Category

Fréttir

Radarstöðin á Sornfelli

Samstöðumótmæli með Færeyingum

By Fréttir, Viðburður
Færeyskir hernaðarandstæðingar efna til mótmæla í Þórshöfn vegna áforma um að reisa á ný ratsjárstöð sem hluta af vígbúnaðarkerfi Nató og Bandaríkjahers. Saga hersetunnar í Færeyjum er ljót og einkennist af lygum Nató og danskra yfirvalda.
Hernaðarandstæðingar koma saman við sendiskrifstofu Færeyja, Túngötu 14 Reykjavík á miðvikudaginn 21. júlí kl. 20:00 til að styðja baráttu frændsystkina okkar og mótmæla hervæðingu í Norður-Atlantshafi. Hún birtist t.d. í herskipakomu í Reykjavíkurhöfn þessa dagana.
Sýnum samstöðu!
Ráðherrafundur Rússlands og Bandaríkjanna

Kjarnorkuveldunum mótmælt

By Fréttir, Viðburður

Stöðvum vígvæðingu norðurslóða

Í kvöld, 19. maí, munu utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands setjast niður til fundar í Hörpu. Þar mætast fulltrúar þeirra ríkja sem hafa yfir flestum kjarnorkuvopnum að búa og sem setja náttúru og líf íbúa norðurslóða í stöðuga hættu með kjarnorkuvopnabúrum sínum. Samtök hernaðarandstæðinga efna til stuttrar mótmælastöðu gegnt Hörpu klukkan 20:00, við gafl Seðlabankans, þar sem minnt verður á kröfuna um veröld án kjarnorkuvopna og að allri hernaðaruppbyggingu á norðurslóðum verði hætt.

Stutt ávörp flytja Drífa Snædal forseti ASÍ og Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.

Landsfundur SHA 29. maí

By Fréttir, Viðburður

Vegna samkomutakmarkanna neyddumst við til þess að fresta landsfundi SHA sem átti að fara fram þann 27. mars síðastliðinn. Nú hefur verið slakað nægjanlega á þeim til þess að við treystum okkur til að boða til fundar laugardaginn 29. maí.

Byrjað verður á almennum fundarstörfum opnum meðlimum SHA en eftir hádegishlé er dagskrá opin öllum sem hafa áhuga svo lengi sem sóttvarnarráðstafanir leyfa.

Dagskrá fundar:

11:00 Fundur verður settur í Friðarhúsi, almenn fundarstörf.

12:30 Hádegishlé.

13:00 Jakob Beat Altman, þýskur háskólanemi, fjallar um stöðu mála í Vestur-Sahara.

13:45 Högni Höydal, formaður Þjóðveldisins segir frá því sem er að gerast í hernaðarmálum í Færeyjum.

Sjáumst sem flest.

Landsfundur 2021 *Frestað*

By Fréttir, Viðburður
Landsfundur SHA verður í Friðarhúsi laugardaginn 27. mars n.k. Dagskrá er eftirfarandi:
Kl. 11:00 Byrjað á venjulegum aðalfundarstörfum.
Kl. 13:00 Mun Jakob Beat Altman, þýskur háskólanemi, fjalla um stöðu mála í Vestur-Sahara.
Kl. 13:45 Segir Högni Hoydal frá því sem er að gerast í hernaðarmálum í Færeyjum.
Þau sem kynnu að hafa áhuga á að starfa í eða með nýrri miðnefnd eru hvött til að senda skilaboð á sha@fridur.is

Andstaða við kjarnorkuvopn þvert á flokkslínur – áhugaverð tölfræði úr skoðanakönnun

By Fréttir, Í brennidepli

Í tilefni af því að Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum hefur tekið gildi, kynntu alþjóðlegu afvopnunarsamtökin ICAN og samstarfsaðilar þeirra niðurstöður könnunar sem fram fór í sex Nató-löndum seint á síðasta ári. Aðalniðurstöður könnunarinnar voru þær að 86% aðspurðra Íslendinga sögðust styðja að Ísland gerðist aðili að sáttmálanum en einungis 3% voru því andvíg. Rétt um 10% sögðust ekki vera viss.

