Skip to main content
Donald Trump og Jens Stoltenberg

Svör flokkanna, 6. spurning: Við þurfum að tala um Trump…

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 6 hljómaði svo: Treystir flokkur þinn nýjum forseta Bandaríkjanna til að leiða hernaðarbandalagið NATO og vera æðsti stjórnandi herliðs á Íslandi? Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Lýðræðisflokkurinn:
Já, DT [Donald Trump] hefur lýst því yfir að hann vilji stilla til friðar og hætta blóðsúthellingum. Þær yfirlýsingar hans eru trúverðugar í ljósi reynslunnar, enda hóf hann engin stríð á valdatíma sínum 2016-2020. Fráfarandi forseti BNA hefur leitt ríkisstjórn sem aðhyllst hefur hernaðarhyggju. Allt bendir til að ný ríkisstjórn BNA muni stefna málum í betra og friðvænlegra horf.

Viðreisn:
Nýr forseti tekur við völdum í byrjun næsta árs. Reynslan verður að leiða í ljós hvaða áhrif valdataka hans mun hafa innan NATO og í samskiptum við Evrópuríkin sem og varnarsamning Íslands við Bandaríkin. Viðreisn telur að fullt tilefni sé til þess að styrkja enn sambandið við ESB og dregur valdataka nýs forseta síst úr þeirri áherslu.

Píratar:
Nei, Píratar eru áhyggjufullir yfir því hver staða mála á alþjóðavettvangi verður þegar Trump tekur aftur við embætti. 

Vinstri græn:
Nei.

Sósíalistaflokkurinn:
Nei.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn leggur áherslu á að virða lýðræðislegan rétt annarra þjóða til að velja sér leiðtoga og leggur áherslu á gott og heilbrigt samstarf sem sjálfstæð og fullvalda þjóð við aðrar þjóðir. Það byggir á gagnkvæmri virðingu fyrir menningu, sögu og siðum viðkomandi landa.

Framsóknarflokkur:
Framsókn leggur áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og að alþjóðalög séu virt. Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til einstakra leiðtoga eða þeirra hlutverka innan NATO.

Meðaldræg kjarnorkuvopn

Svör flokkanna, 5. spurning: Átakasvæði í heiminum

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 5 hljómaði svo: Með hvaða hætti telur flokkurinn að íslensk stjórnvöld geti best stuðlað að friði á átakasvæðum á borð við Úkraínu, Ísrael og Austur-Afríku?– Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Framsóknarflokkur:
Framsókn leggur áherslu á að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og stuðli að friði með mannúðarsjónarmiðum og friðsamlegum lausnum. Flokkurinn vill að Ísland styðji við alþjóðlegar aðgerðir sem miða að því að leysa átök með friðsamlegum hætti og að mannréttindi séu virt. Með því að taka þátt í alþjóðlegum samtökum og styðja við diplómatískar lausnir getur Ísland stuðlað að friði á átakasvæðum.

Píratar:
Píratar hafa sérstaklega ályktað um Úkraínu og Ísrael. Þar fordæmum við innrás Rússlands í Úkraínu og styðjum úkraínsku þjóðina í baráttu fyrir fullveldi sínu og frelsi, þar sem herlaust Ísland ætti að veita mannúðaraðstoð og stuðla að friði. Jafnframt standa Píratar með Palestínumönnum og vilja stöðva þjóðarmorð á Gaza. Þeir leggja til viðskiptaþvinganir og bann á öllum vopnaviðskiptum við Ísrael, auk þess að draga úr stjórnmálasambandi við Ísrael og beita áhrifum Íslands í Mannréttindaráði SÞ til að þrýsta á Ísrael að láta af árásum sínum. Píratar styðja einnig málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot á hópmorðasamningi SÞ.

Miðflokkur:
Sem herlaust land hlýtur öll aðstoð Íslands að taka mið af því.

