Skip to main content

Þingmenn deila um varnarmál

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Árna Páls Árnasonar þingmanns Samfylkingarinnar og varaformanns utanríkismálanefndar Alþingis birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst. Fyrir neðan hana má lesa svargrein Árna Þórs Sigurðssonar þingmaður VG af bloggsíðu hans sama dag.



Að styðja Hamas en fordæma Norðmenn
eftir Árna Pál Árnason

Í síðustu viku stóð yfir heræfing hér á landi. Slíkar æfingar eru nauðsynlegar til að æfa viðbúnað við hættuástandi. Í æfingunni nú var áberandi þáttur Norðmanna og Dana. Sá þáttur er bein afleiðing aukins samstarfs okkar við þessa næstu nágranna okkar í öryggis- og varnarmálum, í kjölfar þess að bandarískt varnarlið hvarf frá Keflavík.

Það vakti því nokkra athygli að sjá formann, þingflokksformann og aðra þingmenn Vinstri grænna taka sér mótmælastöðu fyrir utan sendiráð Norðmanna og Dana hér á landi. Systurflokkur VG er í ríkisstjórn í Noregi og hefur því yfir herliði því sem hér var við æfingar að segja. Að sögn formanns Vinstri grænna var ástæða mótmælanna fyrst og fremst andstaða VG gegn ofbeldi.

Er sjálfsvörn sama og árás?
Markmið heræfinganna var að æfa viðbrögð við hættuástandi. Í þetta sinn voru æfð viðbrögð við hryðjuverkum en áður hafa m.a. verið æfð viðbrögð við stórfelldum náttúruhamförum. Það er ekki alveg ljóst í mínum huga hvort óbeit VG á ofbeldi er slík að þeir geti ekki hugsað sér að vopnavaldi sé beitt til að frelsa gísla úr haldi, svo dæmi sé tekið. Má sérsveit lögreglunnar þá ekki beita vopnum til að fást við vopnað fólk? Má lögreglan þá ekki beita valdi til að handjárna menn? Hér voru einungis æfð viðbrögð við hryðjuverkum á borð við lausn á gíslatöku. Af hverju má ekki frelsa gísla með vopnavaldi? Gerir VG engan greinarmun á valdbeitingu opinberra aðila til að halda uppi lögum og reglu og ofbeldisárás? Treystir Steingrímur ekki flokkssystkinum sínum í Noregi til að hafa lýðræðislega stjórn á norskum herafla?

Þessi djúpstæða óbeit VG á ofbeldi vekur ýmsar fleiri spurningar. Forysta VG hafði stór orð í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra í sumar, í kjölfar þeirrar ákvörðunar hennar að hitta ekki að máli fulltrúa Hamas í heimsókn sinni til Palestínu. Ástæðan var að heimsókn utanríkisráðherra var farin rétt í kjölfar vopnaðs valdaráns Hamas á Gazasvæðinu og fundur utanríkisráðherra með fulltrúum þeirra á þessum tímapunkti hefði falið í sér óbeina viðurkenningu Íslands á beitingu ofbeldis af þeirra hálfu. Í ljósi þessa getur maður því ekki annað en spurt hvort óbeit Vinstri grænna á ofbeldi sé bara til innanlandsbrúks.

Ný tækifæri – ætlar VG að sitja hjá?
Við viljum flest berjast gegn ofbeldi en við hljótum einnig að áskilja okkur rétt til þess að halda uppi lögum og reglu og verja rétt okkar til stjórnarfarslegs sjálfstæðis og yfirráða yfir íslensku landsvæði. Með brottför varnarliðsins frá Keflavík opnuðust ný tækifæri fyrir okkur sem þjóð til að móta öryggismálastefnu út frá íslenskum hagsmunum í samstarfi við okkar nánustu bandamenn. Í því efni er mikilvægast að við tryggjum að fylgst sé með umferð yfir landinu og að við eigum aðgang að aðstoð frá nánustu bandamönnum okkar til að bregðast við óvæntum aðstæðum á borð við stórfelldar náttúrhamfarir, umhverfisslys eða hryðjuverk. Það er sérstaklega æskilegt að efla samstarf við Norðmenn og Dani í þessum efnum í stað þess að byggja öryggisviðbúnað okkar alfarið á samstarfi við Bandaríkjamenn, sem oft eiga annars konar hagsmuni að verja á alþjóðavísu en við.

