Skip to main content

Mótmælandi Íslands, minningarsýning

By Uncategorized

Sem kunnugt er lést Helgi Hóseasson á dögunum, en hann var þjóðkunnur baráttumaður fyrir friði og mannréttindum. Helgi var alla tíð harður andstæðingur stríðsrekstrar og lét sig sjaldan vanta á mótmælafundum gegn hernaði og vígvæðingu, þótt yfirleitt héldi hann sig nokkuð til hliðar við mótmælendahópinn og tjáði afstöðu sína á eigin forsendum.

Samtök hernaðarandstæðinga og Vantrú, félag trúleysingja efna til sameiginlegrar sýningar á heimildarmyndinni Mótmælanda Íslands eftir Þóru Fjeldsted og Jón Karl Helgason, laugardaginn 12. september kl. 15.

Myndin verður sýnd í Friðarhúsi, Njálsgötu 89, með góðfúslegu leyfi framleiðenda. Allir velkomnir.

* * *

Mánudagskvöldið 14. september kl. 20 verður svo staðið fyrir fundi í Friðarhúsi um stöðu mála í hinu stríðshrjáða landi Sri Lanka. Kristján Guðmundsson fv. vopnahléseftirlitsmaður og sérfræðingur um málefni landsins gerir grein fyrir efninu. Nánar auglýst síðar.

Nató reist níðstöng við Akureyrarflugvöll

By Uncategorized

akureyri seidur1 Síðastliðinn laugardag, 22. ágúst, reistu Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi Nató níðstöng við Akureyrarflugvöll.

Þórarinn Hjartarson magnaði þennan seið þegar níðstöngin var reist:

    Heyrið og nemið níð það sem hér er reist og rist.
    Níðinu sný ég gegn orustuflugdrekum þeim sem ógna lofthelgi okkar, og makki íslenskra stjórnvalda þar um.
    Níðinu sný ég gegn hernum sem flugdrekar þessir þjóna og lengi hefur þjáð land vort og þjóð.
    Níðinu sný ég gegn félaginu NATO og allri þess heimsvaldastefnu á norðurhjara og vítt um veröld.
    Á stönginni er þessi rista: „NATO aldri þrífist“.
    Heiti ég á landvættir Íslands til hjálpar að þetta megi eftir ganga.

    Rístum rún á kvistu
    ránfuglum stáls og þjánar,
    öndverð reisi röndu
    regin og Íslands megir:
    Steypi þeim tap fyr stapa,
    stökkvi þeim tjón af Fróni,
    níð þetta allt þá elti
    og ólán á jarðar bóli.

akureyri seidur2




























Fleiri myndir af gjörningnum hafa verið settar inn á fésbókarsvæði SHA:
http://www.facebook.com/search/?q=sha&init=quick#/photo_search.php?oid=45949826268&view=all

Mótmælastaða á Akureyri

By Uncategorized

Mótmælastaða Samtaka hernaðarandstæðinga á Norðurlandi vegna aðflugsæfinga Nató við Akureyrarflugvöll.

Í dag, fimmtudaginn 20. ágúst, sveimuðu bandarískar orrustuþotur yfir Akureyrarflugvelli í svokölluðum aðflugsæfingum. Samkvæmt Varnarmálastofnun eru umræddar æfingar venjubundinn hluti af hinni svökölluðu loftrýmisgæslu Nató. Gjörningurinn er ekki geðslegri fyrir það að hann sé bundinn venju.

Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi óska þess að hernaðarbandalagið Nató muni ekki venja komur sínar til Akureyrar í framtíðinni. Við óttumst þó að herveldin muni ekki verða við ósk okkar, en það er ljóst að heimsvaldasinnar renna hýru auga til olíulinda og samgönguleiða í Norðurhöfum.

Samtökin hafa því ákveðið að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og reisa hernaðarbandalaginu níðstöng til að fyrirbyggja að heimsvaldasinnum verði ágengt í ásælni sinni

Athöfnin fer fram laugardaginn 22. ágúst á suðurbílastæði Akureyrarflugvallar.

Nánari upplýsingar veitir Þórarinn Hjartarson (s. 4624804/thjartar@internet.is)