1. maí: baráttudagur verkalýðsins, baráttudagur fyrir friði

By 30/04/2006 Uncategorized

Ritstjórnargrein

Labor Against War Herstöðvaandstæðingar hafa löngum látið mikið á sér bera í kröfugöngu verkalýðsfélaganna 1. maí. Jafnvel svo að það hefur farið fyrir brjóstið á sumum verkalýðsforingjum. Við herstöðvaandstæðingar og friðarsinnar teljum okkur samt engan veginn vera að stela deginum frá verkalýðshreyfingunni. Ef við þykjum of áberandi, þá er það frekar vegna þess að verkalýðshreyfingin er ekki nógu áberandi. Fyrir utan það að við tilheyrum flest verkalýðshreyfingunni.

Friðarbaráttan er mjög mikilvæg fyrir verkalýðinn, fyrir alþýðuna, fyrir okkur venjulegt fólk sem hefur hvorki auð né völd. Það erum við sem alltaf erum fórnarlömb styrjalda. Í Bandaríkjunum hafa fjölmörg verkalýðsfélög myndað með sér bandalag undir nafninu Bandarísk verkalýðshreyfing gegn stríði (U.S. Labor Against War). Þetta bandalag tók þátt í mótmælaaðgerðum gegn Íraksstríðinu 29. apríl og gaf þá út yfirlýsingu þar sem spurt er: Hvers vegna á verkalýðshreyfingin að láta í sér heyra? Og spurningunni er svarað: Í Íraksstríðinu hafa meira en 2200 bandarískir hermenn látið lífið og meira en 20 þúsund særst. Margir þeirra eru úr verkamannafjölskyldum. Þjóðvarðliðar og varaliðsmenn eru teknir úr störfum sínum og frá fjölskyldum sínum vegna stríðsins. Kostnaður af stríðinu kemur niður á velferðarþjónustu við almenning. Það er almenningur sem borgar stríðið, venjulegt launafólk. Og talið er að meira en 100 þúsund manns hafi farist í Írak, venjulegt alþýðufólk. Og verkalýðsleiðtogar.

En svo er auðvitað hin hliðin. Vígbúnaður og styrjaldir eru atvinnuskapandi. Það vita gerst þeir fjölmörgu starfsmenn á Keflavíkurflugvelli sem hafa fengið uppsagnarbréf. Það vita þeir sem starfa í vopnaverksmiðjum víðsvegar um heim. Og auk þess hafa margir lifibrauð sitt af þessu að einhverju leyti án þess að gera sé grein fyrir því. Starfsmenn Alcoa fá hluta launa sinna, kannski ekki mjög stóran hluta, en einhvern hluta, af vopnaframleiðslu.

En það getur ekki verið meginmarkmið verkalýðshreyfingarinnar að skapa meiri vinnu. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er að berjast fyrir bættum kjörum vinnandi fólks, þ.á.m. styttri vinnutíma. Nátengd sögu 1. maí er barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir 8 stunda vinnudag á þeim tíma sem verkafólk vann 10-12 tíma á sólarhringa eða jafnvel meira. Vopnaframleiðsla er óþörf, vopnaframleiðsla er sóun, tímaeyðsla. Styrjaldir eru líka sóun og tímaeyðsla fyrir utan allt annað. Með skynsamlegu skipulagi væri hægt að stytta vinnutímann og bætta kjör almennings með því að stöðva vígbúnað og styrjaldir og leggja niður alla heri.

Í 1. maí ávarpi fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík, BSRB, BHM, Kennarsambands Íslands og Iðnemasambands Íslands er samhljómur með málflutningi okkar herstöðvaandstæðinga. Þar segir meðal annars:

    Um leið og verkalýðshreyfingin fagnar brottför Bandaríkjahers frá landinu krefst hún þess að myndarlega verði staðið að uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum eftir brottför hans. Það er þjóðarinnar allrar að taka á með Suðurnesjamönnum þegar 600 störf hverfa með öllu á nokkrum mánuðum. Verkalýðshreyfingin lýsir áhyggjum sínum af sívaxandi ófriði í heiminum og getuleysi ráðamanna til að koma á friði. Það er sorglegt að horfa upp á þjóðir búa árum saman við ófrið og kúgun án þess að þeim sé rétt hjálparhönd. Þjónkun íslenskra ráðamanna við þau öfl í heiminum sem telja sig hafa lögregluvald yfir öðrum þjóðum en kynda eingöngu undir ófriðarbálinu er ekki hægt að sætta sig við.

Nú, 1. maí 2006, krefjumst við, herstöðvaandstæðingar á Íslandi, að íslensk stjórnvöld noti það tækifæri, sem heimkvaðning herliðins á Keflavíkurflugvelli gefur, til að segja upp herstöðvasamningnum, segja Ísland úr Atlantshafsbandalaginu, lýsa yfir hlutleysi og leggja sitt af mörkum til að stöðva vígbúnað og styrjaldir. En fyrst af öllu þarf að taka á málum starfsfólksins á Keflavíkurflugvelli sem hefur jafnvel meirihluta starfsævi sinnar treyst á herinn sér til lífsviðurværis. Það þarf ekki að eyða tíma í fáránlegar viðræður um hvernig eigi að tryggja varnir landins. Við ríkisstjórn Íslands segjum við: Snúið ykkur að því sem máli skiptir hér og nú, fólkinu sem er að missa lífsviðurværi sitt. Og komið ykkur svo úr félagsskap hinna borðalögðu.

Barátta okkar herstöðvaandstæðinga og friðarsinna er barátta fyrir hagsmunum verkafólks, fyrir hagmunum almennings. Þegar allt kemur til alls er það aðeins fámenn yfirstétt sem græðir á styrjöldum og vígbúnaði – en kannski tapa allir að lokum.

Einar Ólafsson