Skip to main content

Málsverður og morgunkaffi

By Uncategorized

KokkurFöstudagskvöldið 28. apríl verður fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi þar sem Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi sér um eldamennsku. Borðhald hefst kl. 19 og kostar maturinn litlar 1.000 krónur.

Á matseðlinum eru suðræn fiskisúpa a la Björk & vistvæn brauð frá Brauðhúsinu.

Baldvin Halldórsson leikari les ljóð.

* * *

gangaAð morgni mánudagsins 1. maí verður að venju morgunkaffi SHA. Það hefst kl. 11 í Friðarhúsi. Ómissandi upphitun fyrir kröfugönguna!

Að kvöldi 1. maí verður opið í Friðarhúsi, þar sem gestir og gangandi geta rekið inn nefið og spjallað yfir kaffibolla.

Morgunfundur 1. maí á Akureyri

By Uncategorized

Morgunfundur 1. maí 2006
Mongo sportbar, Kaupangi kl. 10.30

Stefna – félag vinstri manna heldur árlegan morgunfund á baráttudegi
verkalýðsins, í áttunda sinn á Mongo sportbar, Kaupangi 10.30

Kjörorð Stefnu eru nú þessi:

• Aðeins grasrótar- og samtakabarátta alþýðu gefur sigra.
• Vinnu við hæfi handa öllum.
• Gegn markaðsvæðingu og einkavæðingu.
• Gegn stóriðjustefnu stjórnvalda.
• Gegn sölu lands, vatns og sjálfstæðis.
• Höfnum Evrópusambandsaðild.
• Gegn félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði.
• Jafnrétti kynjanna.
• Írak: Hernámsöflin burt. Ísland úr stríðsliðinu.
• Ísland úr NATO – segjum herstöðvarsamningnum upp.

Ræðumaður dagsins er Atli Gíslason, hæstaréttarlögmaður.

Atli hefur getið sér gott orð fyrir flutning mála sem snerta mannréttindi,
réttindi launafólks, jafnrétti kynja, kynferðisbrot o. fl. Þessar vikurnar
situr hann á Alþingi.

Steinunn Rögnvaldsdóttir menntaskólanemi syngur og meira verður sungið og
lesið upp sem snertir málstað dagsins.

Allir velkomnir.

Stefna – félag vinstri manna

Upplausn bandamannaraka

By Uncategorized

eftir Hugin Frey Þorsteinsson

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 21. apríl 2006

Síðastliðin 60 ár hefur Sjálfstæðisflokknum tekist með áróðursbragði að toga umræðu um utanríkismál í ákveðna átt. Hefur þeim orðið mjög ágengt með notkun þessa áróðursbragðs og þá einkum í að stýra öðrum stjórnmálaflokkum inn á sína braut. Notuð eru svokölluð ,,bandamannarök” en þau felast í því að réttlæta og rökstyðja afdrifaríkar ákvarðanir í íslenskri utanríkispólitík með vísan til þess að ekki megi styggja samstarfsríki í hernaðarmálum; aðildarríki Atlantshafsbandalaginu (NATO) og þá sérstaklega ríkisstjórn Bandaríkjanna. Notkun þessara raka hefur verið rauður þráður í að afgreiða friðarsinna og hverja þá er efasemdir hafa um hug og vilja fyrrnefndra aðila til stórpólitískra ákvarðana. Og það sem er enn alvarlegra er að áróðurinn hefur fælt íslensk stjórnvöld frá því að taka sjálfstæðar ákvarðanir er varða utanríkispólitík. Nefna má mörg dæmi þar sem þessu bragði er beitt en við látum nægja að nefna þrjú stórmál því til sönnunar.

