Ávarp á kertafleytingu

By 08/08/2008 August 10th, 2008 Uncategorized

Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður flutti ávarp á kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn miðvikudaginn 6. ágúst. Það fylgir hér á eftir:

Við erum hér saman komin til að minnast þeirra sem fórust í þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjunum á Hiroshima og Nagasagki fyrir ríflega 60 árum. En einnig til að láta í ljós vilja okkar til baráttu fyrir friði í heiminum og fyrir því að kjarnorkuáætlanir herveldanna verði upprættar fyrir fullt og allt. En ógnin af kjarnorkuvopnakapphlaupinu tvinnast óhjákvæmilega saman við annað kjarnorkukapphlaup, ekki síður ógnvænlegt fyrir þjóðir heims og móður jörð. Mig langar að deila með ykkur reynslusögu:

Umhverfis- og auðlindanefnd Norðurlandaráðs fór í ferð til Hvíta Rússlands og Úkraínu dagama 24. – 27. júní síðastliðinn. Tilgangurinn var að skoða ummerkin eftir kjarnorkuslysið í Tsérnóbyl. Ástæðan sú að nefndin óttast þær raddir sem gerast nú æ háværari að kjarnorkan sé hluti af lausninni á loftslagsvanda veraldarinnar og eigi því að flokkast með „umhverfisvænum orkugjöfum“. Ófyrirleitin þversögn!

Kl. 1:23 að morgni 26. apríl 1986 fór öryggisprófun í kjarnaofni nr. 4 í kjarnorkuverinu í Tsérnóbyl herfilega úrskeiðis, með þeim afleiðingum að tvær sprengingar urðu í ofninum. Við það losnaði hundrað sinnum meiri geislun út í umhverfið en af samanlögðum sprengjunum sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki rúmum 40 árum áður. Geislavirkt úrfelli varð 30 – 40 sinnum meira.

Stjórnvöld í Sovétríkjunum ákváðu að segja ekki frá slysinu strax. Þóttust ekki vilja trufla 1. maí hátíðarhöldin, sem voru í uppsiglingu og stefndu að því að milljónir manna færu út á götur og torg, óvarin fyrir geisluninni. Ef einhver glóra hefði verið í mönnum, þá átti að hefja brottflutning fólks úr nærliggjandi þorpum og borgum umsvifalaust. En það var ekki fyrr en boð komu frá Svíþjóð, þar sem geislunarinnar varð fyrst vart, að yfirvöld áttuðu sig á því að þau gætu ekki þagað. Í Svíþjóð héldu menn að eitthvað hefði komið upp á í þeirra eigin kjarnorkuverum, en fljótt kom í ljós að svo var ekki. Þá bárust böndin að nágrannalöndunum hinu megin við Eystrasaltið, Baltnesku löndunum, en þar er fjöldi kjarnorkuvera og á endanum alla leið til Úkraínu; Tsérnóbyl.

Sprengingin reif gat á húsið yfir kjarnaofninum. Slökkviliðsmennirnir sem börðust við eldana vissu fyrst í stað ekki við hvað var að fást. Þeir báru sig að eins og um eld í venjulegu raforkuveri væri að ræða. Þeir höfðu enga kunnáttu í að fást við kjarnorkuslys og voru ekki varaðir við neinu. Eini hlífðarfatnaðurinn sem þeir höfðu aðgang að var ætlaður til að takast á við slys í efnaiðnaði. Í honum var engin vörn. Menn önduðu að sér geislavirkum eiturgufum án þess að vita að reykurinn væri geislavirkur. Vladimir Pravik „Mischa“ er tákn fyrir þá sem börðust við eldana. Hann lést 8. maí, ellefu dögum eftir að ofninn sprakk. Við heimsóttum minnismerki um hann í Brahin. Þar eru líka nöfn félaga hans, u.þ.b. 40 talsins, sem allir eru látnir.

Enginn veit með vissu hversu margir létust. Engir áreiðanlegir listar eru til um það. Sumar tölur segja að á bilinu 25.000 til 100.000 björgunarmenn hafi látið lífið vegna geislavirkni. Víst er að tíðni skjaldkirtilssjúkdóma og krabbameina jókst gríðarlega og lagðist jafnt á börn sem fullorðna. Svo kom að því, eftir fá ár að stjórnvöld bönnuðu læknum og heilbrigðisstarfsfólki að tengja dauðsföll við áhrif geislunar. Og nú, 22 árum síðar segja þau að tíðni þessara sjúkdóma sé ekki meiri í Hvíta Rússlandi eða Úkraínu en gengur og gerist annars staðar. Ekki verður því á móti mælt að norrænu þingmennirnir leyfðu sér að draga sannleiksgildi þeirra upplýsinga í efa.

Geislunin frá Tsérnóbyl breiddist yfir allt norðurhvel jarðar og hennar verður enn vart víða. Vindáttin var norð-vestanstæð, þess vegna varð Hvíta Rússland verst úti, enda einungis 12 km frá Tsérnóbyl að landamærunum. Í Úkraínu lagðist geislavirkt úrfelli yfir 40% landsins. Nálægt skóglendi í þessum tveimur löndum varð á skömmum tíma svo geislavirkt að trén fengu á sig rauðan lit, líkt og trjánum blæddi. Allur skógur var að endingu hogginn. Menn vissu að það væri ekki óhætt að brenna trjábolina, við slíkan bruna myndi losna enn meira af geislavirkum efnum út í andrúmsloftið. Því var allur geislavirkur gróður grafinn. Víða á svæðinu næst verinu má sjá hauga merkta með gula og svarta merkinu, „geislavirku rósinni“. Þar á rigningavatn greiðan aðgang að þeim og með því losna geislavirk efni út í grunnvatn.