Núna gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í stefnumótun um öryggis- og varnarmál. Það er áhyggjuefni ef forysta VG ætlar að dæma sig úr leik í þeirri umræðu og halda sig á gamalkunnum slóðum í heimi mótmælaslagsmála og innantómra orðaleppa. Flokkur sem vill láta taka sig alvarlega verður að vera til viðræðu um öryggis- og varnarmál á vitrænum forsendum. Það hefur systurflokki VG í Noregi tekist ágætlega. Hvað dvelur Steingrím?



Áframhaldandi hernaðarstefna á „vitrænum forsendum“
eftir Árna Þór Sigurðsson

Helsti talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann útskýrir stefnubreytingu flokks síns í utanríkismálum. Þar má skilja, að nú þegar flokkurinn er kominn í ríkisstjórn verði að taka á utanríkis- og varnarmálum á „vitrænum forsendum“.

Og hverjar eru hinar „vitrænu forsendur“? Jú, það er óbreytt hernaðarstefna, áframhaldandi stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásarstríð í Írak, hernaðarbrölt í Afganistan og þannig má vafalaust áfram telja. Hefur hann uppi allmörg orð um það að friðarstefna Vinstri grænna sé ekki háð á „vitrænum forsendum“ – og hvað er þá orðið að málflutningi og baráttu margra góðra hernaðarandstæðinga og friðarsinna sem störfuðu í Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum á sinni tíð? Hvert hafa örlögin leitt það ágæta fólk í sameiningunni við Alþýðuflokkinn?

Blasir ekki við að það er gamla heimsvaldastefnan, hernaðarhyggjan og undirgefni við Bandaríkjastjórn, sem var aðalsmerki Alþýðuflokksins, sem hefur orðið ofan á innan Samfylkingarinnar? Og þá stefnu er talsmaðurinn að verja í Morgunblaðsgreininni. Sú stefna sem flokkurinn fylgir nú, var að vísu ekki svo einbeitt og augljós í aðdraganda kosninga og meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Háværar kröfur forystumanna flokksins um uppgjör vegna Írak eru að engu orðnar og hafa dáið drottni sínum.

Það er hins vegar vita gagnslaus málsvörn hjá nafna mínum að ætla að útskýra stefnubreytingu Samfylkingarinnar með því að draga fram Norðmenn og Dani sem skálkaskjól. Það hefur engin stefnubreyting orðið hjá íslenskum stjórnvöldum við ríkisstjórnarskiptin, eins og kjósendum var lofað að yrði ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn, og það leyfum við okkur í VG að gagnrýna. Stjórnarflokkur verður að þola það að vera minntur á kosningaloforðin og þegar þau eru að engu höfð er ekki við neinn að sakast nema hann sjálfan. En sannleikanum verður hver sárreiðastur, eins og sést glöggt á málsvörn varaformanns utanríkismálanefndar í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta er herinn sem byssustingjum beinir að…

By Uncategorized

arnithor eftir Árna Þór Sigurðsson alþingismann

Birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst

… börnum og konum og vopnlausum lýð“ segir í þekktu ljóði Kristjáns Guðlaugssonar. Þar yrkir hann um bandaríska herinn á Miðnesheiði, og margir hernaðarandstæðingar hafa í gegnum árin tekið undir og borið fram kröfuna um herlaust land, afvopnun og frið. Sumir þeirra eru nú, illu heilli, í herbúðum stjórnarliða og hljóta að vera hnípnir mjög þegar forysta þeirra býður velkominn hingað heim innrásarherinn frá Írak.

