Skip to main content

60 ár frá kjarnorkuárásum á Hiroshima og Nagasaki – minningarfundur í Ráðhúsinu

By Uncategorized

Þriðjudaginn 9. ágúst minnast íslenskar friðarhreyfingar þess að 60 ár eru liðin frá því að kjarnorkusprengjum var varpað á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Að venju verður kertum fleytt á Reykjavíkurtjörn og við minjasafnið á Akureyri. Hefjast athafnirnar kl. 22:30. Nánar má lesa um dagskrá þeirra hér að neðan.

Í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur verður samkoma sem hefst kl. 20:30.

Þar mun sænski rithöfundurinn og fræðikonan Monica Braw flytja erindi um afleiðingar árásanna, afdrif fólksins sem lifði þær af og hvernig stjórnvöld í Japan og Bandaríkjunum reyndu að þagga niður umræðu um málið. Monica Braw er einn kunnasti sérfræðingur Norðurlandanna á þessu sviði. Hún bjó í Japan um árabil og bók hennar “Överlevarna” hefur komið út á fjölda tungumála.

Unnur María Bergsveinsdóttir sagnfræðingur verður fundarstjóri og Guðmundur Georgsson læknir flytur ávarp, en hann heimsótti Hiroshima og ræddi við fórnarlömb sprengjunnar fyrir tveimur áratugum.

Trúbadorinn Ólafur Torfason flytur frumsamið lag við ljóð Eyrúnar Jónsdóttur.

Samkoman er opin öllum friðarsinnum og prýðilegur undirbúningur fyrir kertafleytinguna síðar um kvöldið.

Samstarfshópur friðarheyfinga

Sprengjurnar

By Uncategorized

Uppgjöf Japana var yfirvofandi, það var í raun engin ástæða fyrir okkur að beita þessu hroðalega vopni.

Tilvitnunin að ofan er ekki úr fengin úr bók einhvers róttæks sagnfræðings eða bláeygðs friðarsinna. Hún er höfð eftir Dwight Eisenhower, yfirhershöfðingja sveita bandamanna í Evrópu og síðar forseta Bandaríkjanna. Hún er í fullu samræmi við það álit bandarískra sérfræðinga þegar komið var fram á mitt ár 1945 að japanski herinn gæfist upp fyrir árslok, jafnvel þótt hvorki kæmi til innrásar bandarísks herliðs eða Rauði herinn blandaði sér í átökin.

Þeir fræðimenn sem ráðist hafa gegn goðsögninni um að kjarnorkuárásirnar á Hiroshima og Nagasaki hafi verið “óumflýjanlegar” hafa úr nægu að moða og þeirra bestu heimildir eru einmitt skrif og skýrslur Bandaríkjamanna sjálfra. Í ljósi þessa má ótrúlegt heita hversu lífseig hugmyndin um nauðsyn þess að eyða borgunum tveimur hefur reynst í sumum vestrænum fjölmiðlum. Svo litið sé framhjá brjálsemi þeirrar hugmyndar að reyna að réttlæta sprengjuárásir sem þurrkuðu út heilar borgir með “mannúðarrökum”, standast slíkar rökfimiæfingar enga sögulega skoðun.

Megintilgangurinn með kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki var tvíþættur. Í fyrsta lagi var markmið Bandaríkjastjórnar að sýna umheiminum mátt hins nýja vopns. Hins vegar réðu innanlandspólitískar ástæður för. Bandaríkjaþing hafði eytt gríðarlegum fjárhæðum til þróunar á kjarnorkusprengjunni og krafðist þess að sjá afrakstur útgjaldanna. Ef sprengjunum hefði ekki verið varpað, var hætt við að Manhattan-áætlunin yrði talin stórkostlegasta dæmi sögunnar um sóun á almannafé og því getað rústað pólitískan feril þeirra sem börðust fyrir henni.

Margt gagnrýnivert má segja um stefnu Bandaríkjastjórnar síðustu áratugina, en eitt verður þó að hrósa bandaríska stjórnkerfinu fyrir. Það er hversu litlar hömlur stjórnvöld þar reyna að leggja á birtingu skjala og upplýsinga sem náð hafa tilteknum aldri – hversu vandræðaleg sem opinberun þeirra kann að reynast fyrri valdhöfum.