Útfærsla landhelginnar í 12 mílur
Fyrrum sjávarútvegsráðherra og einn helsti brautryðjandi í útfærslu íslensku fiskveiðilögsögunnar, Lúðvík Jósefsson, skýrði vel frá því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn gátu ekki stutt hugmyndir ráðherrans um útfærslu landhelginnar í 12 mílur, í lok 6. áratugarins. Forystumenn í þeim flokkum gátu ekki stutt þetta þjóðþrifamál á þeim forsendum að það gengi gegn hagsmunum Breta, sem var ein öflugasta aðildarþjóðin að Atlantshafsbandalaginu. Þrátt fyrir yfirgnæfandi stuðning íslensku þjóðarinnar að þessari útfærslu, fordæmi annarra landa fyrir 12 mílna útfærslu, hroka Breta í okkar garð, sem og stjórnarsáttmala er Alþýðuflokkurinn var bundinn að, fannst þessum tveimur flokkum mikilvægara að njóta virðingar hjá Atlantshafsbandalaginu. Á þeim forsendum voru þessir flokkar tilbúnir að gera málamiðlanir sem höfðu stórlega tafið sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og skaðað þar af leiðandi langtímahagsmuni okkar. Um þetta mál sagði Lúðvík ,,[u]m það er ekki að villast að það sem stóð í vegi fyrir eðlilegum vinnubrögðum íslenskra manna og íslenskra stjórnmálaflokka var bandalagið við þjóðir Vestur-Evrópu og Bandaríkin. Sífellt var látið í það skína að Íslendingar væru ,,rjúfa samstöðu vestrænna þjóða” veikja Atlantshafsbandalagið ef þeir aðhefðust það í landhelgismálinu sem Bretar gætu ekki unað við.” (Landhelgismálið : 68)

Írak
Þegar kemur að stuðningi stjórnmálaflokka við stríð hefur sömu taktík verið beitt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur örugglega stutt flest þau stríð sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur háð frá seinni heimsstyrjöld. Sú afstaða hefur stundum komið flokknum í bobba og þá er því iðullega borið við að ástæða stuðningsins hvíli á sérstöku sambandi við þá ríkisstjórn. Þó að stríð megi alltaf teljast subbulega eru kannski minnugustu dæmin Víetnam og Írak. Bæði stríðin voru gríðarlega óvinsæl og kostuðu mörg óþarfa mannslíf – flestir viðurkenna nú að þau hafi verið óverjandi. Nóg var samt um að hægri-armurinn á Íslandi verði þau. Sama dag og Bandaríkin réðust ólöglega á Írak, þann 20. mars 2003, ritaði leiðarahöfundur Morgunblaðsins ,,[n]ú er ljóst að margir Íslendingar eiga erfitt með að skilja hvers vegna Ísland lýsir yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir í fjarlægu landi og hafa miklar efasemdir um þá afstöðu. Þessar ákvarðanir má rökstyðja með eftirfarandi hætti: Bandaríkjamenn hafa verið nánir bandamenn okkar í sex áratugi. Þeir hafa veitt okkur öflugan stuðning, þegar við höfum þurft á að halda. Við höfum veitt þeim, þegar þeir hafa þurft á að halda”. Morgunblaðið lýsti þarna afstöðu ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks til þeirrar einhliða ákvörðunar forystumanna að styðja innrásina á forsendum bandamannaraka.

Miðnesheiði
Vera erlends hers á Miðnesheiði orsakaði taugaveiklun meðal hernaðarsinna á Íslandi. Vegna hans þorðu margir íslenskir stjórnmálamenn ekki að taka sjálfstæðar ákvarðanir heldur höfðu einatt í huga þrönga hagsmuni ríkisstjórna annara ríkja. Slíkur undirlægjuháttur var síðan alltaf skrautfjaðraður með því að halda fram að á milli forystumanna Sjálfstæðisflokksins og Bandaríkjastjórnar ríkti sérstakt trúnaðarsamband. Auk þessa átti utanríkispólitík flokksins að teljast ábyrg en stjórnmál friðarsinna óábyrg. Þessari aðgreiningu hafa Framsóknarflokkurinn, þá sérstaklega í seinni tíð, gert að sinni. Alþýðuflokkurinn gerði það alltaf og arftaki hans, Samfylkingin, hefur fylgt honum í því. Það er til að mynda athyglisvert að Samfylkingin studdi innrás Nató í Júgóslavíu 1999 og árás Bandaríkjamanna á Afghanistan í árslok 2001. Sjálfstæðisflokkurinn hefur því sögulega markað línurnar í utanríkismálum og náð að tukta hina flokkana til.