Þetta eru merkilegar niðurstöður og senda skýr skilaboð til stjórnvalda. Margt fleira er þó áhugavert þegar rýnt er í tölurnar.

Niðurstöðurnar byggja á svörum 751 manneskju. Konur reyndust ívið hlynntari sáttmálanum en karlar, þannig sögðust 5% karla andsnúnir því að Ísland undirritaði hann en einungis 1% kvenna. Lítill merkjanlegur munur reyndist milli einstakra landsvæða og sama gilti um aldurshópa, þó yngstu og elstu hóparnir hafi verið örlítið jákvæðari en fólk á miðjum aldri sem var líklegra til að segjast ekki vita svarið.

Forvitnilegast er þó að rýna í svörin með tilliti til stuðnings við stjórnmálaflokka. Rétt er þó að taka fram að þegar kemur að einstökum flokkum getur verið um svo fáa einstaklinga að skekkjumörk verða talsverð.

Meðal stuðningsfólks Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar, Framsóknarflokks, Sósíalistaflokksins og Miðflokksins var stuðningurinn á bilinu 84-95%. Meðal Sjálfstæðismanna vildu 75% staðfesta sáttmálann og einungis 6% voru því mótfallin. Flokkur fólksins skar sig nokkuð úr með 70% stuðning og 30% sem sögðust óviss, en hafa ber í huga að alltof fáir eru á bak við þá tölu til að unnt sé að draga miklar ályktanir. Ef horft er til þess hversu margir svöruðu spurningunni neitandi var hlutfallið á bilinu 0-8% hjá öllum nema Miðflokki þar sem 13% svöruðu á þá leið.

Fíllinn í stofunni…

Í ljósi þess að nær allir sitjandi þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Flokks fólksins hafa lýst sig fylgjandi sáttmálanum um bann við kjarnorkuvopnum ætti einarður stuðningur mögulegra kjósenda þessara flokka, sem og Sósíalistaflokksins ekki að koma á óvart. Tíðindin eru hins vegar hversu mikill stuðningurinn er hjá stuðningsfólki Viðreisnar, Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins, sem og hjá Framsókn sem hefur ekki verið afdráttarlaust í afstöðu sinni til málsins.

Nú kynni einhver að velta því fyrir sér hvort hinn mikli stuðningur kynni að skýrast af því að almenningur viti lítið um Sáttmálann um bann við kjarnorkuvopnum og geri sér ekki grein fyrir að samþykkt hans kynni að hafa afleiðingar. Til að bregðast við slíkum vangaveltum var því bætt við framhaldsspurningu, þar sem spurt var hvort fólk vildi að Ísland yrði í hópi fyrstu aðildarríkja Nató til að undirrita sáttmálann, jafnvel þótt að slíkt kynni að verða til þess að Bandaríkjastjórn beitti landið þrýstingi?

Þessi viðbótarspurning skilaði nálega sömu niðurstöðum hjá stuðningsfólki Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Sósíalistaflokksins þar sem á bilinu 84-94% svöruðu játandi. Óákveðnum fjölgaði nokkuð í hópi stuðningsmanna Viðreisnar en engu að síður svaraði 81% játandi þrátt fyrir að Bandaríkjastjórn kynni að styggjast.

Stuðningur Framsóknarmanna fór niður í 74% og hjá Miðflokki og Flokki fólksins var talan um 60%. Minnstur var stuðningurinn hjá stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins, en þó svöruðu 57% játandi. Greinilegt er að mikill meirihluti íslenskra kjósenda telur algjörlega óþarft að fylgja öðrum Nató-ríkjum sérstaklega í þessu málefni og þeir kæra sig kollótta þótt stjórnin í Washington styggist.

Flest þeirra sem kusu að breyta svari sínu milli spurninganna tveggja breyttu því úr „já“ yfir í „veit ekki“. Þó svöruðu 20% stuðningsmanna Miðflokksins seinni spurningunni neitandi og 15% Sjálfstæðismanna. Hjá öðrum var sú tala á bilinu 0-8%.

Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem hljóta að verða stjórnmálaflokkunum efni til umhugsunar ekki hvað síst þar sem kosningar nálgast.

