slíkt má ekki nema þjóðin hafi áður veitt samþykki sitt fyrir slíkri stefnubreytingu.

Vinstri græn:
Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan, né leggja öðrum til hermenn eða vopn.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að efla landamæraeftirlit landsins og styrkja stofnanaumgjörð öryggismála, bæði innan Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar. Enginn ætlast til þess að Íslendingar vopnist en augljóslega þarf að auka getu og þekkingu til þess að við getum sinnt alþjóðasamstarfi á þessu sviði betur.

Svör flokkanna, 1 . spurning: Friður, afvopnun og hernaðarþátttaka?

By Í brennidepli

Líkt og fyrir fyrri kosningar sendu Samtök hernaðarandstæðinga spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu.

Hér fylgja svör þeirra flokka sem svöruðu spurningunni: Hver er stefna flokksins í friðarmálum, afvopnunarmálum og hernaðarþátttöku

Miðflokkurinn:
Miðflokkurinn leggur áherslu á og styður allar aðgerðir sem tryggja frið. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þær afleiðingar sem stríð og ófriður hefur á saklaust fólk. Því styður flokkurinn allar aðgerðir til afvopnunar og til að efla frið.

Sjálfstæðisflokkurinn:
Stærsta hagsmunamál Íslands í utanríkismálum er að virðing sé borin fyrir alþjóðalögum og þeim stofnunum sem ætlað er að gæta þeirra. Alþjóðakerfið, með stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna að grundvelli, hefur þann megintilgang að koma í veg fyrir stríðsátök. Sjálfstæðisflokkurinn telur að Ísland eigi að stuðla að friði í heiminum með því að standa með og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á þeim grundvelli.
Sjálfstæðisflokkurinn vill að stefnt sé að afvopnun sem víðast á grundvelli trygginga og eftirlits. Einhliða afvopnun er ekki skynsamleg.
Ísland er aðili að öryggis- og varnarbandalagi, Atlantshafsbandalaginu og ætti ætíð að leita leiða til þess að leggja bandalagsríkjum lið. Eðli málsins samkvæmt er það jafnan á grundvelli borgaralegs framlags, enda hefur Ísland ekki her.

Lýðræðisflokkurinn:
Stefna Lýðræðisflokksins er sú að vera málsvari friðar og sátta. Við teljum að Ísland, sem herlaus þjóð, eigi hvergi að hella olíu á ófriðarbál.

Vinstri græn:
Ísland á að beita sér fyrir friði og hafna hernaðaríhlutun, beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun sem og að vinna gegn vopnaframleiðslu og vígbúnaði. Stríð og hernaður leysa engin vandamál, þótt hernaðarsinnar haldi því fram að barist sé fyrir friði og mannréttindum. Auk þess er vígvæðing og hernaður gegndarlaus sóun auðlinda og lífs. Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni og stríðsglæpi. Þá minnum við á að stríðum lýkur ekki með orrustum heldur friðarsamningum.

Sósíalistaflokkurinn:
Ísland er herlaus þjóð og að á að beita sér fyrir afvopnun og friði á hinu alþjóðlega sviði. Við eigum að standa með þeim undirokuðu, standa með mannréttindum og alþjóðalögum. Ekki bara er það hið siðferðislega rétta að gera heldur varðar það hagsmuni Íslands að alþjóðalög og mannréttindi séu virt og að hægt sé að koma í veg fyrir stigmögnun átaka.

Samfylkingin:
Samfylkingin leggur áherslu á að Ísland beiti sér fyrir jöfnuði og mannréttindum um allan heim og sé ávallt málsvari friðar, mannúðar, jafnréttis og lýðræðis. Sjaldan hefur verið jafn mikilvægt og nú að frjálslynt og lýðræðislega sinnað fólk fylki sér um grunngildi opins lýðræðisþjóðfélags og standi vörð um það sem áunnist hefur í alþjóðasamvinnu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Ísland á að reka mannúðlega utanríkisstefnu sem miðar í senn að því að styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og leggja okkar af mörkum við úrlausn þeirra risavöxnu áskorana sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.

Framsóknarflokkurinn:
Framsókn leggur áherslu á að Ísland haldi áfram að vera herlaust land og styður við alþjóðlegt samstarf um frið og afvopnun. Flokkurinn vill að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum sem stuðla að friði og öryggi, og leggur áherslu á að efla mannúðarsjónarmið í alþjóðamálum.

