Skip to main content

Umsögn SHA um frumvarp til varnarmálalaga

By Uncategorized

Utanríkismálanefnd Alþingis sendi í síðasta mánuði Samtökum hernaðarandstæðinga til umsagnar frumvarp utanríkisráðherra til varnarmálalaga. Samtökin gerðu margvíslegar athugasemdir við frumvarpið, en aðaltillaga þeirra var að frumvarpinu yrði vísað frá, enda er tilgangur þess að mynda lagalegan ramma utan um aðild Íslands að NATO og hernaðarsamstarf við NATO og einstök NATO-ríki. Sögðu samtökin að nær væri að Alþingi beitti sér fyrir úrsögn Íslands úr NATO, en jafnvel þótt það yrði ekki, þá stefnir frumvarpið að því að binda í lög það sem íslensk stjórnvöld settu fyrirvara á við undirritun Atlantshafssamningsins árið 1949, það er að segja fulla þátttöku í hernaðarsamstarfi NATO. Þannig má segja að með þessum frumvarpi sé lagt til að látið verði af öllum fyrirvörum sem hafa verið á aðild Íslands að NATO. Í ljósi þess töldu SHA því rétt að vísa þessu frumvarpi frá.

Til vara, ef ekki yrði fallist á að vísa frumvarpinu frá, gerðu samtökin margar athugasemdir við einstök atriði þess. Þótt markmiðið með frumvarpinu, eins og því er lýst í 1. grein, líti vel út, það er að setja ramma og reglur um þessa starfsemi og „auðvelda lýðræðislegt eftirlit með varnartengdri starfsemi“, þá þykir samtökunum lítil innstæða fyrir þeim fyrirheitum. Samtökin gagnrýndu frumvarpið fyrir að gera ráð fyrir miklu valdi utanríkisráðherra en takmörkuðu hlutverki Alþingis og utanríkismálanefndar. Þá vara samtökin við því að sett verði á fót sérstök stofnun, Varnarmálastofnun, til að sinna þessum málum, enda hætt við að hún hafi tilhneigingu til að sanna sig og viðhalda sjálfri sér þegar miklu frekar er ástæða til að draga sem mest úr þessum málaflokki, og væri nær að stefna að því að halda honum svo í skefjum að hann rúmaðist innan einnar skrifstofu í utanríkisráðuneytinu, eins og var lengst af. Þá er gagnrýnt að Ratsjárstofnun verði innlimuð í Varnarmálastofnun, en í staðinn ætti að leggja áherslu á borgaralega starfsemi hennar og fela hana flugmálayfirvöldum. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir hernaðarlegum varnar- og öryggisvæðum, en samtökin telja að þau ætti að afnema í stað þess að binda þau í lög með þessu frumvarpi.

Umsögnini lýkur með þessum orðum:

Sem fyrr segir leggja SHA til að frumvarpinu verði vísað frá í heild sinni, enda vart á vetur setjandi. Kjarni þess er hernaðarhyggja – grímulausari en sést hefur í íslenskri löggjöf til þessa. Með þessu frumvarpi er verið að lögfesta eða setja lagalegan ramma um þátttöku Íslands í þeirri hernaðarstefnu- og starfsemi sem nú fer vaxandi víðsvegar um heim og veldur friðelskandi fólki æ meiri áhyggjum.

Vert er að hafa í huga að á sama tíma og fjármunum er ausið í málaflokka þá, sem nú eru skilgreindir sem varnarmál, er fé skorið niður til þeirra þátta sem fremur snúa að öryggi almennings, svo sem almennrar löggæslu og almannavarna. Íslenskum stjórnvöldum væri nær að hlúa að þeim þáttum en að leggja fram réttnefnt hermálafrumvarp með tilheyrandi útgjaldaliðum.

Umsögnina í heild má lesa hér:
Umsögn SHA um frumvarp til varnarmálalaga

Langur laugardagur í Friðarhúsi – undirbúningur fyrir aðgerðir 15. mars

By Uncategorized

Næstkomandi laugardagur verður langur laugardagur á Laugaveginum og þar um kring. Að venju verður þá líka langur laugardagur og opið hús í Friðarhúsinu Njálsgötu 87. Húsið verður opnað klukkan eitt.

Þessi laugardagur verður einkum helgaður undirbúningi fyrir aðgerðirnar 15. mars. Þann 20. mars verða liðin fimm ár frá innrásinnni í Írak og dagana á undan verða aðgerðir gegn stríðinu víða um heim.

Vinnufúsar hendur eru vel þegnar til að taka þátt í undirbúningnum, þótt það sé kvaðalaust að líta inn og fá sér bara kaffisopa og spjalla.

Það þarf að útbúa borða og spjöld og sitthvað fleira, en í aðgerðunum verða meðal annars táknrænar aðgerðir sem krefjast nokkurs undirbúnings. Vegna þeirra er vel þegið að fólk komi með skó sem hætt er að nota, einkum barnaskó. Þeir sem eiga aflögu skó, sem ekki eru mjög illa farnir, eru beðnir að kippa þeim með. Þá verða einnig tilbúnir dreifimiðar og plaköt sem þarf að koma út.

Fjölmennum í Friðarhús á löngum laugardegi. Tökum til hendinni, mótmælum stríðinu, vinnum að friði.

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss – í umsjón MFÍK

By Uncategorized

mfikHinn sívinsæli mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 29. feb. kl. 19. Að þessu sinni verður samkoman í umsjón Menningar- og friðarsamtakanna MFÍK.

Kokkur kvöldsins er Veróníka S.K. Palaniandy (Rúbý) frá Singapúr.

Matseðillinn verður mátulega framandi til að falla öllum í geð:

* Kjötbollur (nautakjöt) með ferskum grænum piparkornum, basilíku og myntu.

* Gular baunir í kókos með ýmsu grænmeti (þessi réttur hentar grænmetisætum).

* Blandað grænmetissalat með ólífuolíusósu.

* Réttirnir eru borðaðir með brauði.

* Frönsk súkkulaðikaka í eftirrétt og boðið upp á kaffi og te með súkkulaðisírópi og blóðappelsínusírópi.

Andlega næringu munu skáldkonurnar Guðrún Hannesdóttir, Ingibjörg Haraldsdóttir og Vilborg Dagbjartsdóttir sjá um.

Fjölmennum og tökum með okkur gesti.

Borðhald hefst kl. 19 en húsið opnar 1/2 tíma áður.

Maturinn kostar 1.500 kr.