Category

Fréttir

Friðargangan 2022

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Fréttir, Viðburður

Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga ófriðarskýja um víða veröld. Blóðugar styrjaldir eiga sér stað með skelfilegum hörmungum fyrir almenning. Vígvæðing hefur sjaldan verið meiri og lítið ber á röddum þeirra sem hafna hernaðarbandalögum og ofbeldi í samskiptum manna og þjóða. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.

Í Reykjavík verður safnast saman fyrir ofan Hlemm og á slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Ingunn Ásdísardóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Haukur Guðmundsson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.

Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur flytur ávarp og Svavar Knútur tekur lagið.

Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi

Herstöðvaandstaða í fjölmiðlum

By Fréttir, Í brennidepli

Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hernaðaruppbygginguna á Keflavíkurflugvelli í vikunni í kjölfar umfjöllunar RÚV og skýrslu utanríkisráðuneytisins um áherslur í „varnarmálum“ sem kom út rétt fyrir kosningar.

Samstöðin fékk Guttorm Þorsteinsson formann og Soffíu Sigurðardóttur ritara í langt spjall um friðarmál og hernaðaruppbyggingu við Rauða borðið í ljósi þessara frétta sem má sjá hér.

RÚV leitaði einnig álits hjá Guttormi um framkvæmdirnar fyrir hádegisfréttir og í Morgunútvarpi Rásar 2.

Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni var sömuleiðis rætt við Guttorm og Andrés Inga Jónsson fráfarandi þingmann Pírata um uppbygginguna og hvað það þýðir að vera friðarsinni á tímum aukinnar spennu í Evrópu.

Það hefur einnig verið nokkur umfjöllun um sögu herstöðvarbaráttunar sem fær bara aukið vægi við þessar vendingar. Egill Helgason tók viðtal við Árna Hjartarson ritstjóra Gengið til friðar í Kiljunni sem má sjá hér.

Stefán Pálsson miðnefndarmaður og einn höfunda bókarinnar ræddi hana svo í Morgunvaktinni á Rás tvö og byrjar viðtalið á 1:09:30 í þessari upptöku á netinu.

Bókarkápa Gengið til friðar, sögu herstöðvarbaráttunnar

Útgáfuhóf

By Fréttir, Viðburður

Hóf Skruddu vegna útgáfu sögu herstöðvarbaráttunnar: “Gengið til friðar” verður haldið í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð 39 fimmtudaginn 14. nóv kl. 16:00. Þar verða léttar veitingar í boði og stuttur upplestur.
Við munum svo auglýsa útgáfuhóf í Friðarhúsi sem verður haldið síðar í mánuðinum.

Kjúklingabauna tagine

Fyrsti fjáröflunar­málsverður haustsins

By Fréttir, Viðburður
Septembermálsverður SHA verður í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, föstudaginn 27. Þóra Kristín Þórsdóttir og Kolbeinn H. Stefánsson stýra pottum og pönnum.
Matseðill – marokkóskt þema:
  • Lambagúllas
  • Kjúklingabaunatagine
  • Brauð og kúskús
  • Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu mun Bony Man taka lagið og Hildur Hákonardóttir myndlistarkona mun segja frá pólitískri list sinni, en hún vann á sínum tíma fjölda áhugaverðra verka tengd friðar- og jafnréttisbaráttunni.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

Gengið til friðar

By Fréttir, Tilkynningar

Saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006

 

Nú er hægt að forpanta bókina “Gengið til friðar, saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006” á sérstöku tilboðsverði, 9.990 kr. Þar er rakin saga herstöðvabaráttunnar um sex áratuga skeið.
Í þessari efnismiklu og ríkulega myndskreyttu bók fjallar hópur höfunda um málið frá mörgum hliðum, þar sem einnig er fjallað um birtingarmyndir herstöðvabaráttunnar í bókmenntum, tónlist, myndlist og kvikmyndum svo dæmi séu tekin. Árni Hjartarson er ritstjóri verksins.
1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Fréttir
Hitið upp fyrir kröfugönguna með hinu hefðbundna og einkar veglega 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, frá kl. 11 til 13. Gangan leggur svo af stað af Skólavörðuholti.
Í boði verða vöfflur eins og þið getið í ykkur látið og annað heimagert góðgæti. Aðgangseyrir einungis 500 krónur.

