Skip to main content

Hvenær hætta þeir að drepa?

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Guðmundar R. Jóhannssonar birtist á vefritinu ogmundur.is 19. ágúst 2007

Rússarnir eru komnir aftur. Með sælubrosi hallaði ég mér aftur í hægindastólnum, sem fljótlega þarf að endurnýja til að halda við hagvextinum. Loksins, loksins voru þeir komnir, ég sem hélt að gamla Grýla væri dauð, gafst hún upp á sprengjunum. En, nei enn leyndist líf.

Og hvað þetta var á góðum tíma. Einmitt þegar Norðurvíkingar voru að æfa sig. Ætla líklega í fæting við Suðurvíkinga. Utanríkisráðherra var mög ábúðarmikil í fjölmiðlum. Nú kom í ljós hvílík þörf okkur var á traustum vörnum. Og forsætisráðherra, sem af einhverjum ástæðum hafði tekið á móti víkingunum þótt ég hefði haldið að það væri ekki í hans verkahring, brosti hringinn. Þetta sögðum við altaf, ógnin er innan seilingar. Æðibunugangurinn sem varð þegar Kaninn flaug á burt frá okkur átti rétt á sér. Reyndar skilst mér að Kaninn ætli að vernda okkur fjórum sinnum á ári, en þess á milli gætu Norðmenn gert eitthvað, Kanadamenn væru eflaust til í slaginn, Þjóðverjar eru altaf góðir í stríði og fleiri og fleiri. Nató sjálfur „i sin helhet“ var svo tilbúinn að passa okkur svo Geirarnir okkar gætu sofnað í fullu öryggi með nýjasta vélbyssuleikfangið í fanginu og Sollurnar með stóru hermannadúkkuna við hlið sér, nákvæmlega uppábúna eins og alvöru gæjar í Írak, sem sumir voru svo leiðir yfir að þyrftu að vera þar.

Sem sagt, allt eins og áður var og við getum lifað áfram í fullkomnu öryggi. Reyndar var Steingrímur eitthvað að tuða um það að væri fínt að efnahagur Rússa væri orðinn svo góður að þeir ættu fyrir eldsneyti á gömlu rellurnar sínar. En hann er nú líka alltaf fúll á móti. Samt, ég sem sannur kapitalisti sem horfi með evrumerki í augunum á útrásina og á fínu gaurana sem eiga vel fyrir salti í grautinn og gætu líka stráð salti á síðasta þorskinn á pönnunni, ég verð að gleðjast, kannski er að renna upp ný tíð í Rússíá, það verði hætt að stinga mönnum sem þjéna sæmilega í steininn, heldur fái þeir að njóta hæfileika sinna í óheftu frelsi. Að þeir eigi fyrir olíu hlýtur að þýða meiri möguleika til að selja þeim eitthvað, t.d. gömlu kjarnasprengjurnar sem eru að úreldast í vopnabúrum verndara okkar, ásamt öðrum smábombum og einni og einni byssu sem ekki hefur komist í hendur skólabarna vestur þar.

Um daginn voru þeir að ná einhverjum gíslum út úr Líbýu. Fengu ráðamenn þar í staðinn gommu af aurum. Aurum til að bæta heilbrigðisþjónustu, menntun og almenn lífskjör. Eða hvað? Það þjónar víst ekki hagvextinum. Stærsti hluti var skilyrtur til vopnakaupa, kannski til að hægt væri að ná fleiri gíslum og fá svo meiri peninga? Afgangurinn gat farið í að kaupa nauðsynjar í vestrinu, vonandi á viðunandi verði með lækkuðum virðisaukaskatti. Nauðsynjavörur eins og morgunkorn, gallabuxur af góðum ættum, hnetusmjör eða annað sem engin menningarþjóð getur án verið.

Altaf er slæmt að missa nöldrið sitt og fótunum var næstum kippt undan vestræna heiminum þegar í ljós kom að rússneski björninn var aðeins pappatígrísdýr, ekki ólíkt og pappalöggurnar hennar Sólveigar dóms. um árið. En sem betur fór sá heimurinn ljósið, það voru hryðjuverkamenn allsstaðar. Jón og Gunna í næsta húsi hér í Grafarvoginum gátu verið stórhættuleg. Dytti þeim í hug að skreppa til útlandsins skyldu þau í gegnum vopnaleit, öryggisgæslu og jafnvel koma nakin fram. Leit sem gat tekið lengri tíma en flugferðin sjálf. Dytti þeim í hug að taka með hálfslítra kók, var ekki sökum að spyrja, guðadrykkurinn sjálfur í því magni var stórhættulegur.

