Skip to main content

Hernaðaríhlutun í Venesúela

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga varar eindregið við öllum áformum hernaðaríhlutun í Venesúela og fordæmir ákvörðun ríkja í Norður-Ameríku og Evrópu að viðurkenna ekki umboð ríkisstjórnar landsins. Þar er afstaða íslenskra stjórnvalda sérstök vonbrigði. Minnt er á að þessháttar aðför að fullveldi einstakra ríkja hefur á liðnum árum iðulega reynst undanfari hernaðaríhlutunar og blóðsúthellinga með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa viðkomandi landa.

Íhlutunarstefnan byggir eingöngu á nýlenduhugsunarhætti og hugmyndinni um rétt hins sterka til að skipta sér af veikari ríkjum. Sú stefna birtist til að mynda í grimmilegum viðskiptaþvingunum, líkt og lagðar hafa verið á Venesúela. Fyrir smáþjóð eins og Íslendinga er lykilatriði að hnefarétturinn verði ekki ríkjandi viðmið í alþjóðastjórnmálum. Einnig er það mjög varasamt að utanríkisstefna landsins sé mótuð með gaspri á samfélagsmiðlum eins og Twitter.

Bandaríkjastjórn og INF-samkomulagið

By Ályktun

Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir einhliða uppsögn Bandaríkjastjórnar á INF-samkomulaginu um takmörkun kjarnorkuvopna sem hefur stuðlað að öryggi og friði í Evrópu í rúmlega þrjátíu ár. Á sínum tíma dró sáttmáli þessi verulega úr kjarnorkuvopnakapphlaupi risaveldanna, sem hélt mannkyni öllu á heljarþröm. Samtök hernaðarandstæðinga vara við því andvaraleysi sem ríkt hefur gagnvart kjarnorkuvopnum undanfarin ár og hefur leitt af sér þá ævintýramennsku sem birtist í þessari stórhættulegu ákvörðun.

Hvalamorðingjar háloftanna?

By Fréttir

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum þeim sem fylgdust með fréttum að óvenjumiklar fregnir voru af hvalrekum við Íslandsstrendur á liðnu ári. Reglubundin skráning á hvalrekum hófst á Íslandi um aldamótin og gengu mun fleiri dýr á land í fyrra en nokkurt hinna mælingaráranna.

Þótt afar sé að sýna fram á óyggjandi orsakasamband, hallast náttúruvísindamenn að því að hernaðaræfingum sé um að kenna. Einkum þegar djúpsprengjum sé beitt, sem skemmt geta heyrn dýranna sem treysta alfarið á hana til þess að rata. Þá er kafbátaleit Nató-véla nefnd sem líkleg skýring, sem og umferð kafbáta. Hvort tveggja getur valdið því að hvalir í djúpköfun syndi of hratt upp á yfirborðið og kunni þar með að fá kafaraveiki, sem reynst getur dýrunum lífshættuleg.

Fyllsta ástæða er til að kalla eftir því að samspil þessara þátta: hernaðar og hvaladráps verði kannað nánar. Ábendingar vísindamanna eru í það minnsta góð áminning um að stríðsleikir geta verið dauðans alvara.

Miðnefnd SHA 2018-19

By Tilkynningar

Á landsfundi Samtaka hernaðarandstæðinga þann 26. mars síðastliðinn var ný miðnefnd kjörin, líkt og lög gera ráð fyrir. Guttormur Þorsteinsson var sjálfkjörinn nýr formaður samtakanna og tók þar með við keflinu af Auði Lilju Erlingsdóttur. Hann er starfsmaður Borgarbókasafns og átti fyrir sæti í miðnefnd.

Í fyrsta sinn um langt árabil þurfti að kjósa milli frambjóðenda til miðnefndar, en fjölgað var um henni úr 9 í 12 með lagabreytingu á fundinum. Kjöri náðu: Sigurður Flosason, Harpa Stefánsdóttir, Ólína Lind Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Auður Lilja Erlingsdóttir, Bjarni Þóroddsson og Steinunn Ása Sigurðardóttir.

Varamenn voru sjálfkjörin þau Daníel Arnarsson, Bergljót Njóla Jakobsdóttir og Unnur Tryggvadóttir Flóvenz. Rétt er að taka fram að ekki er hefð fyrir því að gera greinarmun á aðal- og varafulltrúum í störfum miðnefndar.

Á fyrsta fundi nýrrar miðnefndar var Sigurður Flosason skipaður gjaldkeri en Stefán Pálsson ritari.

Friðarvefurinn rankar úr rotinu

By Fréttir

Loksins, eftir alltof langa bið, er Friðarvefur Samtaka hernaðarandstæðinga kominn í loftið á ný. Síðan lá niðri í vel á annað ár, en upphaf þessara vandræða má rekja til ýmissa tæknilegra vandamála ásamt almennri frestunaráráttu.

Í tengslum við hina nýju opnun síðunnar hefur verið ráðist í ýmsar útlitsbreytingar og má búast við því að ýmsar nýjungar verði kynntar hér til sögunnar á næstunni. Jafnframt er líklegt að ýmsir agnúar kunni að koma í ljós og verður reynt að bæta úr þeim jafnóðum.

Lesendur eru hvattir til að senda póst með ábendingum um hvaðeina sem betur mætti fara á netfang samtakanna, sha@fridur.is