Category

Fréttir

Landsfundi frestað, hætt við marsmálsverð

By Fréttir, Tilkynningar

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fundaði í gær. Í ljósi yfirstandandi faraldurs var ákveðið að fjáröflunarmálsverður Friðarhúss í mars falli niður. Jafnframt var ákveðið að fresta landsfundi SHA, sem til stóð að halda í lok þessa mánaðar um óákveðinn tíma. Aðalfundur Friðarhúss SHA ehf. sem fyrirhugaður er 21. mars n.k. mun þó fara fram eins og staðan er núna.

Friðarganga á Þorlákmessu

Ávarp Drífu Snædal á Þorláksmessu

By Fréttir
Drífa Snædal

Kæru friðarsinnar,

Friður og lýðræði eru í mínum huga nánar systur og verða ekki aðskildar svo vel sé. Og það er áhyggjuefni að lýðræði á undir högg að sækja víða í heiminum og jafnvel hér innanlands. Þegar einn valdamesti maður heims reynir að hlutast til um kosningar, þegar minnihlutahópar eru fangelsaðir og þaggaðir, þegar skipan dómara er pólitísk og þegar fjölmiðlar eru múlbundnir er hætta á ferð. Þá er ekki einungis verið að vega að trausti og undirstöðum lýðræðisins heldur svipta fólk möguleika á áhrifum og réttum upplýsingum til að taka ákvarðanir. Því það er ekkert sem skapar ófrið eins og þegar misfarið er með völd. Það er því hið eilífa verkefni í stóru og smáu að gæta þess að allir hafi rödd og þegar orðin og aflið nær ekki í gegn þá þarf að ljá þeim veikradda rödd.

Þetta er jafn satt inni á heimilum eins og í stærsta samhenginu. Ég hef notið þeirra forréttinda að ferðast til Palestínu í tvígang og hitta þar fólk sem berst fyrir frelsi og gegn kúgun. Að vera í návígi við kerfisbundna niðurlægingu heillar þjóðar þar sem markvisst er dregið úr möguleikum til sjálfsbjargar á hverjum degi setur valdníðslu í alveg nýtt samhengi. Fólk er svipt heimilum sínum, gert erfitt fyrir að vinna og sjá fyrir sér og örlög heillar þjóðar er ekki í höndum hennar sjálfrar heldur herveldis með stuðningi stóra bróður í vestri. Það sem heillaði mig mest er staðfesta allra sem ég hitti í Palestínu að leita friðsamlegra lausna og há friðsamlega frelsisbaráttu. Því þó reynt sé að draga upp mynd af hryðjuverkamönnum í hverju horni í Palestínu þá er sannleikurinn sá að gríðarleg orka fer í að kenna börnum um frið og reyna að koma í veg fyrir að þó þú upplifir niðurlægingu og kúgun kynslóð fram af kynslóð þá felst lausnin ekki í vopnaðri baráttu. Og það þarf stöðuga baráttu fyrir friði því það er ekki sjálfgefið að fólk velji leið friðarins undir kúgun. Það sem styrkir friðsamlega baráttu Palestínuþjóðarinnar er vitneskjan um hauka í horni í alþjóðasamfélaginu. Að vita að þú stendur ekki ein, hvort sem er manneskjan eða heil þjóð. Að fleiri sjá okið og kúgunina og eru til í að berjast með þér. Það er því lóð á vogarskálar friðar að beita sér gegn kúgun og misrétti hvort sem er heima eða heiman.

Og það er verk að vinna hér í okkar samfélagi. Mótmæli víða um lönd færa okkur heim sanninn um að aukið misrétti ógnar friði og það er í raun stórhættulegt að vinna gegn jöfnuði. Hugmyndin um að við eigum að fagna og samgleðjast þeim ofurríku og passa okkur að vera ekki afbrýðisöm lést í hruninu en sumir hafa ekki frétt af andlátinu. Þegar einn maður græðir á einu ári það sem tekur verkafólk margar starfsævir að vinna sér inn er bara réttlátt og sanngjarnt að vera reið, efast um dómgreind ráðamanna og krefjast aukins jöfnuðar. Því ef þeirri sanngjörnu kröfu er ekki mætt er ekki aðeins heill einstaklinganna í hættu heldur samfélagsins alls. Það býr til vantraust og þá vissu að þú búir við ranglæti og óöryggi. Við þurfum að breyta en við skulum líka vera viss um hvernig við ætlum að breyta og hvað þarf að taka við. Ef við stefnum ekki í sömu átt jöfnuðar og lýðræðis er hætt við að öfl sem nærast á óvissu og reiði nái undirtökunum. Öfl sem við sjáum víða um veröld og eru tilbúin til að ala á útlendingaandúð og kvenfyrirlitningu. Öfl sem gæta aðeins að frelsi fárra en ekki fjöldans sem búa til óöryggi.