Ég veit um konu sem fullyrðir að Osama bin Laden búi í kjallara Hvíta hússins og njóti þar fyllstu verndar. Og því ekki, ef þær fregnir bærust út að hann væri allur eða hefði jafnvel aldrei verið til yrði þaði meiri háttar áfall. Sjálf meginstoð hryðjuverkaógnarinnar. Það má ekki gerast, nema að Putin komi í staðinn.

Hvað um heimsmynd okkar, alþjóðavæðinguna, frjálsu og óháðu viðskiptin, ferða „frelsið“, skilning milli kynþátta og trúfélaga. Hvað með allt þetta? Ég þekki mann sem spilar brids á netinu, oft Súdanbúa sem kannski var að berja á löndum sínum í Darfur, Íraka sem kannski skaut nokkra Bandaríkjamenn í morgun og ef vantar fjórða mann var hægt að ná í Kana sem kannski var að drepa nágranna sinn af því að hann steig óvart inná lóðina hans. Eða var Súdaninn að koma heim af akrinum með konu sinni, var Írakinn áðan að reyna að svæfa börnin sín tvö sem voru andvaka vegna hvins byssukúlnanna. Var Kaninn truflaður við að laga pallbílinn með nágranna sínum? Í hvaða heimi viljum við lifa? Hvenær kemur að því að fólk hefur fengið nóg? Hvenær hætta Geirarnir og Sollurnar og við hin að leggja eyrun við áróðri vopnasalanna?

Sex ára eða svo man ég að hafa setið í fangi fóstru minnar eftir að hafa heyrt í fréttum um bardaga og dráp úti í hinum stóra heimi. Ég hágrét og spurði í bjargarleysi barnsins: Hvernær hætta þeir að drepa?

Rúmum sextíu árum síðar get ég ennþá grátið.

Guðmundur R. Jóhannsson

Útrýmum kjarnavopnum

By Uncategorized

katrinjakobsdottir eftir Katrínu Jakobsdóttur

Birtist í Fréttablaðinu 9. ágúst 2007

Í kvöld verður þess minnst að nú eru liðin sextíu og tvö ár frá kjarnorkuárásunum á Hírósíma og Nagasakí. Kertum verður fleytt við Tjörnina í Reykjavík og Minjasafnstjörnina á Akureyri og þannig lögð áhersla á kröfuna um friðsaman og kjarnorkuvopnalausan heim.

Kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nagasakí gerbreyttu heimsmynd manna og er ógjörningur að skilja sögu, bókmenntir eða listir 20. aldar án þess að hafa þessa atburði í huga. Þarna var komið vopn sem gat eytt heilu borgunum á örskotsstundu og skyndilega var heimsendir handan við hornið. Í framhaldinu kepptust risaveldin og önnur ríki við að koma sér upp gríðarlegu kjarnorkuvopnabúri.

Þó að kjarnorkuváin sé mönnum kannski ekki ofarlega í huga núorðið er verkefnið þó risavaxið. Samkvæmt The Bulletin of Atomic Scientists eiga kjarnorkuveldi heimsins a.m.k. 26.000 kjarnaodda og eru flestir í eigu Bandaríkjanna og Rússlands. Alls eru tæplega 9.000 kjarnaoddar í árásarstöðu. Flestir þeirra kjarnaodda sem smíðaðir hafa verið hafa verið teknir niður en ekki er skylt að eyða þeim og því óljóst um afdrif þeirra. Ekkert alþjóðlegt eftirlit er með vopnum í eigum þessara stórvelda.

Í áliti Alþjóðadómstólsins í Haag frá 1996 kemur fram að ólöglegt er undir öllum kringumstæðum að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði og ríkjum heims ber að stefna að útrýmingu slíkra vopna. Í framhaldi af þessu hefur Malasía nokkrum sinnum lagt það til á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að ríkjum heims beri að ná samkomulagi um að banna alla framleiðslu og meðferð kjarnavopna og útrýma skuli slíkum vopnum hið fyrsta.