Því það er einmitt það sem er að gerast. Hingað í heræfingarleiðangur, svokallaðan Norðurvíking, er boðið þeim sama her og stendur í ólögmætum stríðsrekstri í Írak og sem kostað hefur borgarastyrjöld og ómældan fjölda fórnarlamba, ekki síst meðal óbreyttra borgara. Sú ríkisstjórn sem nú situr að völdum harmaði af stórlyndi sínu stríðsreksturinn í Írak, rétt eins og einhverjir væru bættir með því. En forysta íslenskra jafnaðarmanna auðmýkti sjálfa sig með því að setjast í ríkisstjórn án þess að krefjast þess að stjórnvöld bæðust afsökunar á athæfi sínu og skilmálalausum stuðningi við ólögmætar aðgerðir Bandaríkjastjórnar og fleiri ríkja í Írak. Voru stóryrðin og svardagarnir fyrir kosningar þá eingöngu sjónhverfingar til þess eins að ganga í augun á kjósendum? Sjaldan hefur eins lítið lagst fyrir nokkurn kappa og forystu Samfylkingarinnar þar sem hún reynir nú að fóta sig á svelli utanríkis- og varnarmála.

En ríkisstjórn Íslands telur rétt að halda áfram á sömu braut hernaðarstefnu eins og flestar fyrri ríkisstjórnir, enda stýrir Sjálfstæðisflokkurinn för einn ganginn enn. Sem fyrr velur samstarfsflokkur hans að beygja sig í duftið og fylgja leiðsögn hægri aflanna, hernaðarhyggju og undirlægjuháttar gagnvart Bandaríkjunum. Verður það ef til vill erindi okkar í Miðausturlöndum og í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar býður velkominn þann sama her og réðst með ólögmætum hætti inn í Írak, þann sama her og „beinir byssustingjum að börnum og konum og vopnlausum lýð“ í þeirri barnslegu trú að slíkur her geti reynst þjóðinni vörn á válegri tíð. Væri ef til vill ráð að spyrja almenning í Írak um varnarmátt þeirra vígtóla sem orðið hafa þúsundum að fjörtjóni þar og svo miklu víðar.

Þegar bandaríski herinn hvarf af landi brott bárum við mörg í brjósti þá von að orð Jakobínu skáldkonu Sigurðardóttur yrðu að áhrínsorðum og að börn okkar gætu „án kinnroða nefnt okkar kynslóð og kletta og heiðar og sand“. En þvert á móti veldur framganga íslenskra ráðamanna nú því að þau verða hugstæðari orðin Jakobínu úr sama ljóði: „En smánin í blóði mér brennur. Þú veist hvað sá heitir sem bregst sínu landi og þjóð.“ Vonandi sér stjórnarforystan að sér áður en svo illa er komið.

Nató-fenið í Afganistan

By Uncategorized

steingrsigfusson eftir Steingrím J. Sigfússon

Birtist í Fréttablaðinu 7. ágúst 2007

Nató-leiðangurinn í Afganistan, undir forystu Bandaríkjanna og á þeirra forsendum, er þegar orðinn að u.þ.b. eins fullkominni martröð og hugsast getur. Frá fyrstu tíð höfðu margir efasemdir um að Bandaríkin og Vesturlönd myndu ríða feitari hesti frá leiðangri sínum þangað en Rússar gerðu á sinni tíð. Burtséð frá afar hæpnu réttmæti þess að hefja loftárásirnar á Afganistan á sínum tíma í kjölfar atburðanna 11. september 2001 spurðu margir hvort yfirhöfuð væri raunsætt að ætla að aðferðafræði haukanna í Bandaríkjunum myndi skila árangri og hverjar fórnirnar yrðu. En það var hafist handa og sprengjum var látið rigna úr háloftunum yfir þetta vanþróaða land, Afganistan, vikum saman.

Mótspyrna brotin á bak aftur í helstu borgum og samvinnuþýðri ríkisstjórn komið á laggirnar. Það reyndist auðveldara að heyja stríðið en eiga við eftirleikinn.

Tilgangslaust blóðbað
Samkvæmt hinum nýju formúlum Bandaríkjamanna höfðu þeir forgöngu um stríðið, sáu að mestu um sprengingarnar og ræstu síðan Nató út til að að hreinsa upp eftir sig. Nú brjótast Nató-ríkin um á hæl og hnakka, fórna lífi hermanna sinna í meira og minna tilgangslausri baráttu, ungt fólk fellur nær daglega sem óvelkomnir gestir í framandi landi. 420 Bandaríkjamenn, 68 Bretar, 66 Kanadamenn, 25 þjóðverjar, 21 Spánverji o.s.frv. eru fallnir frá því stjórn talibana var komið frá 2001. Og það sem verra er: Mannfall óbreyttra borgara sökum aðgerða Nató-herjanna er stórfellt. Deilt er um hversu mörg þúsund eða jafnvel tugir þúsunda óbreyttra borgara hafi fallið frá því átökin hófust en hafið er yfir vafa að í ýmsum aðgerðanna hafa allt eins margir eða fleiri óbreyttir borgarar fallið en raunverulegir liðsmenn talibana eða annarra andófsafla gegn hinni erlendu hersetu. Undangengið eitt og hálft ár er talið að 6.500 manns a.m.k. hafi fallið og ekki er fjarri lagi að álykta að fullur helmingur hafi verið óbreyttir borgarar.

