All Posts By

Guttormur Þorsteinsson

B-2 sprengjuþota á Keflavíkurflugvelli

Rýr svör við spurningum um sprengjuþotur

By Fréttir, Í brennidepli

Í Dagfara síðasta haust var fjallað um viðveru B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og hvað fælist í því að landið væri skilgreint sem útstöð fyrir þær. Til að fylgja málinu eftir sendu Samtök hernaðarandstæðinga eftirfarandi fyrirspurn til utanríkisráðuneytisins:

Í fréttatilkynningu Bandaríkjahers þann 29. ágúst árið 2019 kom fram að herinn liti á Ísland sem útstöð (forward location) fyrir B-2 sprengjuflugvélar sínar. Vélar þessar eru taldar mikil tækniundur og er ætlað að fljúga óséðum langt inn á yfirráðasvæði mögulegra óvina og varpa þar sprengjum, þar með talið kjarnorkusprengjum.

Þessi yfirlýsing frá 2019 var nýverið rifjuð upp í tengslum við endurkomu véla af þessari tegund til Keflavíkurflugvallar.
Samtök hernaðarandstæðinga vilja því spyrja utanríkisráðuneytið eftirfarandi spurninga:

      1. Hvað felst að mati ráðuneytisins í hugtakinu útstöð?
      2. Felur tilvitnuð yfirlýsing Bandaríkjahers í sér breytingu á hernaðarlegri stöðu Keflavíkurflugvallar?
      3. Hefur verið gert sérstakt samkomulag við íslensk stjórnvöld um viðveru og umsvif þessara véla hér á landi?
      4. Hvert væri efni slíks samkomulags?
      5. Telur ráðuneytið að staða Keflavíkurflugvallar sem útstöðvar véla sem m.a. eru ætlaðar til beitingar kjarnorkuvopna samrýmist markmiðum og anda þjóðaröryggisstefnu Íslands sem tiltekur sérstaklega bann við slíkum vopnum hér á landi?

Að endingu barst stuttaralegt svar frá utanríkisráðuneytinu:

Almennt gildir að vera liðsafla og búnaðar Bandaríkjanna hér á landi er á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna og síðari viðaukum við hann og afleiddra samninga. Staða Keflavíkurflugvallar er óbreytt frá 2006 þegar varanlegri viðveru Bandaríkjahers lauk hér á landi. Ekki eru gerðir sérstakir samningar um viðdvöl einstakra flugvéla eða haffara, en ávallt er haft samráð við utanríkisráðuneytið um komur þeirra.

Hvað varðar vangaveltur um komur loftfara eða skipa sem mögulega geta borið kjarnorkuvopn skal undirstrikað að þjóðaröryggsstefnan er afdráttarlaus hvað varðar þá stefnu að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum. Þessi yfirlýsta stefna Íslands hefur verið kynnt og áréttuð við öll þau bandalagsríki Íslands sem búa yfir kjarnavopnum.

Hér er ýmsu ósvarað. Ef þetta er öll sagan þá virðist sem að ekkert samráð hafa verið haft við íslensk stjórnvöld um veru sprengjuþotana hér. Utanríkisráðuneytið virðist heldur ekki vilja eða geta lagt neitt mat á hvaða hernaðarlegu þýðingu það hefur fyrir landið að vera nú skilgreint sem útstöð þessara sprengjuþota. Það hallar augljóslega nokkuð á þann aðila að varnarsamning sem hefur ekki áhuga á að skilgreina hernaðarlega stöðu landsins. Hér dúkar svo aftur upp sú túlkun að viljayfirlýsingin um að Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum í þjóðaröryggisstefnunni jafngildi slíkri friðlýsingu og að Bandaríkin hljóti að taka mið af því. Það teljum við ekki fullnægjandi tryggingu fyrir því að kjarnorkuvopn séu ekki flutt til landsins.

Það er sérstaklega mikilvægt nú þegar stríð hefur brotist út í Evrópu og Nató-ríkin auka viðbúnaðarstig sitt og vígvæðingu að íslensk stjórnvöld hafi allavega einhverja aðkoma að því að skilgreina hvað teljist til varna landsins, að þau hafi einhverjar forsendur til þess að setja mörk við því hve frjálslega bandaríski herinn megi túlka varnarsamninginn til að breyta Keflavíkurflugvelli í herstöð í árásarskyni. Þetta svar gefur ekki mikla von til þess.

Samtökin hafa vakið athygli á þessum rýru svörum við þingmenn og vonir standa til þess að eftir þeim leiðum fáist haldbetri svör frá utanríkisráðuneytinu. Við fylgjum því máli eftir og munum gera grein fyrir því.