Ísland hefur ekki treyst sér til að styðja þessa tillögu og greiddi reyndar atkvæði gegn henni þegar hún var borin upp 1999 ásamt 27 öðrum ríkjum en 114 ríki voru henni meðmælt og 22 sátu hjá. Í þessu máli er fyllsta ástæða fyrir stjórnvöld að taka nýja stefnu og sýna að framboð Íslands til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna sé ekki bara ný vinna fyrir gamlar silkihúfur stjórnarflokkanna. Burt með kjarnorkuvána.

Höfundur er varaformaður Vinstri grænna.

Vantar óvin

By Uncategorized

sigflosason eftir Sigurð Flosason, gjaldkera SHA

Birtist í Fréttablaðinu 7. ágúst 2007

Við hvað er Ingibjörg Sólrún hrædd? Hún sem ekki hefur ennþá orðið sér úti um óvin fyrir Íslendinga.

Í Bréfi til Láru lýsir Þórbergur Þórðarson hræðslu á þessa leið:

„Fyrir nokkrum árum bjó ég í húsi sem stóð við fjölfarna götu. Ég hafði til íbúðar stóra stofu og lítið svefnherbergi…

Í þessari vistarveru var ég aldrei óhræddur um líf mitt…
Hræðsla mín við morðingja keyrði alveg um þverbak…

Einkum sótti hún að mér eftir að fór að skyggja af nóttu. Hún sat alls staðar fyrir mér. Hún óð að mér úr hverjum krók og kima. Hún hékk utan á hverjum ókunnum manni sem fyrir augu mín bar í myrkri. Hún læddist í sporin mín á götunni. Hún sat fyrir mér í dimmum göngum. Hún fól sig bak við ofninn. Hún lá í leyni undir rúminu. Hún sat fyrir mér undir legubekknum. Ég var hvergi óhultur.

En mestur stuggur stóð mér þó af gluggunum. Ég gekk aldrei uppréttur fyrir stofugluggana eftir að ég var búinn að kveikja ljós á kvöldin. Hvenær sem ég þurfti að fara fyrir annanhvorn gluggann skreið ég á fjórum fótum á gólfinu. Skrifborðið mitt stóð úti við vegginn á milli glugganna. Ég þorði aldrei fyrir mitt litla líf að sitja við það á kvöldin…

Þessvegna hnipraði ég mig saman við vinnu mína á dívansgarmi úti í horni og þó var það sannarlega ekki hættulaust. Meðan ég afklæddi mig sat ég flötum beinum á gólfinu undir skrifborðinu og skreið svo upp í rúmið með einstakri varúð.”

Vonandi á þessi lýsing ekki við ástand Ingibjargar Sólrúnar utanríkisráðherra, en hvað eiga menn að halda þegar hún vill eyða milljónatugum í heræfingar til að geta látið drepa óvininn ef við skyldum geta orðið okkur úti um hann?

Að æfa morðingjasveitir á Íslandi á kostnað skattgreiðenda vegna svona hysteríu á ekki að líðast. Það er nær að þeir sem eru haldnir henni, hvort sem þeir eru núverandi eða fyrrverandi utanríkisráðherrar eða aðrir, fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

Það kostar allavega minna.

Ályktun SHA vegna hernaðarflugs Rússa

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla flugi rússneskra herþotna við strendur Íslands. Æfinga- og eftirlitsflug á borð við þetta skapar hættu fyrir almenna flugumferð og þjónar engum hagnýtum tilgangi. Enn meiri hætta skapast síðan þegar NATO-ríkin senda herþotur sínar til móts við rússnesku þoturnar og fylgja þeim eftir í fluginu. Skemmst er að minnast að slík loftfimleikaæfing endaði með ósköpum fyrir nokkrum árum þegar bandarísk njósnaflugvél rétt undan ströndum Kína rakst á kínverska þotu sem hafði
verið send til að elta hana uppi.

Samtök hernaðarandstæðinga árétta andstöðu sína við umferð allra vígtóla í íslenskri lögsögu, hverrar þjóðar sem þau kunna að vera. Ferð rússnesku vélanna er dapurlegur endurómur frá tímum kalda stríðsins, en kemur því miður ekki á óvart enda virðast ráðamenn víða um lönd kappkosta að blása lífi í glæður þess. Má þar nefna þá viðleitni Bandaríkjastjórnar að koma
sér upp gagneldflaugakerfi og virðingarleysi stjórnvalda í Bandaríkjunum og Rússlandi gagnvart ýmsum afvopnunarsamningum. Þá má á það minna að hernaðarbandalagið NATO hefur á síðustu árum orðið sífellt árásargjarnara og uppivöðslusamara.