Píratar:
Píratakóðinn, sameiginleg gildayfirlýsing Pírataflokka um allan heim, byrjar á orðunum: Píratar eru friðelskandi. Þetta birtist m.a. í því að lengi hefur stefna Pírata kveðið á um að hafna skuli hvers kyns hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum.
Píratar hafa ítrekað þrýst á ríkisstjórnina að vera rödd skynseminnar í afvopnunarmálum, eins og með því að mæta á fundi aðildarríkja TPNW, samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gegnum fyrirspurnir á Alþingi hefur fráfarandi ríkisstjórn ekki einu sinni fallist á að sækja fundina sem áheyrnarfulltrúi líkt og nokkur Natóríki gera.
Þegar þjóðaröryggisstefna Íslands var uppfærð vorið 2023 lögðu Píratar til að ákvæði um friðlýsingu landsins fyrir kjarnavopnum væri gert skýrara og afdráttarlausara. Breytingartillagan, varatillaga og tillaga til þrautavara voru allar felldar í atkvæðagreiðslu og nutu aðeins stuðnings þingflokks Pírata og eins fulltrúa Flokks fólksins.
Innan Alþingis hafa Píratar dregið fram í dagsljósið upplýsingar um þá gríðarlegu uppbyggingu sem undanfarin ár hefur átt sér stað á varnarsvæðinu á Keflavík og gagnrýnt þá stefnubreytingu sem virðist þar hafa orðið án nokkurrar opinberrar umræðu. 

Kertafleyting

Hversvegna fleytum við kertum?

By Í brennidepli, Viðburður

English below.

Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar fleytt kertum á Reykjavíkurtjörn annað hvort 6. eða 9. ágúst í minningu fórnarlamba kjarnorkuárása Bandaríkjanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí árið 1945, í lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Kjarnorkuárásirnar 1945
Aðeins einu sinni í sögunni hefur kjarnorkuvopnum verið beitt í hernaði. Það var þegar Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á Hírósíma og Nagasakí til að knýja Japani til uppgjafar á lokaspretti heimsstyrjaldarinnar. Árásunum var að öllum líkindum einnig ætlað að sýna Sovétmönnum styrk þessara nýju vopna fyrir Kalda stríðið sem hófst skömmu síðar. Allt að 200 þúsund manns eru talin hafa farist í árásunum og enn fleiri máttu berjast við afleiðingar sprenginganna löngu síðar.

Baráttan gegn kjarnorkuvopnum
Þótt kjarnorkuvopnum hafi ekki verið beitt frá árinu 1945 eiga helstu herveldi heims fjölda slíkra sprengja í vopnabúrum sínum, einkum Bandaríkin og Rússland. Þessi vopn geta útrýmt mannkyninu margoft ef til kjarnorkustríðs kæmi og sú hætta er alltaf fyrir hendi að kjarnorkuvopn muni springa fyrir mistök. Fjölmargar þjóðir heims hafa undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ísland er ekki í þeim hópi, enda hafa öll aðildarríki Nató neitað að gera það þar sem kjarnorkuvopn eru mikilvægur þáttur í hernaðarstefnu þeirra.

Kertafleytingin
Friðarsinnar koma saman við suðvesturenda Tjarnarinnar kl 22:30 á Nagasakí-daginn, 9. ágúst. Kerti eru seld á staðnum fyrir 1.000 krónur. Eftir stutt ávarp eru kertin látin fljóta á Tjörninni til að minnast fórnarlamba árásanna árið 1945 og til að árétta kröfuna um heim án kjarnorkuvopna.


Why do we float candles?

Since 1985, Icelandic pacifists have floated candles on the Pond in Reykjavík, either on the 6th or 9th of August 6th, in memory of the victims of the US nuclear strikes on the Japanese cities of Hiroshima and Nagasaki in 1945, at the end of World War II.

The 1945 nuclear attacks
Only once in history have nuclear weapons been used in warfare. It was when the US military dropped atomic bombs on Hiroshima and Nagasaki to force Japan to surrender in the final stages of World War II. The attacks were also likely intended to show the Soviets the strength of these new weapons before the Cold War that began soon after. Up to 200,000 people are believed to have perished in the attacks, and even more had to struggle with the consequences of the explosions long after.

The fight against nuclear weapons
Although nuclear weapons have not been used since 1945, the major military powers of the world have a number of such bombs in their arsenals, especially the United States and Russia. These weapons can wipe out humanity many times over in the event of a nuclear war, and there is always the risk that a nuclear weapon will explode by mistake. Many nations of the world have signed the United Nations Treaty on the Prohibition of Nuclear Weapons. Iceland is not in that group, as all NATO member states have refused to do so as nuclear weapons are an important part of their military strategy.

The candlelight vigil
This yeah peace activists will gather at the south-west end of the Pond at 22:30 on Nagasaki Day, August 9. Candles are sold locally for 1,000 ISK. After a short speech, the candles are floated on The Pond to remember the victims of the attacks in 1945 and to reaffirm the demand for a world without nuclear weapons.