Landsfundur SHA

By Fréttir, Viðburður

Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 6. apríl.

Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum. Léttur hádegisverður í boði.

Kl. 13 mun Stefán Jón Hafsteinn halda fyrirlestur byggðan á bók sinni “Heimurinn eins og hann er” sem kom út fyrir nokkrum misserum. Stefán hefur mikla reynslu af þróunarstörfum, einkum í Afríku og hefur verk han mikið gildi fyrir friðarsinna og áhugafólk um alþjóðamál.

Að erindi loknu halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.

Friðargangan 2022

Friðarganga á Þorláksmessu

By Fréttir

Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á nýopnaða göngusvæðinu á Laugavegi, fyrir neðan Hlemm. Gangan leggur svo af stað niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.

Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Sveinn Rúnar Hauksson læknir flytur ávarp. Hann hefur um árabil verið iðinn við að halda á lofti málefnum Palestínu, en var einnig meðal skipuleggjenda fyrstu friðargöngunnar fyrir 42 árum síðan.

Fundarstjóri er Harpa Kristbergsdóttir og Anton Helgi Jónsson flytur friðarljóð. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.

Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gengið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.

Á Akureyri verður friðarganga á sama tíma og á Ísafirði vinna friðarsinnar einnig að skipulagningu göngu.

Ný miðnefnd tekur til starfa

By Fréttir, Tilkynningar
Það var vel mætt á landsfund og málsverð og við þökkum öllum sem lögðu hönd á plóg. Magnús Þorkell Bernharðsson var með mjög fróðlegt erindi um arfleið Íraksstríðsins, bæði fyrir Írak og stöðu Bandaríkjanna í heiminum.
Guttormur Þorsteinsson var endurkjörinn formaður og í miðnefnd voru kosin: Friðrik Atlason, Karl Héðinn Kristjánsson, Lowana Veal, Sigurður Flosason, Soffía Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Tjörvi Schiöth og Þorvaldur Þorvaldsson sem aðalmenn og Hallberg Brynjar Guðmundsson, Harpa Kristbergsdóttir og Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir til vara.
Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag

Stríðsglæpirnir og dómstóllinn

By Fréttir, Í brennidepli

Í tengslum við yfirstandandi stríð í Úkraínu hefur mörgum orðið tíðrætt um mikilvægi þess að þegar átökum ljúki verði þeim sem framið hafa stríðsglæpi refsað fyrir ódæði sín. Rökréttasti vettvangurinn fyrir slík réttarhöld ætti undir eðlilegum kringumstæðum að vera Stríðsglæpadómstóllinn í Haag. Þar eru þó ýmis ljón í veginum.

Hugmyndin um alþjóðlegan dómstól sem nýta mætti til að refsa þeim verða brotlegir við alþjóðalög í hernaði kom fram þegar við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og skömmu áður en sú síðari braust út var búið að leggja grundvöll að slíkum dómstól á vegum Þjóðabandalagsins sem kom þó aldrei til framkvæmda. Forystumenn hinna sigruðu ríkja, Þýskalands og Japans, voru dregnir fyrir dómstóla að stríði loknu og var gert ráð fyrir að þau réttarhöld myndu leggja grunninn að starfsemi fasts dómstóls. Kalda stríðið sló þó allar slíkar hugmyndir út af borðinu um áratuga skeið.

Á tíunda áratugnum stóð öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir því að settar væru á laggirnar tvær tímabundnar stofnanir með afmörkuð verkefni, annars vegar í tengslum við glæpi í borgarastyrjöldinni í ríkjum fyrrum Júgóslavíu en hins vegar vegna fjöldamorða í Rwanda árið 1994. Málareksturinn þar ýtti á eftir hugmyndum um að koma fastri stofnun á legg.

Árið 1998 var samþykktur á ráðstefnu Sameinuðu þjóðann í Rómarborg sáttmáli um stofnun stríðsglæpadómstóls. Kína og Bandaríkin voru í fámennum hópi landa sem greiddi atkvæði gegn sáttmálanum, auk Ísraels sem vildi ekki sætta sig við að það teldist stríðsglæpur að koma landnemum fyrir á hernumdum svæðum. Tveimur árum eftir samþykkt Rómarsáttmálans ákvað Bill Clinton að undirrita hann með semingi. Kallaði samninginn gallaðan og ákvað að lokum að leggja hann ekki fyrir þingið til staðfestingar. Þrátt fyrir tregðu stórvelda tók sáttmálinn gildi árið 2002 og telst það stofnár Stríðsglæpadómstólsins.

