Þingmenn deila um varnarmál

By 27/08/2007 Uncategorized

Eftirfarandi grein Árna Páls Árnasonar þingmanns Samfylkingarinnar og varaformanns utanríkismálanefndar Alþingis birtist í Morgunblaðinu 23. ágúst. Fyrir neðan hana má lesa svargrein Árna Þórs Sigurðssonar þingmaður VG af bloggsíðu hans sama dag.



Að styðja Hamas en fordæma Norðmenn
eftir Árna Pál Árnason

Í síðustu viku stóð yfir heræfing hér á landi. Slíkar æfingar eru nauðsynlegar til að æfa viðbúnað við hættuástandi. Í æfingunni nú var áberandi þáttur Norðmanna og Dana. Sá þáttur er bein afleiðing aukins samstarfs okkar við þessa næstu nágranna okkar í öryggis- og varnarmálum, í kjölfar þess að bandarískt varnarlið hvarf frá Keflavík.

Það vakti því nokkra athygli að sjá formann, þingflokksformann og aðra þingmenn Vinstri grænna taka sér mótmælastöðu fyrir utan sendiráð Norðmanna og Dana hér á landi. Systurflokkur VG er í ríkisstjórn í Noregi og hefur því yfir herliði því sem hér var við æfingar að segja. Að sögn formanns Vinstri grænna var ástæða mótmælanna fyrst og fremst andstaða VG gegn ofbeldi.

Er sjálfsvörn sama og árás?
Markmið heræfinganna var að æfa viðbrögð við hættuástandi. Í þetta sinn voru æfð viðbrögð við hryðjuverkum en áður hafa m.a. verið æfð viðbrögð við stórfelldum náttúruhamförum. Það er ekki alveg ljóst í mínum huga hvort óbeit VG á ofbeldi er slík að þeir geti ekki hugsað sér að vopnavaldi sé beitt til að frelsa gísla úr haldi, svo dæmi sé tekið. Má sérsveit lögreglunnar þá ekki beita vopnum til að fást við vopnað fólk? Má lögreglan þá ekki beita valdi til að handjárna menn? Hér voru einungis æfð viðbrögð við hryðjuverkum á borð við lausn á gíslatöku. Af hverju má ekki frelsa gísla með vopnavaldi? Gerir VG engan greinarmun á valdbeitingu opinberra aðila til að halda uppi lögum og reglu og ofbeldisárás? Treystir Steingrímur ekki flokkssystkinum sínum í Noregi til að hafa lýðræðislega stjórn á norskum herafla?

Þessi djúpstæða óbeit VG á ofbeldi vekur ýmsar fleiri spurningar. Forysta VG hafði stór orð í garð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra í sumar, í kjölfar þeirrar ákvörðunar hennar að hitta ekki að máli fulltrúa Hamas í heimsókn sinni til Palestínu. Ástæðan var að heimsókn utanríkisráðherra var farin rétt í kjölfar vopnaðs valdaráns Hamas á Gazasvæðinu og fundur utanríkisráðherra með fulltrúum þeirra á þessum tímapunkti hefði falið í sér óbeina viðurkenningu Íslands á beitingu ofbeldis af þeirra hálfu. Í ljósi þessa getur maður því ekki annað en spurt hvort óbeit Vinstri grænna á ofbeldi sé bara til innanlandsbrúks.

Ný tækifæri – ætlar VG að sitja hjá?
Við viljum flest berjast gegn ofbeldi en við hljótum einnig að áskilja okkur rétt til þess að halda uppi lögum og reglu og verja rétt okkar til stjórnarfarslegs sjálfstæðis og yfirráða yfir íslensku landsvæði. Með brottför varnarliðsins frá Keflavík opnuðust ný tækifæri fyrir okkur sem þjóð til að móta öryggismálastefnu út frá íslenskum hagsmunum í samstarfi við okkar nánustu bandamenn. Í því efni er mikilvægast að við tryggjum að fylgst sé með umferð yfir landinu og að við eigum aðgang að aðstoð frá nánustu bandamönnum okkar til að bregðast við óvæntum aðstæðum á borð við stórfelldar náttúrhamfarir, umhverfisslys eða hryðjuverk. Það er sérstaklega æskilegt að efla samstarf við Norðmenn og Dani í þessum efnum í stað þess að byggja öryggisviðbúnað okkar alfarið á samstarfi við Bandaríkjamenn, sem oft eiga annars konar hagsmuni að verja á alþjóðavísu en við.

Núna gefst einstakt tækifæri til nýsköpunar í stefnumótun um öryggis- og varnarmál. Það er áhyggjuefni ef forysta VG ætlar að dæma sig úr leik í þeirri umræðu og halda sig á gamalkunnum slóðum í heimi mótmælaslagsmála og innantómra orðaleppa. Flokkur sem vill láta taka sig alvarlega verður að vera til viðræðu um öryggis- og varnarmál á vitrænum forsendum. Það hefur systurflokki VG í Noregi tekist ágætlega. Hvað dvelur Steingrím?



Áframhaldandi hernaðarstefna á „vitrænum forsendum“
eftir Árna Þór Sigurðsson

Helsti talsmaður Samfylkingarinnar í utanríkismálum, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann útskýrir stefnubreytingu flokks síns í utanríkismálum. Þar má skilja, að nú þegar flokkurinn er kominn í ríkisstjórn verði að taka á utanríkis- og varnarmálum á „vitrænum forsendum“.

Og hverjar eru hinar „vitrænu forsendur“? Jú, það er óbreytt hernaðarstefna, áframhaldandi stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásarstríð í Írak, hernaðarbrölt í Afganistan og þannig má vafalaust áfram telja. Hefur hann uppi allmörg orð um það að friðarstefna Vinstri grænna sé ekki háð á „vitrænum forsendum“ – og hvað er þá orðið að málflutningi og baráttu margra góðra hernaðarandstæðinga og friðarsinna sem störfuðu í Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum á sinni tíð? Hvert hafa örlögin leitt það ágæta fólk í sameiningunni við Alþýðuflokkinn?

Blasir ekki við að það er gamla heimsvaldastefnan, hernaðarhyggjan og undirgefni við Bandaríkjastjórn, sem var aðalsmerki Alþýðuflokksins, sem hefur orðið ofan á innan Samfylkingarinnar? Og þá stefnu er talsmaðurinn að verja í Morgunblaðsgreininni. Sú stefna sem flokkurinn fylgir nú, var að vísu ekki svo einbeitt og augljós í aðdraganda kosninga og meðan flokkurinn var í stjórnarandstöðu. Háværar kröfur forystumanna flokksins um uppgjör vegna Írak eru að engu orðnar og hafa dáið drottni sínum.

Það er hins vegar vita gagnslaus málsvörn hjá nafna mínum að ætla að útskýra stefnubreytingu Samfylkingarinnar með því að draga fram Norðmenn og Dani sem skálkaskjól. Það hefur engin stefnubreyting orðið hjá íslenskum stjórnvöldum við ríkisstjórnarskiptin, eins og kjósendum var lofað að yrði ef Samfylkingin kæmist í ríkisstjórn, og það leyfum við okkur í VG að gagnrýna. Stjórnarflokkur verður að þola það að vera minntur á kosningaloforðin og þegar þau eru að engu höfð er ekki við neinn að sakast nema hann sjálfan. En sannleikanum verður hver sárreiðastur, eins og sést glöggt á málsvörn varaformanns utanríkismálanefndar í Morgunblaðinu í dag.