Kæru harðkjarna-friðarsinnar! Það er ánægjulegt að sjá hversu mörg við erum hér saman komin í aðdraganda hátíðar ljóss og friðar, þrátt fyrir gula veðurviðvörun.
Vissulega hefði legið beint við að tala hér um yfirstandandi þjóðarmorð Ísraels á Palestínufólki en það get ég ekki. Mér líður eins og Kristínu Ómarsdóttur rithöfundi, sem skrifar sögur um formæður sínar sem lifðu á átjándu og nítjándu öld, hún segir að það sé einfaldara en að skrifa um samtímann. Í viðtali um daginn sagði Kristín: Maður hefur ekki tök á orðunum til að lýsa því sem er að gerast á Gaza. . .
Nýlega kynntu íslensk stjórnvöld drög að varnar- og öryggismálastefnu fyrir Ísland. Varnar og öryggismálastefnu! Hún veldur áhyggjum, m.a. vegna þess að hún gerir ráð fyrir aukinni og umtalsverðri þátttöku Íslendinga í vopnakaupum. Merkilegt, því það er ekki það sem almenningur vill!
Í stefnudrögunum er kveðið á um mikla aukningu fjárútláta til varnar- og öryggismála. En hvaðan verða þeir fjármunir fengnir? Varla með aukinn skattheimtu? Er ekki líklegra að þeir verði teknir frá grunnstoðum samfélags okkar; heilbrigðis- og velferðarkerfunum, eða mennta- og menningarstofnunum okkar? Viljum við það?
Stjórnvöld segjast með stefnunni vera að bregðast við þeim ógnum sem að okkur steðja, en hvaða ógnir eiga þau við? Tala þau nægilega skýrt? Og eru þau alveg heiðarleg gagnvart okkur? Og hvaðan kemur þeirra leiðsögn?
Í umfjöllun Dagfara um stefnudrögin segir að Ísland gerði mun betur í að vera kröftug rödd friðar- og afvopnunar, fremur en að vera veikasta tístið í kór hervelda.
Síðustu ár hef ég varið starfskröftum mínum í starf á vettvangi samtaka launafólks. Það er gefandi starf og spannar vítt svið. Það eru ekki ný sannindi, en verkalýðshreyfingin er öðru fremur mannréttindahreyfing. Hún á rætur sínar í mannréttindabaráttu og reyndar líka baráttu fyrir lýðræði og friði.
Norrænt samstarfsnet samtaka launafólks (NFS) hélt fyrir skemmstu málþing um ógnirnar sem stafa að lýðræðinu um þessar mundir. Einn frummælenda var framkvæmdastjóri Alþjóðasambands verkalýðsfélaga (ITUC), Luc Triangle, og það sem situr mest í mér af því sem kom fram í máli hans er það sem hann sagði um stríð og frið. Hann sagði: Hættum að fjárfesta í hernaði – Fjárfestum í friði!
Opnum augu okkar fyrir því að með því að fjárfesta í hernaði sköpum við hættu fyrir fólkið sem verður fyrir barðinu á hernaðaraðgerðunum. Þannig færumst við áratugi aftur í tímann, á vit kalda stríðsins og kjarnorkuógnanirnar sem ég og mínir jafnaldrar ólumst upp við. Viljum við það?
Alþjóðasamband verkalýðsfélaga hefur um árabil unnið ötullega að vitundarvakningu um alvarlegar lýðræðisógnir, sem stafa, ekki bara að þeim ríkjum þar sem lýðræði stendur nokkuð traustum fótum, heldur ekki síður að þeim sem búa við hálfgildings lýðræði . Ógnir þessar eru bæði af pólitískum og hernaðarlegum toga. Þær birtast einna helst í vaxandi bandalagi milljarðamæringa, vopnaframleiðenda og andstéttarfélagslegra stórfyrirtækja, – fyrirtækja sem kynda undir hervæðingu, öfgahægri stjórnmálum og árásum á lýðræðið. Stjórnendur slíkra fyrirtækja hafa komið ár sinni þannig fyrir borð að þeir eiga sæti í innsta hring með ráðamönnum um allan heim sem um þessar mundir endurmóta valdakerfi heimsins.
Á lista Alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga yfir fyrirtæki, sem þarf að hafa auga með í þessu sambandi, eru nokkur sem eiga það sameiginlegt að styðja atlögu að réttindum launafólks, félagslegum verndarkerfum og lýðræðislegum stofnunum og skapa þannig heim sem þjónar einkahagnaði á kostnað fólks og Móður Jarðar.