Sagnfræðingar hafa þannig getað kynnt sér í þaula ýmis skjöl er tengjast aðdraganda kjarnorkuárásanna og áætlanir stjórnvalda í Washington í þeim efnum. Þessi gögn leiða berlega í ljós að öll vinna Manhattan-áætlunarinnar miðaðist að því að varpa sprengjunni á Japan. Á fundum æðstu ráðamanna á árinu 1943, þegar Þýskaland Hitlers var ennþá virkur þátttakandi í stríðinu, var aldrei rætt um þann möguleika að beita kjarnorkuvopnum gegn Þýskalandi. Tæknilegar ákvarðanir á byggingarstigi sprengjanna, miðuðust við flugvélar Kyrrahafsflotans og fleira mætti telja til.

Fregnir þessar áttu síðar eftir að koma mörgum þeirra vísindamanna sem unnu að gerð kjarnorkusprengjunnar í opna skjöldu, enda margir þeirra Evrópubúar sem töldu sig vinna í kapp við nasista og að vopnið skelfilega yrði notað til að knésetja Þriðja ríkið.

Ljóst má vera að bandarískir ráðamenn töldu kjarnorkusprengjuna vera of skelfilegt vopn til að beita gegn kristnum, hvítum íbúum Þýskalands. Falsrökin um að beiting kjarnorkusprengju væri réttlætanleg til að afstýra mögulegu mannfalli í hernaði áttu greinilega ekki við í Evrópu. Í ljósi þessa liggur beint við að álykta að valið á skotmörkum fyrir sýnissprengingarnar hafi byggst á rasískum sjónarmiðum.

Nokkuð ber á því að þeir sem fjalla um þessa sögu, reyni að bera blak af þeim mönnum sem tóku ákvörðunina um fjöldamorðin. Er þá stundum gripið til þeirra raka að hana beri að skilja í ljósi aðstæðna, að stærð hamfaranna hafi ekki verið mönnum ljóst eða drápin virst léttvægari í ljósi hörmunga stríðsins. En sú málsvörn er máttlaus, því af umræðum þeirra manna sem ákvörðunina tóku sést að þeir skildu fyllilega umfang þeirra glæpaverka sem þeir ætluðu að fremja. Sprengjurnar sem féllu á Hiroshima og Nagasaki voru stærsta opinbera aftaka sögunnar. Slíka glæpi er aldrei unnt að fyrirgefa.

Stefán Pálsso

Hiroshima og Nagasaki enn í umræðunni

By Uncategorized

60 ár verða senn liðin frá kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki. Afmæli þessara hræðilegu sprenginga, sem margir telja versta stríðsglæp sögunnar, hefur orðið tilefni til upprifjunar á þessum atburðum víða um lönd.

Í nýlegu tölublaði hins vita tímarits New Scientist, birta tveir nafnkunnir sagnfræðingar Mark Selden og Peter Kuznick grein um árásirnar, þar sem þeir hafna alfarið þeirri viðteknu söguskoðun Bandaríkjamanna að þeim hafi verið ætlað að knýja fram uppgjöf Japana, heldur hafi markmiðið fyrst og fremst verið að undirbúa Kalda stríðið og sýna Sovétmönnum eyðingarmátt kjarnorkusprengjunnar. Um þetta má lesa nánar hér.

Til gamans má geta að Samstarfshópur friðarhreyfinga, sem stendur að kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn þriðjudagskvöldið 9. ágúst n.k., reyndi að fá Mark Selden hingað til lands að því tilefni. Selden þakkaði kærlega fyrir boðið, en var því miður upptekinn vegna fundarhalda í tengslum við New Scientist-greinina. Vonandi munu annað tækifæri gefast til að fá Mark Selden til Íslands.

Enn er unnið að stofnun Friðarhúss

By Uncategorized

Á síðustu landsráðstefnum SHA hafa verið samþykktar ályktanir þess efnis að unnið skuli að því að samtökin komist í húsnæði fyrir rekstur skrifstofu, varðveislu gripa og almennt friðarstarf. Á fundum þessum hefur sú skoðun verið nokkuð almenn að húsnæðisleysið standi starfsemi félagsins fyrir þrifum. Friðarhús á góðum stað í miðborg Reykjavíkur er forsenda þess að herstöðvaandstæðingum takist að fá í sínar raðir það unga fólk sem hverri pólitískri baráttu er lífsnauðsyn.