Fyrsta málið sem kom til kasta dómstólsins var á árinu 2006 og tengdist stríðsherra í Kongó. Upp frá því hafa nær öll mál sem ratað hafa til Haag tengst styrjöldum og borgarastríðum í Afríku. Nokkrir fyrrum þjóðarleiðtogar hafa verið kærðir, svo sem Omar al-Bashir frá Súdan, Uhuru Kenyatta frá Kenía, Laurent Gbagbo frá Fílabeinsströndinni og Gaddafi frá Líbíu, svo nokkrir séu nefndir. Þessi einsleitni í hópi sakborninga hefur vakið gagnrýni. Í Afríku finnst mörgum skjóta skökku við engir aðrir séu bendlaðir við stríðsglæpi og grimmdarverk. Líta sumir því á dómstólinn sem hálfgerða framlengingu á nýlendustefnunni. Í kjölfarið hafa nokkur Afríkulönd dregið sig út úr sáttmálanum.

Þessi gagnrýni er ekki úr lausu lofti gripin, enda fátt sem bendir til að vestrænir leiðtogar sjái fyrir sér að dómstóllinn gæti haft lögsögu yfir þeirra borgurum. Árið 2002 sló í brýnu milli dómstólsins og bandarískra stjórnvalda. Ríkisstjórn George W. Bush dró úr þeirri litlu formlegu viðurkenningu sem Bandaríkin höfðu þó veitt starfsemi dómstólsins. Þar á meðal voru lög um vernd opinberra bandarískra borgara, sem almennt voru kölluð „The Hague Invasion Act, þar sem þau beindust með beinum hætti gegn Stríðsglæpadómstólnum og gerðu það alveg skýrt að kærur gegn bandarískum borgurum yrðu ekki liðnar.

Síðustu tuttugu árin hafa samskipti Bandaríkjastjórnar og dómstólsins sveiflast upp og niður eftir ráðamönnum. Trump-stjórnin sýndi dómstólnum fulla andúð á meðan Obama- og Biden-stjórnirnar hafa verið jákvæðari í hans garð. Í desember síðastliðnum urðu þau tíðindi að Bandaríkjaþing nam úr gildi löggjöf sem bannaði stjórnvöldum að deila upplýsingum með stríðsglæpadómstólnum og var markmiðið með þeirri lagabreytingu að leggja drög að mögulegum dómsmálum vegna stríðsins í Úkraínu.

Nýverið hafa hins vegar borist fregnir af því að þrátt fyrir ákvörðun þingsins og fyrri yfirlýsingar Bidens forseta um mikilvægi stríðsglæparéttarhalda, standi stjórnendur Pentagon í vegi fyrir því Bandaríkin starfi með dómstólnum (sbr. frétt í New York Times 8.mars sl.) Ástæða þessa er einföld: bandaríska varnarmálaráðuneytið óttast að öll slík samvinna kunni að auka líkurnar á að Bandaríkjamenn kunni sjálfir að verða dregnir fyrir dómstólinn í framtíðinni.

Rússland stendur utan stríðsglæpadómstólsins líkt og Bandaríkin og telja bæði ríkin að fyrir vikið hafi dómstóllinn enga lögsögu yfir borgurum þeirra. Ákærendur dómstólsins telja hins vegar að það eigi ekki við þegar um er að ræða afbrot sem framin eru í öðrum löndum, sem eru aðildarríki. Sú túlkun hugnast Bandaríkjamönnum ekki vel og eru því sumir innan stjórnkerfisins alfarið á móti því að dómstólnum yrði beitt gegn Rússum, en aðrir vilja grípa til þeirrar túlkunar að heimilt sé að draga Rússa fyrir dóminn með þeim rökum að þeirra eigin dómskerfi sé óhæft um að taka á mögulegum glæpum þeirra en slíkt eigi augljóslega ekki við um Bandaríkin. Ekki er talið að slíkar túlkanir muni hjálpa til að styrkja Stríðsglæpadómstólinn til lengri tíma og efla trúverðugleika hans.

Stefán Pálsson