Kort af Tjörninni með staðsetningu kertafleytingarinnar merkta inn á

Ályktun SHA um þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028.

By Ályktun, Í brennidepli

Utanríkisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu 2024–2028, sem allt stefnir í að senn verði samþykkt á Alþingi.

Í þessarri stefnu felst sú kúvending á stefnu Íslands að hverfa frá því að taka ekki beinan þátt í styrjöldum með fjármögnun eða öðrum hernaðarstuðningi. Þótt þessi stefna sé nú fyrst borin upp á Alþingi, eru fulltrúar Íslands búnir að fylgja henni í raun og kom það m.a. fram í samþykkt yfirlýsinga á leiðtogafundi NATO í Vilníus í júlí 2023, þar sem samþykkt var margvísleg hernaðarþátttaka í stríðinu í Úkraínu. Þá er þegar í fjárlögum fyrir árið 2024 gert ráð fyrir 1 milljarðs kr. efnahags- og mannúðarstuðningi við Úkraínu með vinstri hendi, en jafnframt að leggja svo með hægri hendi fram 750 milljónir til viðbótar til hernaðarstuðnings sem brýtur niður efnahag og mannslíf.

Í stefnu þessari er líka bein hvatning til íslenskra fyrirtækja um að flytja hergögn og að framleiða vörur fyrir heri. Þar á eftir eru beinar tillögur sem leiða til að hlutleysi íslensks björgunarliðs verði ógnað ef stríð geysar, með því tengja þær stríðsrekstri á þann hátt að fela Landhelgisgæslunni að þjálfa erlenda sjóliða og einnig að falast eftir búnaði frá íslenskum neyðarviðbragðsaðilum.

Í greinargerð með nýju stefnunni er vitnað til gildandi Þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, þar sem sé kveðið á um að „tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi.“ Hin nýja stefna slekkur á þessu leiðarljósi, því í henni er hvergi að finna neinar aðgerðir sem stefna að friðsamlegri lausn deilumála eða afvopnun, ekki einu sinni vopnahlé. Þvert á móti er þar lagt til að styðja ófriðsamlega lausn.

Á Íslandi er skiljanlega ríkur stuðningur við íbúa Úkraínu eftir hernaðarinnrás Rússlands og hernám hluta Úkraínu. SHA lýsa stuðningi við að veita íbúum Úkraínu mannúðaraðstoð og að veita þeim sem hingað leita vegna stríðsins hæli meðan þess er óskað. Þá styðja SHA líka að Úkraínu verði veittur pólitískur stuðningur og einnig stuðningur til enduruppbyggingar innviða landsins með því að koma atvinnulífi, mannlífi og stjórnarháttum sem fyrst í gott horf að stríðinu loknu. SHA hafna hins vegar alfarið öllum aðgerðum og fjármögnun Íslands á stríðsrekstri í Úkraínu.

Allur sá hluti þessarar þingsályktunatillögu Alþingis og greinargerðarinnar með henni sem lýtur að þátttöku Íslands í hernaði í Úkraínu, vanvirðir bæði samþykkta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þau gildi sem Ísland hefur haft í heiðri um að vinna að friði og taka ekki þátt í stríði. Þar er á ósvífinn hátt verið að vefja hernaðarþátttöku inn í sáraumbúðir.
UNRWA logo

Ályktun um frystingu á aðstoð við Palestínu

By Ályktun, Í brennidepli

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir þá ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að frysta greiðslur til Palestínuhjálpar Sameinuðu þjóðanna. Það er óásættanlegt með öllu að beita neyðaraðstoð við sveltandi og deyjandi fólk sem pólitísku refsitæki líkt og gert er í þessu máli. Neyðaraðstoð verður að halda áfram að berast til Gaza án nokkurrar tafar.

Tilraunir ísraelskra stjórnvalda til að spyrða Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra við hryðjuverk verður að skilja í ljósi nýfallins úrskurðar Alþjóðadómstólsins í Haag sem felur í sér áfellisdóm yfir framferði Ísraelsmanna á Gaza undanfarnar vikur og mánuði.

Úrskurðurinn kveður sérstaklega á um að hleypa verði mannúðaraðstoð inn á Gaza. Ákvörðun utanríkisráðherra gengur þannig í berhögg við niðurstöðu Alþjóðadómstólsins og hana verður að draga til baka.

Sveinn Rúnar Hauksson í friðargöngunni á Þorláksmessu 2023.

