Skip to main content

Mótmæli sem hitta í mark

By Uncategorized

Föstudaginn 1. júlí kl. 12 mun Claudio Bisogniero, varaframkvæmdastjóra Nató halda erindi í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskólans um framtíðarsýn Nató í boði alþjóðastofnunar HÍ og samtakanna Varðberg.is.

Samtök hernaðarandstæðinga vilja af þessu tilefni minna á að Nató er árásargjarnt hernaðarbandalag sem hefur þann tilgang að tryggja hagsmuni nokkurra af ríkustu og voldugustu þjóðum heims og ber ábyrgð á miklum hörmungum víða um lönd.

Erindið hefst kl. 12, en SHA hvetja andstæðinga bandalagsins til að mæta fyrir utan Öskju ekki seinna en 11:40 til að mótmæla þessum leiða gesti. Boðið verður upp á nýstárlega leið til að sýna í verki andúð sína á hernaðarbandalaginu. Verður þar leitað í smiðju blaðamannsins Muntazer al-Zaidi frá Írak sem vakti athygli fyrir nokkrum misserum þegar hann sýndi andúð sína á hernámi Bandaríkjamanna með því að kasta skóm sínum í átt að George W. Bush forseta.

SHA vilja þó árétta að samtökin eru ekki hlynnt því að skóm sé kastað í fólk og dýr. Þess vegna verður komið upp sérstökum skókastbökkum fyrir utan Öskju. Brúklegir kastskór verða á staðnum, þótt gestum sé vitaskuld heimilt að koma með sína eigin skó. (Skíðaskór, tréklossar og skór með stáltá bannaðir.)

Ísland-Palestína í Friðarhúsi, miðvikudag

By Uncategorized

Félagið Ísland-Palestína stendur fyrir spjallkvöldi í Friðarhúsinu (Njálsgötu 87, 101 Reykjavík) næstkomandi miðvikudagskvöld, klukkan 20.00. Rawda og Mohamad Odeh frá Jerúsalem munu þar ræða um málefni sem eru ofarlega á baugi í Palestínu;
* Jerúsalem
* Málefni pólistískra fanga
* Sáttaferlið milli Fatah og Hamas og fleira.

Rawda og Mohamad hafa látið til sín taka í mannréttinar- og frelsisbaráttu Palestínu til margra ára. Þau hafa líka frá persónulegri reynslu að greina, sem nokkrir íslenskir gestir og sjálfboðaliðar sem notið hafa gestrisni þeirra í Palestínu hafa fengið að heyra af.

Allir velkomnir!

Herinn, skólarnir og siðleysið

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga fagna yfirlýsingu Mennta- og menningarmálaráðherra þess efnis að bannað sé að halda kynningarfundi fyrir norska herinn í skólum landsins. Eins og bent hefur verið á, virðast kynningar þessar augljóst lögbrot og vænta samtökin þess að lögreglan muni fara ofan í saumana á þessu máli.

Í umræðunni um norska herinn og skólakynningarnar hafa ýmsir gert tilraunir til að gylla starfsemi hersins. Hinn kaldi veruleiki er sá að endanlegur tilgangur allra herja er að taka þátt í stríði og drepa fólk. Þátttaka í slíkri hernaðarvél er siðferðislega óverjandi og skiptir þar engu máli hvort viðkomandi situr fyrir aftan skrifborð eða gengur um með riffil í hönd.

Mál þetta ætti sömuleiðis að vera áminning til fulltrúa í stjórnlagaráði um nauðsyn þess að taka fram í nýrri stjórnarskrá landsins að ekki megi stofna íslenskan her og skýrt verði tekið fram að Íslendingar megi ekki fara með ófriði á hendur öðrum þjóðum.

Til fróðleiks og upprifjunar hefur Friðarvefurinn tekið saman nokkra tengla um norska herskólamálið:

Fréttir NRK af málinu: fyrri og síðari.

Fyrsta frétt MBL af málinu.

Frétt RÚV um viðbrögð formanns utanríkismálanefndar.

Frétt DV um álit Sigurðar Líndal um lögmæti kynninganna og frétt Vísis um sama mál.

Frétt DV um viðbrögð Samtaka hernaðarandstæðinga.

Smugan birti þessa og þessa frétt um málið.

Frétt NRK af viðbrögðum á Íslandi.