Landsfundur SHA 2022

By Viðburður
Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga verður haldinn í Friðarhúsi laugardaginn 2. apríl kl. 11.
Fundurinn hefst á almennum fundarstörfum þar sem verður farið yfir starf síðasta árs, línurnar lagðar fyrir næsta starfsár og kosið í miðnefnd samtakanna. Allir borgandi meðlimir hafa atkvæðisrétt.
Kl. 12:30 fáum við Nínu Helgadóttur frá Rauða krossinum í heimsókn til að fræða okkur um móttöku flóttamanna frá Úkraínu og mál flóttamanna almennt.
Svo verða opnar umræður um stríðið í Úkraínu og önnur mál í deiglunni.
Sjáumst á laugardaginn.

Marsmálsverður

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverðir SHA eru komnir á fulla ferð eftir Covid-truflanir síðustu missera. Að þessu sinni mun harðsnúið kokkateymi stýra pottum og pönnum. Freyr Rögnvaldsson sér um kjötmáltíðina en kjallarafjölskyldan úr Eskihlíðinni sér um grænkerafæðuna.
Matseðill:
* Nautakjöt að skagfirskum hætti
* Bakaðar kartöflur
* Sósuveisla
* Matarmikill grænmetisspaghettíréttur
* Brauð
* Kaffi og konfekt
Að borðhaldi loknu mun tónlistarmaðurinn Teitur Magnússon taka lagið.
Verð kr. 2000. Öll velkomin.

Ályktun miðnefndar SHA um stríðið í Úkraínu

By Ályktun, Í brennidepli
Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga fordæmir innrás Rússa í Úkraínu sem hófst í morgun og gæti leitt til langvinns stríðs. Ekkert getur réttlæt slík viðbrögð og ljóst er að hernaðarátök í Úkraínu geti valdið mikilli eyðileggingu og þjáningum fólks. Hernaðurinn nú er enn eitt skipbrot þeirrar hugmyndafræði að tryggja megi frið og öryggi með vígvæðingu.
Frá lokum Kalda stríðsins hafa stórveldin látið renna sér úr greipum ótal tækifæri til afvopnunar og friðsamlegrar sambúðar. Þess í stað hefur verið grafið jafnt og þétt undan fullveldishugtakinu og viðteknum venjum í samskiptum ríkja. Við þessar aðstæður er brýnna en nokkru sinni fyrr að leita friðsamlegra lausna og standa við og styrkja enn frekar alþjóðlega afvopnunarsáttmála. Samtök hernaðarandstæðinga vara sérstaklega við öllum hugmyndum um að nýta átökin í Úkraínu sem réttlætingu fyrir auknum hernaðarumsvifum annars staðar, svo sem á vegum Nató á norðurslóðum. Samtökin vara jafnframt við inngripum sem gætu aukið á spennuna og leitt til kjarnorkustríðs.

Febrúarmálsverður hernaðarandstæðinga

By Viðburður
Fjáröflunarmálsverður SHA er snúinn aftur nú þegar aðstæður leyfa. Miðnefndarmeðlimirnir Þorvaldur og Lóa sjá um matinn. Þorvaldur Þorvaldson mætir með sitt landsfræga og eldrauða lasagne og hjónabandsælu á eftir en Lowana Veal sér um grænkerana með ljúffengu grænmetis panang karrý með jarðhnetum.
Anna Ragna Fossberg les úr bókinni Hugfanginn og Júlía Margrét Einarsdóttir les úr bók sinni Guð leitar að Salóme en báðar komu út fyrir jólin.
2000 krónur fyrir matinn og öll velkomin.

Ávarp samstarfshóps friðarhreyfinga á Þorláksmessu

By Ályktun, Tilkynningar

Frá árinu 1980 hafa andstæðingar stríðs og vígbúnaðar efnt til friðargöngu á Þorláksmessu. Þar hefur verið gengið niður Laugaveginn í Reykjavík, sem og á öðrum stöðum á landinu, með kórsöng og loga lifandi ljósa til að minna á kröfuna um heim án ofbeldis, kúgunar og átaka. Friðargangan hefur orðið nær ómissandi þáttur í jólahaldi fjölda fólks og áminning um mikilvægi æðri gilda og hugsjóna á tímum sem oft eru undirlagðir af streitu og neysluhyggju.
Það er því afar sárt að annað árið í röð neyðist samstarfshópur friðarhreyfinga til að fella niður friðargöngu á Þorláksmessu. Ástæðan er þó öllum kunn, samkomutakmarkanir vegna Covid-heimsfaraldursins.

Faraldur þessi, sem fangað hefur svo stóran hluta af athygli heimsbyggðarinnar undanfarin misseri, er prýðileg áminning um að þrátt fyrir allt erum við Jarðarbúar öll á sama báti. Örlög okkar eru samofin óháð efnahag eða hernaðarmætti. Þær svimandi fjárhæðir sem dælt er í vígbúnað og rekstur herja koma að engu gagni andspænis hinum raunverulegu ógnum sem að mannkyni steðja eins og loftslagsvánni eða farsóttum. Lausn slíkra vandamála verður ekki fundin með valdbeitingu heldur einvörðungu með sameiginlegu átaki okkar allra og með því að tryggja raunverulegt samfélagslegt réttlæti. Vígbúnaður elur hinsvegar á gagnkvæmri tortryggni og er í sjálfu sér ógn við mannkyn.