Ávarp Sveins Rúnars í Friðargöngunni 2023

By Í brennidepli
Góðu blysberar fyrir friði, ágæta fundarfólk
Það eru 43 ár liðin síðan fyrst var gengið fyrir friði á Þorláksmessu. Þá var skuggi kjarnorkuógnar yfir Evrópu og heimi öllum. Sú ógn hefur síst minnkað með árunum.
Kjarnorkuvopnum hefur einungis verið beitt af Bandaríkjaher. Það var í stríðslok þegar kjarnorkusprengjum var varpað á íbúa borganna Hiroshima og Nagasaki í Japan með hræðilegum afleiðingum sem enn sér ekki fyrir endann á. Nýverið varpaði ísraelskur hershöfðingi fram þeirri hugmynd að varpa kjarnorkusprengju á Gaza.
Allt frá stríðslokum hefur heimurinn þurft að horfa upp á ekki færri en hundrað stríð, og í langflestum tilvikum hefur bandalagsríki Íslands, Bandaríkin, verið að verki, beint eða óbeint. Ljót verk og hryllileg hafa verið unnin, sem fyrst og fremst hafa bitnað á óbreyttum borgurum. Oft hefur því skugga borið á, en sjaldan sem nú.
Í ellefu vikur hefur nú staðið yfir það, sem Ísraelsstjórn kallar „stríð gegn Hamas“ en er fyrst og fremst stríð gegn börnum, gegn mæðrum, stríð gegn Palestínu. Ef stríð skyldi kalla, þegar aðeins er um einn her að ræða, 500 þúsund manna her – þetta er næstum einsog þegar mest var í Víetnamstríðinu – og gegn honum standa einhverjir tugir þúsunda liðsmanna, andspyrnuhreyfinganna Al Qassam, Al Quds og fleiri minni hópa. Þeir fyrrnefndu er hluti eins tæknivæddasta hers heims, þeir síðarnefndu ráða yfir handvopnum og heimasmíðuðum eldflaugum. Netanyahu segir langt eftir af þessari útrýmingarherferð, þetta taki tíma. Markmiðið er löngu orðið ljóst, það er að eyða palestínskri byggð á Gaza. Stefna Ísraels er að hrekja Palestínumenn úr landi, en drepa þá ella.
Við þessari grimmd, þessari illsku, sem við verðum að horfast í augu við, er fátt annað til ráða en biðja bænirnar sínar, að biðja Guð að hjálpa sér, einsog formaður Eflingar orðaði það fyrir rúmum tveimur mánuðum, á fyrsta útiifundinum vegna árásanna á Gaza. En samstaða skiptir líka máli og nú hafa verið haldnar meira en 20 samstöðuaðgerðir af ýmsu tagi með þátttöku þúsunda; samstöðugöngur, útifundir, stór innifundur og tónleikar svo eitthvað sé nefnt.
Börn og mæður eru langstærsti hluti þeirra sem deyja í sprengjuárásum á Gaza, eða 70% þeirra sem láta lífið. Fjöldi barna sem hafa verið myrt af Ísraelsher nálgast nú 10 þúsund. Mun fleiri lifa af, særð og örkumla fyrir lífstíð og sennilega verður þeim erfiðast að glíma við sálrænar afleiðingar, áfallaraskanir sem seint linnir. Að sjálfsögðu hafa þessi börn ekkert með Hamas, Islamic Jihad eða aðra flokka að gera. Þau hafa ekkert til sakar unnið, annað en að vera fædd í Palestínu.
Tæpar tvær milljónir manna hafa hrakist frá heimilum sínum og eru á vergangi. Ekki er um neitt húsaskjól að ræða heldur í besta falli tjöld, oftast heimatilbúin. Þau veita lítið skjól fyrir vaxandi kulda og rigningum sem nú ganga yfir og flestir hafa ekkert skjól. Hætt er við að fleiri eigi eftir að deyja úr kulda, vosbúð og sjúkdómum en af völdum sprengja og byssukúlna.
Öll heilsugæsla og flest sjúkrahús eru óstarfhæf. Meira en helmingur heimila í landinu hafa verið jöfnuð við jörðu. Engu er hlíft, ekki sjúkrahúsum, ekki skólum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, ekki moskum eða kirkjum og ekki bakaríum, aldingörðum, ávaxtatrjám né neinu sem fólk hefur til lífsviðurværis. Enginn er óhultur og enginn staður öruggur. Þetta er gjöreyðingarherferð sem er ætlað að leysa Palestínu vandamálið í eitt skipti fyrir öll. Það var byrjað á Gaza en herferðin er farin að taka til Vesturbakkans í æ ríkari mæli.
Heimurinn hrópar nú á vopnahlé, en ekki nógu hátt. Ekkert vopnahlé, segir Netanyahu, við höldum stríðinu áfram í nokkra mánuði enn. Haldið skal áfram að murka lífið úr Palestínumönnum, varnarlausu fólki.
