Á fjögurra ára afmæli Íraksstríðsins efna ýmsir hópar og samtök til baráttusamkomu í Austurbæ, þar sem stríðsrekstrinum og stuðningi Íslands er mótmælt.
Stundin: Mánudagskvöldið 19. mars, kl. 20
Staðurinn: Austurbær (gamla Austurbæjarbíó)
Dagskráin:
Ávörp: Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Helgi Hjörvar
Tónlistaratriði: XXX Rottweilerhundar, Ólöf Arnalds & Vilhelm Anton Jónsson
Upplestur: Bragi Ólafsson
Kynnir: Davíð Þór Jónsson
Aðstandendur: Hinir staðföstu stríðsandstæðingar
Samtök hernaðarandstæðinga
MFÍK
Þjóðarhreyfingin – með lýðræði
Ung vinstri græn
& Ungir Jafnaðarmenn
Næstkomandi þriðjudag, 20. maí, verða liðin fjögur ár frá innrásinni í Írak, innrás Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri ríkja með fulltingi lufsulegra þýja, svokallaðra viljugra eða staðfasta ríkja, eins og íslensku ríkisstjórnarinnar undir forystu Davíð Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar – og megi skömm þeirra lengi uppi vera. Nú, fjórum árum seinna, líður varla sá dagur að ekki berist fréttir af því að tugir óbreyttra borgara falli eða örkumlist – þessar fréttir eru farnar að líða hjá skynfærum hins almenna borgara rétt eins og fréttirnar af Nasdaq-vístölunni. Það verður ekki framhjá því litið að íslenska ríkisstjórnin er samábyrg vegna dauða og örkumla hundruð þúsunda almennra borgara í Írak auk hermanna frá ýmsum löndum.
Þessi innrás hófst þrátt fyrir mestu mótmælaaðgerðir sögunnar. Kannski má segja að mótmælaaðgerðir vegna Víetnamstríðsins hafi verið meiri, en aldrei hafa verið jafn víðtækar og fjölmennar mótmælaaðgerðir á jafnstuttum tíma og voru veturinn 2002 til 2003. Ekki tókst þó að koma í veg fyrir innrásina. Verkinu er því ekki lokið. Rétt eins og mótmæli á Vesturlöndum áttu sinn þátt í að binda endi á Víetnamstríðið getum við hugsanlega lagt okkar að mörkum til að stytta þann hörmungartíma sem rann upp í Írak með innrásinni 20. mars 2003 – og var raunar hafinn miklu fyrr með viðskiptabanninu í kjölfar fyrra Persaflóastríðsins.
Sem betur fer er hreyfingin, sem varð til gegn þessu stríði, enn í fullu fjöri. Víða um heim eru ýmiskonar aðgerðir nú þessa dagana. Hér skulu nefndar aðgerðir í Bandaríkjunum og nokkrum Evrópulöndum:
Bandaríkin: Mótmælafundur við Pentagon í Washington laugardaginn 17. mars. Sjá A.N.S.W.E.R. Á heimasíðu United for Peace and Justice er listi yfir fyrirhugaðar aðgerðir á meira þúsund stöðum í Bandaríkjunum.
England: Á Englandi hefur að undanförnu farið saman barátta gegn endurnýjun Trident-kjarnorkusprengjuflauganna, gegn Írakstríðinu og þátttöku Breta í því og gegn áformum Bandaríkjamanna um innrás í Íran.
Miðvikudaginn 14. mars voru mótmæli gegn endurnýjun Trident-flauganna.
Þriðjudaginn 20. mars verður svokallað almannaþing í London til að ræða Írak, fyrirhugaða innrás í Íran og utanríkisstefnu Bretlands eftir Blair. Sjá Stop the War Coalition og Campaign for Nuclear Disarmament.
Rétt er að geta þess að 27. janúar voru gífurlega fjölmennar mótmælaaðgerðir í Washington gegn stríðinu, talið er að allt að hálf milljón manns hafi tekið þátt í þeim og 24. febrúar tóku allt að 100 þúsund manns þátt í mótmælaðgerðum í London.
Danmörk laugardaginn 17. mars:
útifundir í Álaborg, Árósum, Óðinsvéum, Kaupmannahöfn og Rönne.
Allir danskir hermenn heim, nú!
Sjá Nej til krig.
Svíþjóð laugardaginn 17. mars:
útifundir í Stokkhólmi, Gautaborg, Málmey og víðar.
Bandaríkin út úr Írak.
Nätverket Mot Krig.
Írland laugardaginn 24. mars: Írland láti af stuðningi við stríðið, bandaríski herinn burt frá Shannon-flugvelli! Irish Anti War Movement
Belgía sunnudaginn 18. mars. Útifundur í Brussel. Stop USA, Coordination Nationale d’Action pour la Paix et la Démocratie, Mother Earth.
