Skip to main content
Category

Fréttir

Minningarorð við Anda­pollinn á Reyðarfirði 6. ágúst

By Fréttir, Í brennidepli
Börn fleyta við Andapollinn, Reyðarfirði. Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Í dag 6. ágúst, 80 árum eftir kjarnorkuárásina á Hiroshima og Nagasaki, komum við hér saman við Andapollinn á Reyðarfirði til að fleyta kertum. Kertin sem við setjum á yfirborð vatnsins eru ekki aðeins tákn um þau miklu sár sem urðu eftir árásina, heldur einnig tákn um það sem við ætlum að varðveita – vonina, friðinn og samstöðu sem heimurinn þarf að halda fast í.
Ég hef verið þeirrar gæfu að njótandi að fá að ferðast til Japan og heimsótti m.a. Hiroshima. Þar skoðaði ég friðarsafnið sem sýnir hvaða afleiðingar sprengingin hafði á borgina. Ég man að á safninu ríkti grafar þögn og ég var djúpt snortin vegna þeirra þjáninga og hörmunga sem Japanir þurftu að ganga í gegnum í kjölfar sprengingarinnar. Þetta var sérstök upplifun sem ég mun aldrei gleyma. Fórnarlömbin urðu mörg þar sem margir létust samstundis en aðrir glímdu við afleiðingar alla sína ævi. Eitt þessara fórnarlamba var Sadako Sasaki, en saga hennar er þekkt vegna baráttu ungrar stúlku sem var fórnarlamb kjarnorkuárásarinnar á Hiroshima. Hún sýndi hugrekki sem gerði hana að hetju í Japan.
Sadako Sasaki fæddist 7. janúar 1943 í Hiroshima, rétt tveimur árum áður en Bandaríkin slepptu kjarnorkusprengju á borgina þann 6. ágúst 1945. Þegar sprengjan féll, var hún aðeins 2 ára gömul og var stödd tveimur kílómetrum frá þeim stað þar sem sprengjan sprakk. Flestir nágrannar hennar létust en hún var heppin að lifa af, en eins og margir aðrir var hún ekki laus við langtímaáhrif geislavirkni.
Fram að 7. bekk var Sadako bara venjuleg, lífleg og hamingjusöm stúlka. Hún var í hlaupaliði skólans, var góð í íþróttum og tók virkan þátt í kapphlaupum. Svo var það dag einn þegar hún tók þátt í hlaupi fyrir skólann sinn að svimaköstin byrjuðu, hún upplifði mikla þreytu og endurtekin svimaköst í kjölfarið. Foreldrar hennar fóru með hana á sjúkrahús og niðurstaðan lá fyrir, hún greindist með hvítblæði sem á þeim tíma var kallað sprengjusjúkdómurinn. Þá varð hún að takast á við erfiðasta kapphlaup lífs síns, sem var kapphlaup við tímann.
Á meðan hún var inniliggjandi á sjúkrahúsinu, kom Chizuko vinkona hennar til hennar og minnti hana á japönsku þjóðsöguna um trönuna, heilagan fugl í Japan og þá staðreynd að ef einstaklingur gerði 1000 pappírströnur, þá myndi hann fá ósk sína uppfyllta. Á þeim tíma var Sadako fullviss um að henni myndi batna ef hún næði að búa til 1000 trönur.
Þannig byrjaði Sadako að brjóta saman pappírströnur, eða þar til hún lést aðeins 12 ára gömul. Hún hafði þá brotið saman 644 pappírströnur. Þrátt fyrir að hún hafi ekki náð að ljúka 1000 trönum, þá varð hún tákn fyrir baráttu gegn kjarnorkuvopnum, fyrir réttindum barna og fyrir friði.
Árið 1958, þremur árum eftir andlát hennar, var minnisvarði reistur í Hiroshima til að heiðra minningu hennar og ber minningarreiturinn nafn hennar. Á þessum stað er skúlptúr af henni haldandi á pappírströnu og þar er líka minningarskilti sem segir frá sögu hennar. Þegar börn heimsækja minnisvarðann, leggja þau pappírströnur á minningarreitinn, sem tákn um frið í heiminum.
Saga Sadako hefur haft mikil áhrif á heiminn og hefur verið notuð til að undirstrika hættuna af kjarnorkuvopnum og mikilvægi þess að berjast fyrir friði. Hún er einnig tákn fyrir allar þær fórnir sem barn hefur þurft að þola vegna stríðs og ofbeldis.
En hvað með börnin í dag? Þegar við minnumst Sadako, þá eigum við einnig að horfa á þau börn sem búa við raunverulegar hörmungar í nútímanum, núna árið 2025. Börn sem verða fyrir stríðsátökum, áföllum og ofbeldi á stöðum eins og Gaza, eða öðrum svæðum þar sem árásir og hamfarir eru daglegt brauð svo sem í Sómalíu og í Úkraínu. Börn sem þjást ekki bara á líkamlegan hátt, heldur einnig á andlegan og tilfinningalegan hátt, eins og Sadako, sem vissi hvað það var að berjast fyrir lífi sínu, en líka fyrir draumum um betri heim.
Börn sem búa við þessa hörmungar eins og í Gaza hafa ekki þann möguleika að búa til pappírströnur, eða vonast eftir friði. Þau líða stöðugt fyrir átök sem þau geta ekki stjórnað. Þau eru réttdræp af grimmu fólki þar sem ráðamenn Ísraels hafa gert Gaza að grafreit fyrir börn og þau þeirra sem lifa af eru fórnarlömb hungursneyðar sem er að raungerast þessa dagana. Börn deyja ekki aðeins – því mörg eru með hungur í maganum og gleymast á meðan þau lifa. Börnin eru með sár á líkama og sál og ótta í augunum. Það er óskiljanlegt hvað mannskepnan getur verið grimm.
Í minningu Sadako og allra þeirra sem hafa þjáðst, eru við minnt á ábyrgð okkar – að verja börn og tryggja að þau fái að lifa í friði. Sadako bjó til pappírströnur í þeirri von um að þær myndu fljúga í átt til friðar. Kertin sem við fleytum hér á vatninu á eftir eru líka pappírsfuglar, fljúgandi á vatninu. Þegar kertin fljóta fram hjá okkur á Andapollinum, verður hvert kerti tákn um eitt og eitt barn – ekki aðeins í Hiroshima, heldur í öllum heimshornum þar sem börn dreyma um betri heim. Kertin sem fljóta á Andapollinum eru friðartákn og börnin í Gaza sem búa við ótta, hungur og sprengjuregn eiga líka rétt á kertaljósi. Rétt á friði. Rétt á framtíð.
Ljósið sem við sendum frá okkur í kvöld fer ekki alla leið til Gaza. En kannski nær það hjörtum þeirra sem heyra. Kannski verður það kveikja um von.
Við biðjum ekki um óraunhæfa hluti, aðeins að börn fái að vera börn. Að þau fái að leika, læra, hlæja og lifa. Með hverju ljósi sem fleytir fram sendum við ósk um frið.
Friður byrjar með einu kertaljósi. Látum það lifa áfram í okkur.