Eftir nákvæma athugun á leigumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu komst miðnefnd SHA að þeirri niðurstöðu að hagkvæmara væri að festa kaup á húsnæði en að vera upp á ótryggt og fokdýrt leiguhúsnæði komin. Einkahlutafélagið Friðarhús SHA ehf. var stofnað til að vinna að þessu markmiði og byrjað að safna hlutafé meðal félagsmanna í SHA.

Fyrsti aðalfundur Friðarhúss SHA eftir stofnfund var haldinn 25. maí síðastliðinn. Þar var ný stjórn kjörin en hana skipa: Elvar Ástráðsson (formaður), Sigurður Flosason, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sveinn Birkir Björnsson og Páll Hilmarsson (fulltrúi SHA í stjórn). Varamenn eru: Stefán Pálsson, Sverrir Jakobsson og Sigríður Gunnarsdóttir.

Á aðalfundi félagsins var fullkomin samstaða um að ekki væri eftir neinu að bíða að ráðast í húsnæðisleit og undirbúa hlutafjársöfnun af fullum krafti. Talsvert starf hefur verið unnið í þessum málum á síðustu vikum, þrátt fyrir sumarleyfi. Vonir standa til að hægt verði að flytja nánari fregnir af framvindu mála á þessum vettvangi innan skamms.

Þeim sem áhuga hafa á að gerast félagsmenn í Friðarhúsi er bent á ofangreinda stjórnarmenn eða að senda tölvupóst á sha@fridur.is til að afla nánari upplýsinga eða skrá sig fyrir hlutafé. Verð á hlut er 10.000 krónur.

SHA andæfa herskipaheimsókn

By Uncategorized

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá fréttaáhorfendum að rússnesk herskip halda til í Reykjavíkurhöfn. Fréttaflutningur af heimsókninni hefur einkum snúist um fáránleg aukaatriði á borð við það hversu mörgum skotum hafi verið hleypt af fallstykkjum skipanna til “heiðurs” einstökum íslenskum stjórnmálamönnum.

Fulltrúar frá SHA mættu í dag, þriðjudag, að rússnesku skipunum á þeim tíma sem þau höfðu verið auglýst opin almenningi. Þar dreifðu þeir flugriti með eftirfarandi texta, undirrituðum með nafni SHA:

Engin drápstól í Reykjavíkurhöfn!

Íslenskir friðarsinnar frábiðja sér “kurteisisheimsóknir” á borð við þau rússnesku herskip sem nú hafast við í Reykjavík.

* Rússland og Bandaríkin búa yfir þorra þeirra kjarnorkuvopna sem til eru í heiminum. Bæði ríkin hafa dregið lappirnar við að fækka þessum vopnum, þrátt fyrir að tilvist þeirra sé stöðug ógnun við mannkynið.

* Herskip og kafbátar rússneska hersins bera fjölda kjarnorkuvopna og geta slys um borð í þeim valdið gríðarlegu tjóni á lífríki hafsins. Rússnesk kjarnorkuskip eru einhver alvarlegasta ógn við undirstöður íslensks efnahagslífs.

* Rússland er í hópi helstu vopnaframleiðsluríkja veraldar. Ríkisstjórn Rússlands hefur staðið gegn sáttmálum sem miða að því að draga úr vopnaframleiðslu og tryggja að vopn séu ekki seld til fátækra og stríðshrjáðra ríkja.

* Rússnesk stjórnvöld hafa staðið fyrir miklum grimmdarverkum í Téténíu og þverbrjóta mannréttindi í nafni “stríðs gegn hryðjuverkum”.

Ályktun vegna kom rússneskra herskipa til Reykjavíkur

By Uncategorized

Samtök herstöðvaandstæðinga mótmæla komu rússnesku herskipanna Levtsjenkó aðmíráls og Vjazma til Reykjavíkur og árétta að slík herskip eigi ekki erindi í Reykjavíkurhöfn. Það er óskiljanlegt að Reykjavíkurborg skuli ítrekað hleypa slíkum drápstólum að bryggju.

Einnig mótmælir SHA fallbyssuskothríð rússnesku skipanna sem að sögn var gerð í “virðingarskyni við Ísland”. Við viljum árétta að slíkar seremóníur eru ekki í samræmi við hefðir vopnlausrar þjóðar og að ýmsar aðrar leiðir eru til að sýna Íslandi og Íslendingum virðingu.

