Skip to main content

Herstöðvaandstaða í fjölmiðlum

By Fréttir, Í brennidepli

Fjölmiðlar hafa fjallað mikið um hernaðaruppbygginguna á Keflavíkurflugvelli í vikunni í kjölfar umfjöllunar RÚV og skýrslu utanríkisráðuneytisins um áherslur í „varnarmálum“ sem kom út rétt fyrir kosningar.

Samstöðin fékk Guttorm Þorsteinsson formann og Soffíu Sigurðardóttur ritara í langt spjall um friðarmál og hernaðaruppbyggingu við Rauða borðið í ljósi þessara frétta sem má sjá hér.

RÚV leitaði einnig álits hjá Guttormi um framkvæmdirnar fyrir hádegisfréttir og í Morgunútvarpi Rásar 2.

Í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni var sömuleiðis rætt við Guttorm og Andrés Inga Jónsson fráfarandi þingmann Pírata um uppbygginguna og hvað það þýðir að vera friðarsinni á tímum aukinnar spennu í Evrópu.

Það hefur einnig verið nokkur umfjöllun um sögu herstöðvarbaráttunar sem fær bara aukið vægi við þessar vendingar. Egill Helgason tók viðtal við Árna Hjartarson ritstjóra Gengið til friðar í Kiljunni sem má sjá hér.

Stefán Pálsson miðnefndarmaður og einn höfunda bókarinnar ræddi hana svo í Morgunvaktinni á Rás tvö og byrjar viðtalið á 1:09:30 í þessari upptöku á netinu.

Fullveldismálsverður

Fullveldisfögnuður í Friðarhúsi – Daginn fyrir kjördag

By Viðburður
Jólahlaðborð SHA ber að þessu sinni upp á föstudaginn 29. nóvember.
Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér að venju um krásirnar. Matseðill:
• Heimaverkuð sænsk jólaskinka með kartöflusalti, og sinnepssósu
• Heimagerð lifrakæfa og heimagert rúgbrauð
• Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
• Sérverkuð síld og sinnepssalsasíld
• Rækjufrauð
• Hnetusteik fyrir grænkera
• Kaffi og konfekt
Sest verður að snæðingi kl. 19.
Að borðhaldi loknu hefst menningardagskrá. Guðrún Eva Mínervudóttir les úr nýrri skáldævisögu og tónlistarmaðurinn Cacksakkah flytur jólapönk af frumlegustu gerð. Frekari dagskráratriði kynnt þegar nær dregur.
Verð kr. 2.500. Öll velkomin.
Donald Trump og Jens Stoltenberg

Svör flokkanna, 6. spurning: Við þurfum að tala um Trump…

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 6 hljómaði svo: Treystir flokkur þinn nýjum forseta Bandaríkjanna til að leiða hernaðarbandalagið NATO og vera æðsti stjórnandi herliðs á Íslandi? Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Lýðræðisflokkurinn:
Já, DT [Donald Trump] hefur lýst því yfir að hann vilji stilla til friðar og hætta blóðsúthellingum. Þær yfirlýsingar hans eru trúverðugar í ljósi reynslunnar, enda hóf hann engin stríð á valdatíma sínum 2016-2020. Fráfarandi forseti BNA hefur leitt ríkisstjórn sem aðhyllst hefur hernaðarhyggju. Allt bendir til að ný ríkisstjórn BNA muni stefna málum í betra og friðvænlegra horf.

Viðreisn:
Nýr forseti tekur við völdum í byrjun næsta árs. Reynslan verður að leiða í ljós hvaða áhrif valdataka hans mun hafa innan NATO og í samskiptum við Evrópuríkin sem og varnarsamning Íslands við Bandaríkin. Viðreisn telur að fullt tilefni sé til þess að styrkja enn sambandið við ESB og dregur valdataka nýs forseta síst úr þeirri áherslu.

Píratar:
Nei, Píratar eru áhyggjufullir yfir því hver staða mála á alþjóðavettvangi verður þegar Trump tekur aftur við embætti. 

Vinstri græn:
Nei.

Sósíalistaflokkurinn:
Nei.

Miðflokkur:
Miðflokkurinn leggur áherslu á að virða lýðræðislegan rétt annarra þjóða til að velja sér leiðtoga og leggur áherslu á gott og heilbrigt samstarf sem sjálfstæð og fullvalda þjóð við aðrar þjóðir. Það byggir á gagnkvæmri virðingu fyrir menningu, sögu og siðum viðkomandi landa.

