

Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga ófriðarskýja um víða veröld. Blóðugar styrjaldir eiga sér stað með skelfilegum hörmungum fyrir almenning. Vígvæðing hefur sjaldan verið meiri og lítið ber á röddum þeirra sem hafna hernaðarbandalögum og ofbeldi í samskiptum manna og þjóða. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.
Í Reykjavík verður safnast saman fyrir ofan Hlemm og á slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Ingunn Ásdísardóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Haukur Guðmundsson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.
Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur flytur ávarp og Svavar Knútur tekur lagið.
Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi
Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hernaðaruppbygginguna á Keflavíkurflugvelli í vikunni í kjölfar umfjöllunar RÚV og skýrslu utanríkisráðuneytisins um áherslur í „varnarmálum“ sem kom út rétt fyrir kosningar.
Samstöðin fékk Guttorm Þorsteinsson formann og Soffíu Sigurðardóttur ritara í langt spjall um friðarmál og hernaðaruppbyggingu við Rauða borðið í ljósi þessara frétta sem má sjá hér.
RÚV leitaði einnig álits hjá Guttormi um framkvæmdirnar fyrir hádegisfréttir og í Morgunútvarpi Rásar 2.
Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni var sömuleiðis rætt við Guttorm og Andrés Inga Jónsson fráfarandi þingmann Pírata um uppbygginguna og hvað það þýðir að vera friðarsinni á tímum aukinnar spennu í Evrópu.
Það hefur einnig verið nokkur umfjöllun um sögu herstöðvarbaráttunar sem fær bara aukið vægi við þessar vendingar. Egill Helgason tók viðtal við Árna Hjartarson ritstjóra Gengið til friðar í Kiljunni sem má sjá hér.
Stefán Pálsson miðnefndarmaður og einn höfunda bókarinnar ræddi hana svo í Morgunvaktinni á Rás tvö og byrjar viðtalið á 1:09:30 í þessari upptöku á netinu.
Landsfundur SHA verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, laugardaginn 6. apríl.
Dagskrá hefst kl. 11 með stjórnarkjöri og almennum aðalfundarstörfum. Léttur hádegisverður í boði.
Kl. 13 mun Stefán Jón Hafsteinn halda fyrirlestur byggðan á bók sinni “Heimurinn eins og hann er” sem kom út fyrir nokkrum misserum. Stefán hefur mikla reynslu af þróunarstörfum, einkum í Afríku og hefur verk han mikið gildi fyrir friðarsinna og áhugafólk um alþjóðamál.
Að erindi loknu halda fundarstörf áfram en áætlað er að fundi ljúki eigi síðar en kl. 16.
Friðarganga á Þorláksmessu hefur verið fastur liður í Reykjavík frá árinu 1981. Safnast er saman á nýopnaða göngusvæðinu á Laugavegi, fyrir neðan Hlemm. Gangan leggur svo af stað niður Laugaveginn á slaginu kl. 18 með kerti í hönd til að leggja áherslu á kröfuna um frið í heiminum.
Í göngulok er fundur á Austurvelli þar sem Sveinn Rúnar Hauksson læknir flytur ávarp. Hann hefur um árabil verið iðinn við að halda á lofti málefnum Palestínu, en var einnig meðal skipuleggjenda fyrstu friðargöngunnar fyrir 42 árum síðan.
Fundarstjóri er Harpa Kristbergsdóttir og Anton Helgi Jónsson flytur friðarljóð. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og í lok fundar. Umsjón er að venju í höndum samstarfshóps friðarhreyfinga.
Athugið að hefðbundnu vaxkyndlarnir sem lengi hafa einkennt gönguna eru nú ófánlegir. Þess í stað verður gengið með fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum. Ljósin verða seld á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur að göngu lokinni.
Á Akureyri verður friðarganga á sama tíma og á Ísafirði vinna friðarsinnar einnig að skipulagningu göngu.