* Nautakjöt að skagfirskum hætti
* Bakaðar kartöflur
* Sósuveisla
* Matarmikill grænmetisspaghettíréttur
* Brauð
* Kaffi og konfekt
Frá árinu 1980 hafa andstæðingar stríðs og vígbúnaðar efnt til friðargöngu á Þorláksmessu. Þar hefur verið gengið niður Laugaveginn í Reykjavík, sem og á öðrum stöðum á landinu, með kórsöng og loga lifandi ljósa til að minna á kröfuna um heim án ofbeldis, kúgunar og átaka. Friðargangan hefur orðið nær ómissandi þáttur í jólahaldi fjölda fólks og áminning um mikilvægi æðri gilda og hugsjóna á tímum sem oft eru undirlagðir af streitu og neysluhyggju.
Það er því afar sárt að annað árið í röð neyðist samstarfshópur friðarhreyfinga til að fella niður friðargöngu á Þorláksmessu. Ástæðan er þó öllum kunn, samkomutakmarkanir vegna Covid-heimsfaraldursins.
Faraldur þessi, sem fangað hefur svo stóran hluta af athygli heimsbyggðarinnar undanfarin misseri, er prýðileg áminning um að þrátt fyrir allt erum við Jarðarbúar öll á sama báti. Örlög okkar eru samofin óháð efnahag eða hernaðarmætti. Þær svimandi fjárhæðir sem dælt er í vígbúnað og rekstur herja koma að engu gagni andspænis hinum raunverulegu ógnum sem að mannkyni steðja eins og loftslagsvánni eða farsóttum. Lausn slíkra vandamála verður ekki fundin með valdbeitingu heldur einvörðungu með sameiginlegu átaki okkar allra og með því að tryggja raunverulegt samfélagslegt réttlæti. Vígbúnaður elur hinsvegar á gagnkvæmri tortryggni og er í sjálfu sér ógn við mannkyn.
Umhverfisváin og heilbrigðisógnin ættu einnig að vekja okkur til vitundar um þá skelfilegu sóun sem hernaðarvélum heimsins fylgja. Á hverri mínútu er svimandi fjárhæðum varið úr sameiginlegum sjóðum til að hlaða undir þau öfl sem hagnast á hermennsku og vígvæðingu. Þær upphæðir sem varið er til að takast á við mörg brýnustu samfélagslegu verkefni samtímans blikna við hliðina á þeim tölum sem stríðsmangarar veraldar hafa úr að spila. Erfitt er að gera sér í hugarlund þær framfarir sem tryggja mætti með því að beina hernaðarútgjöldum heimsins til annarra og nytsamlegri verkefna.
Sturlaðasta dæmið um hergagnahítina er rekstur kjarnorkuvopnabúra stórveldanna. Nú þegar búa þau yfir mætti til að tortíma öllu lífi á hnettinum nokkrum sinnum, en áfram er haldið í þróun og framleiðslu. Þótt kjarnorkuógnin kunni að virðast fjarlægari nú en á tímum kalda stríðsins er hættan síst minni og ekki þyrfti annað en fljótfærnisákvörðun eða bilun í tæki til að ógna tilvist mannkyns eins og við þekkjum hana í dag.
Íslenskir friðarsinnar hafa um langt skeið kallað eftir því að stjórnvöld skipi Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Sá samningur er raunhæfasta leiðin til uppræta þessi skelfilegu vopn á sama hátt og fyrri afvopnunarsáttmálar hafa gert framleiðslu og notkun á jarðsprengjum, sýkla- og efnavopnum siðferðislega óverjandi.
Í ár gafst friðarsinnum ekki færi á að ganga á Þorláksmessu til að minna á kröfur sínar um friðsæla framtíð, án styrjalda og vopnakapphlaups. Vonandi verður dagurinn í dag þó tilefni til að sem allra flestir íhugi málstað friðarhreyfingarinnar og sýni stuðning sinn með hverjum þeim hætti sem verða vill.
Gleðileg jól og friðsælt komandi ár.
-Félag leikskólakennara
-Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
-Samhljómur menningarheima
-Samtök hernaðarandstæðinga
-SGI, mannúðar og friðarsamtök búddista
Kæri hernaðarandstæðingur
Friðarganga á Þorláksmessu var fyrst haldin í Reykjavík árið 1980 og hélst sú hefð óslitin þar til í fyrra þegar ekki var hægt að halda göngu vegna samkomutakmarkanna. Því miður gefur staðan í faraldrinum ekki kost á að taka upp þráðinn að þessu sinni. Annað árið í röð mun friðargangan í Reykavík falla niður. Þó mun samstarfshópur friðarhreyfinga senda frá sér ávarp á Þorláksmessu.
Á Akureyri verður sömuleiðis ekki haldin nein ganga í ár.
Athugið að hætt var við gönguna á Ísafirði vegna nýrra samkomutakmarkanna.
Gleðilega friðarhátíð.