-Hildur Magnúsdóttir

ICAN

Yfirlýsing ICAN vegna loftárása Bandaríkjanna á Íran

By Fréttir, Í brennidepli
Samtök hernaðarandstæðinga vekja athygli á yfirlýsingu ICAN, alþjóðlegu friðarsamtakanna fyrir útrýmingu kjarnorkuvopna. ICAN er friðarverðlaunahafi Nóbels frá árinu 2017 fyrir þátt sinn í samþykkt Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Samtök hernaðarandstæðinga eru meðal aðildarsamtaka ICAN. Yfirlýsingin er á þessa leið:
„ICAN fordæmir ólögmætar hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna gegn kjarnorkustöðvum í Íran. Með því að taka þátt í árásum Ísraels eru Bandaríkin að brjóta gegn alþjóðalögum og stefna í voða vinnu alþjóðasamfélagsins við að koma böndum á útbreiðslu kjarnorkuvopna.“
Melissa Parke forystukona ICAN segir ennfremur: „Með því að fylgja Ísraelum í herferð sinni gegn Íran eru Bandaríkin brotleg við alþjóðalög. Árásir eru ekki leiðin til að takast á við áhyggjur af kjarnorkuáætlun Írana. Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa sjálfar nýverið lýst því yfir að Íran sé ekki að vinna að smíði slíkra vopna. Hér er því um að ræða vanhugsaða og ábyrgðarlausa aðgerð sem kann að grafa undan alþjóðlegum aðgerðum sem miða að því að hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna.
Bandaríkin hefðu átt að halda áfram að beita diplómatískum leiðum áður en Ísrael greip til árása. Atburðir þessir munu hvorki auka öryggi á svæðinu né í heiminum öllum. Þvert á móti. Árásir á kjarnorkustöðvar eru sérstaklega bannaðar með alþjóðalögum enda fylgir þeim mikil hætta vegna geislavirkni sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk og náttúru. Hernaðinum verður að linna og samningaleiðin að taka við.“

