

Íslenskir friðarsinnar hafa allt frá árinu 1985 fleytt kertum í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hírósíma og Nagasakí. Samkomur þessar hafa ýmis farið fram þann 6. ágúst eða 9. ágúst. Að þessu sinni verður Nagasakí-dagurinn, miðvikudagurinn 9. ágúst, fyrir valinu. Fleytt verður á fjórum stöðum á landinu, en rétt er að gæta að því að tímasetningar eru örlítið frábrugðnar frá einum stað til annars, sem skýrist m.a. af því hvenær fer að rökkna á einstökum stöðum.
Í Reykjavík verður safnast saman við suðvesturenda Tjarnarinnar og hefst fleytingin kl. 22:30. Einar Ólafsson skáld og bókavörður flytur ávarp. Eyrún Ósk Jónsdóttir les friðarljóð. Fundarstjóri verður Guttormur Þorsteinsson formaður SHA.
Á Ísafirði koma friðarsinnar saman við Neðstakaupstað á Suðurtanga kl. 22:00. Harpa Henrýsdóttir flytur ávarp.
Á Akureyri verður kertafleytingin við Leirutjörn kl. 22:00. Guðrún Þórsdóttir flytur ávarp.
Austfirðingar láta ekki sitt eftir liggja. Þar verður kertafleyting við Lónið á Seyðisfirði og hefst kl. 22:00.
Stríð eru óásættanleg leið til að útkljá ágreining ríkja eða hópa á milli. Evrópa getur státað af langri sögu siðmenningar og lýðræðis þar sem samvinna og þekkingarleit hafa leitt til stórkostlegra framfara. Við höfum einnig upplifað hrikalegar styrjaldir, átök, sundrungu og ofbeldi. Styrjaldir hafa aldrei leitt annað en hörmungar yfir álfuna og gera það einnig nú.
Stríðið í Úkraínu verður að stöðva tafarlaust með skilyrðislausu vopnahléi. Í kjölfarið þarf strax að ræða og semja um langvarandi frið sem er grunnur að mannréttindum og lýðræði. Friður og framfarir í Evrópu eru sameiginlegt verkefni álfunnar allrar. Þar mega þjóðarleiðtogar ekki láta sitt eftir liggja. Byrjum friðarferlið strax í dag.