Skip to main content

Blómin í ánni

By Uncategorized

Ávarp flutt í tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur þann 9.ágúst 2005 á fundi friðarhreyfinga til minningar um kjanorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki.

Í byrjun ágústmánaðar 1945 bættust við landafræðikunnáttu mína heiti á tveimur borgum í Japan, og má ætla að sama hafi gilt um flesta Íslendinga og heimsbyggð mestalla. Þessar borgir voru iðnaðarborgir og ekki mjög fjölmennar á japanskan mælikvarða. Borgirnar heita Hiroshima og Nagasaki. Og atburðirnir sem drógu þær fram í sviðsljósið voru ómennskar kjarnorkuárásir Bandaríkjamanna á þær undir lok síðari heimstyrjaldarinnar, Hiroshima hinn 6. ágúst 1945 og Nagasaki þremur dögum síðar, með hörmulegum afleiðingum. Nærfellt tveir þriðju af Hiroshima sem taldi þá um 255 þúsund íbúa voru lagðir í eyði og 80 þúsund almennra borgara létust strax og innan árs hækkaði tala látinni uppí 140 þúsund manns. Að auki hafa 60 þúsund manns látist af síðbúnum afleiðingum geislunar sem hafa verið að koma fram allt til þessa.

Þriðjungur Nagasaki var lagður í eyði og af 174 þúsund íbúum, sem er ámóta fjöldi og Höfuðborgarsvæðisins, létust tæplega 80 þúsund innan árs en alls munu dauðsföll þegar síðbúnar afleiðingar árásinnar eru taldar með hafa numið um 140 þúsundum almennra borgara og eru þá ótaldir þeir sem hlutu varanleg örkuml. Þessar ógnvænlegu árásir sem stráfelldu óbreytta borgara geta vart talist annað en stríðsglæpur samkvæmt samningum sem kenndir eru við Genf þar sem meðal annars er lögð áhersla á að hernaðargerðir eigi ekki að beinast gegn óbreyttum borgurum heldur fyrst og fremst gegn hernaðar-mannvirkjum . Kjarnorkuvopnin eru að því leyti siðlaus vopn að þau þyrma engu lífi.

Hörmungarnar í Hiroshima urðu bandarískri skáldkonu af sænskum ættum Editu Morris að yrkisefni í skáldsögu sem nefnist á frummálinu: ” The flowers of Hiroshima,” og kom út í íslenskri þýðingu Þórarins Guðnasonar læknis árið 1963 undir heitinu:” Blómin í Ánni”. Halldór Laxness skrifar þar formála. Edita hafði heimsótt Halldór ásamt eiginmanni sínum sem einnig var velþekktur rithöfundur er þau voru á flótta undan Maccarthyismanum. Fólk þetta var að sögn Halldórs frjálslynt, efnað og háborgarlegt og bjó í Chicago. Í formálanum kemst Halldór svo að orði:” Þessi ein skáldsaga, mér kunn , teingd skelfingardeginum 6.ágúst 1945, hefur náð lýðhylli víða um heim og verið útgefin á prent í flestum löndum bendluðum við bókaútgáfu. Fæstir menn hefðu trúað því að hægt væri að semja skáldverk út af heimsglöpum, sem eru að sínu leyti jafn ómensk og fjarri allri listrænni skírskotun einsog til dæmis gasbrennurnar í Auswitz.”

Titillinn sem Þórarinn valdi, Blómin í Ánni, vísa til þess að við sprenginguna í Hiroshima myndaðist mikil eldsúla sem breiddist fljótt út með sterkum vindum. Brennandi fólk sem flúði eldinn varpaði sé tugþúsundum saman eins og logandi kyndlar í ár sem renna um Hiroshima og er talið að alltað tuttugu þúsundir óbreyttra borgara hafi hlotið þar vota gröf.