Sósíalistaflokkurinn:
Íslensk stjórnvöld ættu að tala fyrir tafarlausu vopnahléi á hverju svæði fyrir sig og  tala gegn stigmögnun átaka. Þjóðarmorð Ísraels og árásarstríð þeirra í Líbanon þarf að fordæma með afdráttarlausum hætti og kalla eftir efnahagsþvingunum og tafarlausri stöðvun vopnasendinga til Ísraels. Ísland á að styðja málsókn Suður – Afríku fyrir Alþjóðadómstólnum og beita sjálf efnahagsþvingunum gegn Ísrael. Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna á að hafa efnd til slíkra viðskiptaþvinganna en vegna neitunarvalds Bandaríkjanna hefur sú niðurstaða ekki náðst. Það ber að fordæma harðlega.
Í Úkraínu þarf að tala gegn stigmögnun átakanna og tala fyrir því að samið sé um frið. Ísland á ekki að kaupa vopn heldur styðja mannúðarstarf og uppbyggingu í Úkraínu.
Í Austur Afríku þarf að tala fyrir tafarlausu vopnarhléi, gegn stigmögnun átaka og fordæma ríki sem stigmagna átökin.

Lýðræðisflokkurinn:
Með því að tala skýrt og stöðugt frá sjónarhóli friðar og sátta. Bjóða má fram Höfða í Reykjavík sem samningsvettvang.

Vinstri græn:
Ísland á að beita sér fyrir því alþjóðalög séu virt og standa vörð um stefnu og starf Sameinuðu þjóðanna. Til að tryggja öllum íbúum jarðar mannsæmandi kjör er ljóst að deila þarf auðlindum heimsins jafnar. Til að jafna kjör fólks þarf róttækar breytingar á því hvernig völdum og gæðum er dreift jafnt milli ríkja sem innan þeirra, s.s. milli stétta, kynja, þjóðernishópa. Við krefjumst tafarlauss vopnahlés í Palestínu, friðarsamninga og að vopnaflutningar til Ísrael verði stöðvaðir. Það sama gildir um önnur átakasvæði í heiminum. 

Svör flokkanna, 4. spurning: Unnið að friði

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 4 hljómaði svo: Á hvaða vettvangi telur flokkurinn að Ísland geti best unnið að málstað friðar í veröldinni og með hvaða hætti? – Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Viðreisn:
Á sameiginlegum vettvangi innan NATO, á vettvangi Norðurlandanna og í auknum mæli í evrópskri samvinnu á vettvangi ESB. Þá eru Sameinuðu þjóðirnar einnig mjög miklilvægar í þessu samhengi.

Vinstri græn:
Utanríkisstefna Íslands þarf að byggjast á því sjónarmiði að við kjósum alþjóðlegt réttlæti, afvopnun og friðsamlegar lausnir deilumála og að við fordæmum hvers kyns árásarstríð og ofbeldi í samskiptum þjóða. Utanríkisstefna Íslands á að taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Ísland á að taka skýra afstöðu með friði, réttindum frumbyggja, sjálfbærni og náttúruvernd á norðurslóðum.Ísland á að koma fram af dirfsku á alþjóðavettvangi í baráttu fyrir kynjajafnrétti, kvenfrelsi og réttindum hinsegin fólks í heiminum. Ísland á jafnframt að beita sér fyrir aðgerðum gegn mansali á alþjóðavettvangi. Við eigum einnig að skipa okkur í sveit forystuþjóða í umhverfismálum og í baráttu gegn umhverfis- og loftslagsvá á alþjóðavettvangi.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur lagt áherslu á að aðstoða fólk sem næst sínum heimaslóðum svo fjármagn nýtist sem best og svo að auðveldlega gangi að koma fólki til síns heima þegar um hægist. 