Íslenskum stjórnvöldum væri sæmst að vinna að framgöngu friðar á alþjóðavettvangi í stað þess að ríghalda í gamla heimsmynd. Síst af öllu eiga Íslendingar að hafa frumkvæði að heræfingum hér á landi, sem augljóslega munu leiða af sér enn tíðari ferðir herflugvéla hér við land –
boðinna jafnt sem óboðinna.

17. ágúst 2007

Fréttir um málið:
FRÉTTATILKYNNING frá utanríkisráðuneytinu 18.8.2007.
Rússneskar sprengjuflugvélar við Íslandsstrendur. Vísir, 17. ágú. 2007 18:30
Rússneskar vélar í íslenskri lofthelgi. mbl.is 17.8.2007 18:52
Rússar flugu upp að Íslandi í nótt. RÚV 17.08.2007 19:18
Rætt við sendiherra Rússa. Fréttablaðið, 18. ágú. 2007 05:45
Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla flugi rússneskra herþota við strendur Íslands. mbl.is 18.8.2007 10:54
Flugi Rússa mótmælt. Vísir, 18. ágú. 2007 11:02
Rússar í hringferð um landið. Vísir, 18. ágú. 2007 12:04
Tilkynning utanríkisráðuneytis varðandi flug rússneskra herflugvéla. mbl.is 18.8.2007 12:05
Ráðherra: Rússaflug braut ekki gegn Íslendingum. RÚV 18.08.2007 12:23
Flugi Rússa við strendur Íslands mótmælt. RÚV 18.08.2007 12:29
Óþarfi að búa til rússagrýlu. Vísir, 18. ágú. 2007 18:51

Umræður á blogginu:
http://eyjan.is/silfuregils/2007/08/18/herna%c3%b0arbrolt/
http://polites.blog.is/blog/polites/entry/289338/#comments
http://truflun.net/oligneisti/2007/08/18/er-egill-helgason-bila%c3%b0ur/
Ómar Ragnarsson: AFTUR KOMIÐ 1910?

Erill á Menningarnótt

By Uncategorized

Það verður nóg á seyði hjá SHA á Menningarnótt í Reykjavík:

427175377EUHtYW phKl. 16:30 verður efnt til róttæklingarölts um mótmælaslóðir í Reykjavík þar sem fjallað verður um sögufræg mótmæli og pólitískar aðgerðir síðustu ára og áratuga. Lagt verður af stað frá Iðnó, en af markverðum viðkomustöðum má nefna vettvang Þorláksmessuslagsins 1968 og staðinn þar sem Nixon mætti örlögum sínum. Sagnfróðir hernaðarandstæðingar og róttæklingar eru hvattir til að slást í för og grípa gjallarhornið þegar færi gefst!

Kl. 18 er reiknað með að sögugangan komi í Friðarhús, en um svipað leyti verður dýrindis grænmetissúpa reidd fram í boði SHA. (Kaffihús verður starfrækt í Friðarhúsi frá kl. 17 fyrir gesti og gangandi.)

Kl. 18:30 verður svo í fyrsta sinn sýnd opinberlega kvikmyndin “Réttvísin gegn RÚV”. Um er að ræða frumsýningu á upptöku sem gerð var í Háskólabíói vorið 1989, en þá var sett upp leikverk sem byggði á nýopinberuðum leyniskýrslum CIA um samskipti BNA við íslensk stjórnvöld. Hér er um að ræða einstaka sýningu, þar sem áhorfandinn þarf í sífellu að minna sig á að ekki er um að ræða skáldskap heldur endursögn á raunverulegum heimildum. EKKI MISSA AF ÞESSU!

Kaffihúsið í Friðarhúsi verður svo opið áfram fram eftir kvöldi eftir því sem þurfa þykir.

