Firring og fásinna – Íslenska „friðarhreyfingin“ er ónýt

By 06/04/2008 April 14th, 2008 Uncategorized

Eftirfarandi grein Flosa Eiríkssonar, félaga í SHA, birtist nýverið í tímaritinu Herðubreið. Aðstandendur Friðarvefsins fóru fram á að fá að birta greinina á þessum vettvangi og féllst geinarhöfundur og útgefendur Herðubreiðar góðfúslega á það.

„Fjöldafundurinn í fyrrakvöld er einn þeirra atburða sem ekki gleymast, sem lifa í minningunni, ylja og styrkja.
Þúsundir og aftur þúsundir Reykvíkinga söfnuðust saman þögulir og alvarlegir, þrátt fyrir kaldranalegt og leiðinlegt veður. Og þá lá við að maður fagnaði veðrinu. Afleiðing þess var sú að þeir einir mættu á fundinn sem höfðu brennandi áhuga á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.”

Svo segir í leiðara Þjóðviljans föstudaginn 18. maí 1951 um útifund Sósíalistaflokksins, sem haldinn var við Miðbæjarskólann í Reykjavík tveimur dögum fyrr, til að mótmæla varnarsamningum milli Íslands og Bandaríkjanna sem undirritaður var 5. maí.

Þessi fjölmenni fundur var ein birtingarmynd þeirrar miklu andstöðu sem var við Nató, varnarsamninginn og veru Bandaríkjahers í landinu.

Í ágústmánuði 2007, 56 árum síðar, var aftur blásið til mótmæla. Nú var tilefnið varnaræfingar Nató, en þeim var mótmælt með því að ganga á milli sendiráða Noregs, Danmerkur og Bandaríkjanna. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins tóku um 80 hernaðarandstæðingar þátt í þessum mótmælum, og það þrátt fyrir rjómablíðu.

Í fréttinni segir svo: „Í hópi mótmælenda mátti sjá marga gamla hernámsandstæðinga og einnig gömul mótmælaspjöld og kunnugleg.” Greinilegt er að fréttamanni finnst þetta skemmtilegt umfjöllunarefni, nokkurs konar krydd í tilveruna, skondin og skemmtileg frétt eins og þær sem oft eru fluttar í seinni hluta fréttatímans til að létta á landsmönnum brúnina, en hann sér ekki að hér séu á ferðinni nein sérstök tíðindi.

Lögreglan í Reykjavík virðist hafa haft sama mat á þessum fámennu „endurfundum“ – að þaðan væri ekki mikilla tíðinda eða hættu að vænta – því í fréttinni segir ennfremur: „Stefán Pálsson formaður samtakanna hafði á orði að hann hálfvegis saknaði þess að hvergi væri lögreglu að sjá.” Svo var komið fyrir hinni rótttæku hreyfingu gegn her í landi að hún var ekki einu sinni ofsótt af lögreglunni – það var ekki aðeins almenningur sem sá ekki ástæðu til að taka þátt í mótmælum á hennar vegum, heldur nennti löggan ekki einu sinni að mæta.

En það var fleira sem olli Stefáni formanni hugarangri en fjarvera lögreglunar. Í viðtali við Moggann orðar hann áhyggjur sínar svo: „Við erum með almannavarnir, landhelgisgæslu og lögreglu og eigum að efla þessarar stofnanir, en ekki að nota peningana í að þjálfa upp erlenda dáta sem er með höppum og glöppum hvort séu lausir eða eigi heimangengt ef eitthvað kemur upp á.” Það er óneitanlega nýstárlegt að formaður hernaðarandstæðinga hafi áhyggjur vegna efasemda um að erlendir hermenn „eigi heimangengt ef eitthvað kemur upp á.” Ekki er útskýrt hvað þetta „eitthvað“ er sem gæti komið upp á, en sú „hætta” virðist þó vera með þeim hætti að ástæða sé til að efla landhelgisgæsluna og lögregluna.