Samfylkingin:
Samfylkingin er alþjóðasinnaður stjórnmálaflokkur og telur að Ísland geti best stuðlað að málstað friðar með því að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi, t.d. á vettvangi þeirra alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að. Samfylkingin er einnig aðili að norrænni, evrópskri og alþjóðlegri hreyfingu jafnaðarflokka og tekur virkan þátt í því samstarfi sem þar fer fram. Með því að beita sér á þeim vettvangi getur Samfylkingin komið á framfæri sjónarmiðum sínum við hreyfingar og einstaklinga sem hafa meiri áhrif á alþjóðavettvangi en Ísland getur nokkurn tímann haft.
Samfylkingin stendur með þjóðum sem þurfa að þola ólöglegt hernám og yfirgang, svo sem í Palestínu og Úkraínu, og gerir kröfu um að reglur þjóðaréttar um friðsamleg samskipti þjóða séu virtar í hvívetna. Ísland á alltaf að taka skýra afstöðu gegn mannréttindabrotum, styðja réttindabaráttu viðkvæmra hópa á heimsvísu og berjast gegn fordómum og hvers kyns mismunun.
Samfylkingin vill að íslensk stjórnvöld beiti sér af festu á alþjóðlegum vettvangi fyrir tveggja ríkja lausn milli Ísraels og Palestínu. Samfylkingin fordæmir landtökubyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og árásir á íbúa Gaza. Samfylkingin fordæmir með afgerandi hætti þá stríðsglæpi sem framdir hafa verið fyrir botni Miðjarðarhafs. Einnig fordæmir Samfylkingin innrás og stríðsglæpi Rússa í Úkraínu.

Lýðræðisflokkurinn:
Á Alþingi, á leiðtogafundum, hjá alþjóðastofnunum og víðar.

Sósíalistaflokkurinn:
Í gegnum alþjóðlegar stofnanir og grasrótarsamtök. Með virkri þátttöku í því að vinna að friðsömum heimi og hvatt til samskipta og málamiðlanna í stað stigmögnunar. Með því að beita okkur eftir fremsta megni fyrir fullveldi og sjálfstæði þjóða í heiminum og beita sér gegn ójöfnuði, hér heima og í heiminum. Ójöfnuður í heiminum skapar og viðheldur átökunum. Það er mikilvæg friðarstefna að stuðla að framþróun í heiminum.

Píratar:
Píratar eru í grunninn alþjóðasinnuð hreyfing sem telur gríðarlega mikilvægt að alþjóðalög séu virt til að fólk og ríki geti lifað við frið og öryggi. Mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt á alþjóðavettvangi og eigi frumkvæði að því að berjast fyrir friði, mannúð, mannréttindum, stöðu hinsegin og kynsegin einstaklinga og að alþjóðalögum sé fylgt. Þar má sérstaklega nefna Evrópuráðið og mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, sem dæmi um mikilvægan vettvang sem Ísland getur unnið að málstað friðar. Friðargleraugun þurfa að vera uppi í öllu alþjóðastarfi.

Framsóknarflokkur:
Framsókn telur að Ísland geti best unnið að málstað friðar í veröldinni með því að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og mannréttindabaráttu. Flokkurinn vill að Ísland sé áfram í fararbroddi í alþjóðlegri baráttu fyrir mannréttindum og jafnrétti, og að þróunarsamvinna sé efld. Með því að leggja áherslu á mannúðarsjónarmið og friðsamlegar lausnir getur Ísland stuðlað að friði á alþjóðavettvangi.

Svör flokkanna, 3. spurning: Aðild að hernaðar­bandalögum

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 3 hljómaði svo: Styður flokkurinn aðild Íslands að hernaðarbandalögum og þá með hvaða áherslum eða af hverju ekki?– Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Sjálfstæðisflokkur:
Sjálfstæðisflokkurinn styður aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, aukna þátttöku í varnarsamstarfi við önnur Norðurlönd og á grundvelli JEF samstarfsins með Bretlandi, Hollandi, hinum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum.