Í þessu ljósi er brotthvarf Bandaríkjahers stórkostleg tíðindi í íslenskum stjórnmálum. Þrátt fyrir þá margtuggðu klisju hernaðarafla á Íslandi, að trúnaðarsamaband ríkti milli Sjálfstæðisflokks og Bandaríkjastjórnar um þessa mál, voru höfð að engu þegar tilkynningin um brotthvarfið kom. Varaskeifa í bandaríska utanríkisráðuneytinu hafði ekki einu sinni fyrir því að koma á fund til Íslands og tilkynna fréttirnar heldur rétt hafði fyrir því að taka upp símtólið til að breiða út boðskapinn. Eftir standa þessi atriði:

  1. Friðarsinnar höfðu rétt fyrir sér um að Bandaríkjamenn væru hér á eigin forsendum en ekki til að þjónusta Íslendinga.
  2. Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki í neinu sérstöku trúnaðarsambandi við yfirvöld í Washington. Hann var þægileg hækja og notaður eftir því. Aðrir stjórnmálaflokkar létu að óþörfu nota sig líka.
  3. Það borgaði sig aldrei að taka rangar pólitískar ákvarðanir til að halda stjórnvöldum vestra góðum.
  4. Miklu fyrr hefði átt að undirbúa að herinn væri á förum – það lá alltaf ljóst fyrir.

Með brottför hersins hefur grundvöllur undir lífseigum mýtum hægrisinnaðra stjórnmálamanna brostið. Ekki verður hægt fyrir þau að öfl að fylkja sér á bakvið við stríðsaðgerðir Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna með vísun í ,,bandamannarök”. Þau hafa einfaldlega verið leyst upp.

Keflavíkurflugvöllur – brottför hersins, viðbrögð og möguleikar

By Uncategorized

f4 Í dag, 26. apríl, setjast fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar aftur niður með fulltrúum frá Bandaríkjunum til að ræða þá stöðu sem upp er komin vegna fyrirhugaðrar brottfarar herliðsins af Keflavíkurflugvelli. Það er reyndar varla lengur hægt að tala um hana sem „fyrirhugaða“ þar sem vinna við að pakka búslóðum hermanna og annarra bandarískra starfsmanna er í fullum gangi og brottflutningur liðsins mun hefjast strax í næsta mánuði.

Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skuli láta þetta koma sér í opna skjöldu og að þau hafi ekkert gert til að búa sig undir þessa stöðu. Þetta ótrúlega ábyrgðarleysi snýr ekki síst að þeim íslensku starfmönnum sem nú hefur verið sagt upp. Það verður þó ekki sagt að ríkisstjórnin hafi ekki verið minnt á þetta eins og fram kemur í erindi Jóhanns Geirdal, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, á herkveðjuhátíð í Keflavík síðastliðinn laugardag, sem birtist hér á síðunni í fyrradag, en þar segir hann frá því að þegar árið 1996 samþykktu verkalýðsfélög á Suðurnesjum áætlun vegna hugsanlegrar brottfarar hersins og afhentu stjórnvöldum. Það er fyrst núna sem skipaður er starfshópur til að sinna þessum vanda.

Friðarvefurinn hefur nú fengið til birtingar fróðlegan greinaflokk sem Jóhann skrifaði fyrir tveimur árum og birtist þá á vefritinu politik.is. Þar rekur hann aðdraganda þessa máls frá árinu 1993 og bendir á hvaða viðbragða sé þörf og hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Sjá hér.

Við munum jafnframt safna saman ýmsum greinum og heimildum varðandi brottför hersins á undirsíðunni Herstöðin og NATO, sjá hér til hægri á síðunni.

Ritstjóri

Á döfinni

By Uncategorized

427175377EUHtYW phÞað er margt á seyði hjá SHA næstu vikuna, þótt sumarið sé komið smkv. dagatalinu.

Miðvikudagskvöldið 26. apríl verður opinn fundur í Friðarhúsi þar sem velt verður upp hugmyndum um hvaða aðgerðum SHA eigi að standa fyrir í haust í tengslum við boðaða brottför hersins. Fundurinn hefst kl. 20 og koma þar vonandi fram ferskar og fjölbreyttar uppástungur.

* * *

KokkurFöstudagskvöldið 28. apríl verður fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi þar sem Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi sér um eldamennsku. Borðhald hefst kl. 19 og kostar maturinn litlar 1.000 krónur.

Á matseðlinum eru suðræn fiskisúpa a la Björk & vistvæn brauð frá Brauðhúsinu.

Menningardagskrá kvöldsins verður kynnt síðar.

* * *

gangaAð morgni mánudagsins 1. maí verður að venju morgunkaffi SHA. Það hefst kl. 11 í Friðarhúsi. Ómissandi upphitun fyrir kröfugönguna!