Grikkland laugardaginn 17. mars: 17 Μάρτη, Πανελλαδικό Αντιπολεμικό Συλλαλητήριο, Αθήνα, Πλ. Συντάγματος 2:00 μμ. www.stop-the-war.gr
Ítalía laugardaginn 17. mars: útifundur í Róm. Þar er lögð áhersla á að Ítalir dragi herlið sitt til baka frá Afganistan, en það hefur verið deilumál þar að undanförnu. 17 MARZO A ROMA P.za della Repubblica ore 15 MANIFESTAZIONE NAZIONALE per il ritiro delle truppe dall’Afghanistan e da tutti i fronti di guerra. Confedarazione Cobas
eftir Einar Ólafsson
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 17. mars 2007
Eina hugsanlega leiðin til að binda enda á sívaxandi ofbeldi í Írak er að bandaríski herinn hverfi á braut ásamt herliðum annarra svokallaðra viljugra ríkja. Jafnframt verða bandarísk fyrirtæki að draga starfsemi sína úr landinu, fyrirtæki eins og Halliburton, Bechtel og olíufyrirtækin sem nú eru að leggja undir sig olíuvinnslu í landinu.
Meginástæða ofbeldisins er innrás og hernám Bandaríkjanna. Það er sama hversu mikið herlið Bandaríkjamenn senda til Írak, þau hryðjuverk sem þar eru framin dag hvern verða ekki stöðvuð með hervaldi því að hryðjuverkin eru vopn hins valdalausa gegn hervaldinu. Þótt ekki sé rétt að kenna villimannsleg hryðjuverk, sem valda fyrst og fremst limlestingum og dauða almennings, við frelsisbaráttu er það samt vafalaust að innrás og hernám Bandaríkjanna í Írak er orsök þessa ástands.
Engin von er þó til að ofbeldinu linni sjálfkrafa þótt Bandaríkjamenn hverfi á braut ásamt þýjum sínum. Átökin eru orðin miklu flóknari en svo. En þá fyrst, þegar Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hverfa á brott, verður hægt að byrja að vinna að friði. Þá verða Bandaríkjamenn að halda sig til hlés en láta önnur ríki, ríkjasambönd eða yfirþjóðleg samtök og stofnanir, sem á engan hátt komu að innrásinni, svo sem Sameinuðu þjóðirnar (en ekki NATO sem er undir forystu Bandaríkjanna), gangast fyrir friðarumleitunum í Írak og að þeim verða allir innlendir aðilar að koma.
Nú er ekki líklegt að Bandaríkjamenn muni fallast á þetta, af því að það er ekki meginmarkmið þeirra að koma á friði, lýðræði og stöðugleika í Írak. Það sem fyrst og fremst vakir fyrir þeim er að ná ítökum í landinu meðal annars til að ná yfiráðum yfir olíuframleiðslunni. Þó að mikilvægt sé fyrir þá að koma á friði er þeim meira virði að halda ítökum sínum.
Alþjóðasamfélagið svokallaða verður því að þrýsta á Bandaríkin að hverfa frá Írak. Og þar gegna hin svokölluðu viljugu ríki mikilvægu hlutverki. Meðal þeirra er Ísland. Íslenska ríkisstjórnin getur alls ekki sagt að hún hafi haft rangar upplýsingar þegar hún ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrásina. Ef svo var, þá var utanríkisráðuneytið engan veginn starfi sínu vaxið. Mjög trúverðugar upplýsingar lágu fyrir um að sáralitlar líkur væru á að gjöreyðingavopn væru til í Írak og vopnaeftirlitsmenn báðu um aðeins lengri frest til að sannreyna það sem lá næstum ljóst fyrir. Aðrar ástæður, sem tíundaðar hafa verið, eru jafnfráleitar. Jafnframt lágu fyrir skýrslur frá ýmsum viðurkenndum aðilum um hugsanlegar afleiðingar innrásar þar sem spáð var miklum hörmungum. Það eina sem íslensk stjórnvöld geta gert núna er að skammast sín og lýsa því yfir að þessi stuðningur hafi verið mistök. Jafnframt verða þau að horfast í augu við ábyrgð sína á þeim hörmungum sem dunið hafa yfir írösku þjóðina frá því að innrásin hófst (látum viðskiptabannið og allt sem því fylgdi liggja milli hluta að sinni). Síðan ætti ríkisstjórnin að hafa frumkvæði að því að fá önnur „viljug ríki“ til að gera hið sama og snúa sér svo sameiginlega til bandarískra stjórnvalda og krefjast þess að þau hverfi frá Írak, bæði með her og bisness, svo hægt verði að fara að vinna að friði. Loks ber Íslendingum að opna landið fyrir íröskum flóttamönnum, því að hverjir eiga að gera að ef ekki þeir sem bera ábyrgð á ástandinu?
Recent Comments