Skip to main content

Samkomulag um gagnflaugastöð undirritað í Prag

By Uncategorized

petice top en


    Undirskriftasöfnun gegn gagnflaugastöð í Tékklandi

    Lauslega þýðing yfirlýsingarinnar sem skrifað er undir:

    „Ég mótmæli uppsetningu bandarískrar herstöðvar í Tékklandi, sem er hluti af gagnflaugakerfi þeirra (National Missile Defense – NMD). Þessar fyrirætlanir ýta undir spennu á alþjóðvettvangi, stuðla að nýju vígbúnaðarkapphlaupi og eru fyrsta skrefið í hervæðingu geimsins og yfirráðum þar. Þar eð tveir þriðju hlutar íbúa Tékklands eru andvígir þessum fyrirætlunum tel ég sanngjarnt að tékkneska þjóðin fái að taka ákvörðun um svo mikilvægt mál með þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Von var á Condoleezu Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna í dag, 8. júlí, til Prag til að undirrita samkomulag um radarstöð í Tékklandi, sem á að þjóna gagnflaugakerfi Bandaríkjanna. Mikil andstaða hefur verið í Tékklandi gegn þessum fyrirætlunum. Samkvæmt skoðanakonnunum eru um 70% þjóðarinnar andvíg þeim, sveitastjórnir í nágrenni við fyrirhugaða radarstöð hafa mótmælt, öflug samtök hafa orðið til og víða um heim hefur verið efnt til ýmiskonar aðgerða til stuðnings andófinu í Tékklandi. Í dag verður efnt til mótmælafundar í Prag. Og andófinu verður væntanlega haldið áfram þótt samkomulagið verði undirritað í dag. (sjá Reuters 8. júlí)

En á sama tíma og tékkneskir ráðamenn halda sínu striki þvert gegn vilja meirihluta þjóðarinnar hafa málin snúist í Póllandi, þar sem hin nýja ríkisstjórn Donalds Tusk er ekki jafn leiðitöm Bandaríkjunum og fyrri stjórn var. Að vísu hefur hún snúist ekki alfarið gegn þeim áformum sem þar voru um að setja upp herstöð sem á að verða önnur aðalstoð gagnflaugakerfisins í austanverðri Evrópu, en setti þó þau skilyrði að fá umtalsverðan styrk frá Bandaríkjunum til að byggja upp loftvarnir sínar. Samningaviðræður milli ríkjanna fóru út um þúfur síðastliðinn föstudag þar sem Bandaríkjamönnum þóttu kröfur Pólverja óhóflega miklar. Þó má búast við að viðræður verði teknar upp aftur, en Bandaríkin hafa litið til Litháens sem varaskeifu ef allt um þrýtur. Í Póllandi hefur líka verið allmikil andstaða gegn þessum fyrirætlunum, þótt hún jafnist ekki á við andstöðuna í Tékklandi. (Sjá Reuters 4. júlí 2008)

Forsætis – og utanríkisráðherrar Íslands hafa í raun lagt blessun sína yfir þessa gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna með þátttöku sinni á leiðtogafundi Bandaríkjanna í Búkarest í vor og þegjandi samþykki við yfirlýsingu fundarins. SHA sendu ríkisstjórninni nokkrar spurningar vegna þessarar yfirlýsingar, m.a. vegna þessa máls, en hafa engin svör fengið:

    4. Eldflaugavarnir. Í 37. lið yfirlýsingarinnar segir að sá gagnflaugabúnaður, sem Bandaríkin hyggjast koma sér upp, sé mikilvægt framlag til verndar bandalagsríkjunum. Í skoðun sé hvernig tengja megi þessar eldflaugavarnir Bandaríkjanna núverandi viðleitni NATO til eldflaugavarna og tryggja að þær verði hluti af framtíðarskipulagi NATO á þessu sviði. Fastaráði NATO (Council in Permanent Session) er falið að þróa slíkt skipulag þannig að það nái til alls þess svæðis bandalagsins, sem ekki verður dekkað af eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna, og skal leiðtogafundurinnn 2009 taka nánari ákvörðun um þá þróun. Bandaríkin sögðu árið 2002 einhliða upp ABM-sáttmálanum, sem á sínum tíma var talinn mikilvægt skref í átt til kjarnorkuafvopnunar. SHA spyrja því hvort það sé vilji íslensku ríkisstjórnarinnar að NATO taki þátt í þessari viðleitni Bandaríkjanna til að grafa undan frekari árangri á sviði kjarnorkuafvopnunar. SHA vísa jafnframt til mikillar andstöðu bæði í Póllandi og Tékklandi, þar sem áætlað er að koma upp aðstöðu vegna þessa gagnflaugabúnaðar Bandaríkjanna.“

Sjá nánar:

Samtök herstöðvaandstæðinga í Tékklandi – Iniciativa NE základnám
Gegn ofbeldi – Nenásilí
Evrópa til friðar – Europe for Peace

Umfjöllun á Friðavefnum um þetta mál:

Rússar og NATO í nýtt kalt stríð?
Alþjóðleg ráðstefna í Prag gegn hervæðingu Evrópu
Evrópa án kjarnavopna
Mikil andstaða í Tékklandi gegn fyrirhugaðri gagnflaugastöð
Undirskriftasöfnun gegn bandarískum herstöðvum í Tékklandi

30. mars 1949

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Jóns Böðvarssonar og Þorvarðar Helgasonar birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2008. Við leyfum okkur að endurbirta þessa grein hér á Friðarvefnum, sem og athugasemd Sveins Snorrasonar sem birtist einnig í Morgunbalðinu 1. júlí.

Fáeinir menn sem tilheyrðu ekki mótmælendahópnum 30. mars 1949 gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, en ekki að Alþingishúsinu, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar sem engum skaða ollu, en líklega er rétt að einn þeirra hafi brotið rúðu í húsinu.
Þessi nánast kyrri hópur var til lítilla vandræða – og hefði áreiðanlega leyst upp ef lögregla hefði tilkynnt niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og þar með gerðan hlut sem ekki þýddi lengur að mótmæla á þessum vettvangi. Að vísu voru sögð einhver orð í hátalara en þau voru óskýr, heyrðust illa og höfðu engin áhrif.

Næst gerðist að dyr Alþingishússins opnuðust og út braust „hvítliðið“, öskrandi og veifandi kylfum. Grunlaust fólkið var fyrst felmtri slegið en snerist svo til varnar sem best það gat, bæði mótmælendur og stuðningsmenn samþykktarinnar, sem fjölmennir voru í hópnum, því þetta var aðför, fólki fannst sér misboðið.

Eftir útrásina, árásina úr Alþingishúsinu, kom svo táragassprengja lögreglu, þá sveið í augu undan gasinu og smám saman leystist allt upp og Austurvöllur varð nær mannlaus eftir að flestir forðuðu sér.

Þegar horft var til baka yfir atburðarásina kom í ljós mynstur, kerfi.

Augsýnilega var stefnt að árekstri, óeirðum. Við fréttum seinna að forystumaður sósíalistaflokksins hefði kvöldið áður sett af stað upphringingar til flokksfólks og beðið það að hafa hægt um sig á morgun því í uppsiglingu væri ögrun (provocation). Hann þekkti slíkt frá námsárunum í Þýskalandi eftir fyrra stríð. Það var augljóslega „system i galskabet“ – sem til allrar hamingju virkaði illa.

Á næsta ári verða 60 ár liðin frá þessum atburði. Hvernig væri ef ungir sagnfræðingar legðu nú saman og greindu ástæður, atburðarás og ekki síst dómana. Fyrir hvað voru menn dæmdir o.s.frv. Einhverjir „hvítliðanna“ lifa enn, við munum eftir tveimur skólabræðrum okkar úr MR. En áreiðanlega eru þeir fleiri sem enn anda – og gætu leyst gátuna um þjálfun „hvítliðanna“ eins og við kölluðum þá.

JÓN BÖÐVARSSON,
Lundarbrekku 8, Kópavogi.

ÞORVARÐUR HELGASON,
Safamýri 67, Reykjavík.

30. mars 1949

Blessaðir friðarboðarnir, Jón Böðvarsson og Þorvarður Helgason, rita í Morgunblaðinu í gær (26. júní sl. með samnefndri fyrirsögn) saman hrifnæma hugvekju um saklausan leik, fáeinna manna, „sem ekki tilheyrðu mótmælendahópnum 30. mars 1949, er þeir gerðu sér það til gamans að kasta eggjum og moldarkögglum að unga fólkinu á gangstéttinni, en ekki að Alþingishúsinu, og því miður fylgdu nokkrir smásteinar, sem engum skaða ollu, en líklega er rétt, að einn þeirra hafi brotið rúðu í húsinu.

Þessi nánast kyrri hópur var til lítilla vandræða- og hefði áreiðanlega leyst upp ef lögregla hefði kynnt niðurstöðu atkvæða-greiðslunnar og þar með gerðan hlut, sem ekki þýddi lengur að mótmæla á þessum vettvangi.“

Getur það verið að þeir félagar fari hér með rétt mál, að lýsingar þeirra á atburðarás standist, að þeir hafi verið í aðstöðu til að greina að þá fáeinu gamansömu eggjamenn frá hinum raunverulega mótmælendahópi 30. mars 1949, og hafi þess vegna getað dregið þá ályktun að þessi raunverulegi mótmælendahópur hefði bara farið heim, ef hann hefði fengið fréttir af atkvæðagreiðslunni!? Hvorum hópnum skyldu þeir Jón Bö og Holli, eins og þeir voru þá kallaðir, hafa tilheyrt, gamansömu eggjakösturunum eða þeim raunverulegu mótmælendum? Spyr sá, er ekki veit. Ég hlýt að setja stórt spurningarmerki við atvikalýsingu þeirra.