Að kvöldi 1. maí verður opið í Friðarhúsi, þar sem gestir og gangandi geta rekið inn nefið og spjallað yfir kaffibolla.

Herinn fer, fögnum nýjum tækifærum

By Uncategorized

Erindi Jóhanns Geirdal á herkveðjuhátíð í RÁNNI Keflavík 22. apríl 2006

Komið þið sæl og gleðilega hátíð.

Kalda stríðinu lauk fyrir einum og hálfum áratug og eftir það hafa Bandaríkjamenn engan áhuga haft á að reka hér tilgangslausa kaldastríðsherstöð.

JohannGeirdal3Í maí 1993 var stórfrétt á forsíðu Morgunblaðsins um að herinn væri að fara. Bandarísk sendinefnd kom hingað í ágúst 1993. Viðræðunum lauk með nýrri bókun við hinn svokallaða Varnarsamning sem undirrituð var af vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, dr. William J. Perry og Jóni Baldvin Hannibalssyni, utanríkisráðherra, 4. janúar 1994. Þar kom fram að orrustuþotum, sem staðsettar voru á Keflavíkurflugvelli, yrði fækkað úr 12 í 4; viðhalda átti þeirri aðstöðu sem fyrir hendi var til að halda úti orrustuþotum, þar á meðal björgunarsveitinni og flotaflugstöðin yrði áfram starfrækt.

Samkvæmt upplýsingum sem Agnes Bragadóttir hafði aflað sér í varnarmála- og utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna voru meginatriði tillaga Bandaríkjamanna hins vegar þessi:

  • 12 F-15 orrustuþotur Flughers Bandaríkjanna hyrfu á brott frá Íslandi, strax 1. janúar 1994.
  • Fjarskiptakerfi bandaríska sjóhersins, SOS-US-System, hætti starfrækslu í áföngum á árunum 1994 til 1997. Þar yrði um tæknilega úreldingu að ræða, þar sem í stað þessa njósnakerfis yrði notast við gervihnattakerfi.
  • Þyrluflugbjörgunarsveitin yrði á brott, en þó mun sú afstaða bandarískra stjórnvalda ekki hafa verið jafn ófrávíkjanleg og afstaðan með brottflutning orrustuflugsveitarinnar.

Upphafsorð bókunarinnar er þó það sem er athyglisverðast við hana. Þau eru á þessa leið: „Með hliðsjón af grundvallarbreytingum sem orðið hafa á öryggisumhverfinu í Evrópu og á Norður-Atlantshafinu í kjölfar endaloka kalda stríðsins…”

Á blaðamannafundi sem ráðherrarnir héldu eftir undirritunina kom fram „að dr. Perry telur að varnarþörfin á Norður-Atlantshafi, miðað við núverandi aðstæður í heiminum, sé ekki mjög mikil, né heldur telur hann að hún verði ýkja mikil í náinni framtíð. … Á þessu augnabliki sjáum við enga hernaðarlega ógn sem stafar að neinu NATO-ríki, þar með talin Ísland og Bandaríkin. En það er erfitt að segja til um hvað framtíðin felur í skauti sér.“ Þannig reyndu menn að hanga í þeirri von að e.t.v. væri friðurinn ekki alveg brostinn á. Tekið var fram að í sameiningu yrði unnið að því að draga úr kostnaði við rekstur stöðvarinnar, en slíkur samdráttur felur fyrst og fremst í sér niðurskurð hjá verktökum og lækkun launa íslensks launafólks. Samningstími var tvö ár.

9. apríl 1996 undirrituðu, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra nýtt samkomulag, það var til 5 ára. Við upphaf þeirra viðræðna sagði Halldór á blaðamannafundi: ,,Við hljótum að skilja það á þessum aðhaldstímum á Vesturlöndum að við þurfum að verða við slíkum málaleitunum. Við teljum það þess vegna vera hagsmunamál okkar og þeirra að lækka kostnað við rekstur stöðvarinnar, þannig að hún geti skilað sömu markmiðum og áður fyrir minna fé og það verði jafnframt til þess að tryggja nauðsynlega viðveru þessa liðs hér á landi.” (Mbl. 26. mars 1996). Í því fólst að áfram hélt aðhaldið og niðurskurður á launum þess fólks sem vann hjá hernum.