Er hægt að halda uppi eðlilegu stjórnmálasambandi við ríkisstjórn sem hagar sér þannig og sem telur sig hafna yfir öll lög, hvort sem er alþjóðalög eða ályktanir Sameinuðu þjóðanna? Getum við að minnsta kosti ekki tilkynnt sendiherra Ísraels, sem staðsettur er í Osló, að hann sé óvelkominn til Íslands?
Bandaríkjastjórn hefur beitt neitunarvaldi í Öryggisráði SÞ í þágu Ísraels til að fella tillögu um vopnahlé, sem er eina leiðin til að stöðva blóðbaðið.
Geta okkar stjórnvöld látið einsog ekkert sé, þegar horft er upp á tortímingu þjóðar, stríðsglæpi fyrir allra augum, þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð?
Við höfum gengið þessa blysför fyrir friði í 43 ár. Margt stríð og marga ógnina hefur borið á góma. En við höfum aldrei staðið í þeim sporum sem við stöndum nú.
Þessi hrylllingur sem horft er upp á á Gazaströndinni er meiri en í öðrum stríðum og eru þau ófá og nógu hræðileg og ævinlega óbreyttir borgarar sem verða mest fyrir barðinu á þeim.
En á Gaza eru aðstæður fólks svo margfallt verri en nokkurs staðar annars staðar. Aðalframkvæmdastjóri SÞ og talsmenn Barnahjálparinnar UNICEF tala skýru máli um að annað eins hafi aldrei sést.
2.3 milljónir manna höfðu verið lokaðar inni í herkví í 17 ár á smá landsvæði, Gaza-ströndinni, einu sem telst 360 ferkílómetrar. Nú hafa íbúarnir verið reknir eins og fé til slátrunar suðar á bóginn, stað úr stað, en ekkert dregið úr loftárásum. Sprengjuárásir hafa verið látlausar og stöðugt hert á, nema í stuttu hléi sem varði í nokkra daga.
Nú er flóttafólkinu gert að koma sér fyrir á Al Mawasi, sandbletti við ströndina hjá Rafah, svæði sem er 6 ferkílómetrar að stærð. Ekkert vatn nema sjórinn, engin hreinlætis- eða salernisaðstaða, ekkert eldsneyti né rafmagn, engin matvæli né lyf, engin heilsugæsla, engin aðstaða til eins né neins. Hér er meira en milljón manna, matarlaus og klæðafá, í vaxandi kulda og rigningu, ætlað að koma sér fyrir og bíða dauða síns.
Þennan hrylling verður að binda endi á. Vopnahlé er lífsnauðsyn og það strax. Bjarga verður þeim mannslífum sem hægt er með öllum ráðum.
Ef Netanyahu og Ísraelsher halda sinni gjöreyðingarherferð áfram, þá er Ísrael að grafa sér æ dýpri gröf. Báðir aðilar þurfa frið, réttlátan frið.
Það liggur fyrir að öll stjórnmálaöfl í Palestínu, þar á meðal Hamas-samtökin, vilja semja um frið við Ísrael, undir formerkjum alþjóðalaga og ályktana Sameinu þjóðanna, þar með landamæranna frá 1967, en þau ein hafa alþjóðlegt gildi.
Þessi lausn er í samræmi við stefnu Alþingis. Og við hljótum að krefjast þess af ríkisstjórn okkar og stjórnvöldum að þau leggi sig betur fram í að knýja Ísraelsstjórn að samningaborði.
Það verður líka krefjast þess af Bandaríkjastjórn að hún láti af skiilyrðislausum stuðningi sínum við gjöreyðingarherferð Ísraelshers.
Við viljum frið í Palestínu og frjálsa Palestínu.
Samstaðan er mikils virði. Hvert og eitt ykkar sem takið þátt hér í dag skiptir máli.
Milljónir króna hafa safnast í neyðaraðstoð, 17 ára stúlka sem misst hafði fjölskyldu sína í loftárásum á Gaza, sjálf misst ganglim og vildi sameinast bræðrum sínum á Íslandi, fékk nánast umsvifalaust ríkisborgararétt; allt þetta endurspeglar eindreginn hug íslensku þjóðarinnar og samstöðu hennar með palestínsku þjóðinni.
Jólin eru að ganga í garð með boðskap friðar, kærleika og vonar. Lítum til palestínsku þjóðarinnar sem mátt hefur búa við hernám og kúgun í 75 ár. Hún hefur mætt örlögum sínum með endalausri seiglu, hugrekki, friðarvilja og varðveitt mennskuna. Höfum hana að fyrirmynd. Syngjum Heims um ból, fullum rómi í trú á frelsi og frið.
Gleðileg jól.
-Sveinn Rúnar Hauksson