Ættingjar sem eftir lifðu dreifðu blómum í árnar eða festu við árbakkana þar sem þeir höfðu séð á eftir skyldmennum hverfa í djúpið. Friðarhreyfingar í Japan hafa síðan minnst þessa árlega með því að fleyta ljóskerjum eftir ánum. Mér var fyrir 20 árum boðið sem fulltrúa Samtaka herstöðvaandstæðinga að taka þátt í minningarathöfnum um voðaverkin í Hiroshima og Nakasaki og af mörgum minnistæðum atburðum er mér efst í huga kvöld við stærstu ána í Hiroshima þar sem við tókum þátt í að fleyta ljóskerjum eftir ánni. Sú sjón að sjá ljósin liðast niður eftir ánni í kvöldhúminu mun seint líða mér úr minni enda kallaði hún fram mynd í huga mér af þúsundum logandi fólks að steypa sér í ána. Sama kvöld efndu samtök herstöðvaandstæðinga í fyrsta sinn til kertafleytingar á Reykjavíkurtjörn til að minnast kjarnorkuvopnaárásanna á Hiroshima og Nagasaki. Síðan hefur þessi athöfn farið fram árlega með þáttöku annarra íslenskra friðarhreyfinga og eiga þær þakkir skyldar fyrir að minna okkur á þau heimsglöp sem framin voru fyrir 60 árum. Enn er þörf að minna á þessi voðaverka, því að enn er mikið af kjarnorkusprengjum í vopnabúrum stórveldanna Bandaríkjanna og Rússa og raunar fleiri ríkja þrátt fyrir afvopnunarviðræður. Sprengimáttur margra þeirra mælist í megatonnum, sem er alltað þúsundfaldur á við þær sprengjur sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki. Markmiðið hlýtur að vera að efla vitund almennings til að knýja fram að kjarnorkuvopnum verði eytt og koma í veg fyrir að næsta kynslóð auki þekkingu sína í landafræði með nöfnum á borgum sem hlotið hafa sömu örlög og Hiroshima og Nagasaki fyrir 60 árum. Því eru slagorðin aldrei aftur Hiroshima og aldrei aftur Nagasaki enn í fullu gildi.

Guðmundur Georgsson

Ávarp við kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn 9.ágúst 2005

By Uncategorized

Ágætu friðarsinnar.

Við erum samankomin hér við Tjörnina á þessu ágústkvöldi til að minnast fórnarlamba kjarnorkuárásanna á japönsku borgirnar Hírósíma og Nagasakí 6.og 9.ágúst fyrir 60 árum. En við erum ekki einungis að minnast þess saklausa fólks sem lét lífið, eða þoldi ævilangar þjáningar af völdum sprenginganna heldur ekki síður að leggja áherslu á ósk okkar og kröfu um að slíkir harmleikir endurtaki sig ekki.

Sprengjurnar sem varpað var á japönsku borgirnar árið 1945 voru fyrstu skref kjarnorkuvígvæðingar, sem stóð í áratugi. Þær voru þó sem barnaleikföng miðað við kjarnorkuvopnin í vopnabúrum stórveldanna í dag. Við fyrstu kertafleytinginuna hér á Tjörninni í Reykjavík að kvöldi 5.ágúst 1985 lá óttinn við kjarnorkustríð enn í loftinu. Bandaríkin og Sovétríkin höfðu sett upp mikinn fjölda kjarnorkuflauga á meginlandi Evrópu og byrjað var að koma slíkum vopnum fyrir í skipum og kafbátum. Jafnframt var annar vígbúnaður aukinn stórlega. Hér á landi réðst bandaríkjaher í byggingu nýrra ratsjárstöðva, sprengjuheldra flugskýla og öflugra orustuflugvéla til að heyja kjarnorkustyrjöld. Hernaðaráætlanir ráðamanna hljóðuðu upp á “staðbundið kjarnorkustríð” í Evrópu og “stjörnustríðsáætlun” þar sem hægt væri að berjast með kjarnorkuvopnum úti í geimnum.

Svar friðarhreyfinga um allan heim var að reyna að efla vitund almennings um þá hættu sem kjarnorkuvopn hafa í för með sér. Með því að rifja upp reynsluna frá Hírósíma og Nagasakí, með því að benda á þá hættu sem stafar af geislavirkni og með því að sýna á óyggjandi hátt fram á hvernig hættan á kjarnorkuvetri gerir allar hugmyndir um “staðbundið” kjarnorkustríð að markleysu sýndu friðarsinnar fram á að í kjarnorkustríði verður enginn sigurvegari. Í slíku stríði hljóta allir að tapa.

Og friðarhreyfingarnar náðu vissulega árangri. Þrátt fyrir herskáa stefnu ráðandi stjórnmálamanna var almenningur hlynntur friðsamlegum lausnum. Hér á Íslandi birtist það m.a í afstöðunni til kjarnorkuvopna-lauss svæðis á Norðurlöndum. Árið 1987 sýndi könnun Félagsvísinda-stofnunnar að níu af hverjum tíu Íslendinga vildu að landið yrði aðili að slíku svæði þótt ríkisstjórnin teldi hugmyndina fráleita. Í Evrópu var vaxandi krafa um að neita að setja upp fleiri kjarnaflaugar og láta taka niður þær sem fyrir voru. Leiðtogafundurinn hér á Íslandi 1986 var eitt dæmi um það að ráðamenn heimsins voru byrjaðir að átta sig á þeirri staðreynd að kjarnorkuvopnastefna þeirra var gjaldþrota. Málstaður friðarsinna hafði unnið sigur á helstefnunni.