Þó það sé gleðiefni fyrir okkur að ástandið í okkar nágrenni sé þannig og hafi verið í a.m.k. einn og hálfan áratug að jafnvel Bandaríkjamenn telji ekki þörf á að hafa herinn hér og því um leið gleðiefni að hann skuli nú vera að fara, þá má aldrei gleyma því að vera hans hér hefur haft veruleg áhrif á líf fjölda fólks. Fjölmörg heimili byggja sína afkomu á hernum og hver sem vinnan er þá er sárt að missa hana. Við sem ábyrgir herstöðvaandstæðingar þurfum því alltaf að hafa þá hlið málsins líka í huga. En það gerðu fleiri.

Þegar viðræðurnar áttu sér stað 1996 samþykkti stjórn Samtaka launafólks á Suðurnesjum áætlun um viðbrögð vegna brottfarar hersins. Ég og Kristján Gunnarsson fengum það hlutverk að kynna hana fyrir ráðamönnum flokkanna. Í þeirri ályktun sagði m.a.: „Það er alrangt af Íslendingum að vera með einhverja „íslenska hersérfræðinga“ í viðræðum við Bandaríkjamenn, því Bandaríkjamenn munu ekki leita ráða hjá okkur í þeim efnum. Það er hins vegar mjög mikilvægt að allar upplýsingar um þann samdrátt sem Bandaríkjamenn hugsa sér, liggi fyrir sem fyrst, svo fólki og ráðamönnum gefist sem best ráðrúm til að bregðast við breyttum aðstæðum.“

Með öðrum orðum „látið okkur vita hvernig og hvenær þið fækkið, svo skulum við semja um viðskilnaðinn.“

Eðlileg viðbrögð af okkar hálfu eru, þegar upplýsingar liggja fyrir um hver samdrátturinn verður, að ganga til samninga um eftirtalin atriði:

I. VIÐBRÖGÐ TIL SKAMMS TÍMA

Þarna var m.a. fjallað um tímabundnar áherslur í starfsmannahaldi á vellinum.

II. VIÐBRÖGÐ TIL LENGRI TÍMA SEMJA ÞARF UM

1) Fólkið: Hvernig verður gengið frá viðskilnaði við það fólk sem starfað hefur hjá hernum og kemur til með að missa vinnuna.

Það þarf:

a. að athuga hvernig hægt er að koma á eftirlaunum fyrir fólk sem komið er á háan aldur og hefur starfað lengi hjá hernum,

b. að halda námskeið fyrir fólk sem kemur til með að breyta um vinnu og að öllum líkindum að fara í gerólík störf,

c. að veita aðstoð við uppbyggingu atvinnu sem gæti falist í útvegun húsnæðis á svæðinu og með annarri aðstoð við að koma á laggirnar nýrri atvinnu (hér er átt við minni fyrirtæki),

d. að leita leiða til virkrar nýsköpunar.

2) Landið: Ganga þarf frá því hvernig hreinsun á jarðvegi verði háttað og eyðingu á ýmsum úrgangi sem fylgir þeirri starfsemi sem þarna hefur átt sér stað.

3) Mannvirki: Hvaða mannvirki verða tekin úr notkun? Hvernig á að ganga frá þeim mannvikjum sem hætt verður að nota og verða ónothæf? Okkar krafa ætti að sjálfsögðu að vera sú að ónothæf mannvirki verði fjarlægð, hús rifin, sökklar fjarlægðir og gróðursett í sárið. Önnur mannvirki,sem gætu nýst okkur við endurreisn atvinnulífsins yrðu yfirtekin af Íslendingum og þess gætt að þau verði rýmd í nothæfum einingum.

Síðar sagði í þessari ályktun SLS fyrir 10 árum:

Ef tekið verður á þessum vanda af festu og í líkingu við það sem hér er lýst eru verulegar líkur á að draga megi úr áhrifum fækkunar í herliðinu á atvinnulíf hér á Suðurnesjum.