Eftirfarandi bréf var sent á nýkjörna þingmenn í desember til að kynna okkar málstað:
Kæri þingmaður
Til hamingju með það verkefni sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í þessu hlutverki. Við viljum jafnframt nýta tækifærið til að vekja athygli þína á ýmsu því er snýr að friðar- og afvopnunarmálum.Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.
* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Kjarnorkuveldin hafa brugðist þeirri skyldu sinni að stuðla að afvopnun en halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Bandaríkin hafa t.d. stefnt að þróun „hagnýtra“ kjarnavopna til nota í hernaði. Þess vegna hafa 56 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Ekkert kjarnorkuveldanna eða aðildaríkja Nató hefur tekið það skref en við skorum á þig að beita þér fyrir aðild Íslands að þessum samningi. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.
* Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu Nató, sem er fyrst og fremst tæki til að styðja við hagsmuni lykilríkja þess og þá einkum Bandaríkjanna. Allt tal um lýðræðislegt eðli bandalagsins er innantómt með tilliti til þess valds sem þau ríki hafa yfir bandalaginu. Stríðsaðgerðir bandalagsins hafa þvert á móti grafið undan friði og lýðræði í heiminum. Þá má nefna Tyrkland og fleiri aðildarríki Nató sem varla geta talist lýðræðisríki. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr Nató.
* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Það er okkar mat að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar og leggja grunn að sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við skorum á þig að leggja þeirri uppsögn lið og standa gegn öllum áformum um aukna viðveru erlendra herja hér á landi.
* Nokkrum sinnum á ári er hér á landi skipulagt æfingaflug orrustuflugmanna Nató-ríkja í æfingum sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla. Hér er einungis um að ræða niðurgreiddar heræfingar sem eru engum til gagns en mörgum til ama. Nýjasta dæmið er æfingarflug B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem gegna augljóslega engu varnarhlutverki fyrir Ísland. Umhverfisáhrif þessa æfingaflugs eru líka umtalsverð og ganga gegn markmiðum Ísland í loftslagsmálum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að flugæfingum þessum verði hætt hið snarasta.
* Á síðustu árum hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað í Miðausturlöndum með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Í þeim eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar eða bakhjarlar og vopnasalar. Brottför Bandaríkjanna og Nató frá Afganistan síðasta sumar og valdataka Talibana eftir 20 ára stríð sýnir hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að stórveldin láti af íhlutunarstefnu sinni og að böndum verði komið á alþjóðlega vopnasölu.
* Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Nató-ríki bera þar þunga ábyrgð, svo sem í Afganistan og Sýrlandi en hafa með örfáum undantekningum ekki tekið við flóttamönnum í samræmi við það. Við skorum á þig að berjast fyrir því að Ísland styðji flóttamannahjálp, þar á meðal með því að taka við mun fleira fólki.
* Styrjaldir og átök í heiminum eiga sér undantekningarlítið efnahagslegar rætur. Friður á traustum grunni verður aldrei tryggður nema með félagslegu réttlæti í heiminum. Við skorum á þig að vinna í störfum þínum gegn kúgun, arðráni og ofbeldi í hvaða mynd sem er.
Guttormur Þorsteinsson,
fomaður Samtaka hernaðarandstæðinga
8. desember 2021
Stjörnufræðingurinn Þorsteinn Sæmundsson ritar grein í Morgunblaðið þann 8. nóvember þar sem hann veltir því fyrir sér hvort íslenskir friðarsinnar, sem minnast ár hvert kjarnorkuárásanna á Japan árið 1945, séu nægilega upplýstir um söguna. Óhætt er að róa fræðimanninn með því að fólkið sem gagnrýnir þennan stærsta einstaka stríðsglæp allra tíma er upp til hópa prýðisvel að sér í sagnfræði.
Áætlað er að yfir 200 þúsund manns hafi farist í kjarnorkuárásunum á Hiroshima og Nagasaki, en að auki lést fjöldi fólks síðar af sárum sínum eða úr sjúkdómum af völdum geislavirkni. Þrátt fyrir ólýsanlegan hrylling og blóðbað síðari heimsstyrjaldarinnar komust engar stakar árásir stríðsins í hálfkvisti við þessa atburði.
Fyrstu viðbrögð bandarískra ráðamanna og fjölmiðla við árásunum einkenndust af hefndarþorsta. Eyðing borganna tveggja var að margra mati réttmæt refsing fyrir framgöngu Japana í stríðinu og óteljandi ódæðisverk þeirra. Ekki leið þó á löngu uns stjórnvöld í Washington áttuðu sig á afleiðingum gjörða sinna og hófu í kjölfarið að réttlæta árásirnar, ekki sem hefnd heldur sem óhjákvæmilega aðgerð sem ákveðin var með þungum huga.