En stríðsáróður hefur ætíð verið fastur liður í daglegu lífi okkar. Fjöldaframleiðsla er á stríðsmyndum þar sem hetjuskapur hermanna og málstaður annars stríðsaðilans er hylltur. Þessa dagana er einmitt verið að undirbúa eina slíka mynd hér á Íslandi og hópur ungra íslendinga á þá ósk heitasta að fá að falla sem hermenn. Markmið slíkra mynda er að gera stríð spennandi, jafnvel eftirsóknarverð. Með kertafleytingunni leggjum við hins vegar áherslu á þá einföldu staðreynd að stríð drepa. Í styrjöldum deyr saklaust fólk, börn, konur og menn. Í augum hershöfðingja og stríðssinna eru dauði og örkuml almennra borgara aðeins fórnarkostnaður sem fylgir því að vinna glæsta sigra. Afdrif þeirra sem fyrir sprengjunum verða skipta þá ekki máli. Þannig var það í Hírósíma og Nagasakí árið 1945 og þannig er það í dag í Afghanistan og Írak. Stríðsherrarnir hirða ekki einu sinni um að telja hve margir hafa verið drepnir í þeim löndum sem þeir segjast vera að frelsa.

Við erum hér samankomin í kvöld til að mótmæla röddum sem segja: “Eitthvað varð að gera til að knýja Japani til uppgjafar”. Þeim röddum sem alltaf hafa á reiðum höndum afsakanir fyrir grimmdar-verkum og manndrápum. Jú þeim þykir það vissulega leitt að börn og konur hafi látið lífið í loftárásum en eitthvað varð nú að gera!
Við erum hér til að mótmæla því að hægt sé á nokkurn hátt að réttlæta dauða 240 þúsund óbreyttra borgara í Hírósíma og Nagasakí á sama hátt og við mótmælum því að loftárásir á borgir í Írak eða nokkrar aðrar borgir séu réttlætanlegar.

Kertafleytingin í kvöld er því ekki aðeins minningarathöfn heldur sterk krafa um að mannslíf verði virt og röksemdum hernaðarsinna vísað á bug. Um leið og við vottum fórnarlömbum sprengjanna virðingu okkar með því að fleyta kertum hér í kvöld sameinumst við um kröfuna:

Aldrei aftur Hírósíma- Aldrei aftur Nagasakí!

Ingibjörg Haraldsdóttir

60 ár frá kjarnorkuárásum á Hiroshima og Nagasaki – minningarfundur í Ráðhúsinu

By Uncategorized

Þriðjudaginn 9. ágúst minnast íslenskar friðarhreyfingar þess að 60 ár eru liðin frá því að kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Að venju verður kertum fleytt á Reykjavíkurtjörn og við minjasafnið á Akureyri. Hefjast athafnirnar kl. 22:30. Nánar má lesa um dagskrá þeirra hér að neðan.

Í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur verður samkoma sem hefst kl. 20:30.

Þar mun sænski rithöfundurinn og fræðikonan Monica Braw flytja erindi um afleiðingar árásanna, afdrif fólksins sem lifði þær af og hvernig stjórnvöld í Japan og Bandaríkjunum reyndu að þagga niður umræðu um málið. Monica Braw er einn kunnasti sérfræðingur Norðurlandanna á þessu sviði. Hún bjó í Japan um árabil og bók hennar “Överlevarna” hefur komið út á fjölda tungumála.

Unnur María Bergsveinsdóttir sagnfræðingur verður fundarstjóri og Guðmundur Georgsson læknir flytur ávarp, en hann heimsótti Hiroshima og ræddi við fórnarlömb sprengjunnar fyrir tveimur áratugum.

Trúbadorinn Ólafur Torfason flytur frumsamið lag við ljóð Eyrúnar Jónsdóttur.

Samkoman er opin öllum friðarsinnum og prýðilegur undirbúningur fyrir kertafleytinguna síðar um kvöldið.

Samstarfshópur friðarheyfinga

Sprengjurnar

By Uncategorized

Uppgjöf Japana var yfirvofandi, það var í raun engin ástæða fyrir okkur að beita þessu hroðalega vopni.