Það er skemmst frá því að segja að undirtektir voru misjafnar. Sjálfstæðisforystan veitti okkur ekki áheyrn. Forystumenn Alþýðuflokks og Alþýðubandalags hlustuðu og sýndu málinu áhuga og voru hinir kurteisustu. Þegar við kynntum þetta fyrir Halldóri Ásgrímssyni, sem þá var orðinn utanríkisráðherra, var Róbert Trausti Árnason með honum, en Róbert var þá ambassador á Keflavíkurflugvelli og yfirmaður Varnarmáladeildarinnar svokölluðu. Þegar við höfðum farið yfir textann voru helstu viðbrögð þau að Róbert sagði, „Ég heyri að þetta er texti sem Jóhann hefur samið, það er aldrei talað um varnarliðið heldur alltaf herinn“.

Ekki varð mikið um önnur viðbrögð eins sorglegt og það nú er.

Við annað tækifæri rifjaði Róbert það upp með mér að hann hafði áður verið sem ungur maður, nánast krakki, nokkurs konar sendill hjá Samtökum herstöðvarandstæðinga, það þótti mér merkilegt þar sem hann starfaði þegar þetta var sem sendill utanríkisráðuneytisins í hermálum. Hann sagði mér líka að þá hefðu tvær manneskjur starfað í hlutastörfum fyrir Samtök herstöðvarandstæðinga, það voru Jón Baldvin Hannibalsson, sem starfaði eftir hádegi því hann átti svo erfitt með að vakna, og Vigdís nokkur Finnbogadóttir, sem starfaði fyrir hádegi. Þetta er merkilegt í ljósi þess að síðar voru á sama tíma Vigdís forseti, Jón Baldvin utanríkisráðherra og hann Róbert ambassador á Vellinum. Allt fyrrum starfsmenn herstöðvaandstæðinga. Þessi staðreynd breytti þó ekki afstöðu ráðamanna til veru hersins.

Eftir að samningurinn sem Halldór gerði til 5 ára rann út 2001 hafa Bandaríkjamenn ekki séð ástæðu til að gera nýjan. Þeir átta sig ekkert á því að jafnvel nú 15 árum eftir lok kalda stríðsins skuli Íslendingar ekki enn skilja að herinn er tímaskekkja. Bandaríkjamenn mega þó eiga það að þeir hafa reynt á kurteisan hátt að koma íslenskum ráðamönnum í skilning um að það á að loka stöðinni. Íslendingarnir skilja einfaldlega ekki mælt mál. Þrautalending Bandaríkjamanna nú, eftir að hafa sagt upp öllu starfsfólki á Vellinum, er að gefa „Bókaþjóðinni“ 200 bækur svo þeir geti þó lesið sig til um þessi mál. Á meðan halda íslenskir ráðamenn að þeir hafi keypt sér frest, enn ríki óvissa um framtíð stöðvarinnar. Óvissan er engin, það er búið að segja fólkinu upp og hjá því ríkir engin óvissa um framtíð stöðvarinnar. Íslenskir ráðamenn neita bara að horfast í augu við staðreyndir. Þeir verða því hjákátlegri með hverri vikunni sem líður og um leið eru þeir að bregðast því fólki sem á í vanda, þeir eru að bregðast því landsvæði sem mest hefur orðið fyrir barðinu á veru hersins.

Nú þegar búið er að taka frá þeim glæpinn (herinn) þá standa þeir eins og glópar og tala um að það þurfi samt að tryggja varnir. Vegna þess að herinn hefur verið kallaður Varnarlið eru þeir fastir í því að það sé um einhverjar varnir að ræða.
Þegar þeir eru spurðir: varnir gegn hverju? er fátt um svör, þeir hafa þó reynt að telja upp ýmis atriði sem innihalda orðið varnir og tengja það svo hugtakinu Varnarlið svo sem:

  1. varnir gegn alþjóðlegum glæpahringjum,
  2. varnir landhelginnar og siglingarleiða um N-Atlantshafið,
  3. varnir gegn eiturlyfjum,
  4. varnir gegn hryðjuverkum,
  5. ég hef að vísu ekki enn heyrt neinn ganga svo langt að nefna getnaðarvarnir í þessu sambandi en það gæti allt eins komið fljótlega.

Menn kalla þetta ýmsum nöfnum, svo sem „mjúkar varnir“ eða „borgaralegar varnir“ en skoðum þessar hugmyndir aðeins nánar.