Veit ekki vegna þess, að einmitt á þeim tíma, sem þeir félagar, Jón og Þorvarður, lýsa gamansama eggja- moldarköggla- og grjótkastinu að unga fólkinu á gangstéttinni sem líklega leiddi til rúðubrots í húsinu, var ég sem þingritari ásamt Ólafi Jónssyni, frá Austvaðsholti, að rita fundargerð um eina dagskrármálið, atkvæðagreiðsluna. Skrifborð okkar þingritaranna var þá staðsett beint framan við forsetastól og þingskrifara, þar sem ræðupúlt þingmanna er staðsett í dag.

Hitt veit ég, að áður en atkvæðagreiðslu og þingfundi var lokið, barst stærðar hraunhnullungur með miklu brothljóði gegnum rúðu að baki forsetastóls, flaug yfir stól forseta, en Guðs mildi að hann hæfði ekki forseta í höfuðið, en lenti síðan með miklu brauki á borðinu milli okkar Ólafs og þaðan út á gólf. Ég er ansi hræddur um að sá okkar sem fengið hefði hraunhnullunginn í hausinn hefði ekki þurft að kemba hærurnar.

Hraunhnullungurinn var ekki ætlaður ungu fólki á gangstétt. Skeytinu var beint að Alþingi og bersýnilega ætlað að trufla störf þingsins með svipuðum hætti og reynt hafði verð kvöldið og nóttina áður.

Sjálfsagt eiga sagnfræðingar framtíðarinnar eftir að fjalla heilmikið um 30. mars 1949. Þá verður þess þó að vænta að vandað verði til öflunar heimilda um þá atburði sem þar urðu, aðdraganda og ástæður þeirra, svo að afkomendur okkar fái sem skýrasta og raunsannasta mynd af því, sem þá gerðist, orsakir þess og afleiðingar.

SVEINN SNORRASON,

Faxatún 1 Garðabæ.

Af vörnum landsins

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Rúnars Sveinbjörnssonar birtist í vefritinu Ögmundur.is 16. júní 2008

Nú er búið að stofna varnarmálaráðuneyti. Hver óvinurinn er gegnir öðru máli. Nefndir hafa verið til sögunar Rússar, Talibanar, hryðjuverkamenn og ef til vill fleiri.

Í dag er Ísland þátttakandi í árásarstríði í Afganistan og í hópi hinna viljugu í hernámi Íraks. Með vitlausri utanríkisstefnu er vissulega hægt að eignast óvini en þó er ég nokkuð viss að það muni þá helst bitna á fyrirtækjum, sendiráðum og Íslendingum erlendis. Ekki hef ég heyrt að milljarðarnir eigi að fara í annað en eltingarleik við fornar rússneskar flugvélar og er þetta brölt kallað loftrýmisgæsla eða einhvað enn vitlausara.

Í sömu viku og varnarmálaráðuneytið er opnað ríður jarðskjálfti yfir Suðurland. Í viðtali við Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðing kemur fram að hugsanlega hefði verið hægt að sjá fyrir um jarðskjálftann nokkrum stundum fyrr ef veðurstofan hefði fengið fé til að klára uppbyggingu hugbúnaðar sem les fljótt og rétt úr þeim upplýsingum sem fram komu í aðdraganda skjálftans, út frá þeim rannsóknum og gagnasöfnum sem til eru.

Í mínum huga er það óvéfengjanlegt að helsti óvinur Íslendinga eru náttúruöflin: jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð, sjávarflóð, ofsaveður og fleira. Varnir Íslands eru fólgnar í að verja okkur fyrir náttúruöflunum, að svo miklu leyti sem það er hægt. Hver mínúta getur verið dýrmæt og bjargað mannslífum.

Það er dapurlegt að heyra af óánægju og uppsögnum hjá stofnun eins og Veðurstofunni, vegna sparnaðar og rangra stjórnunarhátta, þegar hægt er að eyða óendanlega miklu í hégóma og hernaðarbrölt. Ísland á að vera í forystu í náttúruvísindum og væri það veglegt framlag til friðar og mannúðarmála. Þar eiga milljarðarnir heima.

Ísland úr Nató.
Leggjum varnarmálaráðuneytið niður þegar í stað og verjum sameiginlegum fjármunum okkar í þágu friðar og framfara.