Nató vottar Steingrím

Það er ef til vill bara við því að búast að samtök hernaðarandstæðinga skipti engu máli í umræðunni nú þegar þátttaka Íslands í alþjóðlegu starfi og Nató er til umræðu með opnari hætti en verið hefur um áratugaskeið.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur haft forgöngu um að umræða um þessi mál er mun opnari en áður og sagði til að mynda í ræðu á á fundi Samtaka um vestræna samvinnu þriðjudaginn 27. nóvember 2007:
„Ég hef nú þegar beitt mér fyrir því að allir nefndarmenn [utanríkismálanefndar] fengu öryggisvottun NATO svo hægt sé að gera þeim einnig grein fyrir málefnum sem NATO bindur trúnaði. Viðtökur Alþingismanna gefa mér góðar vonir um að þessi vinnubrögð séu vísir að nýju upphafi…”
Einn þeirra þingmanna sem tók svona vel í þessa hugmynd er Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem þar með hefur undirgengist að segja ekki nokkrum manni frá þeim leyndarmálum sem Nató mun trúa honum fyrir. Einhvern tíma hefði nú yfirlýstur andstæðingur Atlandshafsbandalagsins ekki tekið þátt í slíku og afþakkað pent þann trúnað. Ákvörðun Steingríms sýnir vandræðin sem hann og fleiri eru lentir í umræðunni um utanríkismál og þær breytingar sem hafa orðið á umhverfinu með brottför bandaríska hersins á haustdögum 2006.

Gamla, góða skammstöfunin

En slík vandræði herja á fleiri. Í aðdraganda landsfundar Samtaka herstöðvaandstæðinga 2006 fór fram umræða um hlutverk og nafn samtakanna. Þáverandi miðnefnd lagði til að nafni samtakanna yrði breytt í „Samtök hernaðarandstæðinga” og segir í rökstuðningi með tillögunni að það sé „sameiginlegt álit miðnefndar að hið nýja nafn myndi endurspegla verkefni og baráttumál félagsins jafnvel betur en það ágæta nafn sem það hefur borið síðustu 24 árin.” Það virðist semsagt vera skoðun miðnefndarinnar að það að vera andstæðingur „herstöðva“ Bandaríkjanna á íslensku landi hafi ekki endurspeglað verkefni og baráttumálin nógu vel!

Ætli það sögulega mat miðnefndarinnar, að heiti Samtaka herstöðvaandstæðinga hafi í raun verið hálfgert rangnefni sem ekki endurspeglaði hlutverkið, hafi ekki komið einhverjum félagsmönnum á óvart? Slíkir þankar sýna vel vandræðaganginn sem samtökin eru lent í um hlutverk sitt og tilgang. Til öryggis er reynt í næstu setningu að róa íhaldssamari félaga: „Þá spillir ekki fyrir að hljómur nýja nafnsins er ekki ósvipaður þess sem fyrir var og skammstöfunin gæti staðið óbreytt.“

Óbreytt skammstöfun sparar væntanlega fjármuni og vinnu við að endurgera gömlu og góðu mótmælaspjöldin sem dregin eru fram við margvísleg tækifæri.

Sitt sýndist þó hverjum um þessa breytingu og vildu þeir nota tækifærið til að ræða hlutverk samtakanna og baráttuaðferðir. Fóru þær umræður meðal annars fram á póstlista SHA (sama gamla góða skammstöfunin). Elías Davíðsson, einn ötulasti baráttumaðurinn í hreyfingunni, talar enga tæpitungu þar sem hann segir að „barátta SHA á liðnum 50 árum hefur litlu sem engu skilað.” Elías nefnir nokkur dæmi, til að mynda: „Brottför bandarísks hers var ekki árangur baráttu SHA heldur ákvörðun sem tekin var í Pentagon af hnattrænum hagsmunum Bandaríkjanna. Ákvörðunin var m.a. tekin í óþökk stjórnarflokkanna á Íslandi.” Fleira nefnir hann til rökstuðnings fyrir því að SHA séu tiltölulega máttlítil samtök, en bætir við að nú sé von til að breyta þeim verulega.
Í svari Stefáns formanns má sjá að hann vill halda nokkuð í forna siði „Ég er alinn upp innan SHA og sem sagnfræðingur hef ég legið í gömlum blöðum og tímaritum. Ég leyfi mér því að andmæla því að SHA sé á síðustu misserum að þokast frá upphaflegum markmiðum og hugmyndafræði í átt til einfeldningslegrar friðarstefnu sem skorti tengsl við raunveruleikann. Þvert á móti tel ég að orðræða, baráttumál og baráttuaðferðir SHA hafi raunar verið ótrúlega svipuð frá upphafi til þessa dags.