  1. Varnir gegn alþjóðlegum glæpahringjum. Vissulega þurfum við að vera á varðbergi gagnvart alþjóðlegri glæpastarfsemi, en ætlum við að gera það með fjórum herþotum og bandarískum landher? Ekki sé ég hvernig það á að gerast, hins vegar er ekki vanþörf á að efla baráttu gegn innlendum og erlendum glæpamönnum, ofbeldi og eiturlyf og allskyns svikastarfsemi setja stöðugt meiri svip á samfélagið, baráttan gegn þessum óværum þarf að eflast, en vera hers hér kemur þeirri baráttu bara ekkert við.
  2. Varnir landhelginnar og siglingarleiða um Atlantshafið. Munum í því sambandi tillögur Bandaríkjamanna frá 1993 um að SOS-US kerfið hætti starfrækslu þar sem í stað þessa njósnakerfis yrði notast við gervihnattakerfi. Það þarf því ekki fjórar herþotur og bandarískan landher til þess.
  3. Varnir gegn eiturlyfjum hafa líka verið nefndar. Til að vinna gegn innflutningi þeirra þarf að efla tollgæslu og sjá til þess að hún hafi mannafla og tæki til að skanna allan innflutning til landsins. Öðru vísi næst ekki árangur í þeirri baráttu, en það vinnst ekki með fjórum herþotum og bandarískum landher.
  4. Varnir gegn hryðjuverkum eru nú mikið tískufyrirbrigði þó menn ræði aldrei þá hættu sem bandarískur her setur okkur í þegar hryðjuverk eru annars vegar. Skoðum samt hvernig brugðist hefur verið við þegar hryðjuverk hafa átt sér stað hér. Já þau hafa átt sér stað hér. Ég er þó ekki að tala um hryðjuverk gegn landinu sem því miður eru alltof mörg, – heldur þá atburði þegar flugvélar hafa þurft að lenda hér vegna sprengjuhótana um borð. Það er að sjálfsögðu meðhöndlað sem alvöru hryðjuverk þar til annað hefur komið í ljós. Sem betur fer hefur enn sem komið er bara verið um gabb að ræða en eins og é segi þá eru viðbrögðin til öryggis eins og fúlasta alvara sé á ferð. Það hefur sýnt sig að fjórar herþotur sem auk þess eru sjaldnast á landinu gera lítið í slíkum tilvikum, hvað ættu þær að gera, skjóta vélina niður? Það væri þá hryðjuverk! Vélarnar eru að sjálfsögðu látnar lenda og stöðvaðar á ákveðnum stað. Lögreglan og Víkingasveitin er kölluð á staðinn, sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar, björgunarsveitir og slökkvilið eru líka kölluð til. Heilbrigðiskerfinu er gert viðvart ef illa færi, en bandarískur landher hefur ekki komið þar við sögu.
  5. Ég ætla hins vegar ekki að fara að ræða við ykkur um getnaðarvarnir hér, þó ég eigi fullt eins von á að þær geti tengist þessari umræðu hjá ráðvilltum ráðamönnum, bara af því að orðið varnir koma þar fyrir og þannig reynt að sannfæra Bandaríkjamenn um að hér þurfi að vera 4 herþotur og landher.

Góðir hátíðargestir!
Ég hef reynt að draga fram hve mikil tímaskekkja herstöðin hefur verið undanfarin 15 ár. Þó e.t.v. einhverjir hafi trúað því á sínum tíma að vera hersins gæti veitt einhverja vörn hef ég alltaf verið í þeim hópi sem hefur talið meiri hættu fylgja stöðinni en vörn. Herstöð er skotmark ef til átaka kemur. Undanfarin 15 ár hefur þó legið fyrir að jafnvel Bandaríkjamenn hafa talið óþarft að hafa herstöð hér vegna breyttra aðstæðna í Evrópu við lok kalda stríðsins.

Íslenskir ráðamenn hafa því brugðist þessu svæði, þeir hafa enn frekar brugðist því fólki sem hér býr, einkum því fólki sem þarna hefur unnið. Þeir hafa gefið því falskar vonir um framtíðarstörf. Þeirra sök er því mikil. Við skulum ekki veita þeim neina sakaruppgjöf því þeirra ábyrgð er mikil.

Við skulum hins vegar láta það eftir okkur að gleðjast hér í dag yfir því að herinn sé nú loksins að fara.

Við skulum líka varast allar hugmyndir um að annar her eigi að leysa þennan her af hólmi.

Endurvekjum heldur ímynd Íslands sem herlaust og fullvalda ríki.