Tilvitnunin að ofan er ekki úr fengin úr bók einhvers róttæks sagnfræðings eða bláeygðs friðarsinna. Hún er höfð eftir Dwight Eisenhower, yfirhershöfðingja sveita bandamanna í Evrópu og síðar forseta Bandaríkjanna. Hún er í fullu samræmi við það álit bandarískra sérfræðinga þegar komið var fram á mitt ár 1945 að japanski herinn gæfist upp fyrir árslok, jafnvel þótt hvorki kæmi til innrásar bandarísks herliðs eða Rauði herinn blandaði sér í átökin.

Þeir fræðimenn sem ráðist hafa gegn goðsögninni um að kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki hafi verið “óumflýjanlegar” hafa úr nægu að moða og þeirra bestu heimildir eru einmitt skrif og skýrslur Bandaríkjamanna sjálfra. Í ljósi þessa má ótrúlegt heita hversu lífseig hugmyndin um nauðsyn þess að eyða borgunum tveimur hefur reynst í sumum vestrænum fjölmiðlum. Svo litið sé framhjá brjálsemi þeirrar hugmyndar að reyna að réttlæta sprengjuárásir sem þurrkuðu út heilar borgir með “mannúðarrökum”, standast slíkar rökfimiæfingar enga sögulega skoðun.

Megintilgangurinn með kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki var tvíþættur. Í fyrsta lagi var markmið Bandaríkjastjórnar að sýna umheiminum mátt hins nýja vopns. Hins vegar réðu innanlandspólitískar ástæður för. Bandaríkjaþing hafði eytt gríðarlegum fjárhæðum til þróunar á kjarnorkusprengjunni og krafðist þess að sjá afrakstur útgjaldanna. Ef sprengjunum hefði ekki verið varpað, var hætt við að Manhattan-áætlunin yrði talin stórkostlegasta dæmi sögunnar um sóun á almannafé og því getað rústað pólitískan feril þeirra sem börðust fyrir henni.

Margt gagnrýnivert má segja um stefnu Bandaríkjastjórnar síðustu áratugina, en eitt verður þó að hrósa bandaríska stjórnkerfinu fyrir. Það er hversu litlar hömlur stjórnvöld þar reyna að leggja á birtingu skjala og upplýsinga sem náð hafa tilteknum aldri – hversu vandræðaleg sem opinberun þeirra kann að reynast fyrri valdhöfum.

Sagnfræðingar hafa þannig getað kynnt sér í þaula ýmis skjöl er tengjast aðdraganda kjarnorkuárásanna og áætlanir stjórnvalda í Washington í þeim efnum. Þessi gögn leiða berlega í ljós að öll vinna Manhattan-áætlunarinnar miðaðist að því að varpa sprengjunni á Japan. Á fundum æðstu ráðamanna á árinu 1943, þegar Þýskaland Hitlers var ennþá virkur þátttakandi í stríðinu, var aldrei rætt um þann möguleika að beita kjarnorkuvopnum gegn Þýskalandi. Tæknilegar ákvarðanir á byggingarstigi sprengjanna, miðuðust við flugvélar Kyrrahafsflotans og fleira mætti telja til.

Fregnir þessar áttu síðar eftir að koma mörgum þeirra vísindamanna sem unnu að gerð kjarnorkusprengjunnar í opna skjöldu, enda margir þeirra Evrópubúar sem töldu sig vinna í kapp við nasista og að vopnið skelfilega yrði notað til að knésetja Þriðja ríkið.

Ljóst má vera að bandarískir ráðamenn töldu kjarnorkusprengjuna vera of skelfilegt vopn til að beita gegn kristnum, hvítum íbúum Þýskalands. Falsrökin um að beiting kjarnorkusprengju væri réttlætanleg til að afstýra mögulegu mannfalli í hernaði áttu greinilega ekki við í Evrópu. Í ljósi þessa liggur beint við að álykta að valið á skotmörkum fyrir sýnissprengingarnar hafi byggst á rasískum sjónarmiðum.

Nokkuð ber á því að þeir sem fjalla um þessa sögu, reyni að bera blak af þeim mönnum sem tóku ákvörðunina um fjöldamorðin. Er þá stundum gripið til þeirra raka að hana beri að skilja í ljósi aðstæðna, að stærð hamfaranna hafi ekki verið mönnum ljóst eða drápin virst léttvægari í ljósi hörmunga stríðsins. En sú málsvörn er máttlaus, því af umræðum þeirra manna sem ákvörðunina tóku sést að þeir skildu fyllilega umfang þeirra glæpaverka sem þeir ætluðu að fremja. Sprengjurnar sem féllu á Hiroshima og Nagasaki voru stærsta opinbera aftaka sögunnar. Slíka glæpi er aldrei unnt að fyrirgefa.

Stefán Pálsso