Píratar:
Flokkurinn styður ekki aðild að hernaðarbandalögum. NATO á að vera varnarbandalag. Flokkurinn hefur ekki samþykkta stefnu með eða á móti Natóaðild, en telur mikilvægt að rödd þjóðarinnar fái að heyrast hvað varðar áframhaldandi þátttöku Íslands í NATO og í öðru varnarsamstarfi. Á meðan Ísland er aðili að bandalaginu á það að tala fyrir friði innan NATO og annars staðar á alþjóðavettvangi. Íslendingar eiga að beita sér gegn hvers kyns hernaðaruppbyggingu í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.

Samfylkingin:
Samfylkingin styður aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og telur að Íslendingar eigi að taka virkan þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða á þeim vettvangi. Efla þarf Landhelgisgæsluna og alla öryggistengda innviði landsins, styrkja bæði björgunarsveitir og lögreglu, og tryggja betur net- og fjarskiptaöryggi landsins. Að auki hefur aðild Svíþjóðar og Finnlands að NATO aukið tækifærin til norræns samstarfs í varnarmálum og vill Samfylkingin beita sér fyrir metnaðarfullri þátttöku Íslands í því samstarfi.

Lýðræðisflokkurinn:
Lýðræðisflokkurinn styður aðild Íslands að NATO sem varnarbandalagi, en ekki sem árásarbandalagi.

Vinstri græn:
Nei – Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur frá stofnun verið á móti aðild Íslands að NATO. NATO er hernaðarbandalag sem áskilur sér beitingu kjarnorkuvopna að fyrrabragði og eykur ekki öryggi í heiminum. Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum og banna umferð þeirra. Ísland á að undirrita og lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

Framsóknarflokkur:
„Í ljósi vaxandi óstöðugleika á alþjóðasviðinu, þarf að gera öryggis- og varnarmálum hærra undir höfði innan utanríkisstefnunnar almennt. Framsókn styður þjóðaröryggisstefnu Íslands og framkvæmd hennar. Öryggis- og varnarmál ná nú í vaxandi mæli til málaflokka á borð við netöryggis og fjarskipta, fjölþátta ógnana og samgangna.
Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna tryggja í grundvallaratriðum öryggi landsins. Nú þegar öll Norðurlöndin eru aðilar að bandalaginu, kunna möguleikar í svæðisbundnu norrænu varnarsamstarfi að aukast. Framsókn telur mikilvægt að styrkja enn frekar stoðir þess í ljósi landfræðilegrar legu Íslands og leggur áherslu á áframhaldandi góð samskipti og samstarf við aðrar þjóðir. Raunsæi, fyrirhyggja og öflugar varnaráætlanir skipta sköpum.” – Samþykkt á 37. Flokksþingi Framsóknar 20.-21. apríl 2024

Miðflokkur:
Miðflokkurinn hefur stutt samvinnu vestrænna þjóða til að tryggja frið og standa vörð um öryggi landsins. Þar með hefur flokkurinn stutt aðild Íslands að NATO og varnarsamvinnu vestrænna ríkja. Miðflokkurinn telur að það tryggi best öryggishagsmuni landsins og um leið það samstarf og samvinnu sem Íslendingum hefur reynst best.

Viðreisn:
Já Viðreisn telur að öryggi Ísland sé best tryggt innan vébanda Atlantshafsbandalagsins, með nánu samstarfi við öryggisstofnanir Evrópusambandsins sem annast innra öryggi, landamæra eftirlit og varnir gegn hryðjuverkum, ásamt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Ísland á að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, lýðræði og mannréttindi í heiminum, í samstarfi við samstarfsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.

Sósíalistaflokkurinn:
Sósíalistaflokkurinn er gegn því að Ísland sé í hernaðarbandalögum. Í stað þeirra ætti Ísland að leitast við að stofnað verði til raunverulegra friðar- og varnarsamtaka. Þjóðin var aldrei spurð um það hvort hún vildi ganga inn í Nató. Það er í stefnu Sósíalista að málið verið tekið upp sem fyrst.