Að búa ekki við öryggi er að búa við ófrið og það getur verið jafn skelfileg staða fyrir fólk að búa við stríðsástand eins og að þurfa að óttast öryggi af hálfu heimilismanna. Það er eitt af því sem baráttan fyrir kvenfrelsi hefur kennt okkur; að öryggi snýst ekki bara um heimspólitíkina heldur ekki síst um öryggi í nærumhverfinu, á heimilinu og á vinnumarkaðnum. Og það eru svipaðir kraftar á ferð sem skapa ófrið landa á milli og einstaklinga á milli. Að styrkja eigin stöðu, að búa til óöryggi og óvissu og taka til sín völd í kaótísku ástandi. Það er gömul aðferð og ný þegar styrkja á eigin völd að etja saman ólíkum hópum og jafnvel þjóðum. Þess vegna verður mælikvarðinn á að við séum á réttri leið í átt að jöfnuði og friði alltaf hvort hagsmuna allra sé gætt. Hvort lýðræðið sé eflt í leiðinni og hvort lífsgæði fjöldans sé tekin fram yfir hagsmuni fárra. Sem betur fer eru svo miklu fleiri sem hugsa þannig en ekki og um leið og válynd veður eru í lofti fara hreyfingar sem vilja frið og sanngirni vaxandi líka. Virðing fyrir umhverfi okkar og vissa um að jöfnuður sé eina leiðin fram á við verður sterkara stef með hverjum deginum og það er fullt tilefni til bjartsýni ef við vitum hvað ber að varast.

Kæru friðarsinnar,

Takk fyrir að sýna mér þann heiður að fá að ávarpa ykkur, ég óska ykkur gleðilegrar hátíðar og friðar og vona að nýtt ár beri í skauti sér jafnrétti og jöfnuð, lýðræði og frið fyrir okkur öll.

Gleðilega hátíð!

Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Fréttir
Friðarganga á Þorlákmessu

Friðargöngur verða að venju haldnar á Þorláksmessu á þremur stöðum á landinu. Athugið að tímasetningar þeirra eru ekki allar þær sömu.

Í Reykjavík stendur Samstarfshópur friðarhreyfinga fyrir göngu niður
Laugaveginn, en sú hefð hefur staðið óslitið frá árinu 1980. Líkt og í
fyrra verður að þessu sinni ekki safnast saman á Hlemmi, heldur á
Laugavegi neðan Snorrabrautar. Er það hugsað til að auka öryggi
þátttakenda og losna við truflun vegna umferðar.

Notast verður við bæði vaxkyndla og fjölnota friðarljós. Þau verða
seld í upphafi göngu og kosta 500 kr.

Safnast verður saman kl. 17:45 og gengið af stað á slaginu 18:00.
Hamrahlíðarkórinn og kór Menntaskólans við Hamrahlíð ganga fremst og
syngja viðeigandi lög. Í göngulok verður stuttur fundur á Austurvelli
þar sem Drífa Snædal forseti ASÍ flytur ávarp og Eyrún Ósk Jónsdóttir
skáld les friðarljóð. Fundarstjóri verður Daníel E. Arnarsson
framkvæmdastjóri Samtakanna 78.

Á Ísafirði hefst aðgerðin einnig kl. 18 og er gengið frá
Ísafjarðarkirkju. Eiríkur Örn Norðdahl flytur ávarp og Iwona Samson
les ljóð.

Friðargangan á Akureyri verður að venju á Þorláksmessu kl. 20 á vegum
Friðarframtaks. Gengið verður frá Samkomuhúsinu niður á Ráðhústorgi.
Hlynur Hallsson myndlistarmaður flytur ávarp og Félagar úr Hymnódíu
syngja.

Góður gestur á landsfundi SHA

By Fréttir

Dr. Edward Horgan er gestur landsfundar SHA á laugardag. Hann er lykilmaður í PANA, írsku friðarsamtökunum, sem m.a. hafa beitt sér gegn notkun Bandaríkjahers áShannon-flugvelli í Dublin og hefur verið kærður fyrir borgaralega óhlýðni vegna þessa (og raunar líka fyrir að reyna að handtaka George W. Bush fyrir stríðsglæpi).

Ferilskrá hans er stórmerkileg, því hann þjónaði lengi í írska hernum og var friðargæsluliði um víða veröld áður en hann sneri sér að friðarbaráttunni. Varði svo doktorsritgerð um umbætur á Sameinuðu
þjóðunum fyrir um áratug. Mætið til að hlusta á hann í Friðarhúsi kl. 14 á laugardaginn.

Hvalamorðingjar háloftanna?

By Fréttir

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum þeim sem fylgdust með fréttum að óvenjumiklar fregnir voru af hvalrekum við Íslandsstrendur á liðnu ári. Reglubundin skráning á hvalrekum hófst á Íslandi um aldamótin og gengu mun fleiri dýr á land í fyrra en nokkurt hinna mælingaráranna.

Þótt afar sé að sýna fram á óyggjandi orsakasamband, hallast náttúruvísindamenn að því að hernaðaræfingum sé um að kenna. Einkum þegar djúpsprengjum sé beitt, sem skemmt geta heyrn dýranna sem treysta alfarið á hana til þess að rata. Þá er kafbátaleit Nató-véla nefnd sem líkleg skýring, sem og umferð kafbáta. Hvort tveggja getur valdið því að hvalir í djúpköfun syndi of hratt upp á yfirborðið og kunni þar með að fá kafaraveiki, sem reynst getur dýrunum lífshættuleg.

Fyllsta ástæða er til að kalla eftir því að samspil þessara þátta: hernaðar og hvaladráps verði kannað nánar. Ábendingar vísindamanna eru í það minnsta góð áminning um að stríðsleikir geta verið dauðans alvara.

Friðarvefurinn rankar úr rotinu

By Fréttir

Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.

Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.

Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is