Áskorun um frið á Gaza

By Ályktun, Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga krefjast þess af ríkisstjórn Íslands að hún beiti sér fyrir því að tafarlaust verði gert vopnahlé í stríði því sem nú geysar á Gaza. Íslenska ríkið stóð að samþykkt um stofnun Ísraelsríkis og hefur viðurkennt sjálfstæði Palestínu og ber því skylda til að beita áhrifum sínum til að tryggja frið og velferð íbúa beggja ríkjanna.

Stríð er glæpur. Stríðsglæpur er glæpur á glæp ofan. Engin stríð hafa verið háð án stríðsglæpa.

Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur hlutfall óbreyttra borgara hækkað í samanburði við hlutfall hermanna sem deyja í stríðum og nú eru óbreyttir borgarar og varnarlaust fólk í meirihluta þeirra sem deyja og særast í lang flestum stríðum. Varnarlaust fólk er líka í miklum meirihluta þeirra sem stríðsglæpir bitna á. Stríðið á Gaza bitnar nú alfarið á varnarlausu fólki sem hefur engan stað til að flýja á, ekkert öruggt skjól og algjöran skort á lífsnauðsynjum. Helmingur íbúa Gaza eru börn og því leiða loftárásir til fjöldamorða á börnum. Árásir hafa verið gerðar á bæði sjúkrahús og sjúkrabíla og á fólk sem er að reyna að flýja.

Samtök hernaðarandstæðinga eru friðarhreyfing. Friðarsinnar leggja ekki höfuð áherslu á hverjir hafa góðan eða vondan málstað að berjast fyrir, heldur á að mál séu leyst án hernaðar og annars ofbeldis.

Það þarf að stöðva stríðið á Gaza strax með vopnahléi. Vopnahléi þarf að fylgja eftir með friðarsamningum þar sem öllu fólki verður tryggt öryggi, mannréttindi og almennt réttlæti. Friður og réttlæti fara saman, á meðan óréttlæti og yfirgangur er stærsta uppspretta stríðs. Of lengi hafa vestræn ríki horft framhjá yfirgangi öfgafullra landránsmanna studda hersetu og hernaðarofbeldi Ísraelsríkis og kæfandi herkvínni sem Gazasvæðinu hefur verið haldið í, með endurteknum brotum á alþjóðalögum. Það hefur verið vatn á myllu þeirra afla í röðum Palestínumanna sem telja einu færu leiðina að svara í sömu mynt og framlengir þannig vítahring hefnda með ofbeldi. Veruleg hætta er á að þetta stríð leiði til enn frekari stríðsátaka og hryðjuverka, sem geri lausn stríðsins ennþá erfiðari. Nú þarf að breyta um stefnu og ná víðtækri samstöðu ríkja um að stöðva þetta stríð strax, tryggja öryggi fólks á stríðssvæðinu og vinna að friðarsamningum.

Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag

Stríðsglæpirnir og dómstóllinn

By Fréttir, Í brennidepli

Í tengslum við yfirstandandi stríð í Úkraínu hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi þess að þegar átökum ljúki verði þeim sem framið hafa stríðsglæpi refsað fyrir ódæði sín. Rökréttasti vettvangurinn fyrir slík réttarhöld ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera Stríðsglæpadómstóllinn í Haag. Þar eru þó ýmis ljón í veginum.

Hugmyndin um alþjóðlegan dómstól sem nýta mætti til að refsa þeim verða brotlegir við alþjóðalög í hernaði kom fram þegar við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og skömmu áður en sú síðari braust út var búið að leggja grundvöll að slíkum dómstól á vegum Þjóðabandalagsins sem kom þó aldrei til framkvæmda. Forystumenn hinna sigruðu ríkja, Þýskalands og Japans, voru dregnir fyrir dómstóla að stríði loknu og var gert ráð fyrir að þau réttarhöld myndu leggja grunninn að starfsemi fasts dómstóls. Kalda stríðið sló þó allar slíkar hugmyndir út af borðinu um áratuga skeið.

Á tíunda áratugnum stóð öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir því að settar væru á laggirnar tvær tímabundnar stofnanir með afmörkuð verkefni, annars vegar í tengslum við glæpi í borgarastyrjöldinni í ríkjum fyrrum Júgóslavíu en hins vegar vegna fjöldamorða í Rwanda árið 1994. Málareksturinn þar ýtti á eftir hugmyndum um að koma fastri stofnun á legg.