Óhætt er að taka undir að það er ótrúlegt að samtök sem vilja vera mótandi í umræðu á Íslandi hafi uppi svipaða „orðræðu, baráttumál og baráttuaðferðir” árið 2006 og 1972. Í stað þess að telja þetta sérstakt gæðamerki mætti halda því fram að SHA hafi ekki náð að „fylgjast með” og halda hlutverki sínu sem málsmetandi þátttakandi í umæðunni. Raunar er það svo að „róttæklingar” og sérstaklega þeir yngri eru oft manna íhaldssamastir í mörgum hlutum.

Sprengdi CIA Tvíburaturnana?

Tilvistarkreppan birtist í mörgum myndum. Líflegar umræður eru meðal félagsmanna um hvort það að vera hernaðarandstæðingur hljóti ekki að fara saman við það að vera „andheimsvaldasinni”, og því eigi að styðja „þjóðfrelsisbaráttu” þótt háð sé með vopnavaldi. Er í raun merkilegt að skoða umræður um hvenær sé réttlætanlegt að grípa til vopna og þann skilning sem margir félagsmenn sýna hryðjuverkjahópum í Miðausturlöndum og víðar. Í það minnsta virðist boðskapur Ghandis og Martins Luthers Kings um friðsamlega andstöðu ekki eiga mikinn hljómgrunn lengur. Það kemur raunar fram í margívitnuðu póstspjalli að hugmyndum um að breyta nafni samtakanna í „Friðarsamtök Íslands” var hafnað á landsráðstefnu SHA „einmitt á þeirri forsendu að hugtakið friðarsinni væri útvatnað…” Og er ekki að furða þótt áhrif samtakanna fari minnkandi.

Hávær hópur félagsmanna heldur einnig fram þeirri skoðun að árásirnar á Pentagon og tvíburaturnana 11. september hafi verið verk bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Formaður miðnefndarinnar telur raunar nauðsynlegt að skrifa sérstaka grein á vefinn til að bera til baka að þetta sé skoðun SHA, en fagnar samt framtakinu: „Það er á hinn bóginn lofsvert að hópur fólks sé til í að fórna orku sinni og tíma til að draga viðtekin sannindi í efa og spyrja nýrra spurninga…” og fetar í greininni allri eitthvert undarlegt einstigi orðræðu sem aðeins er skiljanleg innvígðum. Og hryðjuverkin eru afgreidd svona: ,,Það skiptir ekki máli hvort íslamskur hryðjuverkamaður með dúkahníf eða CIA-agent með fjarstýringu sprengdi skrifstofubyggingu í New York – eftir sem áður erum við sem friðar- og afvopnunarsinnar á móti því þegar ríkustu og öflugustu herveldi heims láta sprengjum rigna yfir fátækt fólk í fjarlægum löndum.” Og það er hárétt hjá Stefáni, en ekki er vikið orði að þeim tæplega 3000 sem létust í „skrifstofubyggingunni” í New York; engin nálgun á það hvernig bregðast ætti við árásum á almenning.