Framsóknarflokkur:
Framsókn leggur áherslu á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs og að alþjóðalög séu virt. Flokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til einstakra leiðtoga eða þeirra hlutverka innan NATO.

Meðaldræg kjarnorkuvopn

Svör flokkanna, 5. spurning: Átakasvæði í heiminum

By Í brennidepli

Samtök hernaðarandstæðinga sendu spurningalista á þau framboð sem bjóða fram á landsvísu til komandi Alþingiskosninga. Spurningarnar voru sex talsins og bárust svör frá öllum nema Flokki fólksins. Sum framboðanna vísuðu til samkomulags þeirra á milli þess efnis að einungis væri svarað þremur spurningum frá frjálsum félagasamtökum. Þau sem tóku þann pól í hæðina fengu að velja sjálf hvaða þremur spurningum þau svöruðu. Spurning 5 hljómaði svo: Með hvaða hætti telur flokkurinn að íslensk stjórnvöld geti best stuðlað að friði á átakasvæðum á borð við Úkraínu, Ísrael og Austur-Afríku?– Hér fylgja svör þeirra sem svöruðu spurningunni.

Framsóknarflokkur:
Framsókn leggur áherslu á að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi og stuðli að friði með mannúðarsjónarmiðum og friðsamlegum lausnum. Flokkurinn vill að Ísland styðji við alþjóðlegar aðgerðir sem miða að því að leysa átök með friðsamlegum hætti og að mannréttindi séu virt. Með því að taka þátt í alþjóðlegum samtökum og styðja við diplómatískar lausnir getur Ísland stuðlað að friði á átakasvæðum.

Píratar:
Píratar hafa sérstaklega ályktað um Úkraínu og Ísrael. Þar fordæmum við innrás Rússlands í Úkraínu og styðjum úkraínsku þjóðina í baráttu fyrir fullveldi sínu og frelsi, þar sem herlaust Ísland ætti að veita mannúðaraðstoð og stuðla að friði. Jafnframt standa Píratar með Palestínumönnum og vilja stöðva þjóðarmorð á Gaza. Þeir leggja til viðskiptaþvinganir og bann á öllum vopnaviðskiptum við Ísrael, auk þess að draga úr stjórnmálasambandi við Ísrael og beita áhrifum Íslands í Mannréttindaráði SÞ til að þrýsta á Ísrael að láta af árásum sínum. Píratar styðja einnig málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir brot á hópmorðasamningi SÞ.

Miðflokkur:
Sem herlaust land hlýtur öll aðstoð Íslands að taka mið af því.

Sósíalistaflokkurinn:
Íslensk stjórnvöld ættu að tala fyrir tafarlausu vopnahléi á hverju svæði fyrir sig og  tala gegn stigmögnun átaka. Þjóðarmorð Ísraels og árásarstríð þeirra í Líbanon þarf að fordæma með afdráttarlausum hætti og kalla eftir efnahagsþvingunum og tafarlausri stöðvun vopnasendinga til Ísraels. Ísland á að styðja málsókn Suður – Afríku fyrir Alþjóðadómstólnum og beita sjálf efnahagsþvingunum gegn Ísrael. Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna á að hafa efnd til slíkra viðskiptaþvinganna en vegna neitunarvalds Bandaríkjanna hefur sú niðurstaða ekki náðst. Það ber að fordæma harðlega.
Í Úkraínu þarf að tala gegn stigmögnun átakanna og tala fyrir því að samið sé um frið. Ísland á ekki að kaupa vopn heldur styðja mannúðarstarf og uppbyggingu í Úkraínu.
Í Austur Afríku þarf að tala fyrir tafarlausu vopnarhléi, gegn stigmögnun átaka og fordæma ríki sem stigmagna átökin.

Lýðræðisflokkurinn:
Með því að tala skýrt og stöðugt frá sjónarhóli friðar og sátta. Bjóða má fram Höfða í Reykjavík sem samningsvettvang.

Vinstri græn:
Ísland á að beita sér fyrir því alþjóðalög séu virt og standa vörð um stefnu og starf Sameinuðu þjóðanna. Til að tryggja öllum íbúum jarðar mannsæmandi kjör er ljóst að deila þarf auðlindum heimsins jafnar. Til að jafna kjör fólks þarf róttækar breytingar á því hvernig völdum og gæðum er dreift jafnt milli ríkja sem innan þeirra, s.s. milli stétta, kynja, þjóðernishópa. Við krefjumst tafarlauss vopnahlés í Palestínu, friðarsamninga og að vopnaflutningar til Ísrael verði stöðvaðir. Það sama gildir um önnur átakasvæði í heiminum.