76 ár frá inngöngu í Nató og ályktun landsfundar

By Ályktun, Fréttir
Í dag, 30. mars, eru 76 ár síðan Alþingi samþykkti Nató-aðild Íslands í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Í tilefni þess birtum við hér ályktun landsfundar Samtaka hernaðarandstæðinga frá því í gær um aukna hervæðingu Evrópu og Íslands:

Ályktun um evrópskt vopnafár og þátt Íslands

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga, haldinn 29. mars 2025, varar eindregið við því vígvæðingarfári sem brotist hefur út meðal evrópskra leiðtoga á liðnum vikum og mánuðum. Síðustu misseri hefur hernaðardýrkun og stríðsæsingastefna verið allsráðandi í evrópskum stjórnmálum þar sem kallað hefur verið verið eftir síauknum vopnakaupum og stækkun herja í álfunni. Samhliða því hafa skynsemisraddir friðarsinna og kröfur um afvopnun verið þaggaðar niður miskunnarlaust.
Upp á síðkastið hafa heitstrengingar ráðamanna keyrt um þverbak með stórkarlalegum yfirlýsingum um margföldun framlaga til hernaðarmála, gríðarlega uppbyggingu vopnaframleiðslu og opinskáum viljayfirlýsingu um stórfellda fjölgun og aukna útbreiðslu kjarnorkuvopna í trássi við gildandi sáttmála og alþjóðalög. Saga Evrópu ætti að kenna hvílíkar hörmungar hljótast af vígbúnaðarkapphlaupi og hótunum í stað friðsamlegrar samvinnu.
Það eru sár vonbrigði að íslensk stjórnvöld skipi sér í sveit þeirra afla sem hvetja áfram þessa öfugþróun í stað þess að reyna að andæfa henni. Yfirlýsingar ráðherra ríkisstjórnarinnar um stóraukin framlög til hermála, ítrekuð loforð um framlög til vopnakaupa, daður við hugmyndir um stofnun íslensks hers og tillögur um að breyta nafni utanríkisráðuneytisins þannig að það vísi einnig til varnarmála eru allt alvarleg hættumerki. Hagsmunum Íslendinga væri miklu betur borgið og öryggi landsmanna betur tryggt með tafarlausri úrsögn úr Nató og uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin. Þess í stað beiti Ísland sér á virkari hátt fyrir friði, afvopnun, alþjóðlegri samvinnu og friðsamlegri lausn deilumála.
Bandaríski kafbáturinn USS Indiana úti fyrir ströndum Íslands í október.

Kjarnorkukafbátar í íslenskri landhelgi

By Fréttir, Í brennidepli
Utanríkisráðuneytið sendi í morgun frá sér fréttatilkynningu um þjónustuheimsókn kjarnorkuknúna árásarkafbátsins USS Delaware út í Eyjafjörð þar sem landhelgisgæslan slær heiðursvörð um þetta stríðstæki. Samkvæmt fréttatilkynningunni er þetta sjötta heimsókn slíks kafbáts síðan að utanríkisráðuneytið heimilaði slíkar heimsóknir í apríl 2023.
Þetta er sagt “liður í varnarskuldbindingum Íslands og mikilvægt framlag til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins” en þjónar augljóslega ekki hagsmunum Íslands þar sem að eltingarleikur kjarnorkukafbáta á íslensku hafsvæði er ógn við bæði öryggi og lífríki landsins. Nýleg valdaskipti vestra hafa einnig varpað ljósi á að allt tal um sameiginlegar varnir Nató er hjákátleg óskhyggja.
Friðargangan 2022

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Fréttir, Viðburður

Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga ófriðarskýja um víða veröld. Blóðugar styrjaldir eiga sér stað með skelfilegum hörmungum fyrir almenning. Vígvæðing hefur sjaldan verið meiri og lítið ber á röddum þeirra sem hafna hernaðarbandalögum og ofbeldi í samskiptum manna og þjóða. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.