SHA

„Stríðið gegn hryðjuverkum“ kallar á hryðjuverk

By Uncategorized

Hryðjuverkin í Lundúnum í morgun, þann 7. júlí 2005, eru óafsakanleg. Slíkan verknað, sem bitnar á óbreyttum borgurum, er ekki hægt að réttlæta. Sem eðlilegt er fylltumst við óhug þegar fréttirnar bárust frá Lundúnum í morgun. Þegar þetta er skrifað síðla dags má lesa í vefútgáfum fjölmiðlanna að 33 manns séu látnir og hátt í þrjuhundruð manns særðir, margir alvarlega. Okkur verður hugsað til þessa fólks og til aðstandenda þess og við höfum áhyggjur af Íslendingum sem er búsettir eða á ferð í Lundúnum. Þetta eru eðlileg viðbrögð og þetta eru góð viðbrögð. Okkur stendur ekki á sama.

Í vefútgáfu Morgunblaðsins í morgun er lítil frétt tímasett klukkan 10.39: „Lögregla hóf skothríð á um 1.000 mótmælendur í borginni Tíkrit, heimaborg Saddams, í Írak í dag. Fólkið mótmælti drápi á einum af helstu embættismönnum borgarráðsins, að sögn yfirvalda. Að minnsta kosti fjórir menn særðust.“ Flesta daga berast fréttir af sprengjutilræðum í Írak, 10-30 manns farast, og við tökum varla eftir því. Okkur finnst tíðindalaust af austurvígstöðvunum meðan ekki berast aðrar fréttir. Samkvæmt Iraq Body Count hafa að minnsta kosti 25 þúsund manns, sennilega miklu fleiri, látið lífið í Írak síðan George Bush og Tony Blair fyrirskipuðu innrás þar fyrir rúmum tveimur á árum með fulltingi Halldórs Ásgrímssonar og annarra peða í heimsvaldaskákinni.

Þessir herramenn geta ekki firrt sig ábyrgð á hryðjuverkum eins og þeim sem framin voru í Lundúnum í morgun. Ofbeldi kallar á ofbeldi. Þeir voru varaðir við því að innrásin í Írak yrði upphafið að langvarandi átökum og miklu blóðbaði og mundi kalla á hryðjuverk. En í hroka sínum hlustuðu þeir ekki á varnaðarorðin. Þeir tóku ekki mark á stjórnmálamönnum, fræðimönnum, talsmönnum mannúðarsamtaka og milljónum manna sem fóru út á göturnar um allan heim veturinn 2002 til 2003 til að mótmæla fyrirhugaðri innrás.

Þessir menn koma ekki lengur saman nema í víggirtum köstulum meðan þúsundir lögreglumanna eru kallaðir út til að hafa hemil á tugþúsundum mótmælenda. Yfirgnæfandi meirihluti þessara mótmælenda er friðsamt fólk sem vill mótmæla því óréttlæti sem auðvald og heimsvaldastefna veldur um allan heim. Þetta er fólk sem ekki lætur sér á sama standa.

Meðan valdamennirnir sitja á rökstólum í víggirtum köstulum verður almenningur fyrir barðinu á trufluðum hryðjuverkamönnum sem spanast upp af yfirgangi og hroka þessara valdamanna. Og þessir valdamenn reyna nú að tengja hryðjuverkin við þann almenning sem hefur lýst andúð sinni á athöfnum þeirra og stefnu á götum Edinborgar undanfarna daga. Því miður færa hryðjuverkamennirnir hinum vestrænu valdamönnum vopn í hendurnar, áróðursvopn og átyllu til að auka enn frekar eftirlit með almennum borgurum, skerða frelsi þeirra og herða stríðið gegn hryðjuverkum, stríð sem í raun er útþenslustríð, heimsvaldastríð og mun aldrei koma í veg fyrir hryðjuverk. Þvert á móti felst það sjálft í hryðjuverkum og mun kalla á enn meiri hryðjuverk og grafa enn frekar undan öryggi almennings.

Hryðjuverk ber að fordæma, hvort sem þau er framin með ríkisreknum sprengjuflugvélum eða með sprengju sem laumað er um borð í neðanjarðarlestir og strætisvagna.

Einar Ólafsson