Skip to main content

Fylgist með starfi SHA

By Uncategorized

Hægt er að fylgjast með öllum helstu fréttum úr starfi Samtaka hernaðarandstæðinga hér á Friðarvefnum. Bent er á að hægt er að skrá sig á póstlista SHA með því að skrá netfang sitt í þar til gerðan reit hér til hliðar. Meðlimir póstlistans fá reglulegar fréttir og tilkynningar um eitt og annað úr starfinu.

Athugið að skráning á póstlistann jafngildir ekki skráningu í SHA. Þeir sem kjósa að gerast félagsmenn og fá þá t.a.m. Dagfara, tímarit og fréttabréf SHA til sín, geta t.d. sent tölvupóst á sha@fridur.is.

Ætlar utanríkisráðherra bara að halda sama kúrsi?

By Uncategorized

Því ber að fagna að utanríkisráðherra ítrekar í erindi sínu á ráðstefnu í Norræna húsinu 29. ágúst, sem vitnað er til hér neðar á síðunni, það sem sagt er í stjórnarsáttmálanum að samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggis- og varnarmál verður komið á fót. Það er að sjálfsögðu gífurlega mikilvægt þar sem nú eru að ýmsu leyti tímamót. Frá því kalda stríðinu lauk hefur flest staðið í stað hér að öðru leyti en því að Ísland dröslaðist með umræðulítið í þeirri þróun sem Bandaríkin og NATO hafa ákveðið. Herstöðin var áfram en vægi hennar fór minnkandi þótt stjórnvöld neituðu að horfast í augu við það. Gagnrýnislaust fylgdi Ísland NATO í þróun þess og samþykkti innrásirnar í Júgóslavíu og Írak. En nú verður ekki við svo búið lengur – eða hvað? Í því ljósi er fróðlegt að skoða erindi utnaríkisráðherra.

Þetta erindi bendir ekki til að núverandi utanríkisráðherra hyggist í verulegum mæli leita annarra leiða en fyrirrennarar hennar. „Sem fullveðja aðildarríki NATO verður Ísland að axla nýja ábyrgð.“ Íslendingar munu reka ratsjárkerfi sem verður hluti af loftvarnakerfi NATO. En hvað segja Íslendingar um það að loftvarnakerfi NATO byggist að hluta á kjarnorkuvopnum?

„Aukinni ábyrgð okkar innan NATO fylgir einnig þátttaka Íslands í mörgum hinna nýju verkefna NATO svo sem á sviði friðargæslu í löndum og á svæðum utan hefðbundins athafnasvæðis bandalagsins.“ Hér hljótum við að staldra við. Hefur núverandi utanríkisráðherra ekkert við það að athuga hvernig NATO hefur á undanförnum árum ekki aðeins þanist út hvað ný aðildarríki snertir, heldur einnig farið æ meir út fyrir sitt svæði með ýmiskonar starfsemi sem vægast sagt er mjög umdeilanleg. Þar er auðvitað fyrst að nefna loftárásirnar á Júgóslavíu 1999, en síðan starfsemi NATO í Afganistan þar sem það kemur beinlínis í kjölfar innrásar Bandaríkjanna sem hernámslið, þó að það kalli þetta hernám friðargæslu og hafi fengið uppáskrift Sameinuðu þjóðanna. Sú uppáskrift er hins þegar ekki fyrir hendi í Írak þar sem NATO heldur uppi ýmisskonar starfsemi til stuðnings hernámsliði Bandaríkjanna og bandamanna þeirra. („The NATO mission is a distinct mission, under the political control of NATO’s North Atlantic Council. It is co-ordinated with the US-led Multinational Force.“ – www.nato.int/issues/iraq-assistance/index.html). Og hvað skal segja um æ meira samstarf milli NATO og Ísraels?

Utanríkisráðherra talar um að Ísland muni „aldrei taka að sér að gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar „harðar” varnir“ heldur „mýkri” varnir (soft defense) „þar sem utanríkisþjónustan gegnir lykilhlutverki og starf okkar á sviði friðargæslu og þróunaraðstoðar eru í öndvegi.“ Það eru auðvitað alltaf einhverjir í einhverskonar „mjúkum“ verkefnum í hernaði, það þarf skrifstofuhald fyrir herinn, ræstingar o.þ.h. Þess vegna er hægt að hafa Íslendinga með í hinum svokölluðu friðargæsluliðum NATO, svo sem í Afganistan, og segjast þá vera í „mjúkum“ verkefnum.