Ótal aðgerðum sem Bandaríkin og fleiri ríki hafa gripið til á undanförnum árum hefur réttilega verið mótmælt kröftuglega víða um heim með gildum rökum. Pennahöfundar á vef SHA eru aftur á móti líka í einhverjum allt öðrum leiðangri. Til að mynda koma fram ítrekaðar áhyggjur af að ekki sé tekið nægjanlegt tillit til Rússlands og verið sé að egna „rússneska björninn”. Er býsna óvænt að sjá yfirlýsta vinstri sinnaða friðarsinna nota sömu rök og Pútín Rússlandsforseti, sem er einn af ógeðfelldustu stjórnmálamönnum Evrópu.

Tordenskjold og Einar Þveræingur

Afdráttarlaus dómur Elíasar um starf SHA fellur síðar í póstlistasamskiptunum þar sem hann segir: „Mikil orka hefur farið innan SHA, hins vegar, til að rifja minningar frá gömlum tímum, þegar baráttan var meiri, og halda málamyndamótmæli þegar „tilefni gefst“, þ.e. þegar herskip koma og þess háttar. Sjaldan hafa SHA tekið frumkvæði í baráttumálum. Þó má til sanns vegar færa að SHA hafa átt þátt í því að fá sveitarfélög til að lýsa sig kjarnorkulaus svæði, en þetta hefur ekki stuðlað að marktæku leyti að umræðu um aðild Íslands að kjarnorkubandalagi. Ég tel rétt að SHA skoði í eigin barm og læri af 50 ára árangurslausri baráttu. Viljum við halda áfram að vera saumaklúbbur gamalla róttæklinga sem veltir sér upp úr stórræðum gærdagsins eða leitt baráttu almennings gegn heimsvaldastefnu í öllum sínum myndum, þ.m.t hernaðarlegum?”

Á landsfundinum var nafnbreytingin samþykkt, en einnig ályktun um hugmyndir um samstarf við Norðmenn við varnir landsins, þar sem „Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla öllum áformum ríkisstjórnarinnar um að hefja svo kallaðar „varnarviðræður“ við Noreg.” Í tillögunni eru vitanlega tínd til þau rök sem SHA telja sterkust gegn þessum hugmyndum og væntanlega líklegastar til þess að snúa almenningi í landinu á sveif með málstað SHA, en þar segir m.a.: „Þegar litið er til sögunnar þá má segja að hinar svo kölluðu „varnir Íslands“ hafi verið verkefni Noregskonungs lengur en nokkurs annars yfirvalds, eða frá 1262 til 1814. Ekkert við þá reynslu gefur tilefni til þess að þetta verkefni eigi aftur að fela Norðmönnum. Enda þótt Norðmenn hafi vissulega átt sjóhetjur eins og Tordenskjold á árum áður stuðlaði hernaður slíkra manna aldrei að meira öryggi eða betri aðstæðum íslenskrar alþýðu.”

Og ef þessi rök skyldu ekki duga til að opna augu íslenskrar alþýðu er aukreitis teflt fram málatilbúnaði sem öllum landsmönnum er væntanlega kunnur og vitnað í aðra hetju: „Rök Einars Þveræings á Alþingi hinu forna gegn hugmyndum Ólafs Haraldssonar Noregskonungs um herstöð í Grímsey eiga jafn vel við gegn hugmyndum dagsins í dag um norsk hernaðarumsvif við Ísland.”

Fortíð og framtíð

Það er nauðsynlegt að Íslendingar eigi öflug samtök friðarsinna sem taka virkan þátt í umræðu um breytingar í alþjóðamálum og hvernig Ísland eigi að staðsetja sig í þeim breytingum. Slík samtök þurfa að starfa á breiðum grunni og horfa til framtíðar. Ef sterkustu og öflugustu rökin í umræðu um varnarmál árið 2006 er frammistaða Norðmanna á miðöldum eða málafylgja Einars Þverærings þá munu ekki einu sinni mæta 80 á næsta mótmælafund og SHA halda áfram að vera saumaklúbbur sífellt eldri „róttæklinga” – í efni og anda.

Flosi Eiríksson
– höfundur er félagi í samtökum hernaðarandstæðinga