Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga varar eindregið við öllum áformum hernaðaríhlutun í Venesúela og fordæmir ákvörðun ríkja í Norður-Ameríku og Evrópu að viðurkenna ekki umboð ríkisstjórnar landsins. Þar er afstaða íslenskra stjórnvalda sérstök vonbrigði. Minnt er á að þessháttar aðför að fullveldi einstakra ríkja hefur á liðnum árum iðulega reynst undanfari hernaðaríhlutunar og blóðsúthellinga með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa viðkomandi landa.

Íhlutunarstefnan byggir eingöngu á nýlenduhugsunarhætti og hugmyndinni um rétt hins sterka til að skipta sér af veikari ríkjum. Sú stefna birtist til að mynda í grimmilegum viðskiptaþvingunum, líkt og lagðar hafa verið á Venesúela. Fyrir smáþjóð eins og Íslendinga er lykilatriði að hnefarétturinn verði ekki ríkjandi viðmið í alþjóðastjórnmálum. Einnig er það mjög varasamt að utanríkisstefna landsins sé mótuð með gaspri á samfélagsmiðlum eins og Twitter.