Svo talar utanríkisráðherra um hugtök eins og lýðræði, frelsi, jafnrétti og mannréttindi, sem séu hugmyndafræðilegur grunnur lýðveldisins Íslands og þeirra megin-alþjóðastofnanna sem landið á aðild að, svo sem NATO. Við deilum ekki um að þetta eigi við um Norðurlandaráð og Sameinuðu þjóðirnar, en það er meira vafamál hvort þetta eigi við um NATO sem hafði bæði Portúgal og Grikkland innanborðs meðan þar voru blóði drifnar herforingjastjórnir. Nei, ætli það sé ekki frekar frjálst markaðskerfi og jarðvegur fyrir gróðaöfl Vesturlanda sem er grundvölllur NATO? Eða er lýðræði, frelsi, jafnrétti og mannréttindi það sem manni dettur fyrst í hug þegar nú er litið til forysturíkis NATO, Bandaríkjanna?

Loks er rétt að staldra við þetta: „Í nútímanum nær öryggishugtakið til fleiri og flóknari þátta en áður þekktist. Nú fjalla öryggis- og varnarmál ekki eingöngu um hefðbundin stríðsátök heldur viðbrögð við umhverfisvá, mengun, náttúruhamförum, farsóttum og varnir gegn hryðjuverkum.“ Er ekkert við þetta að athuga? Af hverju er öryggishugtakið nú annað en áður, af hverju er farið að flokka viðbrögð við umhverfismál undir öryggis- og varnarmál? Er ekkert athugavert við þessa hervæðingu borgaralegra björgunar-, lögreglu- og strandgæslusveita – og sóttvarnarlækna? Kannski þyrfti að ræða þetta á einhverjum samráðsvettvangi.

Einar Ólafsson

Utanríkisráðherra fjallar um nýtt skeið í öryggis- og varnarmálum

By Uncategorized

Við leyfum okkur að birta hér hluta úr erindi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hélt á málþinginu „Kapphlaupið á Norðurpólinn“. Um breytingar á stöðu Íslands og norðurlandanna í varnar- og öryggismálum, sem haldið var í Norræna húsinu á vegum Landhelgisgæslunnar og sendiráða Norðurlandanna 29. ágúst. Hér er einungis birtur hluti erindisins en hægt er að nálgast það á vefsíðu utanríkisráðuneytisins bæði á dönsku, eins og það var flutt, og í íslenskri útgáfu. Því er þessi ræðukafli birtur hér að í honum er að ýmsu að hyggja.

„Samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna um öryggis- og varnarmál verður komið á fót og nauðsynlegt er líka að stofnuð verði og skilgreind öflug rannsóknastofnun á þessu sviði sem tekur virkan þátt í alþjóðlegu fræðasamstarfi.

Nauðsynlegt er að gera skýran greinarmun á innra öryggi í íslensku samfélagi og ytra þjóðaröryggi og samstarfi Íslands við aðrar þjóðir á því sviði. Og hér þarf gott samstarf ráðuneyta og stofnana við nýjar aðstæður.

Sem fullveðja aðildarríki NATO verður Ísland að axla nýja ábyrgð. Þannig er það mat NATO að loftvarnarkerfið yfir Íslandi sem Bandaríkjamenn hættu að starfrækja í þessum mánuði, sé nauðsynlegt fyrir varnir Íslands og sameiginlegar varnir NATO. Þess vegna munum við starfrækja það áfram og það sætir tíðindum sem nýtt sjálfstætt og mikilsvert framlag Íslands til samstarfs þjóðanna í NATO. Aðlögun kerfisins að samhæfðu loftvarnarkerfi NATO, NATINADS verður orðin að veruleika innan fárra vikna.

Aukinni ábyrgð okkar innan NATO fylgir einnig þátttaka Íslands í mörgum hinna nýju verkefna NATO svo sem á sviði friðargæslu í löndum og á svæðum utan hefðbundins athafnasvæðis bandalagsins. Hafa verður þó í huga að við höfum ekki hermenn til að ganga á milli stríðandi fylkinga en hins vegar margs konar hæft fólk sem kemur til verka þegar byssurnar eru þagnaðar. Íslensk friðargæsla verður því öðru fremur á því sviði sem skilgreint er sem friðaruppbygging.

Ísland mun aldrei taka að sér að gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar „harðar” varnir. Ekki stendur þannig til að stofna íslenskt varnarlið, eða her. Það er hvorki nauðsynlegt né æskilegt og í raun í andstöðu við íslenska hefð. Síðustu menn undir vopnum á Íslandi voru afvopnaðir um miðja 16. öld. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga að það var forsenda þess að Ísland gerðist stofnaðili að NATO árið 1949 að landið hefði ekki her og hyggðist ekki koma honum upp. Sú forsenda er enn í fullu gildi.

Hlutverk Íslands verður hins vegar þeim mun meira áberandi á grunni „mýkri” varna (soft defense) þar sem utanríkisþjónustan gegnir lykilhlutverki og starf okkar á sviði friðargæslu og þróunaraðstoðar eru í öndvegi.