Henry Stimson, fyrrum varnarmálaráðherra BNA, ritaði snemma árs 1947 grein um hvernig ákvörðunin um að varpa kjarnorkusprengjunum hefði verið tekin. Í skrifum Stimson, sem oft er vitnað til, kom fram sú skoðun að árásirnar hefðu í raun bjargað mun fleiri mannslífum, þar sem reynt var að áætla mannfall ef til innrásar Bandaríkjahers á Japan hefði komið. Þessi túlkun er fyrirferðarmikil í grein Þorsteins.
Sagnfræðingar hafa fundið ýmsar veilur á þessari röksemdafærslu. Bent hefur verið á að það jaðri við rasísk viðhorf að fjalla um Japani sem óseðjandi stríðsvélar sem berðust út í rauðan dauðann óháð allri skynsemi. Heimildir í skjalasöfnum hafa leitt í ljós að Japanir voru á barmi uppgjafar fyrstu daga ágústmánaðar 1945. Þar skipti mestu máli yfirvofandi þátttaka Sovétmanna í stríðinu, en stjórninni í Tókýó leist enn verr á tilhugsunina um sovéskt hernámslið en bandarískt. Einnig má leiða líkum að því að Bandaríkjamönnum hafi verið mikið í mun að ljúka stríðinu áður en Sovétmenn blönduðu sér í leikinn fyrir alvöru, til að losna við þá frá friðarsamningaborðinu.
Eftir á að hyggja er ljóst að það sem öðru fremur seinkaði uppgjöf japanska hersins voru kröfur Bandaríkjamanna um afsögn keisarans. Slík skilyrði höfðu verið sett gagnvart evrópskum andstæðingum Bandamanna, en í Japan hafði keisarinn hálfguðlega stöðu. Þegar á hólminn var komið féllust Bandaríkjamenn á að keisarinn héldi völdum, en líklega hefði mátt ljúka styrjöldinni mun fyrr ef sú afstaða hefði legið fyrir.
En úr því að uppgjöf Japana var á næsta leyti, hvers vegna kaus þá Truman-stjórnin að beita þessu skelfilega vopni? Svarið við þeirri spurningu er margþætt. Í fyrsta lagi þyrsti marga Bandaríkjamenn í hefndir. Stríðsglæpir japanska hersins voru ærnir og litu ýmsir svo á að með þeim hefðu þeir fyrirgert öllum rétti sínum þannig að sjálfsagt væri að víkja til hliðar alþjóðalögum á borð við Genfarsáttmálann. Nokkuð eimir af því viðhorfi í fyrrnefndri grein Þorsteins.
Í annan stað hafði Manhattan-áætlunin við þróun kjarnorkusprengjunnar kostað svimandi fjárhæðir. Hætt var við því að einhverjir kynnu að setja spurningamerki við þá stjórnvísi að hafa eytt öllum þessum fjármunum, tíma og orku í miðri heimsstyrjöld til að þróa vopn sem ekki hefði verið nýtt í stríðinu sjálfu. Hefðu ekki vaknað spurningar eftir á um hvort sigur hefði unnist miklu fyrr en peningunum hefði ekki verið sóað í vítisvél sem ekki stóð til að nota í raun og veru?
Í þriðja lagi er um margt rökréttara að líta ekki aðeins á sprengjurnar í Hiroshima og Nagasaki sem þær síðustu sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni, heldur ekki síður sem þær fyrstu í nýrri styrjöld: Kalda stríðinu. Vitað er að Hiroshima varð ekki fyrir valinu sem skotmark vegna hernaðarlegs mikilvægis borgarinnar, raunar þvert á móti. Lítið hernaðarlegt gildi hennar gerði það að verkum að borgin hafði ekki orðið fyrir viðlíka árásum og aðrar japanskar borgir og var því með heillegasta móti. Skotmarkið var valið til að sýna fram á hámarkseyðileggingu, ekki sigruðum Japönum heldur verðandi fjendum – Sovétmönnum.
Árásirnar á Hiroshima og Nagasaki voru kaldrifjaðir stríðsglæpir sem framdir voru til að senda skýr skilaboð um hernaðarlega yfirburði Bandaríkjanna. Niðurstaðan varð vopnakapphlaup sem enn sér ekki fyrir endann á. Af þessu kapphlaupi hefur leitt að gerð kjarnorkuvopna hefur orðið sífellt einfaldari og ódýrari. Það sem einu sinni var bara á færi öflugustu risavelda með herskörum vísindamanna hefur nú verið leikið eftir af snauðum útlagaríkjum á borð við Norður-Kóreu. Það er hin ömurlega arfleifð glæpaverksins í Hiroshima fyrir rúmum þremur aldarfjórðungum.
Stefán Pálsson
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu
Miðnefnd SHA samþykkti í byrjun mánaðar að senda eftirfarandi fyrirspurn á utanríkisráðuneytið vegna B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem höfðu viðveru hér í ágúst og september:
Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.
Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.
Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga
- Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
- Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
- Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
- Hvert væri efni slíks samkomulags?
- Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?