Framkvæmdastjóri Alþjóðasambands verkalýðsfélaga sagði líka á málþinginu um daginn:
„Við erum vitni að valdaráni milljarðamæringa gegn lýðræðinu. Þeir sem græða á stríði, kúgun og ójöfnuði nota nú auð sinn og áhrif til að setja reglur alþjóðahagkerfisins“ Viljum við það?
Ógnirnar eru vel sýnilegar, við sjáum fyrirtæki sem tvinna saman hernaðaraðgerðir og alþjóðlegt gervihnattaeftirlit.
Fyrirtæki sem eru burðarásar nútíma eftirlitsinnviða, en með sterk tengsl við innflytjendaeftirlit og einræðisstjórnir.
Fyrirtæki sem þróa sjálfvirk vopn og eftirlitskerfi og lýsa fyrirlitningu á opinberu aðhaldi.
Fyrirtæki sem vinna að hervæðingu gervigreindartækja, magna upp hægri áróður og reka pólitíska hentistefnu.
Fyrirtæki sem hagnast á þróun kjarnavopna og eyða fúlgum fjár í að grafa undan vopnaeftirliti alþjóðastofnana.
Fyrirtæki sem hagnast á gríðarstórum varnarsamningum á sama tíma og þau styðja öfgahægri öfl og bæla niður verkalýðsfélög.
Fyrirtæki sem fjárfesta í kjarnavopnum og nota lífeyrissparnað launafólks til að fjármagna andlýðræðislegan áróður um vald stórfyrirtækja.
Á sama tíma og fyrirtæki af þessu tagi kynda undir hernaði, grafa af afli undan alþjóðastofnunum, sérstaklega stofnunum Sameinuðu þjóðanna, og hatast út í frjáls félagasamtök.
Þættir Ríkisútvarpsins um konungssinnana í Kísildal voru framleiddir í upphafi árs og eru eru nú endurteknir. Okkur þóttu þeir lygilegir þegar þeir fóru fyrst í loftið, en finnum núna að veruleiki konungssinnanna, sjónarmið þeirra og áróður, eru að ná tökum á stjórnmálamönnum um víða veröld og þar með efnahagskerfi heimsins.
Hættumerkin eru augljós!
Alþjóðasamband verkalýðsfélaga kallar eftir brýnum umbótum til að hemja áhrif stórfyrirtækja, gera stofnanir lýðræðislegri og seigari og setja sameiginlegt öryggi fólks um allan heim ofar hervæðingu. Ákallið er skýrt og fjöldi frjálsra félagasamtaka um samfélagsmál hefur tekið undir!
En þó við tökum undir það, hvað getum við gert?
Við getum staðið saman um kröfur til íslenskra stjórnvalda um að:
Hvetjum íslensk stjórnvöld til að fjárfesta í friði!
-Kolbrún Halldórsdóttir
Frá árinu 1980 hafa íslenskar friðarhreyfingar staðið fyrir friðargöngu niður Laugaveginn á Þorláksmessu til að leggja áherslu á kröfuna um afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Gangan í ár fer fram í skugga blóðugra hernaðarátaka víða um veröldina og vaxandi hernaðarhyggju sem birtist meðal annars í hugmyndum um stórfellda vígvæðingu og
hernaðarútgjöld. Kerfisbundið er grafið undan alþjóðlegum
afvopnunarsamningum og ráðamenn heimsins gæla við beitingu
kjarnorkuvopna. Það hefur því sjaldan verið brýnna að ganga fyrir friði.
Í Reykjavík verður safnast saman milli Snorabrautar og Hlemms og á
slaginu 18:00 mun gangan leggja af stað niður Laugaveginn undir söng kórs Söngfjelagsins sem Hilmar Örn Agnarsson stjórnar. Á Austurvelli verður stuttur útifundur þar sem Kolbrún Halldórsdóttir flytur ávarp. Fundarstjóri verður Askur Hrafn Hannesson. Fjölnota ljós sem ganga fyrir rafhlöðum verða seld í göngubyrjun á 1000 kr. stykkið og er göngufólk hvatt til að taka þau með sér heim eða skila aftur til endurvinnslu að göngu lokinni.
Vilji fólk styrkja gönguna um jafngildi eins kertis er hægt að gera það með því að smella hér.
Á Ísafirði og Akureyri verða göngur á sama tíma. Ísfirðingar safnast saman við Ísafjarðarkirkju og ganga að Silfurtorgi. Á Akureyri verður gengið frá Samkomuhúsinu að Ráðhústorgi. Ræðumaður á Akureyri er Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, formaður Vonarbrúar.
Friðargangan í Reykjavík er haldin á vegum Samstarfshóps
friðarhreyfinga. Hann skipa ýmis félagasamtök:
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
Búddistasamtökin SGI á Íslandi
Recent Comments