Þverrandi stuðningur
Þetta stríð eru Vesturlönd að heyja meira og minna í óþökk og í andstöðu við íbúa viðkomandi svæða og ráðandi öfl þar. Yfirleitt hefur sýnt sig að slík barátta er vonlaus. Sjálfum erkifjendunum, talibönum, vex fiskur um hrygg og ópíumframleiðsla í skjóli uppreisnar- og stríðsherra og héraðshöfðingja hefur náð fyrri hæðum og rúmlega það.

Þó svo eigi að heita að ríkisstjórn Karzai ráði Kabúl, nærliggjandi svæðum og að einhverju leyti ferðinni í stærstu borgum er þó enginn afgangur af því. Þegar út í héröðin kemur og einkum landamærasvæðin milli Afganistan og Pakistan er hið gagnstæða upp á teningnum. Flótti virðist vera við það að bresta á í Nató-liðinu og þverrandi stuðningur heima fyrir við áframhaldandi þátttöku í aðgerðunum verður æ meira áberandi í umræðum um málið, t.d. í nágrannalöndunum Noregi og Danmörku.

Staða Íslands verði endurmetin
Ófarirnar í Afganistan eru stærsta og alvarlegasta dæmið um afleiðingar hinnar nýju stefnu þegar Nató var breytt úr svæðisbundnu varnarbandalagi í alheimshernaðarbandalag og aðila sem skyldi láta til sín taka í fjarlægum heimsálfum, skv. forskrift Bandaríkjamanna, hinnar árásargjörnu aðferðafræði, hugmyndanna um fyrirbyggjandi styrjaldir og allt það. Er þetta nýja Nató virkilega sá félagsskapur sem við eigum heima í í ljósi atburðanna í Írak, Afganistan og víðar? Væri ekki hyggilegast fyrir okkur að staldra við og byrja á því, þó ekki væri annað, að kalla alla Íslendinga heim frá Afganistan, a.m.k. alla þá sem eru þar á forsendum eða í tengslum við Nató? Af nógu er að taka á vettvangi borgaralegrar, friðsamlegrar þróunarsamvinnu og hjálparstarfs, bæði þar og annars staðar, þó svo við látum öðrum eftir að standa í slíku á hernaðarforsendum. Minna má á, í þessu sambandi, þær breytingar sem Alþingi sameinaðist um að gera á frumvarpi til laga um íslensku friðargæsluna. Þar var tekinn af allur vafi um að sú starfsemi skuli skilgreind sem borgaraleg og vera á slíkum forsendum.

Höfundur er formaður Vinstri grænna og situr í utanríkismálanefnd.

Fimmtudagsbíó – aðdragandi Júgóslavíustríðsins

By Uncategorized

Fimmtudagskvöldið 23. ágúst standa Samtök hernaðarandstæðinga fyrir kvikmyndasýningu í Friðarhúsi í samvinnu við aðstandendur bókabúðarinnar Slagsíðu. Sýnd verður heimildarmyndin Yugoslavia – The Avoidable War.

Í myndinni verður athyglinni beint að aðdraganda borgarastyrjaldarinnar í Júgóslavíu á tíunda áratugnum og þá sérstaklega þátt sumra NATO-ríkja í að kynda undir ófriðarbálinu. Myndin hefur vakið mikla athygli, en í henni er meðal annars að finna viðtöl við ýmsa háttsetta fyrrum ráðamenn frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Evrópusambandinu. Þetta er mynd sem áhugafólk um samtímasögu má ekki láta fara fram hjá sér.

Sýningin hefst stundvíslega klukkan 20, en hún er vel á þriðju klukkustund.