Árið 1998 var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðann í Rómarborg sáttmáli um stofnun stríðsglæpadómstóls. Kína og Bandaríkin voru í fámennum hópi landa sem greiddi atkvæði gegn sáttmálanum, auk Ísraels sem vildi ekki sætta sig við að það teldist stríðsglæpur að koma landnemum fyrir á hernumdum svæðum. Tveimur árum eftir samþykkt Rómarsáttmálans ákvað Bill Clinton að undirrita hann með semingi. Kallaði samninginn gallaðan og ákvað að lokum að leggja hann ekki fyrir þingið til staðfestingar. Þrátt fyrir tregðu stórvelda tók sáttmálinn gildi árið 2002 og telst það stofnár Stríðsglæpadómstólsins.

Fyrsta málið sem kom til kasta dómstólsins var á árinu 2006 og tengdist stríðsherra í Kongó. Upp frá því hafa nær öll mál sem ratað hafa til Haag tengst styrjöldum og borgarastríðum í Afríku. Nokkrir fyrrum þjóðarleiðtogar hafa verið kærðir, svo sem Omar al-Bashir frá Súdan, Uhuru Kenyatta frá Kenía, Laurent Gbagbo frá Fílabeinsströndinni og Gaddafi frá Líbíu, svo nokkrir séu nefndir. Þessi einsleitni í hópi sakborninga hefur vakið gagnrýni. Í Afríku finnst mörgum skjóta skökku við engir aðrir séu bendlaðir við stríðsglæpi og grimmdarverk. Líta sumir því á dómstólinn sem hálfgerða framlengingu á nýlendustefnunni. Í kjölfarið hafa nokkur Afríkulönd dregið sig út úr sáttmálanum.

Þessi gagnrýni er ekki úr lausu lofti gripin, enda fátt sem bendir til að vestrænir leiðtogar sjái fyrir sér að dómstóllinn gæti haft lögsögu yfir þeirra borgurum. Árið 2002 sló í brýnu milli dómstólsins og bandarískra stjórnvalda. Ríkisstjórn George W. Bush dró úr þeirri litlu formlegu viðurkenningu sem Bandaríkin höfðu þó veitt starfsemi dómstólsins. Þar á meðal voru lög um vernd opinberra bandarískra borgara, sem almennt voru kölluð „The Hague Invasion Act, þar sem þau beindust með beinum hætti gegn Stríðsglæpadómstólnum og gerðu það alveg skýrt að kærur gegn bandarískum borgurum yrðu ekki liðnar.

Síðustu tuttugu árin hafa samskipti Bandaríkjastjórnar og dómstólsins sveiflast upp og niður eftir ráðamönnum. Trump-stjórnin sýndi dómstólnum fulla andúð á meðan Obama- og Biden-stjórnirnar hafa verið jákvæðari í hans garð. Í desember síðastliðnum urðu þau tíðindi að Bandaríkjaþing nam úr gildi löggjöf sem bannaði stjórnvöldum að deila upplýsingum með stríðsglæpadómstólnum og var markmiðið með þeirri lagabreytingu að leggja drög að mögulegum dómsmálum vegna stríðsins í Úkraínu.

Nýverið hafa hins vegar borist fregnir af því að þrátt fyrir ákvörðun þingsins og fyrri yfirlýsingar Bidens forseta um mikilvægi stríðsglæparéttarhalda, standi stjórnendur Pentagon í vegi fyrir því Bandaríkin starfi með dómstólnum (sbr. frétt í New York Times 8.mars sl.) Ástæða þessa er einföld: bandaríska varnarmálaráðuneytið óttast að öll slík samvinna kunni að auka líkurnar á að Bandaríkjamenn kunni sjálfir að verða dregnir fyrir dómstólinn í framtíðinni.

Rússland stendur utan stríðsglæpadómstólsins líkt og Bandaríkin og telja bæði ríkin að fyrir vikið hafi dómstóllinn enga lögsögu yfir borgurum þeirra. Ákærendur dómstólsins telja hins vegar að það eigi ekki við þegar um er að ræða afbrot sem framin eru í öðrum löndum, sem eru aðildarríki. Sú túlkun hugnast Bandaríkjamönnum ekki vel og eru því sumir innan stjórnkerfisins alfarið á móti því að dómstólnum yrði beitt gegn Rússum, en aðrir vilja grípa til þeirrar túlkunar að heimilt sé að draga Rússa fyrir dóminn með þeim rökum að þeirra eigin dómskerfi sé óhæft um að taka á mögulegum glæpum þeirra en slíkt eigi augljóslega ekki við um Bandaríkin. Ekki er talið að slíkar túlkanir muni hjálpa til að styrkja Stríðsglæpadómstólinn til lengri tíma og efla trúverðugleika hans.

Stefán Pálsson

365 dagar frá innrás Rússa í Úkraínu

Stöðvum stríðið í Úkraínu!

By Í brennidepli, Viðburður

Mótmælum innrás Rússa í Úkraínu og krefjumst tafarlauss friðar. Mótmæli við rússneska sendiherrabústaðinn, Túngötu 24, kl. 17:30 í dag.