Einnig ber okkur í starfi á alþjóðavettvangi að standa vörð um ákveðin grunngildi sem eru algild og óháð trúarbrögðum, þjóðerni og efnahag. Hugtök eins og lýðræði, frelsi, jafnrétti og mannréttindi eru ekki orðin tóm. Þau eru undirstaða réttlætis og framfara um veröld alla. Þau eru hugmyndafræðilegur grunnur lýðveldisins Íslands og þeirra megin-alþjóðastofnanna sem landið á aðild að, s.s. Norðurlandaráði, NATO og Sameinuðu þjóðirnar. Þau eru því það leiðarljós sem starf okkar í alþjóðapólitísku samhengi byggir á, þar með talið á sviði öryggis og varnarmála.

Þó Ísland sé hvorki stórt né fjölmennt ríki fríar það okkur ekki ábyrgð til þátttöku í alþjóðapólítísku samstarfi né dregur það úr erindi okkar á leiksvið alþjóðamálanna. Ísland nýtur í dag til fulls ávaxtanna af lýðræðislegu alþjóðlegu samstarfi er byggir á alþjóðalögum.

Okkur ber því siðferðileg skylda til þess að standa vörð um þau gildi, og það sem meira er, tryggja þeim framgang. Við eigum að hafa metnað og þor til þess að láta rödd okkar og sjónarmið heyrast og við eigum að láta gjörðir fylgja orðum í öllu okkar starfi á alþjóðavettvangi. Aukið framlag og þátttaka Íslands á alþjóðavettvangi, þ.m.t. framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna ber þessu rökrétt vitni.

Í nútímanum nær öryggishugtakið til fleiri og flóknari þátta en áður þekktist. Nú fjalla öryggis- og varnarmál ekki eingöngu um hefðbundin stríðsátök heldur viðbrögð við umhverfisvá, mengun, náttúruhamförum, farsóttum og varnir gegn hryðjuverkum. Á Íslandi getum við glaðst yfir því að vera ekki lengur í eldlínu í köldu stríði, en einmitt þess vegna þurfum við að meta sjálfstætt þá ógn sem að okkur kann að steðja og byggja aðgerðir á því mati.“

„Kapphlaupið á Norðurpólinn“

By Uncategorized

Um breytingar á stöðu Íslands og norðurlandanna í varnar- og öryggismálum

Fyrirlestrar í samvinnu við Exercise Northern Challenge for Partnership for Peace

Saga og framtíð. Verður Ísland hlutlaust?
Norrænt sjónarhorn.

Utanríkisráðherra Ingibjörg Solrún Gísladóttir
Professor Guðni Th. Jóhannesson
Royal Danish Navy Commodore Lars Möller Pedersen
Swedish Army LtCol Claes Wolgast

Miðvikudag 29/8 kl. 14.00 – 16.00
Norræna húsið – Glerskáli
Ókeypis aðgangur.

Arr. Norræna húsið, Landhelgisgæslan, Sendiráð Danmerkur, Noregs, Finnlands og Svíþjóðar

Friðarsinninn Milan Rai aftur í fangelsi

By Uncategorized

Naming The Dead cover web2 Vinur okkar, Milan Rai, hefur nú verið fangelsaður í annað sinn á tveimur árum. Milan Rai er breskur friðar- og umhverfissinni, rithöfundur og blaðamaður. Hann heimsótti okkur ásamt eiginkonu sinni, listakonunni Emily Jones, sumarið 2004. Rai flutti erindi um Íraksstríð og saman héldu þau tvö námskeið í borgaralegri óhlýðni. Það er einmitt þessi borgaralega óhlýðni sem hefur nú í annað sinn á tveimur árum kostað hann fangelsisvist. En afbrot hans er kannski ekki verulega alvarleg þegar á allt er litið.

milanrai7 7 Milan Rai var dæmdur ásamt Maya Anne Evans fyrir að skipuleggja mótmælaaðgerðir innan eins kílómetra frá þinginu, en það er bannað að lögum. Þau voru dæmd til sektar sem þau neituðu að greiða og urðu því að sæta fangavist.

Milan Rai er forystumaður í friðarsamtökunum Justice Not Vengeance. Hann hefur skrifað nokkrar bækur, Chomsky’s Politics (Verso, 1995), War Plan Iraq (Verso, 2002), Regime Unchanged (Pluto, 2003) and 7/7: The London Bombings, Islam and the Iraq War (Pluto, 2006) og er ritstjóri Peace News.

Emilyjones Eftir fangavistina haustið 2005 skrifaði Maya Anne Evans í samvinnu við Milan Rai bókina Naming The Dead – A Serious Crime.

Vorið 2006 ferðaðist Emily Jones um Íran. Afrakstur þeirrar ferðar voru myndir sem hún gerði og hafa nú birst á bók Drawing Paradise on the ‘Axis of Evil’ ásamt ritgerðum eftir Milan Rai.