Sameiginleg áskorun til íslenskra stjórnvalda að fullgilda samning SÞ um bann við kjarnorkuvopnum

By Ályktun, Fréttir

Eftirtalin félög skora á íslensk stjórnvöld að fullgilda Samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum en samningurinn var samþykktur af 122 ríkjum á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í New York þann 7. júlí 2017. Hinn 24. október sl. höfðu 50 ríki fullgilt samninginn og mun hann því taka gildi í dag, þann 22. janúar 2021.

Samningurinn festir í sessi afdráttarlaust bann við notkun kjarnorkuvopna á grundvelli alþjóðlegra mannúðarlaga sem tryggja skal eyðingu og afnám slíkra vopna, sem og bann við framleiðslu, flutningi, þróun, prófun, geymslu eða hótunum um notkun þeirra. Samningurinn undirstrikar þá alvarlegu hættu sem stafar af áframhaldandi tilvist kjarnorkuvopna og þeim óafturkræfu og gereyðandi afleiðingum sem slík vopn valda. Samningurinn skuldbindur ríki einnig til að koma þolendum kjarnorkuvopnanotkunar og tilrauna til aðstoðar ásamt því að koma á endurbótum vegna mengaðs umhverfis af völdum þeirra.

Nýleg könnun á vegum International Campaign to Abolish Nuclear Weapons (ICAN) á Íslandi leiddi í ljós að 86% þeirra sem spurðir voru eru hlynntir gildistöku samningsins á Íslandi. Þá eru jafnframt 75% hlynntir því að Ísland verði fyrst NATO ríkja til að skrifa undir og fullgilda samninginn. Sambærilegar kannanir voru gerðar í Belgíu, Danmörku, Hollandi, Ítalíu og á Spáni og leiddu í ljós að nálægt eða yfir 80% eru fylgjandi samningnum og endurspegla þannig yfirgnæfandi stuðning almennings í þessum ríkjum gagnvart samningnum og gildistöku hans.

Kjarnorkuvopn hafa í för með sér óafturkræfan eyðileggingarmátt. Engin læknis- eða mannúðaraðstoð er möguleg strax í kjölfar kjarnorkuárásar. Til frambúðar hefur slík árás skelfilegar afleiðingar fyrir mannfólk, dýraríki, umhverfi og loftslag, svo ekki sé minnst á neikvæð áhrif á landbúnaðarframleiðslu, ásamt skyndilegri hitalækkun og minnkun úrkomu á heimsvísu vegna reyks og rykmyndunar. Bann við kjarnorkuvopnum er því eina tryggingin gegn notkun slíkra vopna og þeim afleiðingum sem notkun þeirra hefur í för með sér.

Við undirrituð hvetjum íslensk stjórnvöld til þess að veita vilja almennings vægi og taka skref í átt að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Aðild Íslands að samningnum er nauðsynleg til að stuðla að vernd almennra borgara, lífríkis og náttúru til framtíðar og styrkja enn fremur stöðu þeirra alþjóðlegu samninga um kjarnorkuvopn sem Ísland á nú þegar aðild að. Með undirritun og fullgildingu samningsins er fyllt upp í mikilvægar eyður sem fyrri samningar hafa ekki kveðið á um.

Nánari upplýsingar um ICAN og skoðanakönnunina má nálgast hér:

https://www.icanw.org/nato_poll_2021

 

Alda félag um sjálfbærni og lýðræði
Alþýðusamband Íslands
Íslandsdeild Amnesty International
Barnaheill
Biskupsstofa
Hjálparstarf kirkjunnar
Húmanistahreyfingin
Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands
Kvenréttindafélag Íslands
Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Landssamtökin Þroskahjálp
Læknafélag Íslands
Mannréttindaskrifstofa Íslands
Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna
Náttúruverndarsamtök Íslands
Rauði krossinn á Íslandi
Samtök hernaðarandstæðinga
Samtökin 78
Siðmennt
Soka Gakkai International á Íslandi
UNICEF á Íslandi
UN Women á Íslandi
Öryrkjabandalag Íslands

Dagfari 2020

By Fréttir

Dagfari er kominn út og má lesa hér fyrir neðan. Hann er að þessu sinni helgaður umhverfismálum.