Frá mótmælunum gegn heræfingum í Reykjavík 14. ágúst 2007

By Uncategorized

M  tm  li 4
Stefán Pálsson stjórnar aðgerðum við norska sendiráðið

M  tm  li 5
Stefán Pálsson tekur fram gjafir til Norðmanna: bangsa, leikfangabíl og fleira til að rísla sér við í stað heræfinga

M  tm  li 6
Norsk sjónvarpsfréttakona ræðir við Einar Ólafsson á leiðinni frá norska sendiráðinu til þess bandaríska, Páll Stefánsson ber borðann: MÓTMÆLUM HERÆFINGUM

M  tm  li 7
Þorvaldur Þorvaldsson flytur ávarp við bandaríska sendiráðið

M  tm  li 3
Birna Þórðardóttir breiðir úr ítalska friðarfánanum sínum við danska sendiráðið, Kolbrún Halldórsdóttir að baki með friðarmerki

M  tm  li 1
Frá danska sendiráðinu var gengið að stjórnarráðinu

M  tm  li 2
Stefán Pálsson ávarpar samkomuna við stjórnarráðið

Ljósmyndari: Harpa Stefánsdóttir

Blaðafréttir af mótmælunum

Ávörp til norskra, bandarískra, danskra og íslenskra sjórnvalda

By Uncategorized

Eftirfarandi ávörp voru afhent fulltrúum norskra, bandarískra, danskra og íslenskra stjórnvalda við mótmælaaðgerðir gegn heræfingum NATO 14.ágúst 2007:

Til norske myndigheter angående militærövelser i Island

Da den amerikanske hær ble fjernet fra Island høsten 2006 var det et skritt mot å fjerne all utenlandsk militærmakt fra landet. Det er uakseptabelt at en rekke land nå sender soldater til militære manøvre i Island.

Selvom den norske hær ikke er den blodigste, så kommer den nå til Island som en del av den globale militærmakt som truer freden i verden. NATO har blitt en stadig mer offensiv militærallianse. USA og NATO har í de siste årene drevet blodige kriger i Afganistan og Irak og USA er en imperialistisk militærmakt flekket av blod fra Vietnam, Mellom-Amerika, Afganistan, Irak og en rekke andre land og regioner over hele verden.

Vi ønsker fortsatt et godt samarbeide mellom Island og Norge, men vi ønsker ikke militære besøk fra Norge eller andre land. Vi sier nei til alle militære øvelser og alt militær nærvær på Island.

Reykjavik 14. 8. 2007
Samtök hernaðarandstæðinga

——————————

Message to the authorities of The United States of America

We sharply denounce the existing military maneuvers of the US and other armies in Iceland. Closing of the military base in Keflavik Airport last year was meant to open up for the end of US military activity in Iceland.

United States of America is the most brutal terrorist state of the world today responsible for the deaths of millions of people as well as causing unbelievable destruction and poverty in Iraq, Afghanistan and numerous other countries. The US ruling cliques are aiming to take control of the whole world in order to take over its wealth, along with savage oppression of its own people.

We say NO to any kind of military presence of the United States of America in Iceland.

Reykjavik 14. 8. 2007
Samtök hernaðarandstæðinga

——————————

Til danske myndigheder angående militærövelser i Island

Da den amerikanske hær blev fjernet fra Island efteråret 2006 var det et skridt mod at fjerne al udenlandsk militærmagt i landet. Det er uacceptabelt at en række lande nu sender soldater til militære manövre i Island.

Den danske hær har blodige hænder fra den ulovlige invasionskrig mod Irak som har kostet hundrede tusinder af menneskeliv, opløst al infrastruktur i landet og drevet millioner på flugt. På den måde har den danske hær bidraget til total forarmelse og elendighed af det irakiske folk og optrådt som folkefjendtlig faktor på den internationale arena. Den danske hærs tilstedeværelse er derfor ikke ønsket i Island.

Reykjavik 14. 8. 2007
Samtök hernaðarandstæðinga

——————————

Ávarp til íslenskra stjórnvalda – Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla heræfingum á Íslandi

Þegar bandaríski herinn yfirgaf Miðnesheiði síðastliðið haust var það skref í þá átt að losa landið við erlendan her á friðartímum. Það er því skref aftur á bak að bjóða þeim sama her og fleirum til heræfinga hér á landi. Ekki síst þegar öll þátttökuríkin hafa blóðugar hendur af glæpsamlegri innrás og stríði gegn Írak og Afghanistan. Þetta eru alröng skilaboð til umheimsins og þvert á nauðsynlegt uppgjör við ranga stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi Íraksstríðið.

Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla heræfingunum og öllum erlendum hernaðarumsvifum í landinu og krefjast þess að þeim linni þegar í stað.

Reykjavík 14. 8. 2007
Samtök hernaðarandstæðinga