Í Reykjavík verður safnast saman fyrir ofan Hlemm og á slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Ingunn Ásdísardóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Haukur Guðmundsson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.

Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur flytur ávarp og Svavar Knútur tekur lagið.

Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi

Herstöðvaandstaða í fjölmiðlum

By Fréttir, Í brennidepli

Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hernaðaruppbygginguna á Keflavíkurflugvelli í vikunni í kjölfar umfjöllunar RÚV og skýrslu utanríkisráðuneytisins um áherslur í „varnarmálum“ sem kom út rétt fyrir kosningar.

Samstöðin fékk Guttorm Þorsteinsson formann og Soffíu Sigurðardóttur ritara í langt spjall um friðarmál og hernaðaruppbyggingu við Rauða borðið í ljósi þessara frétta sem má sjá hér.

RÚV leitaði einnig álits hjá Guttormi um framkvæmdirnar fyrir hádegisfréttir og í Morgunútvarpi Rásar 2.

Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni var sömuleiðis rætt við Guttorm og Andrés Inga Jónsson fráfarandi þingmann Pírata um uppbygginguna og hvað það þýðir að vera friðarsinni á tímum aukinnar spennu í Evrópu.

Það hefur einnig verið nokkur umfjöllun um sögu herstöðvarbaráttunar sem fær bara aukið vægi við þessar vendingar. Egill Helgason tók viðtal við Árna Hjartarson ritstjóra Gengið til friðar í Kiljunni sem má sjá hér.

Stefán Pálsson miðnefndarmaður og einn höfunda bókarinnar ræddi hana svo í Morgunvaktinni á Rás tvö og byrjar viðtalið á 1:09:30 í þessari upptöku á netinu.

Bókarkápa Gengið til friðar, sögu herstöðvarbaráttunnar

Útgáfuhóf

By Fréttir, Viðburður

Hóf Skruddu vegna útgáfu sögu herstöðvarbaráttunnar: “Gengið til friðar” verður haldið í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð 39 fimmtudaginn 14. nóv kl. 16:00. Þar verða léttar veitingar í boði og stuttur upplestur.
Við munum svo auglýsa útgáfuhóf í Friðarhúsi sem verður haldið síðar í mánuðinum.

Kjúklingabauna tagine

Fyrsti fjáröflunar­málsverður haustsins

By Fréttir, Viðburður
Septembermálsverður SHA verður í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, föstudaginn 27. Þóra Kristín Þórsdóttir og Kolbeinn H. Stefánsson stýra pottum og pönnum.
Matseðill – marokkóskt þema:
  • Lambagúllas
  • Kjúklingabaunatagine
  • Brauð og kúskús
  • Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19. Að borðhaldi loknu mun Bony Man taka lagið og Hildur Hákonardóttir myndlistarkona mun segja frá pólitískri list sinni, en hún vann á sínum tíma fjölda áhugaverðra verka tengd friðar- og jafnréttisbaráttunni.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin.

Gengið til friðar

By Fréttir, Tilkynningar

Saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006

 

Nú er hægt að forpanta bókina “Gengið til friðar, saga herstöðvabaráttunnar 1946-2006” á sérstöku tilboðsverði, 9.990 kr. Þar er rakin saga herstöðvabaráttunnar um sex áratuga skeið.
Í þessari efnismiklu og ríkulega myndskreyttu bók fjallar hópur höfunda um málið frá mörgum hliðum, þar sem einnig er fjallað um birtingarmyndir herstöðvabaráttunnar í bókmenntum, tónlist, myndlist og kvikmyndum svo dæmi séu tekin. Árni Hjartarson er ritstjóri verksins.
1. maí kaffi SHA

1. maí kaffi SHA

By Fréttir
Hitið upp fyrir kröfugönguna með hinu hefðbundna og einkar veglega 1. maí kaffi Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, frá kl. 11 til 13. Gangan leggur svo af stað af Skólavörðuholti.
Í boði verða vöfflur eins og þið getið í ykkur látið og annað heimagert góðgæti. Aðgangseyrir einungis 500 krónur.