24. febrúar 2023 markar 365 daga frá því að stríðið í Úkraínu hófst. Rússar gegn stríði skipuleggja viðburð til þess að sýna samstöðu með Úkraínumönnum og minnast fórnarlamba stríðsins.

Á meðal ræðumanna verða Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guttormur Þorsteinsson formaður SHA og Lida Volkova, flóttamaður frá Úkraínu. Rússneska ljóðskáldið Natasha S. mun svo flytja ljóð. Fundarstjóri er Andrei Menshenin.
Ef veður leyfir verður svo dreift myndum af fórnarlömbum stríðsins og þátttakendum boðið að hengja þær upp á staðnum.
Að lokum verður brenna þar sem kveikt verður í táknmynd rússnesku innrásarinnar. Þetta vísar í forna slavneska hefð þar sem Rússar og Úkraínumenn brenna líkneski til þess að kveðja veturinn. Að þessu sinni er ekki bara verið að kveðja kuldann fyrir utan rússneska sendiráðið heldur einnig stríð og ofbeldi.

Viðburðurinn á Facebook.

Birtingar­mynd sturlunar

By Í brennidepli

Hlutverk Íslendinga er að bera klæði á vopnin

Fyrir um þremur áratugum komust menn að því, að það væri óskaplega mikilvægt að draga ný landamæri í Suðaustur-Evrópu, á svæði þar sem mörk ríkja höfðu áður verið dregin upp á nýtt, oftar en tölu verður á komið. Þetta var svo mikið sanngirnismál að mati þeirra sem að því stóðu að óteljandi mannslíf voru ásættanlegur fórnarkostnaður til að ná fram því réttlæti. Það voru reyndar líf annarra en þeirra sem stjórnuðu, sem fórnað var. Dæmigerð saga frá þessum árum var um þorp þar sem íbúar af ýmsu tagi höfðu lifað saman í sátt og samlyndi um langt skeið. Ósætti verður í fjarlægum borgum um hvoru megin þorpsins landamæri eigi að liggja og niðurstaðan verður sú, að helmingur íbúanna er drepinn, hinn helmingurinn leggur á flótta og þorpið er spengt í tætlur. Allir aðilar sem einhverju ráða telja þessar stórfelldu mannfórnir nauðsynlegar og að lokum nær réttlæti einhvers fram að ganga um hríð. Núna, aðeins örfáum áratugum síðar leggja menn drög að því að stroka út þessi sömu landamæri, því tíðarandinn segir að þau þvælist bara fyrir.

Í augum flestra á Íslandi hlýtur þessi leikur að vera birtingarmynd sturlunar og nú brýst brjálsemin aftur út, dálítið austar að þessu sinni. Kjötkvarnirnar eru ræstar og þeir sem ráða telja ekki eftir sér að fórna nokkur hundruð þúsund manns til að ná fram markmiðum sínum. Fjöldi ríkja dælir olíu á eldinn eins og enginn sé morgundagurinn. Allt bendir til þess að þjóðirnar sem eigast við standi að baki stríðsherrunum, þó svo þeir afnemi fjöldamörg mannréttindi, lýðræði og annað sem þeim þykir standa í vegi skriðdrekanna. Þannig hefur þetta reyndar verið oft áður. Fjöldi manna mætir víða að til þess að fá svalað frumstæðum hvötum sínum á vígvelli, en að því marki sem það dugar ekki til, þvinga stjórnvöld saklausa borgara í veg fyrir byssukjaftana með furðu almennri velþóknun og aðdáun áhorfenda í nágrannalöndum og víðar. Eftir nokkur ár eða áratugi mun enginn skilja hvert tilefnið var.

Að þessu sinni taka flest ríki Evrópu þátt og Evrópusambandið að auki, enda er annar stríðsaðilinn á hraðri leið þar inn. Það er sérlega eftirtektarvert, vegna þess að aðeins örfá ár eru síðan ákafamenn um að Íslendingar yrðu þegnar í Evrópusambandinu sóru við æru sína og ömmu, að það samband væri allt annað en hernaðarbandalag.

Hlutur Íslendinga í þessu æði ætti umfram allt að vera að bera klæði á vopnin, eftir því sem tök eru á og alls ekki að kynda undir bálinu. Það verður stöðugt skýrara að engin leið er út úr þessu öngstræti nema með vopnahléi og samningum, en nú virðist allt stefna í mögnun átakanna með áframhaldandi eyðileggingu og mannfalli. Allt þetta minnir okkur svo á mikilvægi þess að láta ekki samfélög, þar sem villimennska ræður ríkjum, ná völdum á Íslandi.

Haraldur Ólafsson