Enn í dag eru 6% lands í Úkraínu menguð og mun stærri svæði í Hvíta Rússlandi. Umhverfis verið er afgirt svæði, frá 30 km upp í 60 km í þvermál. Þangað fer enginn inn án leyfis frá yfirvöldum. Slíkt leyfi fengum við norrænu þingmennirnir og sáum inn í óhugnanlegan heim. Allt iðagrænt, en lífshættulegt af geislavirkni.

Eftir slysið, þó ekki fyrr en á öðrum sólarhring, var fólk flutt tugþúsundum saman út af svæðinu. Borgin Pripyat var rýmd, þar bjuggu 50 þúsund manns. Núna er Pripyat draugaborg eins og þorpin umhverfis hana. Kraftmikill gróðurinn er um það bil að færa þessar menjar um mannlíf á kaf. Geislavirk trén teygja sig til himins eins og þau vilji breiða yfir ummerkin um slysið. Torgið í Pripyat, sem eitt sinn iðaði af lífi, er nú allt úr lagi gengið og gömul skilti sem vísa á veitingahús og bíó hafa skekkst og sum fallið til jarðar. Háar blokkirnar, sem eitt sinn hýstu starfsmenn kjarnorkuversins mega hafa sig allar við að standa uppúr gróðurþykkninu.

En hinu megin við línuna, sem markar bannsvæðið, býr fjöldi fólks í þorpum af ólíkum stærðum. Litlu timburhúsin kúra hvert upp við annað og fólk ræktar garðinn sinn og gripi til að hafa í sig og á. Það er heimilt, en þau mega engar afurðir selja út fyrir svæðið. Á hugann leitar spurningin um „línuna“. Línuna, sem skilur að svæðið sem er óbyggilegt vegna geislavirkni og svæðið hinu megin þar sem fjöldi fólks býr án þess að vera sjálfu sér nógt um nauðsynjar.

Þó 22 ár rúm séu frá slysinu eru áhrif þess enn að koma í ljós.

En stóra verkefnið sem menn standa frammi fyrir er að rífa kjarnaofn 4 og hina þrjá ofnana sem komnir voru í gagnið. Raunar líka ofna nr. 5 og 6, sem standa hálfbyggðir, með byggingakrana trónandi hátt yfir svæðið. Kjarnaofn 4 er undir stálþaki sem reist var til að loka geislunina inni og menn segja að 95% af hinum geislavirka úrgangi sé enn undir þakinu. En okkur var líka sagt að komnar væru sprungur í steypuklumpinn sem ofninn hvílir í, og við sáum að mikil tæring er í þakinu, sem opnar vindum, regni og snjó greiða leið ofan í ofninn.

1997 var stofnaður alþjóðlegur sjóður sem hefur fengið það verkefni að kosta niðurrif kjarnorkuversins. Verkefnið er risavaxið. Fyrst þarf að reisa gríðarlegt hvolfþak yfir ofn nr. 4. Þakið verður reist nokkuð frá ofninum sjálfum, í sleðum sem gera mögulegt að renna því yfir ofninn að smiði þess lokinni. Þakið verður 100 m. hátt, 270 metrar á annan kantinn og 150 á hinn. Kostnaðurinn er stjarnfræðilegur og tímaáætlunin ótrygg. Kannski verður verkinu að fullu lokið 2060. Þá verða 80 ár liðin frá slysinu en geislavirknin verðu enn til staðar, einhvers staðar þar sem við sjáum hana ekki, en móðir jörð finnur fyrir henni. Og fólkið sem hefur allt sitt líf þurft að búa í nábýli við hana finnur fyrir henni.

Það gremjulegasta við þessa vitneskju, sem ég nú hef um Tsérnóbyl slysið, er að stjórnvöld í Hvíta Rússlandi og Úkraínu skuli hafa enn frekari uppbyggingu kjarnorkuvera á prjónunum. Þau sletta í góm og segja: Þetta er alveg öruggt núna; núna erum við búnir að fullkomna tæknina; það verður aldrei aftur Tsérnóbyl!
En það eru ekki bara stjórnvöld í þessum löndum sem eru með fleiri kjarnorkuver í smíðum. Það sama má segja um þjóðir nær okkur, eins og Finna og Pólverja. Í Finnlandi eru m.a.s. áform um að fara að vinna úran úr jarðlögum til að fóðra kjarnorkuverin. Eins og Eystrasaltið sé ekki nógu geislavirkt…..

Nei, við erum ekki örugg! Og við erum langt frá því að vera búin að fullkomna tæknina! Krafan um kjarnorkuvopnalausan heim, sem við undirstrikum með því að koma hér saman í kvöld, er jafnframt krafa um umhverfisvæna orkustefnu fyrir heiminn. Innan hennar rúmast engin kjarnorkuver.

Aldrei aftur Tsérnóbyl!
Aldrei aftur Hiroshima!
Friður fylgi ykkur.