Skip to main content

Ályktun um kjarnorkufriðlýsingu

By Uncategorized

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á landsfundi SHA sl. sunnudag:

Á dögunum fjölgaði enn í hópi þeirra íslensku sveitarfélaga sem friðlýst eru fyrir geymslu og umferð kjarnorku-, sýkla- og efnavopna. Nú eru einungis þrjú sveitarfélög eftir, sem ekki hafa gert slíkar samþykktir; Grímsnes- og Grafningshreppur, Reykjanesbær og Skútustaðahreppur. Þessar undirtektir eru í samræmi við skýran meirihlutavilja þjóðarinnar, sem ekki vill sjá slík vopn í landinu.

Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga minnir á að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar frá árinu 2009 var gert ráð fyrir því að Ísland og íslensk landhelgi yrði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Fundurinn skorar á Alþingi að standa við stóru orðin og friðlýsa landið fyrir lok kjörtímabilsins.

Ný miðnefnd SHA

By Uncategorized

Ný miðnefnd SHA var kjörin á landsfundi samtakanna í dag, sunnudaginn 2. desember. Hana skipa:

Aðalmenn:

Auður Lilja Erlingsdóttir,

Bergljót Njóla Jakobsdóttir,

Fjóla Dísa Skúladóttir

Helga Þórey Jónsdóttir,

Hildur Lilliendahl,

Sigurður Flosason,

Stefán Pálsson (formaður),

Þorvaldur Þorvaldsson

Þórir Hrafn Gunnarsson 

Varamenn:

Elías Jón Guðjónsson,

Harpa Stefánsdóttir,

Sólveig Anna Jónsdóttir

Ekki er hefð fyrir að gera greinarmun á aðal- og varamönnum í starfi miðnefndar.

Landsfundarhelgi SHA + málsverður

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga standa í stórræðum um þessa helgi.

Föstudagskvöldið 30. nóvember verður fáröflunarmálsverðurinn mánaðarlegi. Glæsilegt jólahlaðborð í Friðarhúsi. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina.

Matseðill:
• Heimalöguð sænsk jólaskinka með kartöflusalati, gulrótarappelsínusalati og sinnepssósu
• Heimagerð lifrakæfa og heimabakað rúgbrauð
• Reykt nautatunga með piparrótarrjóma
• Karrýsíld
• Tómatsalsasíld
• Hnetusteik í boði f. grænmetisætur
• Kaffi og smákökur
Verð kr. 2.000. Borðhald hefst kl. 19.

Að snæðingi loknum lesa Auður Jónsdóttir og Úlfar Þormóðsson úr nýútkomnum bókum sínum og félagar úr Spöðum taka lagið.

* * *

Sunnudaginn 2. desember verður landsfundur SHA haldinn í Friðarhúsi. Dagskrá hefst kl. 11 með venjubundnum aðalfundarstörfum. Einfaldur hádegisverður í boði.

Síðdegis verður rætt um stöðu friðar- og afvopnunarmála á vettvangi Alþingis, þar á meðal störf nefndar um mótun öryggismálastefnu. Árni Þór Sigurðsson úr utanríkismálanefnd gerir grein fyrir stöðu mála.

Fundarlok áætluð um kl. 16.

Landsfundur SHA & uppstillingarnefnd

By Uncategorized

Landsfundur SHA verður haldinn sunnudaginn 2. desember nk. í Friðarhúsi. Skipuð hefur verið uppstillingarnefnd sem gera mun tillögu að fulltrúum í nýja miðnefnd. Vitaskuld er öllum frjálst að bjóða sig fram á fundinum, en áhugasamir eru þó hvattir til að hafa samband við nefndina. Formaður hennar er Einar Ólafsson (einarol@centrum.is) en auk hans sitja Steinunn Rögnvaldsdóttir (steinunnrognvalds@gmail.com) og Kolbeinn H. Stefánsson (kolbeinn@hi.is) í nefndinni.

Meistaramánuður Nató – ályktun frá SHA

By Uncategorized

Eftirfarandi er ályktun frá Samtökum hernaðarandstæðinga og áskorun til utanríkisráðherra Íslands:

Í rúm ellefu ár hefur hernaðarbandalagið Nató staðið fyrir reglubundnum mannskæðum árásum í Afganistan og í seinni tíð einnig í Pakistan, meðal annars með fjarstýrðum hernaðarvélmennum. Mikið mannfall hefur orðið í þessum árásum og gríðarlegur fjöldi almennra borgara misst lífið.

Ljóst er að Nató hefur engan vilja til að hverfa frá þessum hernaði sínum og stríðið í Afganistan teygist áfram út í hið óendanlega. Í ljósi þessa einbeitta drápsvilja bandalagsins, vilja Samtök hernaðarandstæðinga þó koma á framfæri áskorun til utanríkisráðhera Íslands, að hann beiti sér fyrir því á vettvangi bandalagsins að Nató taki upp svokallaðan „meistaramánuð“.

Í „meistaramánuði Nató“, sem gæti sem best verið í desember, myndi bandalagið einsetja sér það að drepa engin börn. Þetta er vissulega djarfhuga markmið í ljósi þess að meira en áratug hefur ekki liðið vika án drápa Nató á almennum borgunum: konum, körlum og börnum. En einu sinni er allt fyrst.

SHA trúa því og treysta að utanríkisráðuneyti Íslands taki vel í tillöguna og beiti sér fyrir henni á vettvangi hernaðarbandalagsins.