Umhverfisváin og heilbrigðisógnin ættu einnig að vekja okkur til vitundar um þá skelfilegu sóun sem hernaðarvélum heimsins fylgja. Á hverri mínútu er svimandi fjárhæðum varið úr sameiginlegum sjóðum til að hlaða undir þau öfl sem hagnast á hermennsku og vígvæðingu. Þær upphæðir sem varið er til að takast á við mörg brýnustu samfélagslegu verkefni samtímans blikna við hliðina á þeim tölum sem stríðsmangarar veraldar hafa úr að spila. Erfitt er að gera sér í hugarlund þær framfarir sem tryggja mætti með því að beina hernaðarútgjöldum heimsins til annarra og nytsamlegri verkefna.

Sturlaðasta dæmið um hergagnahítina er rekstur kjarnorkuvopnabúra stórveldanna. Nú þegar búa þau yfir mætti til að tortíma öllu lífi á hnettinum nokkrum sinnum, en áfram er haldið í þróun og framleiðslu. Þótt kjarnorkuógnin kunni að virðast fjarlægari nú en á tímum kalda stríðsins er hættan síst minni og ekki þyrfti annað en fljótfærnisákvörðun eða bilun í tæki til að ógna tilvist mannkyns eins og við þekkjum hana í dag.

Íslenskir friðarsinnar hafa um langt skeið kallað eftir því að stjórnvöld skipi Íslandi í hóp þeirra ríkja sem styðja sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Sá samningur er raunhæfasta leiðin til uppræta þessi skelfilegu vopn á sama hátt og fyrri afvopnunarsáttmálar hafa gert framleiðslu og notkun á jarðsprengjum, sýkla- og efnavopnum siðferðislega óverjandi.

Í ár gafst friðarsinnum ekki færi á að ganga á Þorláksmessu til að minna á kröfur sínar um friðsæla framtíð, án styrjalda og vopnakapphlaups. Vonandi verður dagurinn í dag þó tilefni til að sem allra flestir íhugi málstað friðarhreyfingarinnar og sýni stuðning sinn með hverjum þeim hætti sem verða vill.

Gleðileg jól og friðsælt komandi ár.

-Félag leikskólakennara
-Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
-Samhljómur menningarheima
-Samtök hernaðarandstæðinga
-SGI, mannúðar og friðarsamtök búddista

Friðargangan fellur niður í annað sinn

By Fréttir, Tilkynningar

Kæri hernaðarandstæðingur

Friðarganga á Þorláksmessu var fyrst haldin í Reykjavík árið 1980 og hélst sú hefð óslitin þar til í fyrra þegar ekki var hægt að halda göngu vegna samkomutakmarkanna. Því miður gefur staðan í faraldrinum ekki kost á að taka upp þráðinn að þessu sinni. Annað árið í röð mun friðargangan í Reykavík falla niður. Þó mun samstarfshópur friðarhreyfinga senda frá sér ávarp á Þorláksmessu.

Á Akureyri verður sömuleiðis ekki haldin nein ganga í ár.

Athugið að hætt var við gönguna á Ísafirði vegna nýrra samkomutakmarkanna.

Gleðilega friðarhátíð.

Bréf til þingheims

By Ályktun, Tilkynningar

Eftirfarandi bréf var sent á nýkjörna þingmenn í desember til að kynna okkar málstað:

Kæri þingmaður

Til hamingju með það verkefni sem þér hefur verið falið að sitja á Alþingi fyrir hönd þjóðarinnar. Miðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga óskar þér velfarnaðar í þessu hlutverki. Við viljum jafnframt nýta tækifærið til að vekja athygli þína á ýmsu því er snýr að friðar- og afvopnunarmálum.

Samtök hernaðarandstæðinga eru fjölmennustu baráttusamtök friðar- og afvopnunarsinna á Íslandi. Þau voru stofnuð árið 1972 en rekja sögu sína þó aftur til ársins 1960. Frá upphafi hefur megináhersla samtakanna verið barátta gegn hvers kyns vígvæðingu og hernaði. Sérstök áhersla hefur verið lögð á baráttuna gegn kjarnorkuvopnum, aðild Íslands að hernaðarbandalögum og hernaðarumsvifum hér á landi.