Please wait while flipbook is loading. For more related info, FAQs and issues please refer to DearFlip WordPress Flipbook Plugin Help documentation.

Kertafleyting

Kertafleyting með óvenjulegu sniði

By Fréttir, Tilkynningar

75 ár eru um þessar mundir frá því að Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasaki. Frá árinu 1985 hafa íslenskir friðarsinnar minnst fórnarlamba þessara árása og um leið minnt á kröfuna um heim á kjarnorkuvopna með kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn.

Kertafleytingin hefur verið fjölsóttur atburður enda málefnið brýnt. Ljóst er að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu er ekki unnt að halda aðgerðina með hefðbundnu sniði, vegna reglna um fjöldatakmarkanir. Þess í stað hefur Samstarfshópur friðarhreyfinga ákveðið að haldin verði táknræn aðgerð þar sem fáeinir friðarsinnar koma saman, sem verði tekin upp og streymt á netinu að kvöldi 6. ágúst. Upptakan mun hins vegar fara fram klukkan ellefu að kvöldi hins 5. ágúst, um sama leyti og Hírósímasprengjan sprakk fyrir 75 árum.

Kjarnorkuvopn eru síst minni ógn í dag en á tímum Kalda stríðsins og eru nýlegar fréttir af áformum stórvelda, jafnt Nató-ríkja og Rússlands, um þróun nýrra og öflugri vopna til marks um það. Samstarfshópur friðarhreyfinga hvetur íslensk stjórnvöld til að snúast á sveif með þeim ríkjum sem undirritað hafa sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Friðarsinnar munu á ný koma saman við Reykjavíkurtjörn að ári.

Aldrei aftur Hírósíma – aldrei aftur Nagasaki!

Bandarískt leyniskjal afhjúpað

Bandarískt leyniskjal afhjúpað

By Fréttir

Bandarísk stjórnvöld hafa aflétt leynd af ýmsum skjölum sem varpa ljósi á Kalda stríðið. Þar á meðal er minnisblað sem tekið var saman fyrir þjóðaröryggisráðgjafa forsetans í kjölfar hinnar misheppnuðu Svínaflóainnrásar, þar sem listað var upp til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa áður en kjarnorkuvopnum sem staðsett kynnu að vera á herstöðvum í einstökum bandalagsríkjum BNA væri beitt.

Í ljós kemur að ráðstafanirnar voru afar mismunandi og ætti raunar ekki að koma á óvart. Þannig kemur fram að engar sérstakar ráðstafanir þurfi að gera vegna herstöðva í Þýskalandi, Kóreu, Filippseyjum, Marokkó eða Vestur-Indíum. Sama gilti um beitingu kjarnorkuvopna frá herstöðinni í Okinawa í Japan, en vegna annarra stöðva þar í landi yrði að hafa samráð við japönsk stjórnvöld.

Stöðvar á Spáni teldust Bandaríkjamönnum til frjálra afnota ef þeir ákvæðu einhliða að slíkar aðgerðir væru til þess fallnar að vinna gegn kommúnískri ásælni. Í Tyrklandi væru aðgerðir heimilaðar ef Nató teldist ógnað. Í Danmörku, Grikklandi, Portúgal, Hollandi og Ítalíu teldist nóg að um Nató-aðgerð væri að ræða.

Gert var ráð fyrir að forsætisráðherra Bretlands fengi beint símtal frá Bandaríkjaforseta áður en til beitingar vopna kæmi og eins voru ákveðnar leiðir til að upplýsa Kanadabúa ef til kæmi. Varðandi Frakkland væri þörf á samráði sem færi þó eftir eðli aðgerðanna.

Viðbúið er Íslendinga fýsi helst að vita hvað segir í 8. lið skjalsins þar sem talað er um Lýðveldið Kína (Tævan), Ísland og Noreg. Þar stendur: „No special requirements appear with respect to the use of nuclear weapons from bases in these countries, but host government consent is required before the bases may be used.“

Minnisblaðið má finna hér.