* Kjarnorkuvopn eru í dag ein mesta ógn sem að mannkyni stafar. Kjarnorkuveldin hafa brugðist þeirri skyldu sinni að stuðla að afvopnun en halda áfram að þróa ný og hættulegri vopn. Bandaríkin hafa t.d. stefnt að þróun „hagnýtra“ kjarnavopna til nota í hernaði. Þess vegna hafa 56 ríki staðfest Sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum og enn fleiri undirritað hann. Ekkert kjarnorkuveldanna eða aðildaríkja Nató hefur tekið það skref en við skorum á þig að beita þér fyrir aðild Íslands að þessum samningi. Þjóðaröryggisstefna Íslands kveður nú þegar á um að stefna skuli að því að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum og aðild að alþjóðlegum samningi er trúverðugasta leiðin til þess að framfylgja því.

* Ísland er aðili að hernaðarbandalaginu Nató, sem er fyrst og fremst tæki til að styðja við hagsmuni lykilríkja þess og þá einkum Bandaríkjanna. Allt tal um lýðræðislegt eðli bandalagsins er innantómt með tilliti til þess valds sem þau ríki hafa yfir bandalaginu. Stríðsaðgerðir bandalagsins hafa  þvert á móti grafið undan friði og lýðræði í heiminum. Þá má nefna Tyrkland og fleiri aðildarríki Nató sem varla geta talist lýðræðisríki. Við skorum á þig að vinna að úrsögn Íslands úr Nató.

* Milli Íslands og Bandaríkjanna er í gildi svokallaður Varnarsamningur, sem felur í sér víðtækar heimildir Bandaríkjastjórnar til að koma sér upp hernaðaraðstöðu á Íslandi. Nýlegar bókanir við samninginn hafa heimilað aukin umsvif og framkvæmdir Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Þetta gengur þvert gegn yfirlýstri stefnu Íslands um friðsamlega nýtingu Norðurslóða með því að draga Ísland inn í harðnandi hernaðarkapphlaup Rússlands og Nató á svæðinu. Það er okkar mat að rétt sé að segja samningnum upp nú þegar og leggja grunn að sjálfstæðri utanríkisstefnu. Við skorum á þig að leggja þeirri uppsögn lið og standa gegn öllum áformum um aukna viðveru erlendra herja hér á landi.

* Nokkrum sinnum á ári er hér á landi skipulagt æfingaflug orrustuflugmanna Nató-ríkja í æfingum sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla. Hér er einungis um að ræða niðurgreiddar heræfingar sem eru engum til gagns en mörgum til ama. Nýjasta dæmið er æfingarflug B-2 sprengjuþota Bandaríkjahers sem gegna augljóslega engu varnarhlutverki fyrir Ísland. Umhverfisáhrif þessa æfingaflugs eru líka umtalsverð og ganga gegn markmiðum Ísland í loftslagsmálum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að flugæfingum þessum verði hætt hið snarasta.

* Á síðustu árum hafa blóðugar styrjaldir átt sér stað í Miðausturlöndum með óheyrilegu mannfalli og hruni samfélaga. Í þeim eiga vestræn ríki stóran hlut að máli sem stríðsaðilar eða bakhjarlar og vopnasalar. Brottför Bandaríkjanna og Nató frá Afganistan síðasta sumar og valdataka Talibana eftir 20 ára stríð sýnir hversu vonlaust er að koma á lýðræði og styðja mannréttindi með stríðsaðgerðum. Við skorum á þig að beita þér fyrir því að stórveldin láti af íhlutunarstefnu sinni og að böndum verði komið á alþjóðlega vopnasölu.

* Síðustu ár hefur fleira fólk þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka en nokkru sinni frá lokum heimsstyrjaldarinnar. Nató-ríki bera þar þunga ábyrgð, svo sem í Afganistan og Sýrlandi en hafa með örfáum undantekningum ekki tekið við flóttamönnum í samræmi við það. Við skorum á þig að berjast fyrir því að Ísland styðji flóttamannahjálp, þar á meðal með því að taka við mun fleira fólki.

* Styrjaldir og átök í heiminum eiga sér undantekningarlítið efnahagslegar rætur. Friður á traustum grunni verður aldrei tryggður nema með félagslegu réttlæti í heiminum. Við skorum á þig að vinna í störfum þínum gegn kúgun, arðráni og ofbeldi í hvaða mynd sem er.

Guttormur Þorsteinsson,

fomaður Samtaka hernaðarandstæðinga
8. desember 2021

Hætt við fullveldisfögnuð SHA

By Tilkynningar, Viðburður
Líklega kemur það fáum á óvart, en vegna samkomutakmarkanna er útilokað að halda fjölmenna mannfögnuði í Friðarhúsi þessar vikurnar. Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss, hinn árvissi fullveldisfögnuður sem hefði átt að halda föstudaginn 26. nóvember , getur því ekki farið fram að þessu sinni. Þó verður leitað leiða til að blása til samkomu um leið og ytri aðstæður leyfa.